• Lykilorð:
  • Lögmannsþóknun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 25. janúar 2018 í máli

nr. E-96/2016:

 

Lögmannsstofa SS ehf.

(Árni Pálsson lögmaður)

gegn

Gesti Frey Stefánssyni

(Andrés Már Magnússon lögmaður)

 

Mál þetta var dómtekið 27. júní sl., endurupptekið og dómtekið á ný 10. janúar sl. Það var höfðað 11. maí 2016.

Stefnandi er Lögmannsstofa SS ehf., Hamraborg 10, Kópavogi.

Stefndi er Gestur Freyr Stefánsson, Tjarnarlundi 7a, Akureyri.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 963.480 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 18. maí 2016 til greiðsludags.

Stefndi krefst sýknu, en til vara þess að kröfur verði lækkaðar verulega.

Hvor um sig krefst málskostnaðar úr hendi hins.

 

I

Bú stefnda og Hjördísar Önnu Helgadóttur var tekið til opinberra skipta 25. febrúar 2015, til fjárslita milli þeirra vegna sambúðarslita. Sveinbjörn Sveinbjörnsson lögmaður gætti hagsmuna stefnda, bæði í aðdraganda skiptanna og við þau. Skipta­stjóri var skipaður Einar Sigurjónsson lögmaður. Hann hélt marga skiptafundi uns samkomulag var gert um skipti þann 18. desember 2015. Skiptagerð er dagsett 4. janúar 2016.

Þann 18. febrúar 2016 gerði stefnandi stefnda reikning vegna vinnu lögmanns. Var hann miðaður við 42 unnar stundir á 18.500 krónur hverja. Er reikningsfjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti hin sama og stefnufjárhæð. Stefndi hefur ekki greitt reikninginn.

 

II

Stefnandi segir kröfu sína byggjast á reikningi vegna vinnu Sveinbjörns Svein­björnssonar lögmanns í þágu stefnda. Hann hafi m.a. mætt á samtals 14 skiptafundi, unnið að samkomulagi, verið í samskiptum við stefnda o.fl. Hann kveðst byggja á reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og reglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.

 

III

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína aðallega á því að ráðgjöf lögmannsins hafi verið röng og valdið sér skaða. Hafi lögmaðurinn miðað, að því er virðist, við að skipta ætti til helminga, þrátt fyrir að skipt hafi verið við sambúðarslit. Telur stefndi að skipta hefði átt á annan veg en gert var, en lögmaðurinn hafi ekki hlustað á það. Þó hafi lögmaðurinn krafist þess á fyrsta skiptafundi að fasteign yrði skipt til helminga, en aðilar skiptanna héldu að öðru leyti þeim eignum sem skráðar væru á þá. Síðar í ferlinu hafi lögmaðurinn gengið hart að stefnda að gera samkomulag um skipti og sagt að það þyrfti að forðast það að skiptastjóri tæki ákvarðanir eða að ágreiningsmál yrði rekið fyrir dómstólum. Telur stefndi þetta ranga ráðgjöf og að lögmaðurinn hefði átt að ráðleggja stefnda að láta skera úr ágreiningi um hlutdeild í eignamyndun. Hefði niðurstaða dómsmáls vart getað orðið verri en samkomulagið. Með því að ráðleggja stefnda að gera samkomulag og eyða að því er virðist 16 vinnustundum í gerð þess, sem og með öðrum röngum ákvörðunum eða ráðleggingum hafi stefnandi valdið stefnda tjóni og eigi hann því ekki rétt á þóknun vegna vinnu sinnar.

Þá kveðst stefndi byggja á því að lögmaðurinn hafi ekki haft umboð til að taka veigamiklar ákvarðanir á skiptafundum.

Þá segir stefndi að krafan sé of há og ekki í samræmi við umfang verksins eða niðurstöðu þeirrar vinnu sem lögmaðurinn eigi að hafa unnið fyrir stefnda. Samkvæmt gögnum skiptastjóra hafi aðeins verið haldnir 7 skiptafundir, en samkvæmt yfirliti stefnanda hafi þeir verið 14. Þá sé samkomulagið aðeins ein blaðsíða og kveðst stefndi ekki geta fallist á að lögmaðurinn hafi þurft að verja 16 vinnustundum til gerðar þess.

Þá segir stefndi að engar tímaskýrslur hafi fylgt reikningi. Samantekt sem liggi frammi í málinu beri þess augljós merki að hafa verið gerð eftir á.

 

IV

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sveinbjörn Sveinbjörnsson hdl. gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þá gaf stefndi aðilaskýrslu fyrir dómnum.

Fyrirsvarsmaður stefnanda kveðst hafa þekkt stefnda og tekið að sér að gæta hagsmuna hans við sambúðarslit. Fyrst hafi verið deilt um forræði og óvissa hafi verið um faðerni. Þetta hafi tekist að leysa. Eignir hafi verið metnar. Ekki hafi tekist samkomulag og konan hafi krafist opinberra skipta. Samist hafi um að stefndi leysti til sín eignir, en hann hafi ekki fengið fyrirgreiðslu til þess. Síðan hafi gengið tilboð á víxl og loks tekist samkomulag.

Fyrirsvarsmaðurinn kveðst ekki hafa gert stefnda að greiða alla þá tíma sem hann hafi unnið, sérstaklega hafi hann sleppt símtölum, sem hann hafi átt mörg við stefnda.

 

V

Í málinu liggur yfirlýsing skiptastjóra í tölvupósti um að skiptafundir hafi verið 13 og einnig hafi farið fram óformleg samskipti milli funda. Þá lýsir lögmaður Hjördísar Önnu því yfir í tölvupósti að hún hafi gert skjólstæðingi sínum að greiða fyrir 39,25 vinnustundir. Að þessu gættu verður ekki talið sýnt að reikningur stefnanda sé úr hófi fram. Þá er ljóst að stefndi ákvað sjálfur að fallast á að skiptum yrði lokið með þeim hætti sem gert var. Blasir alls ekki við að sú ákvörðun hafi verið honum óhagstæðari en að taka þann kost að reka ágreiningsmál um skiptin fyrir dómstólum.

Að þessu gættu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina með vöxtum eins og krafist er. Málskostnaður ákveðst 750.000 krónur.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Gestur Freyr Stefánsson, greiði stefnanda, Lögmannsstofu SS ehf., 963.480 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 frá 18. maí 2016 til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað.