• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Skuldamál
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. mars 2019 í máli nr. E-37/2018:

Arion banki hf.

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)

gegn

Grími Bjarna Bjarnasyni

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

 

I

Mál þetta sem tekið var til dóms 7. þessa mánaðar var höfðað 5. desember 2017 af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Grími Bjarna Bjarnasyni, […].

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 4.516.137 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá 15. mars 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda 20. september sl. en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 15. október sl.

II

Atvik máls

Hinn 17. júlí 2003 gaf Sparisjóður Ólafsfjarðar út ábyrgðaryfirlýsingu vegna láns, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna, sem stefndi hafði tekið hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Í yfirlýsingunni er tekið fram að hún sé gefin út vegna sölu á ákveðinni fasteign og að hún gildi allt þar til láninu, sem stefndi tók hjá lífeyrissjóðnum, hafi verið þinglýst á eign sem sjóðurinn samþykki. Í framhaldi af yfirlýsingu þessari var láninu aflýst af eign þeirri sem var til tryggingar láninu. Önnur fasteign var hins vegar aldrei sett til tryggingar láninu. Lánið sem stefndi tók hjá lífeyrissjóðnum var til 30 ára með einum gjalddaga í hverjum mánuði. Ekki verður annað ráðið en að stefndi hafi greitt af láninu næstu árin eftir að ábyrgðin var gefin út en greiðslufall varð frá og með gjalddaga í desember 2015. Í janúarlok 2017 krafði Lífeyrissjóður starfmanna ríkisins stefnanda, sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum Sparisjóðs Ólafsfjarðar, um greiðslu á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar og greiddi stefnandi lífeyrissjóðnum 4.516.137 krónur 15. febrúar 2017. Sama dag sendi stefnandi stefnda innheimtubréf og höfðaði síðan mál þetta til innheimtu kröfunnar.

III

Málsástæður og lagarök

            Stefnandi vísar til þess að frá og með 1. janúar 2012 hafi hann tekið við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Ólafsfjarðar en þá hafi sparisjóðurinn sameinast stefnanda. Hinn 14. september 2012 hafi Fjármálaeftirlitið samþykkt samrunann sem tók gildi frá og með þeim degi og því hafi stefnandi tekið yfir réttindi og skyldur sparisjóðsins vegna ábyrgðaryfirlýsingarinnar.

            Stefnandi byggir á því að hinn 24. janúar 2017 hafi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins krafið hann um greiðslu að fjárhæð 4.516.137 krónur vegna láns þess sem ábyrgðaryfirlýsingin tók til en fjárhæðin hafi numið gjaldfallinni skuld samkvæmt láninu. Stefnandi hafi hinn 15. febrúar 2017 greitt lífeyrissjóðnum umkrafða fjárhæð og sama dag hafi hann skorað á stefnda að endurgreiða nefnda fjárhæð.

            Stefnandi reisir kröfur sínar á því að með greiðslu sinni á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi hann öðlast endurkröfu á stefnda sem nemi sömu fjárhæð, enda hafi ábyrgðaryfirlýsingin verið gefin út honum til hagsbóta og að hans beiðni. Stefnda beri samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga að greiða stefnanda kröfuna. Krafan hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

            Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Krafa um dráttarvexti er reist á lögum um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda styðst við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

            Af hálfu stefnda er á því byggt að engin kröfuhafaskipti hafi orðið á skuld stefnda við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, ekkert réttarsamband sé á milli stefnda og stefnanda og að enginn endurkröfuréttur hafi stofnast þegar stefnandi greiddi fyrirvaralaust upp skuld stefnda við lífeyrissjóðinn.

