• Lykilorð:
  • Ölvunarakstur

 Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðviku daginn 10. október 2018 í máli nr. S-19/2018:

 Ákæruvaldið

 (Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

 (Jón Jónsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 5. apríl 2018, á hendur A, kennitala […], […], […]:

            „fyrir brot gegn hegningar- og umferðarlögum, með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. júlí 2017 ekið bifreiðinni […] undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 2,04‰), vestur Norðfjarðarveg á Reyðarfirði, skammt austan við álver Alcoa, þar sem hann missti stjórn á bifreiðinni og ók yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út af veginum til vinstri, rétt áður en hann mætti bifreiðinni […], sem kom úr gagnstæðri átt og náði þannig að forða árekstri milli bifreiðanna. Með akstrinum raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði lífi og heilsu ökumanns og farþega bifreiðarinnar […] á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

            Ákærði heldur uppi vörnum. Dómkröfur skipaðs verjanda ákærða, Jóns Jónssonar lögmanns, eru þær að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins vegna brots á almennum hegningarlögum og að allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t. málvarnarlaun hans, falli á ríkissjóð.

 

I.

1.         Samkvæmt frumskýrslu B lögreglumanns barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning sunnudaginn 1. júlí 2017, kl. 7:06, um umferðaróhapp og ætlaðan ölvunarakstur „skammt … við Álverið í Reyðarfirði.“ Er lögreglumaðurinn kom á vettvang hitti hún strax fyrir ákærða, A, en í skýrslunni segir frá því að hann hafi þá verið reikull í spori, í annarlegu ástandi og að áfengisfnykur hafi verið frá vitum hans. Greint er frá því að ákærði hafi strax á vettvangi haft orð á því að hann hefði verið ökumaður fólksbifreiðarinnar […]. Í skýrslunni segir einnig frá því að á vettvangi hafi verið vitnin C, ökumaður jepplingsins […], og D, ökumaður bifreiðarinnar […].

            Í nefndri skýrslu og öðrum gögnum, þ. á m. ljósmyndum af skriðförum, kemur fram að bifreið ákærða, […], hafi verið ekið vestur Norðfjarðarveg, en síðan farið út af akbrautinni og eftir það farið um 48 m vegalengd til vesturs uns hún staðnæmdist í grasgefnum móum, neðan og sunnan akbrautarinnar, um 19 m frá vegkantinum. Ekki er sérstaklega vikið nánar að akstursskilyrðum í skýrslunni.

            Greint er frá því að nefndir ökumenn bifreiðanna […] og […] hafi er atvik gerðust verið á leið austur nefnda akbraut og þá til Eskifjarðar, en við komu lögreglu hafi ökutæki þeirra verið kyrrstæð í vegarkantinum á móts við þann stað sem bifreiðin […] hafði staðnæmst, neðan vegar. Í skýrslunni er rakin frásögn ökumannanna að nokkru, en tekið er fram að vitnið C hafi verið í uppnámi á vettvangi. Fram kemur að tveggja ára sonur nefnds vitnis hafi verið farþegi í bifreiðinni […].

            Í rannsóknargögnum segir frá því að eftir fyrstu vettvangsathugun lögreglu hafi ákærði verið handtekinn, grunaður um ölvunarakstur, og færður á lögreglustöð. Ástandi hans er nánar lýst þannig: Sjáanleg og áberandi ölvun.

            Vegna rannsóknarhagsmuna var læknir kallaður til, en hann tók blóðsýni úr ákærða, kl. 8:33 og kl. 9:33. Þá gaf ákærði þvagsýni kl. 8:22.

            Samkvæmt skýrslu, sem tekin var af ákærða, kl. 8:57, játaði hann að hafa verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar […] í greint sinn. Jafnframt er haft eftir ákærða að hann hefði hafið akstur um 10-15 mínútum fyrir útafaksturinn frá þáverandi heimili sínu á […], en hann hafi ætlað að aka að álveri Alcoa í Reyðarfirði. Fram kemur að ákærða hafi að lokinni skýrslutökunni verið sleppt úr haldi lögreglu.

 

2.         Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, dagsettri 6. júlí 2017, reyndist alkóhól í hinu fyrrnefnda blóðsýni ákærða 2,04‰, en í því síðara 1,81‰. Í þvagsýni ákærða mældist 2,81‰.

            Við áframhaldandi rannsókn lögreglu var tekin símaskýrsla af fyrrnefndu vitni og ökumanni bifreiðarinnar […], C, þann 12. júlí 2017. Ákærði var á hinn bóginn ekki yfirheyrður frekar við rannsókn málsins og heldur ekki önnur vitni.

