• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 26. nóvember 2018 í máli

nr. S-164/2018:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Jóhannesi Gunnarssyni og

Evu Björk Haraldsdóttur

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 16. október 2018, á hendur Jóhannesi Gunnarssyni, kt. 000000-0000, og Evu Björk Haraldsdóttur, kt. 000000-0000, báðum til heimilis að ..., Akureyri,

 

„fyrir þjófnað, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 23. desember 2017, brotist inn í söfnunargáma á vegum Rauða Krossins, við Viðjulund 2 á Akureyri og stolið úr gámunum ótilgreindu magni af fatnaði.

Brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærðu sóttu hvorugt þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að þeim fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærðu fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verða ákærðu sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Hvorugt ákærðu eiga sakaferil sem hefur áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Verða þau dæmd í 30 daga fangelsi hvort, og í báðum tilvikum skal fresta fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Engan sakarkostnað leiddi af rekstri málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Jóhannes Gunnarsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða, Eva Björk Haraldsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.