• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2017 í máli

nr. S-224/2016:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Sigurði Kristjáni Grímlaugssyni

(Snorri Sturluson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 25. október, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 10. október 2016, á hendur Sigurði Kristjáni Grímlaugssyni, kt. ..., Mýrarseli 9, Reykjavík,

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. maí 2016, fyrir utan veitinga- og skemmtistaðinn Kaffi Amor við Ráðhústorg á Akureyri slegið [A], hnefahögg í andlitið og síðan tekið um höfuð hans og beygt það niður og um leið rekið hnéð í andlit hans og síðan eftir að hann féll í jörðina kýlt hann í andlitið aftur og sparkað í líkama hans liggjandi. Afleiðingar þessa fyrir brotaþola var [sic] að hann hlaut 7 sentimetra langan skurð frontopariealt hægra megin á höfuð, 1 sentimetra langan skurð vinstra megin við miðlínu á höfði rétt ofan hárlínu, bólgu yfir lateralt malleolus (ökla).

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst þóknunar úr ríkissjóði.

 

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning kl. 03:34 hinn 15. maí 2016 um að sjúkrabifreið væri á leið að Ráðhústorgi á Akureyri vegna manns sem hefði dottið. Lögregla hefði verið stödd skammt frá og farið á staðinn. Á Ráðhústorgi hefði hún ekki orðið vör við neinn meiddan mann og hefði enginn gefið sig á tal við hana. Hafi lögregla síðan þurft frá að hverfa vegna annarra verkefna. Skömmu síðar hafi verið haft samband við lögreglu og tilkynnt að sjúkraflutningmenn hefðu fundið mann með áverka á höfði sem nokkuð hefði blætt úr. Þá hefði maðurinn verið skólaus á öðrum fæti og kvartað undan verk í fætinum.

Segir næst af því í skýrslunni að lögregla hafi farið á slysadeild og hitt þar A, brotaþola í máli þessu, sem þar hafi legið í sjúkrarúmi. Hann hefði verið nokkuð ölvaður og sagt svo frá að hann hefði lent í slagsmálum í miðbænum. Þar hefði verið „einhver strákur að böggast eitthvað í honum og búinn að vera að því í einhvern tíma.“ A hefði „gefið honum einn léttan á hann“ en svo hefðu „þrír eða hann vissi ekki hversu margir“ sem hefðu „ráðist á [A]. Það hafi endað eins og [A] væri núna. Þetta hafi gerst niðri í bæ. Hann sagðist hafa þekkt einn af þessum aðilum, það væri Sigurður Kristján, Krissi litli.“ Er haft eftir brotaþola að hann hafi séð lítið en verið kýldur nokkuð. Hann myndi til þess að sparkað hefði verið í höfuð sitt. Svo segir í skýrslunni: „[A] sagði svo að Sigurður Kristján hefði sparkað í hann. Sigurður [svo] sagði að einhver hefði hrint honum og hann væri að drepast í fætinum.“ Jafnframt er í skýrslunni haft eftir brotaþola að hann þekki ekki „þennan sem að hann hafi verið að böggast í og lamið en hann sagðist þekkja Sigurð Kristján með.“ Loks segir í skýrslunni að brotaþoli hafi verið með áverka á hægri hlið höfuðs. „Sáum skurð sem virtist hafa blætt nokkuð úr en hár [A] var mikið útatað í blóði. Hann virkaði bóginn á hægri fæti. [A] var að bíða eftir að vera fluttur í röntgen.“ Samkvæmt annarri lögregluskýrslu, dags. 18. maí 2016, kom brotaþoli á lögreglustöðina þann dag og kærði líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir „fyrir framan Kaffi Amor snemma á sunnudagsmorgun, eftir að búið var að loka Kaffi Amor.“ Í skýrslunni er haft eftir honum að hann viti ekki hver hafi lamið sig fyrst en hann muni eftir að einhver hafi sparkað í höfuð sitt þegar hann hafi legið á jörðinni. Muni hann svo ekki frekar eftir atvikum fyrr en hann hafi verið „dreginn inn á Kaffi Amor og síðan þegar verið var að fara með hann upp í sjúkrabifreiðina.“ Hann muni ekki hve margir árásarmennirnir hafi verið en hafi heyrt að þeir hafi verið þrír.

