• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Bifreiðir
  • Hegningarauki
  • Skilorð
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. desember 2017 í máli nr. S-186/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Hafsteini Reykjalín Stefánssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var 18. desember, er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Norðurlandi eystra á hendur Hafsteini Reykjalín Stefánssyni, .....

Fyrri ákæra er gefin út 25. september 2017 og er fyrir

„eftirtalin fíkniefnalagabrot:

1. (Mál nr. 316-2017-5086)

Með því að hafa, miðvikudaginn 5. júlí 2017, verið með í vörslum sínum 0,98 grömm af amfetamíni, þar sem lögreglan hafði afskipti af honum í strætisvagni við veitingasöluna [Nætursöluna] við Strandgötu á Akureyri.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

II. (Mál nr. 316-2017-3719)

Með því að hafa, sunnudagskvöldið 4. júní 2017, verið með í vörslum sínum 0,05 grömm af amfetamíni og 0,52 grömm af maríhúana, þar sem lögreglan hafði afskipti af honum í [...] á Akureyri.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 35.146 og 35.438, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Síðari ákæra er gefin út 18. október 2017 og er

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 27. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist amfetamín 195 ng/ml, MDMA 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,8 ng/ml), suður Lundargötu á Akureyri og vestur Gránufélagsgötu þar sem lögregla stöðvaði akstur hans á móts við Vínbúðina.

Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er gerð sú krafa að ákærði sæti sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

Málin voru sameinuð. Af hálfu ákærða var ekki sótt þing við þingfestingu. Hafði honum þó verið birt fyrirkall þar sem tekið var fram að slík fjarvera hans kynni að verða metin til jafns við játningu hans á sakargiftum og að dómur yrði lagður á málið við svo búið. Málið var dómtekið að kröfu ákæruvaldsins. Gögn málsins veita ákærunum næga stoð. Með vísan til framanritaðs er ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimilda í ákærum.

 

Sakaferill ákærða er sá að hann var í febrúar 2009 dæmdur til greiðslu 95.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og fíkniefnalagabrot og var jafnframt sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Í september 2010 voru ákærða ákveðin viðurlög, 70.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot. Í júní 2013 var ákærði dæmdur til eins mánaðar fangelsisvistar og greiðslu 105.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot, en fullnustu fangelsisrefsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var ákærði hinn 21. október 2016 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, og greiðslu 340.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, 2. sbr. 3. mgr. 47. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, en ákærði ók án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, og fíkniefnalagabrot. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í þrjú ár frá 20. maí 2014 að telja. Í dóminum var fyrri skilorðsdómur dæmdur upp. Loks var ákærði hinn 18. júlí 2017 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 44., 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, fíkniefnalagabrot og tilraun til þjófnaðar. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í fjóra mánuði og dæmdur til greiðslu 194.000 króna sektar. Var um hegningarauka að ræða og með dóminum var skilorðshluti dómsins frá október 2016 dæmdur upp. Brot sín samkvæmt fyrri ákæru þessa máls framdi ákærði fyrir uppsögu dómsins 18. júlí og verður honum nú gerður hegningarauki. Með broti sínu samkvæmt síðari ákæru rauf ákærði skilorð þess dóms. Verður skilorðshluti dómsins nú tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Verður ákærða gert að sæta fangelsi í fimm mánuði en ákveðið að fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni verði frestað og falli hún niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð. Ákærða verður jafnframt gert að greiða 274.000 króna sekt í ríkissjóð en tuttugu daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Ákærði verður sviptur ökurétti ævilangt. Fallast ber á gerðar upptökukröfur. Loks ber að gera ákærða að greiða sakarkostnað málsins sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 165.030 krónum.

Eyþór Þorbergsson fulltrúi lögreglustjóra fór með málið af hálfu ákæruvaldsins. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Hafsteinn Reykjalín Stefánsson, sæti fangelsi í fimm mánuði. Fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 274.000 króna sekt í ríkissjóð en tuttugu daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 165.030 króna sakarkostnað málsins.

Upptæk eru gerð 1,03 grömm af amfetamíni og 0,52 grömm af maríhúana sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins.