• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Fésekt
  • Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 26. janúar 2018,  í máli

nr. S-207/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Braga Þór Péturssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 8. janúar síðastliðinn, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 16. október 2017, á hendur Braga Þór Péturssyni, kt. 000000-0000, …;

„fyrir eignaspjöll með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. janúar 2017, farið inn í anddyri fjölbýlishússins að V… á Akureyri og sparkað í póstkassa sem tilheyrði íbúð nr. 000, með þeim afleiðingum að framhlið póstkassans brotnaði frá kassanum og botninn í honum rifnaði. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar“.

Ákærði krefst sýknu.

I

Lögregla var kvödd að V…, Akureyri, aðfaranótt 22. janúar 2017.  Hitti hún þar fyrir A sem tilkynnt hafði um skemmdarverk.  Samkvæmt frumskýrslu lýsti hann því svo að skömmu áður hefði hvítri Mercedes Benz bifreið, með skráningarnúmerið AA-000 verið ekið inn á bifreiðastæðið við fjölbýlishúsið.  Út hefði komið dökkhærður karlmaður, sem vitnið sagðist halda að héti Bragi Þór, gengið að anddyrinu, sparkað í einn póstkassann og eyðilagt hann. Í framsæti bifreiðarinnar hefði setið B.  Lögregla hafði afskipti af ákærða og B skömmu síðar og könnuðust þau ekki við neitt.  Tjónþoli, C, kærði eignaspjöllin og krafðist þess að sakamál yrði höfðað.

Notandi póstkassans mun hafa verið D, sem leigði íbúð í húsinu af C.  D mun hafa verið búin að taka upp samband við barnsföður B.  Vinskapur var með B og ákærða.

II

Fyrir dómi gáfu skýrslur ákærði, A, C og B.

Ákærði kvaðst hafa farið í kvikmyndahús þetta kvöld og síðar á skemmtistað.  Hann kvaðst vita hvar V… væri og hafa vitað að þar byggi D.

Vitnið A ber að hafa séð ákærða koma og fara út úr bifreiðinni.  Hann kveðst hafa heyrt sparkað og ókvæðisorð frá ákærða.  Hann hafi þá farið niður og séð póstkassann í henglum.

Ekki þykir sérstaklega þurfa að rekja vitnisburð vitnisins C.

Vitnið B ber að hafa verið í bíó með ákærða og síðar um nóttina á tiltekinn skemmtistað.  Þau hafi ekki farið að V….

III

Framburður vitnisins A hefur verið skýr og stöðugur frá öndverðu.  Þykir ekki breyta neinu þótt fyrrnefnd D muni vera barnsmóðir mágs hans.  Þegar þess er gætt að vitnið B er vinkona ákærða og er barnsmóðir unnusta D, þykir ekki á framburði hennar byggjandi.  Verður niðurstaða byggð á framburði A og ákærði sakfelldur fyrir þann verknað sem í ákæru er lýst, en rétt er að taka fram að ákæruvaldið leiðrétti ákæru á þann veg við aðalmeðferð málsins að póstkassinn hafi verið utan á húsinu en ekki í anddyri.

Brot ákærða varðar við tilgreint refsiákvæði í ákæru.  Sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar, sem ákvarðast sekt að fjárhæð 50.000 krónur.  Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og ferðakostnað eins og greinir í dómsorði, hvort tveggja að virðisaukaskatti meðtöldum.

Erlingur Sigtryggsson dómsstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Bragi Þór Pétursson, greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í fjóra daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 274.040 krónur og ferðakostnað hans að fjárhæð 47.275 krónur.