• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð
  • Skilorðsrof

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 30. maí í máli

nr. S-54/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

Elínu Þórdísi Heiðarsdóttur

(Ingvar Þóroddsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 17. maí, höfðaði héraðssaksóknari hér fyrir dómi þann 22. mars sl.  með ákæru á hendur Elínu Þórdísi Heiðarsdóttur, ..., Akureyri;

fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 2. ágúst 2017, á Sjúkrahúsinu á Akureyri við Eyrarlandsveg, slegið [A], sem var við skyldustörf sem hjúkrunarfræðingur, með flötum lófa hægra megin í andlit, með þeim afleiðingum að hún hlaut af þreifieymsli yfir gagnaugasvæði hægra megin í andliti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu [A], er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000.- krónur auk vaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, 2. ágúst 2017, og fram til 2. nóvember 2017, en frá þeim degi að viðbættum dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að hin ákærða verði dæmd til að greiða [A] lögmannsþóknun við að halda fram bótakröfu þessari, en áskilinn er réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning fyrir dómi.“

 

Gerð var dómsátt um bætur við þingfestingu málsins.

Ákærða hefur komið fyrir dóm og játað sök. Með játningu hennar, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærða hefur lagt fram gögn um að hún hefur átt við veikindi að glíma og jafnframt að hún hefur lagt sig fram um að leita sér lækningar. Þá hefur hún samið um greiðslu bóta og kveðst iðrast verksins mikið. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar.

Þann 30. nóvember 2017 var ákærða dæmd í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ber nú að taka skilorðsdóminn upp, sbr. 60. gr. sömu laga og dæma refsingu í einu lagi eftir reglum 77. gr. laganna. Refsing ákærðu ákveðst samkvæmt þessu fangelsi í þrjá mánuði, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og greinir í dómsorði.

Ákærða verður dæmd til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, sem ákveðst eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Elín Þórdís Heiðarsdóttir sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Ákærða greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 182.764 krónur.