 

3.         Ákærða var birt ákæruskjal máls þessa þann 11. apríl sl., en hann lýsti afstöðu sinni til sakargifta á dómþingi 25. sama mánaðar, að viðstöddum skipuðum verjanda sínum. Ákærði játaði skýlaust sakargiftir að því er varðaði brot gegn umferðarlögum, þ.e. að hafa ekið bifreiðinni […], líkt og lýst er í ákæru, undir áhrifum áfengis, og véfengdi hann m.a. ekki niðurstöður alkóhólrannsóknar í blóðsýni. Þá viðurkenndi ákærði að hafa misst stjórn á akstri bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hann ók yfir á öfugan vegarhelming og jafnframt að bifreiðin hefði farið út af akveginum til vinstri, rétt áður en hann mætti bifreiðinni […], sem kom úr gagnstæðri átt, en þá þannig að hann hafi náð að koma í veg fyrir árekstur milli bifreiðanna.

            Við nefnda fyrirtöku í dómi neitaði ákærði því sakarefni sem lýst er í niðurlagi verknaðarlýsingar ákæru, þ.e. að hann hafi í umrætt sinn raskað umferðaröryggi á alfaraleið og að hann hafi stofnað lífi ökumanns og farþega bifreiðarinnar […] á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska.

            Skipaður verjandi lagði fram greinargerð í þinghaldi þann 30. maí sl.

 

II.

            Skýrslur fyrir dómi.

            Ákærði, A, áréttaði við aðalmeðferð málsins fyrri frásögn og afstöðu til sakargifta. Ákærði nýtt sér að öðru leyti rétt sinn og til að tjá sig ekki frekar um sakarefni málsins.

 

            Vitnið C, sem fædd er árið […], kvaðst hafa verið á heimili sínu umræddan morgun með ungum syni sínum, en sökum óróa hans og svefnörðugleika hafi hún afráðið að fara í stutta ökuferð með drenginn í bifreiðinni […]. Vitnið kvaðst hafa ekið sem leið lá frá heimili sínu í […] austur Norðfjarðarveg, en er hún hafi verið komin skammt austur fyrir álver Alcoa, og verið á um 80-90 km hraða, hafi hún veitt því eftirtekt að bifreið, sem síðar reyndist vera […], kom á móti bifreið hennar á mikilli ferð. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um ökuhraða […] í greint sinn, en kvaðst hafa ályktað, þegar það sá bifreiðina aka um beygjur, að hann væri greinilega langt yfir 90 km hámarkshraða. Vitnið lýsti nánar akstri bifreiðarinnar þannig: „Hann kemur þarna í lofköstum þarna bílinn.“ Vitnið kvaðst hafa ætlað á greindri stundu að ökumaður bifreiðarinnar […] hefði verið að hraða sér til vinnu eða að hann hefði sofnað undir stýri. Vitnið bar að þetta hefði verið fyrsta bifreiðin sem það varð vart við á nefndri akstursleið, fyrir utan bifreið sem það hafði séð að ók á eftir bifreið þess í greint sinn.

            Vitnið lýsti atburðarásinni nánar á þá leið að það hefði veitt því eftirtekt að bifreiðin […] byrjaði að sveigja á milli vegarhelminga og sagði: „... ég var náttúrulega mjög hrædd, hann kemur beint á móti mér og hann fór nokkrum sinnum á milli, … ók ýmist á hægri eða vinstri vegahelming miðað við akstursstefnu, tvisvar eða þrisvar.“ Kvaðst vitnið vegna þessa aksturmáta m.a. hafa hugleitt að aka eigin bifreið út fyrir akbrautina til þess að forðast árekstur, en auk þess kvaðst það hafa dregið úr ökuhraðanum. Vitnið lýsti framhaldinu á þann veg að bifreiðin […] hefði undir lokin verið: „svolítið lengi á mínum vegahelmingi, þangað til bara rétt áður en við mætust, þá sé ég alveg að hann beygir bara, greinilega beygir bara út af, af því ég sá alveg að hann var að reyna að halda sér inn á veginum, það var alveg augljóst.“ Um það sem næst gerðist sagði vitnið:  „Það var augljóst og mér fannst það strax að sá sem var að keyra bílinn hafði greinilega tekið ákvörðun um það að keyra út af – og sennilega skynjað það sama og ég; það var bara núna eða ekki sem þyrfti að gera eitthvað …“ Vitnið bar að undir það síðasta hefði mjög verið dregið úr ökuhraða bifreiðarinnar […], en sagði jafnframt nánar þar um og um viðbrögð ákærða: „... alveg pottþétt vegna þess að hann hafði farið svo rólega út af, sko. Ég sá allan tímann að hann var að reyna að ná stjórn á bílnum sínum, …. hann var ekkert viljandi að reyna að keyra á mig … og hann tók svo greinilega ákvörðun að hætta að reyna að halda bílnum þarna í vegkantinum ... og ég sá það alveg, hann keyrði bara út af væntanlega vegna þess að það var ekkert annað að gera, hann komst ekki aftur yfir á sinn vegarhelming, hann hékk þarna í vegbrúninni eða vegkantinum eða svona … það voru kannski nokkrir metrar á milli bílanna þá. … allavegna það lítið að það er kannski sekúnta sem líður þangað til að ég er farin fram hjá staðnum þar sem að hann fer út af, en ég var nánast orðin stopp, eða búinn að hægja alveg niður, á um 20 og var þannig reiðubúin að bregðast við hinu óvænta …“

