• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands, mánudaginn 16. júlí 2018 í máli nr. S-24/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

 gegn

 A

 (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

            Mál þetta, sem dómtekið var 12. júlí sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 20 apríl sl., á hendur A, kt. […], […], […];

„fyrir brot gegn valdstjórninni, lögreglu- og vopnalögum, með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 26. febrúar 2017, við veitingastaðinn […], haft í vörslum sínum vasahníf, ekki sinnt ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að fara á brott og með því að hafa ítrekað hótað lögreglumönnunum B og C líkamsmeiðingum og lífláti.

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á vasahníf sem lögreglan lagði hald á, með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.”

            Skipaður verjandi, Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, hefur fyrir hönd ákærða krafist þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Jafnframt krefst lögmaðurinn hæfilegra málflutningsþóknunar og útlagðs ferðakostnaðar.

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir samkvæmt ákæru. Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, og er ekki ástæða til að efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Óumdeilt er að ákærði var er atvik gerðust undir verulegum áfengisáhrifum.

            Með hliðsjón af framangreindu þykir nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og er atferlið þar rétt fært til lagaákvæða.

II.

            Ákærði, sem er […] ára, hefur áður sætt refsingum, en þá einkum vegna fíkniefnaakstur, síðast í mars 2015, en hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.

            Refsing ákærða þykir með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en til þess er að líta að ákærði getur ekki með réttu borið fyrir sig ölvunarástand eða réttlætt gjörðir sínar með þeim hætti, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Eftir atvikum og m.a. með hliðsjón af iðran ákærða við alla meðferð málsins, við lögreglurannsókn og fyrir dómi, og þá einnig með hliðsjón af 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna. þykir fært að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þess að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Þá er gerður upptækur til ríkissjóðs vasahnífur sem lögreglan lagði hald á, sbr. ákvæði 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998

            Engan sakarkostnað leiddi af rekstri málsins af hálfu ákæruvalds, en dæma ber ákærða til að greiða málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðin 210.800 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig skal ákærði greiða útlagðan ferðakostnað lögmannsins að fjárhæð 47.225 krónur

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð.

            Ákærði, A, sæti 45 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Upptækur er gerður til ríkissjóðs vasahnífur sem lögreglan lagði hald á.

            Ákærði greiði málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 210.800 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig greiði hann útlagðan ferðakostnað lögmannsins, að fjárhæð 47.225 krónur.