• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 9. maí 2018 í máli nr. S-17/2018:

Ákæruvaldið

                                                            (Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

                                                            (Kristrún Elsa Harðardóttir, réttargæslumaður)

gegn

A

                        (Auðun Helgason lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. apríl sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Austurlandi, á hendur A, kt. […], […], […].

Ákæra, útgefin 28. febrúar 2018, en með henni er mál höfðað á hendur ákærða;

„fyrir hegningarlagabrot gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni, B, kt. […], eins og hér greinir:

I.

Með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 1. júní 2014, veist að B utandyra á […], skammt frá …húsinu á […], hrint henni þannig að hún skall með höfuð á malbik akbrautar. Mál nr. 318-2015-2635.

II.

Með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 27. júlí 2014, veist að B utandyra, skammt frá viðburðarsvæðinu á […] og hrint henni í jörðina og svo hrist hana til. Mál nr. 318-2015-2635, (028-2014-1825).

III.

Með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 17. ágúst 2014, utandyra á gangstétt, norðan við skyndibitastaðinn […] að […] […], veist að B, hrint henni eða skellt í jörðina og tekið hana hálstaki, uns lögregla kom að og stöðvaði árásina. Mál nr. 318-2015-2635, (024-2014-4235).

IV.

Með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 4. október 2014, veist að B inni á hótelherbergi nr. […] á […] í […], slegið hana í andlit og hrint henni þannig að hún féll í gólfið og síðan sparkað í líkama hennar og að lokum tekið hana hálstaki. Mál nr. 318-2015-2635.

 

V.

Með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 15. mars 2015, á bifreiðastæði framan við […] á […], veist að B þar sem hún sat vinstra megin í aftursæti bifreiðar, gripið í hana og rifið hana þannig út úr bifreiðinni og dregið hana síðan eftir bifreiðastæðinu þannig að hné hennar drógust eftir malbikinu og örskömmu síðar hrint henni þannig að hún féll í jörðina, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu, roða, rispur, mar og eymsli víða um líkama og útlimi, húðblæðingar á hálsi og eymsli við að kyngja. Mál nr. 318-2015-2635.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b, en til vara við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Með framhaldsákæru sama lögreglustjóra, sem útgefin er 23. mars sl., er mál höfðað á hendur ákærða í því skyni að koma að bótakröfu brotaþola í ofangreindu máli, en krafan hafði borist lögreglustjóranum þann sama dag.

            Nefnd einkaréttarkrafa er dagsett 5. apríl 2017. Um heimild til útgáfu ákærunnar vísar lögreglustjórinn til 153. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sbr. 173. gr. sömu laga. Kröfunni er þannig lýst:

            „... Í málinu er þess krafist af hálfu Kristrúnar Elsu Harðardóttur, hdl., f.h. brotaþola B, kt. […], að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta samtals að fjárhæð kr. 3.500.000, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 15. mars 2015, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt ákærða, en síðan með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu brotaþola að mati dómsins, sbr. ákvæði 48. gr., laga nr. 88/2008, eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun eða ákærði verði dæmdur til að greiða lögmannskostnað brotaþola við að koma bótakröfunni á framfæri og vegna hagsmunagæslu við meðferð málsins fyrir dómi skv. tímaskýrslu og málskostnaðarreikningi sem lögð verður fram við meðferð málsins sbr. 3. mgr. 176. gr. laga 88/2008, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“

 

            Við þingfestingu málsins, þann 20. apríl sl., leiðrétti sækjandi sakarefni ákærunnar frá 28. febrúar sl. að því er varðaði verknaðarlýsingu I. og II. kafla. Hann vísaði til þess að í I. kaflanum hafi átt að miða við að ákærði hefði „ýtt við“ en ekki    „hrinti“ brotaþola og í II. kaflanum hafi átt að miða við að ákærði hefði ,,ýtt við henni svo að hún féll í jörðina“, en ekki ,,hrinti henni“.