            Eftir á að hyggja kvaðst vitnið hafa ætlað að um 5 m hafi verið á milli bifreiðanna þegar styst var, en sagði: „… ég veit það ekki, eitthvað svoleiðis, það var allavegna mjög lítið.“

            Vitnið sagði að öll atburðarásin, þ.e. frá því að það sá fyrst til bifreiðarinnar […] og þar til henni var ekið út af akbrautinni fyrir framan bifreið þess, hefði gerst á skömmum tíma, og því hefði í raun ekki verið um marga kílómetra að ræða. Vitnið kvaðst eftir útafakstur […] hafa snúið eigin bifreið við á akbrautinni og ekið til vesturs og stöðvað á móts við þann stað sem bifreið ákærða hafði staðnæmst utan vegar. Vitnið bar að ökumaður bifreiðarinnar […] hefði viðhaft sömu viðbrögð.

            Fyrir dómi lýsti vitnið aðstæðum nánar, m.a. með hliðsjón af ljósmyndum lögreglu af vettvangi. Vitnið kvaðst m.a. hafa veitt því eftirtekt, er ákærði kom út úr bifreiðinni […], að hann var greinilega ölvaður. Vitnið kvaðst ekki hafa haft afskipti af ákærða, en í þess stað beðið í eigin bifreið eftir komu lögreglu og bar að á þeim tíma hefði verið lítil umferð um akbrautina.

            Fyrir dómi kvaðst vitnið hafa orðið fyrir andlegu áfalli vegna lýsts atburðar og stafðhæfði jafnframt að það hefði í raun ekki enn jafnað sig á því sem gerðist.

 

            Vitnið D, fæddur árið […], kvaðst hafa verið að koma úr vinnu á Reyðarfirði umræddan morgun og verið á leið í eigin bifreið til síns heima á […]. Vitnið kvaðst hafa ekið nokkur hundruð metrum á eftir bifreið vitnisins C þegar atvik máls gerðust, sem það lýsti þannig: „... þegar ég sé að það er að koma bíll niður Hólmahálsinn Reyðarfjarðarmegin á tölvert mikilli ferð, það leyndi sér ekki yfir lögmætum hámarkshraða, en erftitt að segja til um það … ég sé að þessi bíll fer allt í einu að … svinga á milli vegarhelminga og það leyndi sér ekki að það stefndi þarna í eitthvað óefni. … það er bara sving, út á öfugan vegarhelming og inn á aftur og svo bara út í móa … bíllinn flýgur fram af veginum rétt fyrir framan, eða ég átta mig ekki alveg á, en hann er fyrir framan bílinn sem var á undan mér. Ég átta mig ekki alveg hvað hann var langt frá því að ég var þarna tölvert fyrir aftan.“ Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að áður en bifreiðin […] fór út af akbrautinni hafði ökumaður […] dregið mjög úr ökuhraðanum, en þar um vísaði það til hemlaljósa, og ætlaði að bifreiðin hefði í raun verið kyrrstæð.

