• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. júlí 2018 í máli nr. S-93/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Herði Eydal

 

Mál þetta, sem var dómtekið 6. júlí sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 11. júní 2018, á hendur Herði Eydal, kt. [...], Akureyri,

 

„fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 3. febrúar 2018, stolið í verslun Hagkaupa að Furuvöllum 5 á Akureyri leikföngum (módelum af flugvélum, þyrlum og snjósleðum) og matvöru samtals að verðmæti 16.083 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Hagar hf., kt. 670203-2120, Hagasmára 1, Kópavogi gerir bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 16.083, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. febrúar 2018 til 5. júlí 2018 en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Þá er jafnframt krafist greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“

 

Ákærði hefur játað sakargiftir. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildar­ákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Refsing hans nú er ákveðin 30 daga fangelsi, skilorðsbundið eins og segir í dómsorði.

Ákærði hefur samþykkt bótakröfu sem er því tekin til greina að fullu. Ekki verður séð að bótakrefjandi hafi haft kostnað af rekstri málsins sem fellur undir málskostnað samkvæmt 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Enginn sakarkostnaður var af rekstri málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Hörður Eydal, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði bótakrefjanda, Högum hf., 16.083 krónur, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. febrúar 2018 til 5. júlí 2018 en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.