• Lykilorð:
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 29. maí í máli nr. S-39/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

Ferdinand Bergsteinssyni

(Jón Jónsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 6. október 2017, á hendur Ferdinand Bergsteinssyni, kennitala […], […], […]:

            „fyrir umferðarlagabrot í Fjarðabyggð, með því að hafa mánudaginn 23. janúar 2017, undir áhrifum áfengis, ekið bifreiðinni […], í þéttbýlinu á …, um […] og beygt til hægri inn í […], þar sem hann ók utan í kyrrstæða bifreið sem stóð við hús nr. … og þaðan áfram að heimili sínu, þar sem hann lagði bifreiðinni í bílastæði við húsið. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,6 ‰.

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

            Ákærði neitar sök.

            Skipaður verjandi, Jón Jónsson lögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandinn krefst þess jafnframt að allur sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans.

 

I.

1          Samkvæmt frumskýrslu A lögreglumanns barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning frá Fjarskiptamiðstöðinni mánudaginn 23. janúar 2017, kl. 16:08, þess efnis að jeppabifreið hefði ekið á kyrrstæða bifreið á móts við húseignina […] 4 á ……, en að ökumaður jeppans hefði síðan lagt í bifreiðastæði við hús nr. … við sömu götu.

            Í frumskýrslunni, sem dagsett er 13. júní nefnt ár, segir frá því að lögreglumaðurinn hafi er atvik gerðust verið í lögreglubifreið á ….vegi, tiltölulega skammt frá, og að hann hafi ekið sem leið lá á vettvang og hitt þar fyrir vitnin B og C, eiganda bifreiðar sem ekið hafði verið á. Fram kemur að A hafi greint frá því að ökumaður jeppabifreiðarinnar hefði eftir áreksturinn farið inn í húseignina […] , og að þar hefði lögreglumaðurinn séð til ákærða, Ferdinands Bergsteinssonar, innan dyra, þar sem hann hafi setið í stól. Greint er frá því að ákærði hafi komið til dyra eftir að lögreglumaðurinn gerði vart við sig, en um ástand ákærða segir í skýrslunni: „Hann var áberandi valtur á fótunum auk þess sem hann var þvoglumæltur. … var áberandi ölvaður og átti erfitt með gang og var óstöðugur.“ Greint er frá því að ákærði hafi fylgt lögreglumanninum í lögreglubifreiðina og að þar hafi hann blásið í svokallaðan S-D2 mæli, kl. 16:24, sem hafi sýnt 2,00‰. Staðhæft er að ákærði hafi í fyrstu ekki kannast við að hafa neytt áfengis fyrir akstur, en leiðrétt það með þeim orðum að hann hefði drukkið einn bjór.

            Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að ákærði hafi verið handtekinn á heimili sínu og í framhaldi af því hafi hann verið færður á lögreglustöð, þar sem honum hafi verið gert að gefa þvagsýni, en það hafi misfarist með öllu þar sem ákærði hafi ekki hitt mæliglasið. Greint er frá því að lögreglumaðurinn D frá […] hafi verið kallaður til aðstoðar, en að auki hafi verið kvaddur til læknir, sem tekið hafi tvö blóðsýni úr ákærða, kl. 17:06 og 17:36.

            Samkvæmt gögnum var tekin svonefnd varðstjóraskýrsla af ákærða kl. 17:12, en hún var hljóðrituð, en einnig árituð af ákærða og vottuð af D lögreglumanni, og eru gögn þar um á meðal málsskjala. Í skýrslunni greinir ákærði frá því að hann hafi ekið jeppabifreiðinni […] frá heimili sínu við […] og um […] og þaðan að tiltekinni verslun. Að afloknu erindi í versluninni hafi hann ekið bifreiðinni aftur að heimili sínu, en þá ekið á kyrrstæða bifreið við […] . Aðspurður um áfengisneyslu fyrir aksturinn svaraði ákærði þannig: „Ég drakk einn bjór á milli 14 og 15.“ Og nánar aðspurður  ..  neitaði ákærði því að hafa neytt áfengis eftir umræddan akstur.

            Við áframhaldandi rannsókn máls þessa hafði nefndur lögreglumaður, A, símasamband við áðurnefnt vitni, B, þann 20. febrúar nefnt ár, og grennslaðist nánar fyrir um ætlaðan akstur ákærða í greint sinn. Er haft eftir vitninu að það hefði verið á gangi í nágrenni heimilis síns á […] er það hefði séð til ferða jeppabifreiðar þar sem henni hafi verið ekið upp […] en í framhaldi af því inn í […]. Er haft eftir vitninu að það hafi ekki séð hver var við stýrið, en séð að bifreiðin rásaði mjög og m.a. þannig að henni hefði verið ekið upp á gangstétt. Vegna þessa hafi vitnið talið ástæðu til að gera lögreglu viðvart símleiðis. Haft er eftir vitninu að á meðan á símtalinu stóð hefði það heyrt skell líkt því sem árekstur hefði orðið, og eftir að það kom í […] hefði það séð útidyrahurð húseignararinnar nr. … lokast, en þá jafnframt séð að umrædd bifreið var þar við húsið. Þá hefði vitnið séð ákomu á vinstra framhorni á stórri jeppabifreið.