 

B gaf skýrslu hjá lögreglu 20. júlí 2016. Í skýrslunni er meðal annars haft eftir henni: „Þetta gerðist allt mjög hratt. Var í bænum við Ráðhústorgið á móti Kaffi Amor að bíða eftir að fara heim. Strákarnir, A, Sigurður Kristján og fleiri stóðu allir stutt frá okkur. Ég leit af þeim í smá stund og þegar ég leit aftur til þeirra þá sá ég hvar Sigurður Kristján kýldi [A]. Einnig sá ég þegar Sigurður greip í höfuðið á [A], þrýsti því niður og setti hnéð á sér í andlitið á honum. Síðan hljóp A að Kaffi Amor þar sem Sigurður sparkaði hann hann niður. Þá komu fleiri strákar hlaupandi, sem ég veit ekki hverjir eru, og spörkuðu í [A], ásamt Sigurði, þar sem hann lá á jörðinni en Sigurður hljóp síðan í burtu. Þá kom starfsfólk Kaffi Amor og fóru með [A] inn á staðinn og allir létu sig hverfa.“ Í skýrslunni er einnig haft eftir B að hún þekki ákærða, þau séu kunningjar sem heilsist á götu en ekki meira en það. Hún viti hver brotaþoli sé en þekki hann ekki.

 

Í málinu liggur áverkavottorð frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, undirritað af C, dags. 24. maí 2015 [sic]. Í vottorðinu segir að brotaþoli hafi verið fluttur til skoðunar á bráðamóttöku sjúkrahússins aðfaranótt 15. maí 2016. Við skoðun hafi hann verið skýr og áttaður, ölvaður og hafi getað gefið skýra sögu um atburði. Ekki hafi verið grunur um meðvitundarmissi. Brotaþoli hafi verið með um 7 cm langan skurð frontoparietalt hægra megin á höfði og einnig um 1 cm langt sár rétt vinstra megin við miðlínu á höfði, rétt ofan hárlínu. Aumur við þreifingar í kring um sárin. Taugaskoðun hafi verið eðlileg. Brotaþoli hafi kvartað undan verkjum í hægri ökkla. Við skoðun hafi verið talsverð bólga yfir lateral malleous og á svæðinu þar neðan við. Brotaþola hafi verkjað við alla þreifingu og hafi einnig verið hvellaumur við þreifingu á svæðinu. Tölvusneiðmynd hafi ekki sýnt merki um blæðingar eða brot. Röntgenmynd af hægri ökkla hafi ekki sýnt brot. Saumuð hafi verið 6 spor í staðdeyfingu. Brotaþoli hafi fengið umbúðir og ráðleggningar og svo verið útskrifaður heim. Í lok vottorðsins er gefið það álit að brotaþoli hafi fengið sár á höfði, sem þurft hafi að sauma, og tognað á ökkla. Sárin grói á stuttum tíma.

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvaðst hafa verið á Akureyri á umræddum tíma en ekki í miðbænum. Sérstaklega spurður kvaðst hann ekki hafa verið fyrir utan Kaffi Amor við Ráðhústorg þessa nótt. Hann hefði ekki slegið brotaþola og kvaðst ekki vita hver maðurinn væri. Hann hefði ekki lent í neinum átökum á Akureyri þessa nótt og ekki síðan á yngri árum.

Ákærði kvaðst ekki hafa skýringu á því að vitni segðu að þau hefðu séð hann á vettvangi. Hann kvaðst enga skýringu hafa á því að brotaþoli hefði sagt ákærða hafa slegið sig.

Ákærði kvaðst ekki ganga undir nafninu „Krissi litli“.

 

Brotaþoli sagði að það síðasta sem hann myndi frá atburðarásinni væri að hann sjálfur væri „að tala við Sigurð Kristján og svo rankaði ég bara við mér uppi á sjúkrahúsi.“ Myndi hann eftir því síðast, fyrir sjúkrahúsið, að hann væri að taka „í spaðann“ á ákærða. Hann sagðist ekki muna hvort fleiri hefðu verið með ákærða.

Brotaþoli sagðist hafa þekkt „Sigurð Kristján“ fyrir þessa atvik.

Brotaþoli sagði framburð sinn hjá lögreglu, þess efnis að hann hefði lent í slagsmálum og meðal annars gefið einhverjum stráki „einn léttan á hann“, hafa verið endursögn þess sem sér hefði verið sagt. Sjálfur vissi hann ekki hvort frásögnin væri rétt eða röng.

