• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

            Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 23. janúar 2018 í máli nr. S-44/2017:

         Ákæruvaldið

         (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

         gegn

         Yrsu Líf Nökkvadóttur

          (Auðun Helgason lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 17. nóvember 2017, á hendur Yrsu Líf Nökkvadóttur, kennitala […], […], […]:

fyrir líkamsárás í Sveitarfélaginu Hornafirði, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. janúar  2017, utandyra, framan við aðalinngang íþróttahúss Heppuskóla á Höfn, togað í A, aftan frá, svo hann féll harkalega í jörðina, með þeim afleiðingum að hann öklabrotnaði og fór úr lið á hægri ökla.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga  nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 22. janúar 2017, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti, fyrir að halda fram bótakröfu í málinu.“

 

            Dómkröfur ákærðu eru að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og að einkaréttarkrafa verði lækkuð. Þá krefst skipaður verjandi ákærðu, Auðun Helgason lögmaður, hæfilegrar málflutningsþóknunar, auk ferðakostnaðar.

 

 

 

I.

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn við eftirlitsstörf við íþróttahús Heppuskóla á Höfn umrædda nótt, um kl. 03:55, en tilefnið var þorrablót Hafnarbúa.  Greint er frá því að lögreglumennirnir hafi veitt því eftirtekt að riskingar voru með brotaþola og nafngreindum aðila.  Jafnframt segir að lögreglumennirnir hafi fylgst með því að nærstaddir aðila hafi skilið þá í sundur og enn fremur að dyravörður greip í taumana.  Greint er frá því í skýrslunni að við þessar aðstæður hafi ákærða blandað sér í málið og m.a. rifið í brotaþola með þeim afleiðingum að hann féll flatur við. Hafi lögreglumennirnir þá strax brugðist við og farið brotaþola til aðstoðar, en þá veitt eftirtekt að hægri fótur hans var úr lagi genginn. Fram kemur að brotaþoli hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöð bæjarins.

            Fyrir liggur að við lögreglurannsókn málsins var m.a. aflað áverkavottorða frá bæklunarlækni, sem var við afleysingar á Höfn umrædda nótt, en einnig frá deildarlækni bæklunarskurðdeildar Landspítala. Vottorðin eru dagsett 17. febrúar og 3. september sl.  Í vottorðunum kemur fram að ákærði hafi verið úr liði á hægri ökkla við komu á heilsugæslustöð umrædda nótt, en að auki hafi hann verið með afrifubrot á aftari hluta ökklans. Fram kemur að vegna þessa hafi brotaþoli verið í gipsi í um 8 vikur og óvinnufær í 10-12 vikur.

            Auk nefndra gagna aflaði lögregla myndskeiða úr eftirlitsmyndavél við Heppuskóla umrædda nótt, en einnig svonefndra skjáskota frá vitnum, sem gáfu skýrslur um atvik máls.

 

            Í máli þessu er ákærðu gefið að sök líkamsárás og er brot hennar samkvæmt ákæru lögreglustjóra heimfært til 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.  Ákvæðið er svohljóðandi:

             Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.

            Fyrir dómi hefur ákærða skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæru.

            Með játningu ákærðu, sem fær fullnægjandi stoð í áður greindum rannsóknargögnum lögreglu, er að áliti dómsins nægjanlega sannað að hún hafi gerst sek um líkamsárás og er háttsemi hennar rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

                                                                 II.

            Ákærða, sem er 24 ár, hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst brotleg við lög.

            Í máli þessu hefur ákærða verið sakfelld fyrir líkamsárás og ber að ákvarða refsingu hennar m.a. með hliðsjóna af 1. tl. 70. gr. hegningarlaganna. Einnig ber ber að líta til þess að ákærða játaði brot sitt greiðlega fyrir dómi, lýsti yfir iðran og samþykkti bótaskyldu. Að þessu virtu og með hliðsjón af 5. og 8. tl hegningarlaganna, en einnig hreins sakaferils, þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem fært þykir að skilorðsbinda eins og nánar segir í dómsorði. 

 

            Við lögreglurannsókn málsins lagði Agnar Þór Guðmundsson lögmaður fram skaðabótakröfu á hendur ákærðu fyrir hönd brotaþola, sem dagsett er 22. mars 2017.  Um er að ræða miskabótakröfu, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 1.000.000. Krafan er rökstudd, en hún var birt ákærðu 26. október sl. 

              Eins og áður sagði samþykkti ákærða bótaskyldu, en fyrir dómi andmælti hún kröfufjárhæðinni sem of hárri og lagð þann ágreining í mat dómsins.

              Ákærða hefur með lýstri háttseminni gerst sek um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola. Þykir brotaþoli því eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærðu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna og eru þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er. Þá ber að dæma brotaþola málskostnað við að halda kröfunni fram með aðstoð lögmanns, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem þykir hæfilega ákveðin 124.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

            Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað.

            Samkvæmt yfirliti nemur sakarkostnaður ákæruvaldsins vegna málsins alls 72.066 krónum og ber að dæma ákærðu til að greiða hann.  Þá ber að dæma ákærðu til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns ákærðu, Auðuns Helgasonar, lögmanns, við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, en þau þykja hæfilega ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslu 242.420 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Að auki ber að dæma ákærðu til að greiða útlagaðan ferðakostnað verjandans, 30.955 krónur.

            Mál þetta var rekið samkvæmt málsmeðferðarreglum 164. gr. laga nr. 88/2008

            Ólafi Ólafssyni héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærða, Yrsa Líf Nökkvadóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr.  22/1955.

           Ákærða greiði brotaþola, A, 400.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 22. janúar til 26. nóvember 2017, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags og 124.000 krónur  í málskostnað.

          Ákærði greiði 349.442 krónu í sakarkostnað, þ.m.t. 242.420 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Auðuns Helgasonar lögmanns, og 30.955 krónur vegna ferðakostnaðar hans.

           

                                                                        Ólafur Ólafsson 

            Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum sækjanda, Helga Jenssyni ftr. og er honum afhent afrit dómsins.  Skipaður verjandi boðaði lögmæt forföll.

            Dómurinn verður sendur lögreglustjóra til tíðkanlegrar birtingar.

 

                                                                          Dómþingi slitið.

                                                                           Ólafur Ólafsson