            Stefnandi reisir kröfu sína á því að ábyrgðaryfirlýsing hafi verið gefin út að  beiðni stefnda og honum til hagsbóta. Stefnandi vísi síðan til almennra reglna kröfuréttarins máli sínu til stuðnings. Stefndi hafnar þessu hins vegar og heldur því fram að stefnandi hafi ekki öðlast endurkröfurétt á stefnda við greiðslu lánsins. Stefndi heldur því fram að hann hafi ekki óskað eftir því að stefnandi gæfi út nefnda ábyrgðaryfirlýsingu og því sé ekki neitt réttarsamband á milli aðila að því er varðar umrædda skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið gefin út einhliða af þáverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Stefndi vísar til þess að samkvæmt þeim meginreglum sem stefnandi byggir mál sitt á verði að vera réttarsamband á milli skuldara og þess sem greiðir skuldina til þess að sá síðarnefndi geti gengið inn í þann rétt sem kröfuhafi átti á hendur skuldara. Þannig geti ekki hver sem er greitt kröfuhafa skuld og gengið um leið inn í þann rétt sem kröfuhafi átti. Ekkert slíkt samband hafi verið milli aðila máls þessa. Getgátur og fullyrðingar stefnanda um að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið gerð að beiðni stefnda getur ekki talist sönnun um að stefndi hafi með sannanlegum hætti óskað eftir umræddri ábyrgðaryfirlýsingu. Ríkar kröfur verði að gera til fjármálastofnana um að þær geti sýnt fram á kröfuréttarsamband, t.d. með undirskrift skuldara. Stefnandi hafi hins vegar engin gögn lagt fram sem sýna fram á að samband hafi verið milli stefnanda og stefnda vegna skuldar stefnda við lífeyrissjóðinn. Stefnandi hafi eingöngu lagt fram ábyrgðaryfirlýsingu sem er einhliða undirrituð af þáverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Þessi yfirlýsing sanni ekki réttarsamband á milli aðila. Hún geti í besta falli veitt líkindi fyrir einhvers konar réttarsambandi milli stefnanda og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ástæður þess að yfirlýsingin var gefin út á sínum tíma séu stefnda ókunnar og óljósar. Annað liggi ekki fyrir í máli þessu en að stefndi var í skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og þá skuld greiddi stefnandi upp.

            Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi ekki öðlast endurkröfurétt á grundvelli réttarreglna um óbeðinn erindisrekstur. Í undantekningartilvikum geti þriðji maður sem greiðir kröfuhafa á grundvelli réttarreglna um óbeðinn erindisrekstur öðlast endurkröfu á hendur skuldara, ef skuldari getur ekki gætt eigin hagsmuna. Þessi undantekningarregla eigi hins vegar ekki við í máli þessu enda fulljóst að stefndi er fullfær um að gæta hagsmuna sinna og stefnandi ekki sýnt fram á annað.

            Að mati stefnda bendir allt það sem hann hefur fært fram til þess að ekkert réttarsamband hafi verið á milli aðila um skuld stefnda við lífeyrissjóðinn. Kröfuhafaskipti hafi ekki orðið að skuldinni og stefnandi hafi ekki getað gengið inn í þann rétt sem lífeyrissjóðurinn átti á hendur stefnda. Af þessum sökum verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

            Hvað varðar kröfu stefnanda um dráttarvexti þá er henni sérstaklega mótmælt. Á því er byggt að stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu skuldarinnar með bréfi dagsettu 15. febrúar 2017 og miðar hann því við að dráttarvextir reiknist frá því að mánuður er liðinn frá þeirri dagsetningu. Tilkynning stefnanda til stefnda sé hins vegar þannig úr garði gerð að heimilisfang stefnda sé sagt vera í Noregi án frekari tilgreiningar. Augljóst sé að þessa tilkynningu fékk stefndi aldrei og hann því ekki krafinn um greiðslu kröfunnar með þessu bréfi og því verði dráttarvextir ekki reiknaðir á skuldina frá 13. mars 2017.

            Hvað lagarök varðar vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins um endurkröfurétt. Um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og þá er krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun studd við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1998.

IV

Niðurstaða

            Upphaflega krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu hans var hafnað með úrskurði dómsins 15. október sl.

Líkt og að framan er rakið snýst mál þetta um kröfu sem stefnandi telur sig hafa eignast á hendur stefnda með því að greiða á grundvelli útgefinnar ábyrgðaryfirlýsingar sinnar kröfu sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti á stefnda.

