• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 27. apríl 2018, í máli

nr. S-32/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Mariusz Ignatowicz                                     

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 17. apríl sl., er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara, útgefinni 19. febrúar 2018, á hendur Mariusz Ignatowicz, kt. 000000-0000, …, Akureyri, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 29. október 2016, fyrir utan skemmtistaðinn Pósthúsbarinn, Hafnarstræti 102 á Akureyri hrint X þannig að hann féll í götuna og þá ítrekað sparkað í og/eða traðkað á höfði X, með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka á höfði fyrir ofan vinstra eyra, hrufl og mar hægra megin á enni, gagnauga og kinnbeini og sár og skrámur víðsvegar um líkamann.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 4. apríl 2018 og var það birt  á lögheimili ákærða 12. sama mánaðar og var þess getið í fyrirkallinu að sækti ákærði ekki þing kynni fjarvera hans að vera metin til jafns við viðurkenningu á því að hafa framið umrætt brot.

Þar sem ákærði sótti ekki þing var málið dómtekið að kröfu fulltrúa ákæruvalds, með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008. 

Þykir mega jafna framangreindri útivist ákærða til játningar hans með vísan til ofangreindrar lagagreinar, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins.  Telst brot ákærða því nægilega sannað. Með hliðsjón af því að ákærði sparkaði ítrekað í höfuð brotaþola er fallist á með ákæruvaldi að heimfæra beri brotið undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun í máli þessu.

Í máli þessu er ákærði dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás og þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins,  haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærða ber að greiða sakarkostnað sem nemur 29.400 krónum samkvæmt yfirliti sækjanda.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Mariusz Ignatowicz, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 29.400 krónur.