• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 4. júní 2018 í máli

nr. E-185/2017:

Guðrún Elísabet Víglundsdóttir

(Ásmundur Jónsson lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað 9. október 2017.  Stefnandi er Guðrún Elísabet Víglundsdóttir, Hrannarbyggð 10, Ólafsfirði.  Stefnda er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða sér 1.740.060 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 13. september 2011 til 6. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda krefst þess að verða sýknað af öllum kröfum stefnanda og máls­kostnaðar, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar með vísan til sakarskiptingar og málskostnaður felldur niður.

 

I

Þann 13. september 2011 féll stefnandi um grind úr steypujárni, svokallaða járnamottu, sem lá á bifreiðastæði á lóð Hrannarbyggðar 18 í Ólafsfirði.  Slysið varð að kvöldi til, milli kl. 21 og 21:30 og var stefnandi ásamt eiginmanni sínum fótgangandi á leið í heimsókn til dóttur þeirra, sem býr að Hrannarbyggð 18.  Á þessum tíma stóðu yfir framkvæmdir í götunni þar sem verið var að endurnýja gangstéttir.  Verktaki var GJ smiðir ehf., sem var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi.  Undirverktaki var Smári ehf.  Samhliða endurnýjun gangstéttar var verið að endurnýja raflagnir og ljósastaura og var Smári ehf. verktaki við það verk.  Vegna þessa var götulýsing engin.  Dómkvaddir matsmenn, Guðmundur Björnsson læknir og Sigurður R. Arnalds hæstaréttarlögmaður mátu varanlegan miska stefnanda vegna slyssins vera 17 stig, en varanlega örorku enga.

Stefnandi kveðst byggja á því að GJ smiðir ehf. beri fulla skaðabótaábyrgð á slysinu samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglu, reglu um vinnuveitandaábyrgð og reglum um nafnlaus mistök.  Tjón stefnanda skuli því bætt samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum og kveðst stefnandi byggja á því að hún eigi fullan bótarétt vegna þess líkamstjóns er hún hafi orðið fyrir í slysinu.  GJ smiðir ehf. hafi verið með í gildi frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda og sé stefnda því einu stefnt, sbr. heimild í 1. mgr. 44. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

Enginn starfsmanna Smára ehf. eða GJ smiða ehf. kannaðist við að hafa sett steypujárnsgrindina inn á bifreiðastæðið við Hrannarbyggð 18.  Við frekari rannsókn lögreglu sem gerð var að ósk stefnda árið 2013, kom fram að tveir starfsmenn sögðu að þeir hefðu skilið við grindina reista upp við runna við gangstéttina, sunnan og austan megin við bifreiðastæðið.  Starfsmaður Smára ehf. kvaðst hafa reist mottuna upp við runnann og taldi útilokað að hún hefði getað fallið þaðan sjálf inn á bifreiðastæðið.  Taldi hann langlíklegast að starfsmenn GJ smiða ehf. hefðu fært hana.  Fyrirsvarsmaður GJ smiða ehf. sagði ekki vera neitt sérstakt verklag varðandi járnamottur, en reynt væri að geyma þær þannig að sem minnst hætta stafaði af.  Í þessu tilviki hefðu járnamotturnar verið geymdar annars staðar, dagskammtur verið tekinn með og geymdur á túninu við austurenda Hrannarbyggðar.  Í lögregluskýrslu aðalvarðstjóra segir: ,,Engar sjáanlegar öryggisgirðingar voru á þessum stað þegar slysið varð.  Það má vera að einhvers staðar við götuna hafi verið einhverjar girðingar en búið var að fjarlægja alla gangstéttina við götuna að norðan, líklega á um 250-300 metra kafla og sums staðar voru holur sem grafnar höfðu verið.  Unnið var við að setja upp ljósastaura og steypa nýja gangstétt og því var allt ljóslaust í götunni.  Ég hefði myndað öryggisgirðingarnar hefðu þær verið til staðar. Fram hefur komið hjá starfsmönnum að steypujárnið sem lá á bílaplaninu og [stefnandi] datt um, hafði fyrr um daginn verið reist upp við garðinn (runnana) vestan við bílaplanið að utan í sandinn þar sem stéttin var, en enginn gat sagt til um það hvernig járnagrindin hafði komist inn á bílaplanið.“

 

II

Stefnandi telur að meðhöndlun steypujárnsgrinda hafi verið á ábyrgð GJ smiða ehf. og starfsmenn borið ábyrgð á því að þær færu ekki á flakk um íbúðasvæðið.  Hafi GJ smiðum ehf. borið að tryggja að búið væri að ganga tryggilega frá þeim í lok sunnudags, hvort sem þeir sjálfir hafi fært þær til, starfsmenn Smára ehf. eða einhver annar.  Ljóst sé að slíkt hafi ekki verið gert í umrætt sinn og ekkert verklag verið fyrir hendi í því sambandi eins og fram hafi komið hjá sjálfum eigendum GJ smiða ehf. Kveðst stefnandi byggja á því að GJ smiðir ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar, meðal annars á grundvelli reglu skaðabótaréttar um nafnlaus mistök, sem feli í sér að tjón sem með vissu sé valdið af starfsmönnum vinnuveitanda en ekki sé hægt að staðreyna hver þeirra það hafi verið og því oft ekki unnt með vissu að segja hvernig það hafi borið að, geti samt fallið undir reglu um vinnuveitendaábyrgð.  Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skuli haga vinnu og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Í 86. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi að þar sem vegavinna fari fram eða vegi sé raskað af öðrum ástæðum, þannig að hætta stafi af, sé þeim sem stjórni verki skylt að sjá um að staðurinn verði merktur á fullnægjandi hátt.  Í reglugerð nr. 492/2009, um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á og við veg, segi í 1. mgr. 6. gr. að þar sem framkvæmdir fari fram á og við veg þannig að truflun eða hætta geti stafað af, sé þeim sem stjórni verki skylt að sjá um að staðurinn sé merktur á fullnægjandi hátt frá upphafi verks.  Í lögreglusamþykkt fyrir Ólafsfjörð nr. 545/2002 segi í 16. gr. að ekki megi gera jarðrask, svo sem skurði í gangstéttir, götur eða torg bæjarins, né raska þeim á annan hátt, nema með leyfi bæjaryfirvalda.  Að verki loknu skuli færa það í samt lag sem raskað hafi verið.  Þegar gerður sé skurður í gangstétt skuli sá sem verkið vinnur sjá um að tryggja öryggi gangandi vegfarenda og annarra, svo sem með því að sjá fyrir göngubrautum og tryggja að vegfarendur séu aðvaraðir um farartálmann, svo sem með ljósum, glitmerkjum og þess háttar. Slík verk skuli unnin þannig að sem minnstur farartálmi verði.  Af framburði starfsmanna GJ smiða ehf. í lögregluskýrslum sé ljóst að þeir hafi ekki gengið frá steypujárnsgrindinni innan öryggisgirðingar.  Það hafi alfarið verið á ábyrgð GJ smiða ehf., sem yfirverktaka, að ganga svo frá meðal annars steypujárnsgrindum að ekki væri hætta á að vegfarendur og íbúar í húsum liggjandi á gangstéttinni yrðu fyrir slysum.  Byggt sé á því að það gildi einu hvort GJ smiðir ehf. hafi skilið steypujárnsgrindina eftir á bifreiðaplaninu við Hrannarbyggð 18 eða hún skilin eftir óvarin á öðrum stað.  Í báðum tilvikum sé um saknæma háttsemi að ræða og saknæm vinnubrögð við frágang á vinnusvæði sem valdið geti öðrum skaða.  Frágangurinn hafi í öllum tilvikum verið vítaverður.  Af fyrirliggjandi ljósmyndum lögreglu sé jafnframt ljóst að engin öryggisgirðing hafi verið né varúðarmerki eða aðrar merkingar. Kveðst stefnandi byggja á því að ríkar skyldur hafi hvílt á GJ smiðum ehf., að setja upp einhverjar merkingar, enda um íbúðagötu að ræða þar sem vænta hafi mátt töluverðrar umferðar gesta og íbúa.  Auðvelt hefði verið fyrir þá að koma fyrir merkingum til að draga úr slysahættu og koma í veg fyrir tjón.  Vegna framangreindrar vanrækslu beri GJ smiðir ehf. skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Þá hafi hvílt skylda á GJ smiðum sem yfirverktökum yfir framkvæmdunum á gangstéttinni að sjá til þess að koma að minnsta kosti upp einhverri bráðabirgða­lýsingu á því svæði þar sem unnið hafi verið hverju sinni, einkum í ljósi þess að raskað hafi verið gönguleiðum fólks að heimilum sínum og annarra sem þangað hafi átt erindi og því brýnt að tryggja viðunandi lýsingu.  Kveðst stefnandi benda á leiðbeiningar um vinnuvernd nr. 2/1990, þar sem segi í 13. grein að þar sem unnið sé við skurði þurfi að vera góð lýsing og setja skuli aðvörunarbúnað vegna umferðar, ekki síst vegfarenda og barna.  Í því sambandi megi nefna aðvörunarskilti, aðvörunar­ljós, línu og búnað sem hindri að fólk geti fallið ofan í skurði, til dæmis í myrkri.