            Vitnið sagði að öll ofangreind atburðarás hefði verið hröð og lét þá skoðun í ljós að hætta hefði verið á ferðum vegna aksturslags ökumanns bifreiðarinnar […] og að allar aðstæður hefðu verið tvísýnar. Vísaði vitnið til þess að ef ökumaður bifreiðarinnar […] hefði ekki dregið úr ökuhraða bifreiðar sinnar og stöðvað aksturinn hefði að líkindum orðið árekstur. Vitnið tók fram að það hefði einnig stöðvað akstur eigin bifreiðar, um 200-400 metrum frá vettvangi, enda óttast, þegar atburður þessi gerðist, að ef ökumaður bifreiðarinnar […] kæmist framhjá bifreiðinni […] hefði komið upp sama árekstrarhættan gagnvart bifreið þess.

            Vitnið sagði að þegar allt hefði verið um garð gengið hefði það farið að bifreiðinni […] og þá hitt fyrir vitnið C og son hennar og sagði: ,,Hún var alveg í sjokki og ég var nú sjálfur í hálgerðu sjokki.“

            Vitnið greindi frá því að er atvik gerðust hefði verið bjartviðri og sagði að engin umferð hefði verið um akbrautina eftir óhappið og þá ekki fyrr en eftir að lögreglan var komin á vettvang. Vitnið kvaðst þekkja vel til aðstæðna og staðhæfði að um mjög fjölfarna akbraut væri að ræða, enda fjölmennur vinnustaður í grenndinni.

 

            Lögreglumaðurinn B staðfesti rannsóknarskýrslur lögreglu fyrir dómi.       

 

III.

            Í máli þessu er ákærða m.a. gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni […] undir áhrifum áfengis að morgni 2. júlí 2017 um Norðfjarðarveg eins og nánar er lýst í ákæruskjali, og með því brotið gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaganna.

            Við alla meðferð málsins hefur ákærði skýlaust játað sakargiftir að þessu leyti.

Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu og vætti vitna. Telst því nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um ölvunarakstur og eru brot hans að því leyti réttilega heimfærð til lagaákvæða í ákæruskjali.

 

            Ákærða er einnig gefið að sök að hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa við nefndan akstur misst stjórn á bifreiðinni, að hafa ekið yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út af veginum til vinstri, rétt áður en hann mætti bifreiðinni […], sem kom úr gagnstæðri átt, en að hann hafi þannig náð að koma í veg fyrir árekstur milli bifreiðanna. Í ákæru er ákærði sakaður um að hafa með þessum akstri raskað umferðaröryggi á alfaraleið og að hafa stofnaði lífi og heilsu ökumanns og farþega bifreiðarinnar […] á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska. Um heimfærslu er vísað til 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. hegningarlaganna.

            Fyrir dómi hefur ákærði í raun ekki vefengt verknaðarlýsingu ákæru, en á hinn bóginn hefur hann neitað refsiverðri sök að því er varðar brot á tilgreindum brotum gegn hegningarlögum. Í vörn sinni vísar ákærði helst til þess að ákæruvaldið hafi ekki sannað að ásetningur hans hafi í greint sinn staðið til þess að stofna lífi og heilsu fólks í augljósan háska. Þá vísar ákærði til þess að verknaðarlýsingin í ákæru sé eftir atvikum óskýr og áréttar m.a. að bifreiðarnar hafi aldrei mæst á akbrautinni í greint sinn. Hann byggir og á því að skilyrði nefndra lagaákvæða séu ekki uppfyllt og þá um að umferðaröryggi hafi verið raskað eða að almannahætta hafi verið til staðar í greint sinn, en í öllu falli sé það ósannað. Af hálfu ákærða er og áréttað, að eftir að hann missti stjórn á bifreiðinni hefði hann þó náð að stýra henni út af akbrautinni. Loks bendir ákærði á að ökuhraði bifreiðar hans sé ekki á meðal sakaratriða.

 

            Samkvæmt 1. mgr. 168. gr. hegningarlaganna skal maður sem raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja, eða umferðaröryggi á alfaraleiðum, án þess að verknaður hans varði við 165. gr. sömu laga, sæta fangelsi allt að sex árum.

            Samkvæmt 4. mgr. 220. gr. hegningarlaganna skal sá sæta fangelsi allt að fjórum árum sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.

 

            Eins og áður er fram komið kaus ákærði að tjá sig ekki sérstaklega við aðalmeðferð málsins fyrir dómi um málsatvik, en við flutning málsins var af hans hálfu og þar um helst vísað til rannsóknargagna lögreglu og áðurrakinna vitnisburða.

 

            Í máli þessu liggur fyrir að ákærði var er atvik gerðust alls óhæfur til að stjórna ökutæki sökum ölvunarástands.