            Á meðal rannsóknargagna lögreglu er loftmynd, sem sýnir m.a. akbrautir á …. Einnig er á meðal gagna ljósmynd, sem sýnir vettvang í […] og þ. á m. ákomur á stórri jeppabifreið og að bifreið ákærða er kyrrstæð við heimili hans. Greinilegt er einnig að akbrautin er ísilögð.

 

2.         Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram að ákærði hefði komið á lögreglustöð ásamt eiginkonu sinni, vitninu E, tveimur dögum eftir nefnd afskipti lögreglu. Óumdeilt er að þau áttu orðastað við lögreglumanninn A um sakarefni máls þessa, en ekki var gerð lögregluskýrsla um þessi samskipti.

 

3.         Með bréfi lögreglu, dagsettu 25. janúar 2017, var óskað eftir rannsókn á fyrrnefndum blóðsýnum ákærða hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Í vottorði rannsóknastofunnar, dagsettu 3. febrúar sama ár, segir að í fyrra blóðsýninu hafi alkóhólmagn, að teknu tilliti til vikmarka, mælst 1,78‰, en í því síðara 1,62‰.

 

4.         Samkvæmt gögnum bauð lögreglustjórinn á Austurlandi, þann 29. mars 2017, ákærða að ljúka máli þessu með sekt til ríkissjóðs og tímabundinni ökuréttarsviptingu.

            Með bréfi verjanda ákærða, dagsettu 27. apríl sama ár, var boði lögreglustjórans hafnað. Í nefndu bréfi eru starfsaðferðir lögreglu nokkuð gagnrýndar og m.a. vísað til þess að ekki væri vikið að því í gögnum að ákærði hefði lagt leið sína á lögreglustöð tveimur dögum eftir hið ætlað brot. Jafnframt er vísað til þess að ekki liggi fyrir þvagsýni úr ákærða, sem eftir atvikum hefði getað leitt í ljós hvort hann hafi verið ölvaður að nokkru marki við akstur bifreiðarinnar […] í greint sinn.

 

5.         Við áframhaldandi rannsókn lögreglu var ákærði yfirheyrður um kæruefnið af rannsóknarlögreglumanni, þann 22. júní 2017, að viðstöddum verjanda sínum. Síðar þann dag var og yfirheyrt um málsatvik vitnið C.

            Við nefnda yfirheyrslu skýrði ákærði frá því að umræddan dag hefði hann drukkið hálfan lítra af bjór af tiltekinni tegund á milli klukkan 14 og 15, en hann hefði þá verið einn á heimili sínu. Hann hafi farið af heimili sínu, en um nánari tímasetningu treysti hann sér ekki til að segja til um, að öðru leyti en því að hann hefði ekið á eigin bifreið, […], sem leið lá að tiltekinni verslun í bæjarfélaginu og keypt þar hákarl, en við svo búið ekið aftur áleiðis heim. Hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis er þetta gerðist eða „verið út úr skakkur.“ Á heimleiðinni hafi hann haft hákarlsdolluna í klofinu, en við gatnamót […] og […] misst frá sér einn bitann. Var það ætlan ákærða það gæti verið skýring þess að bifreið hans rásaði til líkt og vitnið B hafði borið um, en hann kvaðst ekki minnast þess að bifreiðin hefði vegna þessa farið upp á gangstéttina. Ákærði bar að fljúgandi hálka hefði verið á akbrautinni nærri heimili hans og sagði að við þessar aðstæður og í beygju á akbrautinni hefði bifreið hans snúist til á einu augabragði og hann þannig misst stjórnina, en við það hefði bifreið hans rekist í bifreið nágrannans, vitnisins C.

            Ákærði skýrði frá því að eftir að hafa gætt að verksummerkjum eftir áreksturinn hefði hann ekið að heimili sínu, um 20 m vegalengd, en haft í hyggju að ræða við nágrannann síðar, enda haft vitneskju um að hann væri ekki heima við þá stundina.

            Ákærði skýrði frá því að hann hefði verið miður sín vegna lýsts óhapps og af þeim sökum tekið til stóra áfengisflösku og drukkið af stút; „drukkið helling af whisky þegar hann kom heim … tekið flöskuna og teygað af henni.“ Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um hversu mikið hann drakk úr flöskunni, en staðhæfði að frásögn hans í varðstjóraskýrslu um að hann hefði ekki neytt áfengis eftir aksturinn hefði verið byggð á misskilningi. Útskýrði ákærði það svo að hann hefði skammast sín fyrir háttsemina. Ákærði ætlaði að um 15-20 mínútur hefðu liðið frá því að hann kom á heimili sitt þar til lögreglumaður hafði afskipti af honum.