            Á dómþinginu lýsti sækjandinn því yfir, fyrir hönd skipaðs réttargæslumanns brotaþola, að fallið væri frá miskabótaþætti einkaréttarkröfunnar. Var þar um vísað til þess að samkomulag hefði tekist um greiðsluna, ásamt vöxtum, millum ákærða og brotaþola, og þá með hliðsjón af endanlegum sakargiftum samkvæmt nefndri ákæru. Sækjandinn áréttaði að öðru leyti kröfur samkvæmt nefndum ákærum, en jafnframt reifaði hann það sjónarmið, að réttast væri að um helmingur sakarkostnaðar félli á ríkissjóð þar sem ákæruvaldið hefði fallið frá alvarlegasta hluta þess kæruefnis, sem lögregla hafði upphaflega verið með til rannsóknar gegn ákærða.

 

            Skipaður verjandi ákærða, Auðun Helgason lögmaður, krafðist fyrir hönd ákærða vægustu refsingar sem lög leyfa, en um heimfærslu brota vísaði hann til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krafðist verjandinn þess að allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t hæfileg málflutningsþóknun hans samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, yrði felldur á ríkissjóð.

 

            Farið var með málið samkvæmt málsmeðferðarreglum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

A.

1.         Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og háttsemi hans er lýst í I.-V. kafla ákærunnar frá 28. febrúar sl., eins og efni I. og II. kafla hennar var breytt hér að framan.

            Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. framburðarskýrslur hans hjá lögreglu við upphaf rannsóknar, dagana 15., 18. og 19. mars 2015, en einnig læknisvottorð, sem aflað var og varðar ákærukafla V. Læknisvottorða virðist ekki hafa verið aflað við rannsókn lögreglustjórans á Suðurlandi vegna sakaratriða annarra ákærukafla, en í öllum tilvikum var um háttsemina vísað til minniháttar líkamsárásar, sbr. ákvæða 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og nefndum rannsóknargögnum, er nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákærunni er lýst.

 

2.         Samkvæmt framansögðu hefur ákærði gerst sekur um fimm aðgreindar líkamsárásir, þann 1. júní, 27. júlí, 17. ágúst og 4. október 2014 og loks þann 15. mars 2015, sem allar beindust að þáverandi sambýliskonu hans, brotaþola.

            Í ákæru eru brot ákærða heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. breytingarlaga nr. 23/2016 (heimilisofbeldi). Ákvæðið er nýmæli, sem beint er m.a. að ofbeldi í nánum samböndum, en eins og fyrr sagði var um sakarefnið við lögreglurannsókn vísað um háttsemi ákærða til 1. mgr. 217. gr. hegningarlaganna, sbr. og varakrafa í ákæru.

            Samkvæmt nefndri 1. mgr. 218. gr. b skal hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, sæta fangelsi allt að 6 árum.

            Það er álit dómsins að þar sem brot ákærða voru endurtekin beri að fella háttsemi hans undir nefnt ákvæði 1. mgr. 218. gr. b í hegningarlögunum, líkt og ákæruvaldið krefst.

            Til þess er að líta að í 1. mgr. 2. gr. hegningarlaganna segir að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu, en að aldrei megi þó dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Í því samhengi þykir mega horfa til 3. mgr. 70. gr. sömu laga, en í ákvæðinu er kveðið á um að það skuli að jafnaði tekið til greina til þyngingar refsingu hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins.

 

B.

1.         Samkvæmt framlögðum gögnum ákæruvalds hóf lögregla rannnsókn á því broti, sem lýst er í V. kafla ákæru, þann sama sólarhring og atvik máls gerðust, 15. mars 2015. Liggur og fyrir að ákærði og brotaþoli voru nær strax yfirheyrð um sakarefnið. Að frumkvæði rannsakara var aflað læknisfræðilegra gagna um áverka brotaþola, en þ. á m. var skýrsla læknis um réttarfræðilega skoðun á brotaþola, sem dagsett er nefndan dag, 15. mars 2015. Verður ráðið af gögnum að skýrslunnar hafi verið aflað vegna orða brotaþola í lögreglubifreið umrædda nótt um að hún hefði mátt þola kynferðisbrot af hálfu ákærða þá skömmu áður, en einnig í tengslum við það brot sem greint er frá í IV. kafla ákærunnar.

