• Lykilorð:
  • Skilorð
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. mars 2019 í máli nr. S-156/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Guðrúnu Maríu Ævarsdóttur

 

Mál þetta, sem var dómtekið 12. mars sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 21. september 2019, á hendur Guðrúnu Maríu Ævarsdóttur [...],

 

„fyrir eftirtalda þjófnaði:

I.

Með því að hafa sunnudaginn 18. febrúar 2018, stolið úr versluninni [...], tvennum sólgleraugum, tvennum hárspennum eða hárskrauti, tvennum leggings og bol, samtals að verðmæti 12.193 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.

Með því að hafa föstudaginn 9. mars 2018, stolið sokkabuxum að verðmæti 1.499 krónur úr þessari sömu búð og hún stal úr samkvæmt ákærulið I.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærða hefur komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt ákæru.  Með játningu hennar sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm er nægilega sannað að hún hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við þar tilgreind refsiákvæði.

Þann 23. maí 2016 var ákærða dæmd í 30 daga fangelsi fyrir þjófnað en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Með broti því sem hún er nú sakfelld fyrir rauf hún skilorð dómsins og ber því nú að taka málin bæði til meðferðar og dæma í einu lagi. Ákærða játaði brot sín frá upphafi og hefur iðrast mjög. Hún kom fyrir dóminn og lýsti þeim veikindum sem hún hefur glímt við síðustu ár og þeirri meðferð sem hún hefur leitað undanfarið og þiggur enn. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en með vísan til framangreinds verður fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið, eins og nánar greinir í dómsorði.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir settur héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Guðrún María Ævarsdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.