            Ákærði kvaðst hafa rætt við nágranna sinn, vitnið C, og þá greint honum frá málavöxtum. Ákærði kannaðist ekki við að hafa við það tækifæri látið þau orð falla að hann hefði fyrir ákeyrsluna umræddan dag verið á þorrablóti og þá drukkið bjór. Staðhæfði ákærði að nefnd hátíð hefði verið haldin fáeinum dögum fyrir ákeyrsluna.

            Við lok nefndrar yfirheyrslu lögreglu vísaði ákærði til þess að hann hefði farið á lögreglustöðina ásamt eiginkonu sinni tveimur dögum eftir nefnt óhapp og þá leiðrétt fyrir A lögreglumanni fyrri frásögn sína, þ.e. að hann hefði ekki neytt áfengis eftir að hann kom heim eftir umrædda ákeyrslu. Um tilefni þessarar farar á lögreglustöðina og um leiðréttingu orða sinna sagði ákærði: „… að honum hafi liði ílla út af þessari lýgi sinni … það voru bara mistök og lýgi … og að hann skammaðist sín fyrir það.“

 

6.         Með bréfi lögreglu, dagsettu 23. júní 2017, var óskað eftir matsgerð fyrrnefndrar Rannsóknastofu Háskóla Íslands og þá um það hvort ákærði „hefði verið undir áhrifum áfengis við aksturinn kl. 16:08 og þá hversu miklum áhrifum“ og þá í ljósi rannsóknar á blóðsýnum, en að gefnum nánar tilgreindum forsendum.

            Í álitsgerð rannsóknastofunnar, sem dagsett er 5. júlí 2017 og undirrituð af tveimur deildarstjórum, segir um álitaefnið:

            Blóðsýni nr. 84385 og 84386 voru mæld í Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 25. janúar s.l. undir rannsóknanúmerinu 170282. Etanólstyrkur  mældist 1,93 ‰ í blóðsýni 84385 og 1,77 ‰ í blóðsýni 84386 (endanlegar niðurstöður 1,78 ‰ og 1,62 ‰). Sýni nr. 84385 var tekið kl. 17:06 og blóðsýni 84386 kl. 17:36. Óskað er eftir mati á því hvort meintur ökumaður hafi verið undir áhrifum áfengis, þegar tilkynnt var um akstur hans kl. 16:08. Ökumaðurinn segist hafa drukkið 500 ml af Víking bjór milli 14 og 15 en svo 3 – 4 sopa af sterku áfengi eftir að akstri lauk, þ.e. upp úr kl. 16:08.

            Þegar áfengis er neytt fer hið virka efni þess, etanól, gegnum slímhúð meltingarvegarins yfir í blóðrásina. Þetta er venjulega kallað frásog. Meðan þessu fer fram fer styrkur etanóls hækkandi í blóðinu. Þegar neyslu etanóls er hætt líður nokkur tími þar til allt það etanól, sem kann að vera í maga og þörmum hefur náð að frásogast. Venjulega er gert ráð fyrir að því ljúki á 1 – 2  klukkustundum (þættir sem hafa þar áhrif eru t.d. hvort drukkið er á fastandi maga, tegund og magn áfengis). Þá fer styrkur etanóls í blóði að falla. Hann fellur með nokkuð jöfnum hraða og er einstaklingsbundinn. Brotthvarfshraði etanóls úr blóði er yfirleitt 0,12 ‰ til 0,25 ‰ á klst.

            Niðurstöður úr etanólmælingunum sýna að etanólstyrkur hefur náð hámarki í blóði hlutaðeigandi ökumanns og verið farinn að falla um kl. 17:06. Það styður niðurstaða úr síðara blóðsýninu (84386). Út frá niðurstöðum má sjá að brotthvarfshraði úr blóði hans er 0,3 ‰ á klst. ((1,93‰ – 1,77‰)*60/30)). Blóðstyrkur hefur því verið 0,3 ‰ hærri um klukkustund fyrir sýnatöku eða 2,2 til 2,3 ‰ að því gefnu að lítil sem engin drykkja hafi átt sér stað eftir kl. 15. Hlutaðeigandi segist hafa drukkið 500 ml af Víking bjór (22 g hreint áfengi) milli 14 og 15. Ef litið er á brotthvarfshraðann úr blóði, hefur það áfengi varla mælst í blóðinu 2 til 3 klukkustundum síðar, þ.e. kl. 17:06. Einnig segist hann hafa drukkið 3 til 4 „sopa“ af sterku áfengi eftir að akstri lauk um kl. 16:08. „Sopi“ er ekki nákvæm stærð en ef reiknað er með 20 ml í hverjum sopa hefur hlutaðeigandi drukkið 60 til 80 ml af sterku áfengi (40 %) en það samsvarar um 20 til 25 g af etanóli. Eftir slíka drykkju gæti etanólstyrkur í 80 kg, 170 cm 66 ára karlmanni mælst 0,6 ‰ að hámarki. Samkvæmt brotthvarfshraða etanóls úr blóðinu skýrir sú drykkja ekki etanólstyrkinn í blóðinu kl. 17:06 og hefur meintur ökumaður drukkið talsvert áfengi fyrr þennan dag.  Eins og ofan greinir hefur ökumaðurinn verið ölvaður, þegar hann ók bifreiðinni kl.16:08.

