• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Refsiákvörðun
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skaðabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 7. nóvember 2017 í máli nr. S-33/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

(Einkaréttarkröfur: Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

gegn

A

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 17. október 2017, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 4. júlí 2017, á hendur A, kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás og hótanir í [...] , eins og hér greinir:

I.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa  laugardaginn 17. maí 2014 utandyra við [...],[...], skallað B í andlitið, með þeim afleiðingum að miðframtönn vinstra megin í neðri góm hennar brotnaði og hún hlaut sár innan á efrivör.

II.

Fyrir hótanir, með því að hafa sunnudaginn 18. janúar 2015, sent C eftirfarandi skilaboð á samskiptamiðlinum facebook: „en ef þú hefur átt við hana…mun ég lemja þig í druslur og þú munt lenda í hjólastól“, „hey faggi, þú ert dauður“ og „þú ert dauður vinur“, en hótanirnar voru til þess fallnar að vekja ótta hjá C um líf sitt, heilbrigði og velferð.

III.

Fyrir hótanir, með því að hafa mánudaginn 19. janúar 2015, sent B eftirfarandi skilaboð á samskiptamiðlinum facebook: „C er dauður“, „ef sov er …. Mun hann drekka gegnum strá sem eftir er…. Ef hann er heppinn“, „mun lemja hann í druslur við tækifæri og son hans“,  „flytjið í burtu ógeðin ykkar annars mun ég rústa ykkur“ og „lem bræður þína í druslur“, en hótanirnar voru til þess fallnar að vekja ótta B um líf,  heilbrigði og velferð sína og annarra.“

            Í ákæruskjali er brot samkvæmt ákærulið I talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, og brot samkvæmt ákæruliðum II og III við 233. gr. sömu laga. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Svohljóðandi einkaréttarkröfur, sem haldið var uppi við dómtöku málsins, eru tilgreindar í ákæru:

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu C, kt. [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 951.946-, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 18. janúar 2015 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu B, kt. [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 770.726-, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. maí 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.“

            Undir rekstri málsins lækkaði brotaþolinn C miskabótakröfu sína úr 800.000 krónum í 400.000 krónur. Þá var því lýst yfir við munnlegan málflutning lögmanns beggja brotaþola að krafist sé hæfilegs málskostnaðar að mati dómsins, í stað málskostnaðarkröfu að fjárhæð 151.946 krónur sem sett var fram sem hluti af einkaréttarkröfu hvors brotaþola fyrir sig, og því sé ekki gerð krafa um vexti og dráttarvexti af áföllnum málskostnaði.

            Í þinghaldi 17. október sl. játaði ákærði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í ákæru. Var málið þá þegar tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, í samræmi við 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sakarflytjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði, ákvörðun viðurlaga og einkaréttarkröfur. Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði gerð sú vægasta refsing er lög leyfa og að fullnustu refsingar verði frestað skilorðsbundið, komi til fangelsisrefsingar. Þá er þess krafist að einkaréttarkröfur verði lækkaðar. Verjandi gerir kröfu um þóknun úr ríkissjóði vegna starfa sinna. 

            Ákærði og brotaþolinn B munu hafa átt í sambandi um nokkurra mánaða skeið, án sambúðar, en sambandinu mun hafa lokið á árinu 2014. Um málsatvik a.ö.l. skírskotast til ákæru. Með skýlausri játningu ákærða, sem á sér fullnægjandi stoð í rannsóknargögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás á B og hótanir í garð hennar og C, eins og lýst er í þremur liðum ákærunnar. Teljast brot ákærða réttilega heimfærð í ákæru til ákvæða 1. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.  

            Ákærði er fæddur árið [...] og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverð brot. Fyrir dómi játaði hann brot sín greiðlega og viðurkenndi bótaskyldu gagnvart báðum brotaþolum. Þá kvaðst hann iðrast gerða sinna og tók fram að hann hefði gengist undir áfengismeðferð eftir að þau voru framin og flutt á brott til að forðast samskipti við brotaþola. Þykir mega líta til alls þessa við ákvörðun refsingar, sbr. 5. og 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er litið til þess að líkamsásrás ákærða var ruddaleg og beindist að mikilvægum hagsmunum, líkama og friðhelgi brotaþolans B, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Eins og málið var reifað af hálfu ákæruvalds og sakarefnið er vaxið verður fallist á að skammvinn tengsl þeirra verði ekki metin ákærða til refsiþyngingar, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar.