            Vitnið C hefur lýst málsatvikum í greint sinn og þ. á m. þeim viðbrögðum sem það taldi sig þurfa að grípa til vegna aksturslags ákærða, og þá ekki síst eftir að hann hafði misst stjórn á ökutækinu […] og ók á öfugum vegarhelmingi á móti bifreið hennar. Vitnið hefur jafnframt borið að ákærði hafi náð að draga úr ökuhraða bifreiðarinnar […] skömmu áður en hann stýrði henni út fyrir akbrautina, en það hafi verið andartaki áður en bifreiðarnar mættust. Að áliti dómsins er frásögn vitnisins skýr og trúverðug að þessu leyti, en einnig um að veruleg hætta hafi verið á ferðum og að það hafi talið nauðsyn á að draga verulega úr ökuhraða eigin bifreiðar og þá til að forðast árekstur. Vitnið hefur einnig lýst hugarástandi sínu, en fyrir liggur að hún var með ungt barn sitt í bifreiðinni. Vitnisburður […], sem fylgdist með atburðarásinni og er gjörkunnugur aðstæðum, er að áliti dómsins skilmerkilegur og í öllum aðalatriðum í samræmi við frásögn vitnisins C.

            Verður að ofangreindu virtu fallist á með ákæruvaldinu að leggja beri frásögn nefndra vitna til grundvallar við úrlausn málsins. Það er og álit dómsins að ákærða hafi ekki getað dulist miðað við aðstæður að háttsemi hans og aksturslag var til þess fallið að valda þeirri hættu og afleiðingum sem raun varð á.

            Að öllu ofangreindu virtu er að áliti dómsins ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu ökumanns bifreiðarinnar […] og farþega í augljósa hættu, þ.e. vitnisins C og sonar hennar. Verður þessi háttsemi ákærða talin varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

            Að áliti dómsins ber, við mat á því hvort ákærði hafi með greindum akstri einnig brotið gegn 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga, að horfa heildstætt á aðstæður allar þegar nefndur atburður átti sér stað og þá með hliðsjón af verknaðarlýsingu ákæru.

            Akstur ákærða á bifreiðinni […] var í greint sinn á alfaraleið. Með framburði nefndra vitna verður á hinn bóginn lagt til grundvallar að umferð annarra ökutækja, en áður hefur verið minnst á, hafi ekki verið um akbrautina í greint sinn. Og þegar atvik eru virt, þ. á m. frásögn vitna, einkum C, um ökuhraða ökutækja undir lok atburðarásar og áður greindar röksemdir ákærða við flutning máls, verður gegn neitun ákærða, sbr. og 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að áliti dómsins ekki talið að ákæruvaldið hafi fært fram lögfulla sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn nefndri lagagrein, 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn ákvæðinu.

 

IV.

            Ákærði, sem er fæddur […], hefur samkvæmt sakavottorði ríkissaksóknara ekki áður sætt refsingu.

            Ákærði hefur í máli þessu gerst sekur um ölvunarakstur og hættubrot, sbr. ákvæði 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu og í ljósi þess hversu alvarleg og vítaverð háttsemi ákærða var í raun, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, þykir refsing hans, með hliðsjón af 77. gr. sömu laga, hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi og 250.000 króna sekt til ríkissjóðs.

            Eftir atvikum, og m.a. með hliðsjón af 4. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, þykir fært að fresta fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja skal sextán daga fangelsi koma í hennar stað.

            Í samræmi við kröfur ákæruvalds, tilgreind lagaákvæði umferðarlaga og ofangreinda niðurstöðu dómsins ber að svipta ákærða ökurétti og þykir sviptingin hæfilega ákveðin tvö ár og sex mánuðir frá birtingu dómsins að telja.

            Með vísan til málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða útlagðan sakarkostnað ákæruvalds vegna ölvunaraksturs hans, 64.494 krónur. Annar sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Jónssonar lögmanns, fyrir dómi, en einnig vegna starfa hans við rannsókn málsins hjá lögreglu, þykir með hliðsjón af tímaskýrslu hæfilega ákveðinn 274.049 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal ákærði greiða hann að 2/3 hlutum, en 1/3 hluti skal greiðast úr ríkissjóði.

 

            Með málið fór fyrir ákæruvaldið Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, A, sæti 45 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði 250.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi sextán daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.       Ákærði greiði 247.186 krónur í sakarkostnað og eru þar með taldir 2/3 hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Jóns Jónssonar lögmanns, sem í heild ákvarðast 274.049 krónur, en 1/3 hluti launanna, 91.346 krónur, greiðist úr ríkissjóði.