• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. nóvember 2018 í máli nr. S-155/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Marcin Sychowicz                                                                            

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 21. september 2018, á hendur, Marcin Sychowicz, kt. 000000-0000, ..., Akureyri,

 

„fyrir eftirtalin hegningarlagabrot á árinu 2018:

 

I. Fjársvik.

Með því að hafa 23. mars 2018, svikið út gistingu á Melur Guesthouse, Suðurgötu 29a á Akranesi, en ákærði gisti á heimilinu frá 23. til 25. mars, en lét sig hverfa af gistiheimilinu án þess að greiða fyrir þjónustuna að morgni 25. mars 2018.Ha

 

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II. Þjófnaður

Með því að hafa lok júní og byrjun júlí 2018, stolið samtals 53.600 krónum úr afgreiðslukassa á veitinga- og skemmtistaðnum Götubarnum, Hafnarstræti 96 á Akureyri, en ákærði starfaði við ræstingar á staðnum eftir lokun. Ákærði stal 12.000 krónum, aðfaranótt 30. júní, 13.600 krónum aðfaranótt 1. júlí og 28.000 krónum, aðfaranótt 7. júlí.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

Ákærði hefur hreinan sakaferil. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sextíu daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Engan sakarkostnað leiddi af rekstri málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Marcin Sychowicz, sæti fangelsi í sextíu daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þess, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.