            Ákærði og brotaþoli voru nánar yfirheyrð hjá lögreglu um sakaratriði I.-V. kafla ákæru 18. og 19. mars 2015. Brotaþoli gaf jafnframt skýrslu 9. apríl sama ár, en þá um hin ætluðu kynferðisbrot. Fyrir liggur að hún tjáði sig takamarkað um þá háttsemi, líkt og við fyrri yfirheyrslur. Ákærði, sem samkvæmt gögnum hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, neitaði alfarið sakaratriðum sem vörðuðu hin ætluðu kynferðisbrot.

            Dagana 16.-19. og 23. mars 2015 yfirheyrði lögregla fjölda vitna um greind kæruatriði.

            Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu gaf brotaþoli fyrst skýrslu um hin ætluðu kynferðisbrot ákærða þann 7. mars 2017. Jafnframt var systir ákærða yfirheyrð um þann hluta málsins 9. apríl 2017, en hún kvaðst, líkt og við fyrri tvær yfirheyrslur, í mars 2015, ekkert geta upplýst um málsatvik.

 

            Samkvæmt gögnum málsins sendi tilnefndur réttargæslumaður brotaþola, þann 5. apríl 2017, skaðabótakröfu, ásamt greinargerð, til rannsóknardeildar lögreglustjórans á Suðurlandi. Krafan varðaði þau sakaratriði sem tilgreind eru í ákæruköflum I-V, en einnig hin ætluðu kynferðisbrot ákærða. Ákærði var yfirheyrður um síðastgreindu kæruatriðin 6. apríl sama ár, en hann neitaði háttseminni, líkt og hann hafði áður gert.

            Ráðið verður af gögnum, sbr. dskj. nr. 12, að rannsóknaraðilar hafi sent rannsóknargögn, sem vörðuðu hin ætluðu kynferðisbrot ákærða, til embættis héraðssaksóknara til ákvörðunar, en fyrir liggur að embættið tilkynnti með bréfi, dagsettu 16. janúar 2017, að brot af því tagi, sem rannsakað hafði verið í tengslum við sakarefni IV. kafla ákærunnar, hefði embættið ákveðið að fella niður. Með nefndu bréfi fyrirskipaði héraðssaksóknarinn hins vegar frekari rannsókn á öðru slíku broti, sem m.a. tengdist sakarefni V. kafla ákærunnar. Vegna þessa voru rannsóknargögnin endursend lögreglustjóranum á Suðurlandi.

            Af gögnum málsins verður ráðið að embætti héraðssaksóknara hafi þann 4. september 2017 alfarið fellt niður öll kæruefni sem vörðuðu hin ætluð kynferðisbrot ákærða gegn brotaþola.

 

2.         Samkvæmt málsskjölum fór lögreglustjórinn á Suðurlandi þess á leit við ríkissaksóknara, að höfðu samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, að hinum síðarnefnda yrði falið að höfða sakamál á hendur ákærða fyrir Héraðsdómi Austurlands og þá með hliðsjón af brotavettvangi þriggja sakaratriða þessa máls, en einnig með hliðsjón af varnarþingi ákærða. Ríkissaksóknari varð við beiðninni, sbr. heimildarákvæði 3. mgr. og 4. mgr. 24. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en í framhaldi af því var lögreglustjóranum á Austurlandi falið, vegna ætlaðra hegningarlagabrota ákærða, „að höfða sakamál, eða afgreiða með öðrum hætti.“ Gekk það eftir, en sakmál það sem hér er til umfjöllunar, var eins og áður sagði höfðað þann 28. febrúar sl., en ákæran svo og gögn málsins bárust Héraðsdómi Austurlands 15. mars sl. Ákæran var birt ákærða 22. sama mánaðar, en málið var síðan þingfest í kjölfar útgáfu framhaldsákæru lögreglustjóra og lítils háttar frests vegna sáttaumleitana ákærða og brotaþola um áðurrakta einkaréttarkröfu, þann 20. apríl sl.