 

            Vegna fyrirspurnar og beiðni fulltrúa lögreglustjórans á Austurlandi, hinn 29. september 2017, var af hálfu deildarstjóra rannsóknastofunnar gerð viðbótarmatsgerð varðandi niðurstöður úr etanólmælingum á nefndum blóðsýnum, nr. 84385 og 84386, og þá með þeirri forsendu að ökumaður hefði drukkið sterkt áfengi á tímabilinu frá kl. 16:08 til16:24. 

            Matsgerðin er sögð dagsett 8. september 2017, en þar segir um álitaefnið:

            Etanól dreifist jafnt um allan vatnsfasa líkamans. Samk. Ferner má reikna heildarvatnsmagn líkamans (TBW) í körlum út frá jöfnunni: TBW = 2,45 + (0,107·h) + (0.336 ·w) – (0.0952·a), þar sem h = hæð einstaklingsins í cm, w = þyngd í kg og a = aldur í árum. TBW reiknast í lítrum og er sú tala jafnframt dreifingarrúmmál etanóls. Samkv. þessu ætti dreifingarrúmmál viðkomandi ökumanns því að hafa verið: 2,45 + (0,107·170) + (0,336·80) – (0,0952·65) = 41,24 lítrar. Einstaklingsbundið frávik frá þessu getur verið allt að ± 13 % miðað við 99 % öryggismörk. Minnsta hugsanlega dreifingarrúmmál viðkomandi ökumanns ætti því að vera um 35,88 lítrar.  Heildarmagn etanóls í líkamanum (A) má reikna út frá jöfnunni A = TBW c/0,8 þar sem A = magn etanóls í grömmum, c = þéttni etanóls í blóði í prómillum ( ‰ = g/l). Stuðullinn 0,8 leiðréttir fyrir vatnsinnihaldi blóðsins, sem er u.þ.b 80 %. Í þessu tilviki verður niðurstaðan 35,9 l ·1,93 g/l/0,8 = 86,6 g af hreinu etanóli. Þetta þýðir með öðrum orðum að í líkama viðkomandi ökumanns hafi verið 86,6 g af etanóli, þegar blóðsýnið var tekið kl. 17:06.  Þar sem hér er reiknað með lágmarks dreifingarrúmmáli er þetta jafnframt minnsta magn af etanóli, sem gæti leitt til þess að styrkur etanóls í blóði mælist 1,93 ‰ í 65 ára karlmanni, sem er 170 cm á hæð og 80 kg  að þyngd.

            Í 3–4 „sopum“(ca. 80 ml) af 40 % áfengi eru um 25 g af hreinu etanóli. Þótt viðkomandi ökumaður hafi drukkið þetta áfengi milli kl. 16:08 og 16:24 er útilokað að etanólstyrkur í blóði hans kl. 17:06 stafi eingöngu af þeirri drykkju. Miðað við neyslu á 80 ml á 40 % áfengi gæti etanólstyrkur í blóði viðkomandi ökumanns hafa náð að algjöru hámarki 0,56 ‰ ( 25 g = 35,9 * x ‰/0,8).

            Ef tekið er saman sem framan er talið og einnig frá fyrri matsgerð má reikna út eftirfarandi: Brotthvarfshraði etanóls úr blóðinu er 0,30 ‰/klst. Hlutaðeigandi segist hafa drukkið allt að 80 ml af 40 % áfengi eftir kl. 16:08. Það samsvarar um 25 g af hreinu etanóli. Eftir þá drykkju gæti mælst (samkvæmt Ferner) í 80 kg, 170 cm 65 ára karlmanni etanólstyrkur í blóði uppá 0,56 ‰ að algjöru hámarki. 1,3 – 1,4 ‰ kl. 17:06 stafa því af drykkju fyrir kl. 16:08. Ef reiknað er með brotthvarfshraðanu (0,30 ‰), hefur etanólstyrkur í blóðinu allavega verið 1,6 til 1,7 ‰ kl. 16:08 og ökumaðurinn því ölvaður, þegar hinn meinti ölvunarakstur átti sér stað.

 

II.

            Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

            Fyrir dómi neitaði ákærði sakarefni ákæru, en jafnframt neitaði hann að tjá sig um málsatvik. Í þess stað vísaði ákærði til áðurrakinnar framburðarskýrslu, sem hann hafði gefið hjá lögreglu. Ákærði staðfesti efni skýrslunnar, en sagði nánar um eigin áfengisneyslu er atvik gerðust, eftir að hann kom á heimili sitt eftir margnefnda verslunarferð: „… þegar ég kom heim þá tók ég þrjá eða fjóra eða hvað þeir voru margir whiskysopa, … bara stóra sopa … þetta er það eina sem ég hef um málið að segja.“

 

            Vitnið B kvaðst í greint sinn hafa verið fótgangandi með dóttur sína, en þær hafi verið að koma úr leikskóla, og á leið í heimsókn til vinafólks við […]. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að bifreið var ekið um akbraut […] og síðan inn á […]. Vitnið kvað ökuhraða bifreiðarinnar ekki hafa verið mikinn, en það kvaðst hafa veitt því eftirtekt er henni var beygt við mót nefndra gatna, að ökumaðurinn ók upp í eins konar fláa og þannig farið yfir kantsteininn, en síðan ekið aftur inn á akbrautina. Vitnið kvað sér hafa fundist aksturlagið undarlegt, en í framhaldi af því komið dóttur sinni fyrir hjá vinafólkinu, í næsta nágrenni. Vitnið kvaðst hafa afráðið að athuga nánar með afdrif umræddrar bifreiðar, en þá um leið reynt að hringja til lögreglu, en í fyrstu án árangurs. Vitnið kvaðst hafa verið á gangi upp […] er það heyrði hljóð, sem hefði verið líkt því sem bifreið hefði verið gefið vel inn, en um svipað leyti hefði það heyrt brothljóð. Nánast um sama leyti og þetta gerðist kvaðst vitnið hafa náð símasambandi við lögreglu og þá tilkynnt um nefnt aksturslag, en jafnframt haldið förinni áfram. Við gatnamót […] og […] kvaðst vitnið hafa séð til bifreiðar álíkri þeirri sem hún hafði áður séð aka fram hjá sér, en hún hefði þá verið kyrrstæð í bifreiðastæði við tiltekna húseign í […].  Jafnframt kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að útidyrahurð húseignarinnar var lokað.

            Vitnið kvaðst hafa brugðist við með lýstum hætti sökum þess hversu mörg börn eru í hverfinu og þau auk þess mörg verið á ferðinni á þessum tíma. Að ósk lögreglu kvaðst vitnið hafa beðið átekta, en þá jafnframt veitt því eftirtekt að ákomumerki voru á og við bifreið á öðru bifreiðastæði, en af þeim sökum kvaðst það hafa hringt í eigandann, vitnið C.  Vitnið bar að nefnt vitni hefði komið á vettvang skömmu síðar, en einnig lögreglumaðurinn A. Nefndi vitnið í því sambandi um tíu mínútur eða innan við það og bar að það hefði verið álíka tími sem það átti í samræðum við nefnda aðila eftir að þeir komu á vettvang. Vitnið kvaðst hafa yfirgefið vettvang og bar að það hefði því í raun aldrei séð vel til ökumanns umræddrar bifreiðar og þá ekki fylgst með aðgerðum lögreglumannsins á vettvangi.

 

            Fyrir dómi greindi lögreglumaðurinn A frá atvikum máls í öllum meginatriðum í samræmi við efni áðurrakinna lögregluskýrslna. Vitnið ætlaði að það hefði verið um þrjár til fimm mínútur að aka á vettvang eftir að því barst tilkynningin um ákeyrsluna og staðfesti að það hefði fljótlega hitt fyrir vitnið B, en einnig tjónþolann C og þá heyrt frásagnir þeirra um atvik máls. Þá kvaðst vitnið hafa hitt ákærða að máli um fimm til tíu mínútum eftir að það kom á vettvang og bar að það hefði mjög fljótlega látið hann blása í áfengismæli. Vísaði vitnið til þess að það hefði strax veitt því eftirtekt að ákærði var áberandi ölvaður og þvoglumæltur og þá þannig að það hefði þurft að styðja við hann á leið þeirra í lögreglubifreiðina. Vitnið lýsti aðgerðum og samskiptunum við ákærða að öðru leyti í samræmi við það sem hér að framan var rakið, þ. á m. varðandi frásögn ákærða um áfengisdrykkju. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði þannig haft á orði að hann hefði drukkið bjór fyrr um daginn og þá fyrir aksturinn, en aftur á móti hefði hann þverneitað því að hafa neytt annarra slíkra drykkja og þá eftir að akstri lauk og þá ekki drukkið whisky. Vitnið kvaðst er atvik gerðust í raun hafa litið svo á að öll atburðarásin lægi ljós fyrir.