Stefnandi kveðst byggja á því að slysið verði ekki rakið til eigin sakar hennar að neinu leyti. Það hafi átt sér stað að kvöldi til og myrkur hafi verið.  Engin bráðabirgðalýsing hafi verið til staðar.  Þá kveðst hún byggja á því að þótt hún hafi vitað af framkvæmdunum í götunni hafi hún ekki þurft að gera ráð fyrir því að steypujárnsgrind væri á miðju bifreiðaplaninu sem hún hafi gengið yfir í umrætt sinn.

 

III

Stefnda byggir á því að GJ smiðir ehf. beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda og hafi hún ekki sýnt fram á saknæma háttsemi af hendi starfsmanna þeirra.  Fyrir liggi að járnagrindin hafi legið á bifreiðastæðinu við Hrannarbyggð 18, en ekki hvers vegna hún var þar.  Enginn starfsmanna á verkstæði kannist við að hafa komið grindinni þar fyrir.  Starfsmenn GJ smiða ehf. segist hafa stillt henni upp við runna við Hrannarbyggð 16.  Annar eigandi GJ smiða ehf. hafi sótt starfsmenn á verkstað umræddan dag um kl. 18 og kannist ekki við að hafa séð járnagrind á bifreiðastæðinu á þeim tíma.  Starfsmaður Smára ehf. hafi fært járnamottuna til eftir það en þó ekki á bifreiðastæðið.  Þannig liggi ekkert fyrir um að starfsmenn GJ smiða ehf. hafi gengið frá járnagrindinni með óforsvaranlegum hætti og ekki liggi fyrir hvernig hún hafi komist þangað sem hún var.

Regla um nafnlaus mistök eigi hér ekki við því ekki hafi verið sýnt fram á að einhver starfsmaður sem vinnuveitandi beri ábyrgð á hafi viðhaft saknæma háttsemi.  Því sé því hafnað að járnagrindin sem slík hafi skapað óvenjulega og óásættanlega hættu.  Eiginmaður stefndu hafi gengið á undan henni og ekki fallið við.  Slys stefnanda hefði þannig allt eins getað borið til vegna steinvölu eða annarrar viðlíka fyrirstöðu.  Tjón hennar hafi því verið óhappatilviljun sem stefnda beri enga ábyrgð á.  Miklar framkvæmdir hafi verið í götunni.  Stefnandi hafi búið í sömu götu og mátt vera vel meðvituð um aðstæður.  Hafi henni borið að sýna sérstaka aðgát við umferð um götuna.

Þá sé tjón stefnanda ekki að rekja til skorts á merkingum.  Þótt þeim kunni að hafa verið ábótavant á verkstað, sé ekkert orsakasamband milli þess og tjóns stefnanda.  Þannig verði skaðabótaskylda ekki reist á skorti á merkingum.

