• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. apríl 2019 í máli nr. S-231/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Þorsteini Hafberg Hallgrímssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 11. september 2018, en endurflutt og dómtekið að nýju 25. mars sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 17. nóvember 2017, á hendur Þorsteini Hafberg Hallgrímssyni, [...],

 

„fyrir fíkniefna og vopnalagabrot:

I.

Með því að hafa þriðjudaginn 15. ágúst 2017, verið með í vörslum sínum á heimili sínu að [...] 74,74 gr. af maríhúana.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

II.

Með því að hafa sama dag verið með í vörslum sínum án leyfis loftskammbyssu af gerðinni Gamo P-23, en byssan fannst einnig á ofangreindu heimili ákærða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku þeim fíkniefnum, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 35.833, og munum sem lögreglu og ákæruvaldi þykir hætta á að verði notaðir við ræktun kannabisefna, en þeir hlutir eru; 9 stk. 600 w ballestir, 2 stk. blásari 115w, 1 stk. blásari, 9 stk. gróðurlampar með 600 w gróðurperum í, 1 stk. stór loftsía og 1 stk. loftsía og 150w blásari, fast saman.  Upptökukrafan er gerð með vísun til  6. mgr. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.  Með vísun til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, er gerð krafa um upptöku á haldlagðri loftskammbyssu.“

 

Ákærði krefst þess að honum verði gerð svo væg refsing sem lög leyfa. Hann samþykkir upptöku fíkniefna og loftskammbyssu en krefst þess að kröfu ákæruvalds um upptöku verðir hafnað að öðru leyti. Þá er gerð krafa um hæfileg málsvarnarlaun til handa verjanda, og að þau greiðist úr ríkissjóði.

 

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði hefur nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2003. Þann 18. janúar 2013 var hann dæmdur fyrir ýmis brot gegn hegningarlögum, vopnalögum og umferðarlögum til 15 mánaða fangelsisvistar, en 12 mánuðum refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var hann var dæmdur til greiðslu 60.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot þann 13. febrúar 2015, en skilorð látið haldast. Refsing ákærða nú er ákveðin 30 daga fangelsi. Ákærði játaði brot sitt fyrir lögreglu sama dag og það komst upp þann 15. ágúst 2017 og var ákæra gefin út í 17. nóvember sama ár. Meðferð málsins fyrir dómi hefur dregist án þess að ákærða verði um það kennt og verður refsing ákærða því bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði sæti upptöku á kannabisefni, loftskammbyssu og tilgreindum ræktunarbúnaði. Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins ásamt skipuðum verjanda sínum og samþykkti upptöku á kannabis og skotvopni, en mótmælti upptöku á ræktunarbúnaði. Að kröfu ákæruvalds og með vísan til samþykkis ákærða og tilgreindra ákvæða í ákæru skal ákærði sæta upptöku á 74,74 gr. af marijúana og loftskammbyssu sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Krafa ákæruvaldsins um upptöku ræktunarbúnaðarins byggist á 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt ákvæðinu má gera upptæka með dómi hluti sem hafa verið notaðir, ætlaðir eru til notkunar eða hætta þykir á að verði notaðir við framningu brots. Við þingfestingu málsins var bókað eftir ákærða að hann hefði farið yfir rannsóknargögn lögreglu og hefði engar athugasemdir við þau. Hann kaus að koma ekki aftur fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Meðal rannsóknargagna er skýrsla lögreglu þar sem umræddu risherbergi er lýst svo að það hafi verið innréttað nákvæmlega eins og tíðkanlegt er til ræktunar á kannabisplöntum. Í lofti hafi hangið níu skermar með gróðurlampaperum sem hafi verið tengdar níu ballestum sem hafi hangið á norðurvegg. Við þann vegg hafi tveir loftblásarar verið tengdir börkum sem lágu inn í stokk við vegginn. Við suðurvegg hafi einnig verið tveir loftblásarar og þeir tengdir loftsíum og börkum sem lágu upp í gegnum loftið. Inni í herberginu hafi verið mikill fjöldi uppstaflaðra blómapotta en engin ræktun. Meðal gagna eru einnig myndir af aðstöðunni. Er um að ræða lítið risherbergi þar sem gluggi er rækilega byrgður, auk þess sem veggir og loft eru að mestu þakin dúk. Á staðnum fundust tæplega 75 grömm af kannabisefni sem ákærði kvaðst eiga, hluti þess var í poka en einnig fundust knúppar í pappaöskju auk þess sem efni lá laust þar á borði. Í lögregluskýrslu kannaðist ákærði við að neyta kannabisefna en kvaðst hafa notað aðstöðuna til að rækta blóm og hafa ætlað sér að hefja ræktun bonsai trjáa. Þegar litið er til útbúnaðar herbergisins, þar á meðal þess að gluggi var byrgður þó alkunna sé að sólarljós gerir plöntum gott, og til þess að á staðnum voru tæp 75 grömm af marijúana í eigu ákærða, er það álit dómsins að framburður ákærða um að umrædd aðstaða hafi verið ætluð til ræktunar á blómum eða bonsai trjám sé ótrúverðugur. Verður fallist á með ákæruvaldinu að hætta þyki á að tilgreindur ræktunarbúnaður verði notaður framningar brots og er krafa um upptöku búnaðarins því tekin til greina, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 579.700 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, og ferðakostnaður hans 81.303 krónur. Að kröfu ákæruvalds og með vísan til úrslita málsins verður ákærða gert að greiða sakarkostnað, að undanskyldum þeim kostnaði sem kom til vegna endurflutnings málsins. Verður ákærði því dæmdur til að greiða alls 501.665 krónur í sakarkostnað, þ.e. 442.680 krónur af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns og 58.985 krónur af ferðarkostnaði hans. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Arnbjörg Sigurðardóttir settur héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómarinn tók við málinu þann 1. mars sl. en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði Þorsteinn Hafberg Hallgrímsson sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Gerð eru upptæk 74,74 grömm af marijúana, loftskammbyssa, níu 600 vatta ballestir, þrír loftblásarar, níu gróðurlampar með 600 vatta gróðurperum, ein stór loftsía, og loftsía og loftblásari föst saman, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 501.665 krónur í sakarkostnað, þ.e. 442.680 krónur í málsvarnar­laun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns og 58.985 krónur í ferðakostnað hans. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.e. 137.020 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, og 22.318 krónur í ferðakostnað hans.