• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 1. júní 2018 í máli nr. S-65/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Hönnu Stellu Georgsdóttur

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið í gær, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 2. maí sl., með ákæru á hendur Hönnu Stellu Georgsdóttur, kt. ..., án skráðs heimilis,

,,fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 20. október 2017, í versluninni Púkanum að Hafnarstræti 101 á Akureyri, stolið svartri DC peysu að andvirði kr. 14.990.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærða sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að henni fjarstaddri, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærðu fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærða hefur nú ítrekað auðgunarbrot og rofið skilorð. Hún var dæmd þann 12. júní 2017 í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni. Þann 22. febrúar sl. var hún dæmd til að greiða sekt að fjárhæð 390.000 krónur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og að lokum 26. mars sl. í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár og til greiðslu sektar að fjárhæð 180.000 krónur og svipt ökurétti í fjóra mánuði fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorðsdómurinn frá 12. júní 2017 þá dæmdur upp.

Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber nú að taka skilorðsdóminn frá 26. mars upp og dæma ákærðu refsingu í einu lagi eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga um hegningarauka. Ákveðst refsingin fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærða dæmd til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns eins og hún ákveðst í dómsorði, virðisaukaskattur meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Hanna Stella Georgsdóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Ákærða greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Júlíar Óskar Antonsdóttur lög­manns, 84.320 krónur.