Þá hafi stefnandi valið sér leið að húsinu sem hafi verið verr lýst og skapað meiri hættu en sú leið að ganga að því að framan.  Á þeirri áhættu beri stefnandi ábyrgð.  Skortur á lýsingu hafi verið vegna framkvæmda við ljósastaura sem Smári ehf. hafi sinnt.  Hafi GJ smiðir ehf. enga ábyrgð borið á lýsingu við veginn þótt þeir hafi sinnt framkvæmd við gangstétt.  Slysið hafi orðið á bifreiðastæði inni á lóð Hrannarbyggðar 18 og beri GJ smiðir ehf. ekki ábyrgð á lýsingu þar. Beri fasteignaeigendur sjálfir ábyrgð á að lýsa upp lóðir eigna sinna og aðkomu að inngöngum húsa sinna. Geti stefndi ekki borið ábyrgð á slæmri lýsingu á lóð Hrannarbyggðar 18.  Það sé ekki tilgangur götulýsingar að lýsa upp einkalóðir en auk þess hafi það verið Smári ehf. sem hafi borið alla ábyrgð á verki við ljósastaura.  Vísanir stefnanda til leiðbeininga um vinnuvernd nr. 2/1990 hafi enga þýðingu við úrlausn málsins.  Enginn skurður hafi verið grafinn og engu meiri hætta hafi verið við framkvæmdina en leiði eðlilega af göngu um ójöfnur.

Hvað varðar varakröfur stefnda sé vísað til rökstuðnings um ábyrgð stefnanda á vali á leið að húsinu og aðgæsluskyldu hennar vegna aðstæðna sem henni hafi mátt vera kunnugt um.

 

IV

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, svo og eiginmaður hennar, dóttir þeirra og tengdasonur sem búa að Hrannarbyggð 18.

Eins og að framan er lýst slasaðist stefnandi við það er hún hrasaði um járnamottu, sem lá á bifreiðastæði við Hrannarbyggð 18.  Ljóst er að mottan tilheyrði GJ smiðum ehf., sem voru með gilda ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi.  Stefnda segir mottuna hafa verið 12-14 mm þykka.  Verður að telja óforsvaranlegt að skilja slíka mottu eftir liggjandi þar sem vænta mátti gangandi umferðar í slæmri lýsingu.

Hitt er óljóst hvernig mottan hafnaði á bifreiðastæðinu.  Sagðist starfsmaður GJ smiða ehf. í lögregluskýrslu hafa reist hana upp við runna fyrir framan Hrannarbyggð 16. Starfsmaður Smára ehf. kvað hana hafa legið á gangstéttarstæðinu fyrir framan Hrannarbyggð 18.  Hefði hann reist hana upp að runna.  Enginn gat sagt til um það hvernig hún hefði lent á bifreiðastæðinu.

Það er álit dómsins að leggja verði hallann af því á stefnda eins og aðstæðum var háttað að ekki er upplýst hvernig starfsmenn GJ smiða ehf. skildu við mottuna.  Verður því að leggja bótaskyldu á stefnda vegna tjóns stefnanda.  Hins vegar verður að virða stefnanda það til gáleysis að sýna ekki sérstaka aðgæslu er hún gekk yfir gangstétt sem var í endurnýjun inn á bifreiðastæði í lélegri lýsingu.  Verður hún því að bera tjón sitt að 1/3.

Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.  Krafa stefnanda er byggð á matsgerð dómkvaddra matsmanna.  Krefst hún þjáningabóta að fjárhæð 329.220 krónur og bóta fyrir varanlegan miska að fjárhæð 1.400.460 krónur, samtals 1.740.060 krónur.  Verður stefnda dæmt til að greiða henni 2/3 þar af, eða 1.160.040 krónur, með vöxtum eins og krafist er.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, sbr. gjafsóknarleyfi 7. júlí 2016 þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar eins og hún er ákveðin í dómsorði, virðisaukaskattur ekki meðtalinn.  Stefnda verður dæmt til að greiða 1.250.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.  Gætt var ákvæðis 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

 

DÓMSORÐ

Stefnda, Vátryggingarfélag Íslands hf., greiði stefnanda, Guðrúnu Elísabetu Víglundsdóttur, 1.160.000 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 13. september 2011 til 6. júlí 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ásmundar Jónssonar, 1.750.000 krónur.

Stefnda greiði 1.250.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.