• Lykilorð:
  • Skilorð
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 1. febrúar 2018 í máli

nr. S-260/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Móniku Atladóttur

 

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 29. desember 2017 með ákæru á hendur Móniku Atladóttur, kt. ..., Strandgötu 33, Akureyri;

„fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 23. desember 2017, í versluninni Lindex í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri, stolið svörtum nærbuxum að verðmæti 1.249 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostn­aðar.“

Ákærða sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að henni fjarstaddri, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breyt­ingum að leggja dóm á málið að ákærðu fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viður­lögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Sá hluti sakaferils ákærðu sem hér skiptir máli felst í því að þann 24. nóvember 2015 var hún dæmd til greiðslu 60.000 króna sektar, en ákvörðun refsingar að öðru leyti frestað skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga og lögum um ávana- og fíkniefni. Skilorðshluti dómsins var dæmdur upp 7. júní 2017 er ákærða var dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn umferðar­lögum.

Refsing ákærðu ákveðst fangelsi í mánuð, skilorðsbundið eins og segir í dóms­orði.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Mónika Atladóttir, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.