Brotaþoli sagðist muna eftir því að sparkað hefði verið í höfuð sitt en ekki vita hver það hefði gert.

 

Vitnið B sagðist lítið muna frá atburðum, annað en að „mikil læti“ hefðu orðið. Einhver hefði verið sleginn. Ákærði hefði verið „þarna einhvers staðar“ á vettvangi en spurð hvort hann hefði slegið manninn kvaðst vitnið ekki muna það.

Vitnið sagðist muna eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og spurt hvort það, sem þar kæmi fram, væri rétt, svaraði vitnið: „Það ætti náttúrulega að vera það, ég man þá allt, það var svo stutt síðan þá.“ Vitnið sagðist hafa setið á bekk við Ráðhústorgið, „eiginlega bara svona beint á móti Amor“, en tók svo fram nánar spurt að það væri „ekkert alveg með staðsetninguna alveg á hreinu hvar nákvæmlega“ það hefði verið.

Vitninu var sýnd skýrsla eftir framburði þess hjá lögreglu. Vitnið kvaðst muna „alveg raunverulega eftir að hafa sagt þetta en [...] ég  sé þetta ekki fyrir mér, eða [...] nákvæmlega hvað gerðist.“ Vitnið kvaðst telja rétt eftir sér haft.

 

Vitnið D lögregluþjónn sagðist hafa verið á vakt umrædda nótt. Það sagðist hafa séð ákærða í miðbænum þá um nóttina, einhvern tíma frá miðnætti til klukkan fjögur um morguninn. Vitnið sagðist hafa kynnzt ákærða árið 2010 vera alveg visst um að hafa séð hann umrædda nótt.

Vitnið sagði lögreglu hafa rætt við brotaþola á slysadeildinni og hefði hann þá nafngreint ákærða. Brotaþoli hefði einnig kallað ákærða „Krissa litla“, en það nafn hefði vitnið ekki heyrt áður um hann. Brotaþoli hefði verið „skýr að tala“.

 

Vitnið E sagðist muna „bara eftir því að hafa séð Sigurð Kristján ráðast á [A] og alveg bara berja hann vel“. Sagðist vitnið vera „alveg hiklaust“ visst um að það hefði verið ákærði sem þetta hefði gert. Ákærði hefði komið „hlaupandi bara yfir götuna og bara gefur honum strax hnéspark í andlitið og svo bara lét hann höggin dynja á hann.“ Þetta hefði verið fyrir utan Kaffi Amor, nánast við útidyrnar. Vitnið kvaðst hafa staðið „þar sem að bekkirnir eru, [...] kannski fimm, sjö skrefum frá, eða eitthvað.“ Lýsing í ákæru á þeirri háttsemi, sem ákærða er gefin að sök, var kynnt vitninu. Vitnið sagðist hafa séð alla þá atburðarás.

Vitnið sagði að „á eftir, þegar hann er búinn“, hefðu tveir aðrir menn komið hlaupandi að og einnig sparkað í brotaþola.

Vitnið sagðist hafa þekkt brotaþola í mörg ár. Þau væru kunningjar. Vitnið sagðist hafa vitað nafn ákærða áður og vitað hver hann væri.

Vitnið las yfir skýrslu sem það gaf hjá lögreglu og sagði rétt eftir sér haft.

Vitnið sagði brotaþola ekkert hafa gert á hlut ákærða.

 

Vitnið C læknir staðfesti vottorð sitt.

 

Niðurstaða

Með staðfestu vottorði sjúkrahússins á Akureyri er sannað að brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild umrædda nótt og þá verið með þá áverka sem greindir eru í vottorðinu.

Í málinu liggur upptaka úr eftirlitsmyndavél. Var hluti upptökunnar sýndur við aðalmeðferð málsins. Er upptakan ekki skýr og þykir engum úrslitum ráða í málinu.