Við ákvörðun refsingar er einnig til þess litið að þegar ákæra máls þessa var gefin út voru meira en þrjú ár liðin frá því að brot samkvæmt ákærulið I var framið og vel á þriðja ár frá því að brot samkvæmt ákæruliðum II og III voru framin, en drátturinn skýrist að hluta til af því að kæra var fyrst lögð fram 30. júní 2015. Verður ekki séð að ákærða verði kennt um þennan drátt.

             Að öllu framanrituðu virtu telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en í ljósi greiðar játningar ákærða, hreins sakaferils hans og þess hve langt er um liðið, sbr. framanritað, verður fullnustu refsingarinnar frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Í einkaréttarkröfum brotaþola, dags. 14. september 2015, eru kröfur þeirra sundurliðaðar svo að bæði krefjast þau miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu sakarreglunnar, en að auki krefst B skaðabóta vegna sjúkrakostnaðar. Þá krefjast bæði málskostnaðar að mati dómsins.

            Með brotum sínum hefur ákærði bakað sér bótaskyldu gagnvart báðum brotaþolum, líkt og hann sjálfur viðurkennir. Verður fallist á að brotaþolar eigi báðir rétt til miskabóta úr hendi ákærða, með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun miskabóta til handa B er einkum litið til líkamlegra afleiðinga líkamsásrásar ákærða gegn henni. Við ákvörðun miskabóta til beggja brotaþola vegna hótana er litið til háttsemi ákærða eins og hún er afmörkuð í ákæruliðum II og III og þeirrar röskunar á friði brotaþola sem ætla má að sú háttsemi hafi haft í för með sér. Miskabætur til handa B þykja að þessu virtu hæfilega ákveðnar 275.000 krónur, en 50.000 krónur til handa C.

 Krafa B um skaðabætur vegna sjúkrakostnaðar sundurliðast þannig að krafa um tannlæknakostnað að fjárhæð 31.080 krónur og krafa um 1.700 krónur vegna öflunar áverkavottorðs eru studdar gögnum og verða teknar til greina með vísan til 1. gr. skaðabótalaga. Krafa um 136.000 króna tannlæknakostnað er aftur á móti einungis byggð á áætlun og höfðu þær tannviðgerðir ekki enn farið fram er málið var reifað fyrir dómi, að sögn lögmanns brotaþola. Þykir óhjákvæmilegt að vísa þeirri kröfu frá dómi.

Framangreindar fjárhæðir verður ákærða gert að greiða með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er, en upphafstími dráttarvaxta miðast við það er mánuður var liðinn frá því að ákærða voru kynntar bótakröfurnar við skýrslutöku hjá lögreglu 10. febrúar 2017.

Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði að auki dæmdur til að greiða hvorum brotaþola málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 120.000 krónur til handa hvoru þeirra um sig. Við ákvörðun þeirrar fjáhæðar hefur verið tekið mið af virðisaukakatti og samlegðaráhrifum, en brotaþolar nutu aðstoðar sama lögmannsins.

            Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin í einu lagi 326.740 krónur, vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi. Hefur þá m.a. verið tekið tillit til ferðatíma verjandans. Útlagður kostnaður verjandans skv. reikningum vegna tveggja flugferða nemur 78.845 krónum. Samtals verður ákærða því gert að greiða 405.585 krónur í sakarkostnað, en ekki er að sjá að annar sakarkostnaður hafi fallið til vegna málsins.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærði, A, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði greiði B  307.780 krónur í skaða- og miskabætur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. maí 2014 til 10. mars 2017, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði C  50.000 krónur í miskabætur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. janúar 2015 til 10. mars 2017, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði 405.585 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 326.740 krónur og ferðakostnaður verjandans, 78.845 krónur.

                                                                

                                                                        Hildur Briem