Stefnandi hefur ekki lagt fram umsókn stefnda um útgáfu ábyrgðarinnar eða önnur gögn sem benda til þess að stefndi hafi óskað eftir því að fyrirrennari hans gengist í ábyrgð á greiðslu lánsins. Hins vegar lagði stefnandi fram umsókn, á stöðluðu formi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þar sem stefndi óskar eftir því að lán hans verði til bráðabirgða flutt af fasteigninni […] á bankaábyrgð frá Sparisjóði Ólafsfjarðar. Umsókn þessi er dagsett 17. júlí 2003, sama dag og ábyrgðaryfirlýsingin er gefin út og undirrituð af stefnanda.

Stefndi bar fyrir dóminum að hann hafi aldrei óskað eftir því að stefnandi gengist í ábyrgð fyrir lánið sem hann tók hjá lífeyrissjóðnum en vera kunni að faðir hans hafi eitthvað komið að því máli. Hins vegar kannaðist hann við að hafa undirritað umsókn um veðflutning hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en það hafi hann gert þar sem létta þurfti láninu af eigninni sem það hvíldi á og það hafi verið mikil pressa á honum að gera það.

Í málinu liggur fyrir nefnd umsókn sem stefndi undirritaði um flutning á láni sem tekið var hjá Lífeyrissjóði starfmanna ríkisins. Þar kemur raunar ekki fram um hvaða lán er að ræða en ekkert bendir til annars en að það sé lánið sem stefnandi greiddi enda hvíldi það á sínum tíma á eign þeirri sem stefndi þurfti að losa lán sitt af. Í umsókninni er tekið fram að í stað fasteignar þeirrar sem lánið hvíldi á komi, til bráðabirgða, bankaábyrgð frá Sparisjóði Ólafsfjarðar. 

Þegar af þeirri ástæðu að stefndi undirritaði umsókn um flutning á láninu yfir á bankaábyrgð Sparisjóðs Ólafsfjarðar má fullyrða að honum hafi mátt vera ljóst að bankaábyrgð hafi verið eða yrði gefin út í þeim tilgangi að slík ábyrgð kæmi í stað fasteignar sem trygging fyrir greiðslu lánsins. Með þessari háttsemi sinni samþykkti stefndi og nýtti sér útgáfu ábyrgðarinnar. Ætla verður að umsókn stefnda um bankaábyrgð vegna lánsins sé ekki í fórum stefnanda og leggja má til grundvallar að stefndi hafi ekki skriflega sótt um slíka ábyrgð. Hins vegar er skrifleg umsókn ekki skilyrði fyrir því að aðilar geti gert með sér samning sem þennan og að gættu því sem að framan er rakið varðandi umsókn stefnda um veðflutning verður að leggja til grundvallar að komist hafi á samkomulag aðila um útgáfu slíkrar ábyrgðar og kemur því ekki til álita að sýkna stefnda með vísan til 1. mgr. 67. gr. og 68. gr. laga um meðferð einkamála líkt og stefndi byggir á. Þá ber með sömu rökum að hafna þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi hafi einhliða og án hans aðkomu gefið ábyrgðaryfirlýsinguna út.

Þegar stefnandi greiddi síðan, í samræmi við útgefna ábyrgðaryfirlýsingu sína, kröfu lífeyrissjóðsins á hendur stefnda eignaðist hann endurkröfu á hendur stefnda sem svarar þeirri fjárhæð sem hann þurfti að inna af hendi til lífeyrissjóðsins.

Að þessu virtu verður krafa stefnanda tekin til greina, þó þannig að dráttarvextir reiknast frá 12. janúar 2018 en þann dag var liðinn mánuður frá því að stefna málsins var birt stefnda en ekki er unnt að miða við dagsetningu kröfubréfs stefnanda enda nánast útilokað að það hafi borist stefnda þar sem heimilisfangs stefnda er þar ekki getið.

Með hliðsjón af úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir en við ákvörðun hans er tekið tillit til umfangs málsins og þess að áður hafði farið fram málflutningur um frávísunarkröfu stefnda.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Grímur Bjarni Bjarnason, greiði stefnanda, Arion banka hf., 4.516.137 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. janúar 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson

 

Rétt endurrit staðfestir

Héraðsdómi Norðurlands eystra