Í málinu er umdeilt hvort ákærði hafi verið á vettvangi. Sjálfur segist hann ekki hafa verið í miðbæ Akureyrar þessa nótt. Nokkur vitni báru um að hafa séð ákærða í miðbænum. Brotaþoli sagðist muna það síðast, fyrir árásina á sig, að hann hefði verið að tala við ákærða. Lögregluþjónninn D sagði engan vafa á að hann hafi séð ákærða í miðbænum um nóttina. E sagðist hafa séð ákærða fyrir utan Kaffi Amor og þar hefði hann látið höggin dynja á brotaþola. Hjá lögreglu sagðist B hafa séð ákærða ráðast á brotaþola við Ráðhústorgið og Kaffi Amor. Fyrir dómi kvaðst hún lítið muna eftir atvikum en muna þó eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og telja að þá hefði hún munað betur. Þegar horft er á framburð brotaþola, D og E þykir ákæruvaldið hafa fært styrka stoð undir að ákærði hafi í raun verið á vettvangi. Skýrslugjöf hjá lögreglu verður ekki jafnað við skýrslugjöf fyrir dómi en meta verður framburð B hjá lögreglu í ljósi þess sem hún bar fyrir dómi. Skýrslugjöf hennar hjá lögreglu verður þannig talin til styrktar því að ákærði hafi verið í miðbænum umrædda nótt. Ekkert hefur komið fram í málinu, annað en framburður ákærða, sem bendir til að hann hafi í raun verið annars staðar. Verður í ljósi alls þessa að miða við að hann hafi í raun verið í miðbæ Akureyrar, þar á meðal við Ráðhústorgið og veitingastaðinn Kaffi Amor umrædda nótt, þótt ekki verði slegið föstu hversu lengi hann hafi verið þar.

Brotaþoli bar að það síðasta sem hann myndi, fyrir árásina, væri að hann væri að tala við ákærða. E sagðist hafa séð ákærða bæði sparka í og kýla brotaþola. Skýrsla B hjá lögreglu, að teknu tilliti til skýrslu hennar fyrir dómi, er ákærunni til stuðnings. Þegar á allt þetta er horft verður að telja sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi í raun kýlt brotaþola og sparkað í hann eins og í ákæru segir. E sagði fyrir dómi að aðrir menn hefðu fylgt í kjölfar ákærða og sparkað í brotaþola og sama sagði B hjá lögreglu. Í ljósi þessa verður ekki slegið föstu að allir þeir áverkar sem brotaþoli hlaut hafi komið til af völdum ákærða. Það breytir ekki því að með háttsemi sinni braut ákærði gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í ákæru.

Ákærði var í febrúar 2016 dæmdur til greiðslu 140.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í eitt ár. Hann var í desember 2016 dæmdur til greiðslu 130.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot. Ákærði var í marz 2017 dæmdur í tíu mánaða fangelsi en fullnustu sjö mánaða frestað skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Dóminum hefur verið áfrýjað. Loks var ákærði hinn 31. maí 2017 dæmdur til greiðslu 240.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og var refsing hans ákveðin sem hegningarauki. Það brot sem hann er sakfelldur fyrir nú framdi hann fyrir uppsögu þriggja síðaströktu dómanna og verður refsing hans nú ákveðin sem hegningarauki. Skilorðshluti dómsins sem kveðinn var upp í marz 2017 verður nú tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, alls átta mánaða fangelsi. Ákærða hefur ekki áður verið gerð refsing fyrir líkamsárás. Hann var ungur að árum þegar hann framdi brot sitt. Ákveðið verður að fullnustu refsingar hans verði frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Fyrirhugað var að ljúka aðalmeðferð málsins á einum degi en að ósk ákæruvaldsins var  svo ekki gert, en henni fram haldið síðar til frekari vitnaleiðslu. Þykir rétt að vegna þessa greiði ríkissjóður hluta sakarkostnaðar svo sem nánar greinir í dómsorði og eru málsvarnarlaunin þar ákveðin með virðisaukaskatti. Ákærða verður gert að greiða af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar hdl., 424.080 krónur með virðisaukaskatti, 46.200 króna ferðakostnað lögmannsins og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 29.400 krónum. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Eyþór Þorbergsson fulltrúi fór með málið af hálfu ákæruvaldsins.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Sigurður Kristján Grímlaugsson, sæti fangelsi í átta mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 424.080 krónur af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar hdl., 46.200 króna ferðakostnað hans og 29.400 króna annan sakarkostnað.

Úr ríkissjóði greiðist 84.320 krónur af málsvarnarlaunum verjanda ákærða og 46.200 króna ferðakostnaður verjandans.