            Vitnið skýrði frá því að tveimur til þremur dögum eftir umræddan atburð hefði ákærði, ásamt eiginkonu sinni E, hitt vitnið fyrir á lögreglustöðinni. Vitnið kvaðst hafa litið svo á að erindi þeirra hefði varðað það að afla upplýsinga um gang málsins, þ. á m. um afleiðingar háttseminnar og því litið svo á að um óformlegt samtal væri að ræða. Vitnið sagði að í þessum samræðum hefði eiginkona ákærða þó fullyrt að ákærði hefði drukkið áfengi eftir að akstrinum lauk í greint sinn. Vitnið kvaðst hafa svarað því til að þær upplýsingar hefðu ekki komið fram áður, þ.e. við hina formlegu skýrslutöku, að viðstöddum votti. Vitnið sagði að í kjölfarið hefði ákærði muldrað að hann hefði tekið einn sopa af whisky eftir að hann kom á heimili sitt og þá í þeim tilgangi að styrkja sig. Vitnið kvaðst þá hafa sagt að það hefði verið betra að hann hefði skýrt frá þessu atriði við fyrrgreinda yfirheyrslu, en bar að ákærði hefði þá sagt að það hefði hann ekki viljað gera, en án þess að gefa frekari skýringu á þeim orðum. Vitnið kvaðst helst hafa hugleitt að þessi uppákoma hefði verið tilraun til síðari tíma skýringa af hálfu ákærða. Vitnið sagði og að það hefði í raun verið eiginkona ákærða sem helst hefði haft orð fyrir þeim hjónum. Vitnið kvaðst ekki hafa talið ástæðu til að hafa frumkvæði að gerð sérstakrar skýrslu um greind samskipti, og bar að um það hefði heldur ekki verið beðið af hálfu ákærða eða eiginkonu hans. Vitnið kvaðst á hinn bóginn hafa heyrt ávæning af því allnokkru síðar, og þá frá yfirlögregluþjóni, að ákærði hefði lýst vilja sínum til þess að gefa aðra og formlega skýrslu um atvik máls. Vitnið kvaðst ekki hafa komið frekar að rannsókn málsins.

 

            Vitnið C kvaðst ekki hafa orðið vitni að akstri ákærða í greint sinn og aðeins veitt því eftirtekt þegar það hefði komið að heimili sínu að ekið hafði verið á bifreið þess og þá vegna ábendingar vitnisins B, sem þá hafi verið á vettvangi. Vitnið greindi frá því, að er atburður þessi gerðist hefði verið snjór á jörðu og örugglega hálka. Vitnið sagði að B hefði haft orð á því að hún hefði hringt eftir aðstoð lögreglu. Vitnið kvaðst síðar hafa rætt um málsatvik við ákærða og bar að hann hefði á síðari stigum bætt allt tjónið á bifreiðinni, líkt og hann hefði strax boðist til að gera, þ.e. samdægurs eða daginn eftir atburðinn. Vitnið sagði að ákærði hefði við það tilefni haft á orði að hann hefði verið á einhvers konar þorrablóti hjá vinum sínum. Vitnið kvaðst hafa skilið þessi orð ákærða á þann veg að hann hefði hitt einhverja félaga sína í hádeginu nefndan dag og að þeir hefðu þá borðað saman þorramat, en sagði: ,,... því mig minnir að það hafi verið um fjögur leytið sem að keyrt var á bílinn … og hann sagði við mig að hann hefði kannski fengið sér einn eða tvo bjóra, ekki meira. Ég man ekki hvort að hann hafi sagst hafa verið að koma beint af þorrablótinu eða verið að koma úr búðinni“ og að þar hefði hann keypt þorramat.

 

            Vitnið D lögreglumaður kvaðst hafa verið á vakt í […], en ekið til Eskifjarðar er lögreglumaðurinn A óskaði eftir aðstoð vegna frumrannsóknar þessa máls. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt skýrslugjöf ákærða, en einnig þegar blóðsýni var tekið úr honum. Vitnið kvaðst strax hafa séð að ákærði var undir áhrifum áfengis, en ekki metið það svo að hann hefði verið ofurölvi. Vitnið kvaðst minnast þess að ákærði hefði haft orð á því að hann hefði neytt bjórs skömmu áður en hann hóf akstur í greint sinn og bar að ákærði hefði í framhaldi af því, líkt og hefð væri fyrir í málum sem þessum, verið inntur eftir því hvort hann hefði einnig neytt áfengis eftir að akstrinum lauk. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði svarað spurningunni neitandi.

 

            Vitnið F rannsóknarlögreglumaður staðfesti gerð áðurrakinnar yfirheyrsluskýrslu ákærða frá 22. júní 2017, en einnig skýrslur sem það hafði tekið af vitnum.  Ekki þykir ástæða til að rekja framburð vitnisins frekar.

 

            Vitnið E, eiginkona ákærða, staðfesti að hún hefði fylgt ákærða á lögreglustöð tveimur dögum eftir að atvik máls gerðust og í framhaldi af því hafi þau átt fund með fyrrnefndum lögreglumanni, A. Vitnið sagði að við greint tækifæri hefði ákærði skýrt frá því að hann hefði greint rangt frá málsatvikum í varðstjóraskýrslu við upphafa rannsóknar málsins. Vitnið bar að ákærði hefði með þessum orðum viljað koma því á framfæri „að hann hefði drukkið vín eftir á.“ Vitnið sagði að eftir að ákærði hefði komið þessari leiðréttingu á framfæri hefðu þau hjónin átt almennt spjall við lögreglumanninn og kannaðist vitnið við að við það tækifæri hefði það m.a. borið fram þá fyrirspurn hvort unnt væri að reiða fram fjárgreiðslu og að með því móti væri málið úr sögunni. Vitnið skýrði frá því að það hefði í raun ekki þekkt til málsatvika enda hefði það farið af heimili þeirra hjóna fljótlega eftir hádegið umræddan dag. Vitnið staðhæfði að er þetta gerðist hefði ákærði verið á heimilinu og kannaðist það ekki við að hann hefði farið á þorrablót í hádeginu.