 

3.         Brot ákærða samkvæmt V. kafla ákæru var framið 15. mars 2015. Rannsókn lögreglu hefur hér að framan að nokkru verið rakin, en fyrir liggur að ákærði játaði sakarefni ákærukaflans, en einnig sakarefni annarra ákærukafla ákærunnar, þegar við upphaf lögreglurannsóknar, um miðbik marsmánaðar 2015.

            Fyrningarfrestur greindra brota telst frá þeim degi, er refsiverðum verknaði ákærða lauk, sbr. ákvæði 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. lagagreinarinnar rýfur rannsókn samkvæmt nefndri 4. mgr. hins vegar ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni eða hún stöðvast um óákveðinn tíma með þeim fyrirvara að sakborningur hafi ekki komið sér undan rannsókn.

            Eins og áður var rakið hófst rannsókn sama dag og brot var framið samkvæmt V. kafla ákæru, þann 15. mars 2015, er lögregla bar sakargiftir undir ákærða. Þá rofnaði fyrningarfrestur brota samkvæmt ákæruköflum II-IV þann sama dag, en vegna brots samkvæmt I. kafla ákærunnar þann 19. mars sama ár og þá af sömu ástæðu.

            Dómurinn lítur svo á að eftir greind tímamörk og þar til ákæra var birt teljist rannsókn málsins hafa stöðvast í skilningi 5. mgr. 82. gr. hegningarlaganna enda verður ekki ráðið af gögnum að ákærði hafi reynt að koma sér undan rannsókninni. Verður honum þannig ekki kennt um meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru.

 

            Háttsemi ákærða samkvæmt ákæruköflum I-V hefði að áliti dómsins í öllum tilvikum varðað við ákvæði 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir lögfestingu áðurgreindra breytinga á hegningarlögunum um heimilisofbeldi.

            Brot samkvæmt 1. mgr. 217. gr. hegningarlaganna varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum eða einu ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök manns á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum.

            Samkvæmt framansögðu miðast upphaf fyrningarfrests við áðurnefnd tímamörk og voru því, sbr. áðurrakið ákvæði 1. mgr. 2. gr. hegningarlaganna, öll brot ákærða fyrnd er málið var höfðað tæplega þremur árum síðar. Verður ákærða því ekki refsað fyrir þá háttsemi, sem lýst er í I.-V. kafla ákæru, sbr. 6. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, og ber að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvalds í máli þessu.

 

            Í samræmi við ofangreind málsúrslit og 235. gr. sakamálalaganna greiðist allur kostnaður sakarinnar, þ.m.t. kostnaður af störfum skipaðs verjanda og skipaðs réttargæslumanns, úr ríkissjóði.

            Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Auðunar Helgasonar lögmanns, vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi þykir hæfilega ákveðin í einu lagi 438.340 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og hefur þá að öllu leyti verið höfð hliðsjón af framlögðu tímayfirliti hans.

            Samkvæmt rannsóknargögnum var Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður tilnefnd, en síðan skipuð réttargæslumaður brotaþola, við alla meðferð máls þessa. Verður henni því ákvörðuð þóknun sem telst hæfilega ákveðin 1.243.720 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og hefur þá m.a. verið höfð hliðsjón af framlögðu og rökstuddu tímayfirliti, sem tekur til ríflega þriggja ára tímabils. Að auki verður réttargæslumanninum greiddur ferðakostnaður að fjárhæð 10.800 krónur.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, A, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds.

            Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Auðunar Helgasonar lögmanns, 438.340 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur lögmanns, 1.243.720 krónur, en einnig ferðakostnaður hennar, 10.800 krónur.

Ólafur Ólafsson