           

            Vitnið F, deildarstjóri á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti fyrir dómi efni áðurrakinna álits- og matsgerða, en leiðrétti misritun varðandi dagsetningu síðari matsgerðarinnar og bar að hún hefði átt að vera 2. október 2017. Vitnið útskýrði efni nefndra gagna enn frekar og þá m.a. hvað álykta mætti ef viðkomandi hefði drukkið þrjá til fjóra stóra sopa af sterku áfengi skömmu eftir að akstri lauk í greint sinn, á tímabilinu 16:08 og 16:24, að gefnum áðurgreindum forsendum. Vitnið bar að að því gefnu væri það algjört hámark að áfengið hefði mælst á milli 0,5 til 0,6‰ og staðhæfði jafnframt að það skýrði engan veginn það áfengismagn sem mælst hefði í viðkomandi aðila þegar blóðsýnið var tekið, kl. 17:06, umræddan dag. Vitnið staðhæfði, og þá m.a. að teknu tilliti til brotthvarfshraða og vikmarka til frádráttar, að örugglega mætti segja að viðkomandi aðili hefði verið með yfir 1,5 til 1,6‰ alkóhól í blóðinu þegar hann ók ökutækinu, og þá að teknu tilliti til þeirrar drykkju sem hann hefði viðhaft eftir aksturinn. Vitnið vísaði til þess að þessi niðurstaða væri í samræmi við önnur gögn, þ. á m. blástursmæli lögreglu og hina fyrri matsgerð rannsóknastofunnar, og þá í ljósi þess að blóðstyrkur hefði verið fallandi og að einhver tími hefði verið liðinn frá því að drykkjunni lauk. Um greint álitamál sagði vitnið nánar: „Þetta er það há niðurstaða, sem að mælist í hlutaðeigandi, að þetta næst engan veginn á innan við klukkustund, ef að drykkja hefur eingöngu átt sér stað eftir að akstri lýkur.“ Vitnið bar að forsendur og niðurstaða matsgerðanna hefði getað breyst ef magn hvers áfengissopa hefði verið meira og þá t.d. þannig að áfengismagnið hefði þá getað verið 1,1‰ til 1,2‰. Vitnið áréttaði á hinn bóginn að miðað við töku seinna blóðsýnis og í ljósi útreikninga á brotthvarfshraða myndi slíkt ekki standast, þ.e. að slíkur styrkur myndi yfirleitt nást á svo skömmum tíma, en að því gefnu hefði styrkurinn að lágmarki getað verið 1,1‰, en þá að gefnum hinum fyrri forsendum. Vitnið áréttaði að öðru leyti efni matsgerðanna, en sagði að ef þvagsýni hefði verið til staðar hefði það gefið fyllri mynd af drykkjumynstrinu.

 

            Vitnið H, sviðsstjóri Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti einnig efni nefndra álitsgerða fyrir dómi og þá einnig efni viðbótamatsgerðarinnar. Vætti vitnisins var sambærilegt og frásögn vitnisins G hér að framan, en það bætti við að hinn hái brotthvarfshraði gæti bent til þess að viðkomandi hefði myndað þol og jafnframt að hann hefði verið búinn að toppa þegar seinna blóðsýnið var tekið og því hefði verið til staðar verulegt brotthvarf. Að áliti vitnisins var það harla ólíklegt að viðkomandi hefði neytt áfengis eftir kl. 16:08 og ef svo hefði verið þá hefði það verið mjög lítið magn, og sagði: „Þetta er drykkja, sem að mestu er fyrir kl 16:08 … það er útilokað að viðkomandi hefði getað drukkið þetta magn og verið komið í 1.93‰ á 45 mínútum ... og þetta er svo mikið magn að þetta eru ekki einn eða tveir til þrír sopar.“

 

III.

            Í máli þessu er ákærða gefinn að sök ölvunarakstur á … með því að hafa ekið bifreiðinni […], mánudaginn 23. janúar 2017, undir áhrifum áfengis, eins og nánar er lýst í ákæru.

            Fyrir dómi hefur ákærði neitað sök.  Ákærði tjáði sig hins vegar mjög takmarkað um málsatvik fyrir dómi að öðru leyti en því að hann kvaðst nær strax eftir aksturinn hafa teygað þrjá til fjóra stóra sopa af sterku áfengi á heimili sínu og þá vegna vanlíðunar þar sem hann hefði ekið á bifreið nágranna síns. Fyrir dómi áréttaði ákærði hins vegar efni þeirrar skýrslu sem hann hafði gefið hjá lögreglu nokkru eftir að atvik máls gerðust, hinn 22. júní nefnt ár. Við nefnda yfirheyrslu breytti ákærði fyrri framburði sínum og þá um það að hann hefði ekki neytt nefnds áfengis nær strax eftir aksturinn. Við nefnda skýrslugjöf áréttaði hann aftur á móti fyrri frásögn sína um að hann hefði drukkið um hálfan lítra af áfengum bjór fyrir aksturinn, sem hann sagði að hefði farið fram á tímabilinu frá kl. 14-15.

            Fyrir liggur í málinu að lögreglu var gert viðvart um aksturslag ákærða laust eftir kl. 16:08 umræddan dag. Einnig liggur fyrir að lögreglumaður brást skjótt við og fór á heimili ákærða og hafði þar afskipti af honum. Verður ráðið að lögreglumaðurinn hafi þannig látið ákærða blása í áfengismæli, kl. 16:24.

            Fyrir dómi hefur nefndur lögreglumaður lýst ölvunarástandi ákærða. Að auki liggur fyrir að ákærði var færður á lögreglustöð þar sem tvö blóðsýni voru tekin úr honum, kl. 17:06 og 17:36, en ekki náðist hins vegar að fá hjá honum viðeigandi þvagsýni.

            Ágreiningslaust er að verulegt alkóhól mældist í blóðsýnum ákærða, þ.e. 1,93‰ og 1,77‰, en með viðteknum skekkjumörkum 1,78‰ og 1,62‰. Ágreiningur er um hvort greint alkóhólmagn verði rakið að einhverju eða öllu leyti til drykkju ákærða áður en hann ók bifreið sinni í greint sinn eða eftir að hann kom á heimili sitt.

            Ljóst er af því sem að framan er rakið, sbr. kafla II, að ekki leið langur tími frá því að akstri ákærða lauk þar til lögreglumaðurinn hafði lýst afskipti af honum. Í því sambandi eru því til staðfestu áðurraktar tímaskráningar lögreglu svo og trúverðugur framburður nefnds lögreglumanns, en einnig vitnisburður B og verða þau gögn lögð til grundvallar. Að mati dómsins eru greind tímamörk að hámarki um 10-12 mínútur.

            Hér að framan hafa verið raktar matsgerðir Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, en einnig skýrslur sérfræðinganna G og H fyrir dómi. Að áliti dómsins hefur ekkert komið fram sem varpar rýrð á niðurstöður nefndra gagna eða framburð sérfræðinganna, sem að áliti dómsins er afdráttarlaus um að áfengisdrykkju ákærða hljóti að hafa verið lokið að öllu verulegu fyrir umræddan akstur ákærða. Að áliti dómsins styður frásögn nefnds lögreglumanns, sem afskipti hafði af ákærða, þessa niðurstöðu og þá þannig að ákærði hafi verið ölvaður. Þegar framangreint er virt í heild er að mati dómsins ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis er hann ók bifreið […] í greint sinn.

            Eins og fram er komið var ákærði ekki staðinn að akstri bifreiðarinnar, en var handtekinn skömmu eftir að hann kom á heimili sitt. Að virtum fyrrgreindum tímamörkum og þeim rannsóknargögnum sem vísað hefur verið til þykir ákæruvaldið ekki hafa hnekkt frásögn ákærða hjá rannsóknarlögreglu og fyrir dómi um að hann hafi neytt sterks áfengis eftir aksturinn. Að áliti dómsins hafði ákærði sannanlega svigrúm til þess, þó svo að þar hafi verið um fremur takmarkaðan tíma að ræða. Að áliti dómsins getur skýrsla ákærða og frásögn lögreglumanna við frumrannsókn málsins ekki ráðið úrslitum við mat á sönnun um þetta síðastgreinda atriði.

            Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir með vísan til ákvæða XVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála varhugavert að telja að ákæruvaldið hafi eins og hér stendur á fært nægar sönnur fyrir því að áfengismagn í blóði ákærða við margnefndan akstur hafi verið svo mikið sem greinir í 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Brot ákærða varðar því við 1., sbr. 2., gr. 45. gr. nefndra laga.

 

IV.

            Ákærði, sem er fæddur […], hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 110.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

            Í samræmi við kröfur ákæruvalds, tilgreind lagaákvæði í ákæru og ofangreinda niðurstöðu dómsins ber að svipta ákærða ökurétti og þykir hún hæfilega ákveðin 10 mánuðir frá birtingu dómsins að telja.

            Með vísan til málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað ákæruvalds, 96.625 krónur, en einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Jónssonar lögmanns, við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, og þykja þau hæfilega ákveðin, m.a. með hliðsjón af tímaskýrslu, 548.080 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Með málið fór fyrir ákæruvaldið Helgi Jensson ftr.

            Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 184. gr. laga nr. 88/2008.     Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Ferdinand Bergsteinsson, greiði 110.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

            Ákærði er sviptur ökurétti í 10 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 644.705 krónur í sakarkostnað og eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jóns Jónssonar lögmanns, 548.080 krónur.