• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 22. desember 2017 í máli

nr. S-184/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Benedikt Snæ Kristinssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 22. september sl., á hendur Benedikt Snæ Kristinssyni, kt. ..., Eiðsvallagötu 22, Akureyri;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi  þriðjudagsins 25. júlí 2017, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist tetrahýdrókannabínól 8,5 ng/ml og amfetmín 40 ng/ml) og undir áhrifum áfengis (alkóhólmang í blóði reyndist vera 0,98‰), eftir Miðhúsabraut á Akureyri og norður Hlíðarbraut, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans skammt norðan Hlíðarfjallsveg.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45 gr. a, 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1.  mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Jafnframt er gerð sú krafa að ákærði sæti sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

I.

Ákærði hefur hér fyrir dómi skýlaust játað þá háttsemi sem lýst er í ákæru.  Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Að ofangreindu virtu telst brot ákærða nægilega sannað og er það réttilega heimfært til lagaákvæða í ákæru.

Mál þetta var rekið samkvæmt málsmeðferðarreglum 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

II.

Ákærði, sem er 25 ára á að baki nokkurn sakarferil sem áhrif hefur í máli þessu.  Ákærði var þannig með sektargerð sýslumannsins á Akureyri þann 12. júlí 2012 gert að greiða sekt til ríkissjóðs, þ. á m. fyrir að aka ökutæki undir áhrifum áfengis, en jafnframt var hann sviptur ökurétti í 6 mánuði.  Þá var ákærði með sektargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum, þann 26. maí 2014, gert að greiða sekt vegna fíkniefnaaksturs, en var þá jafnframt sviptur ökurétti í 24 mánuði.  Þann 29. október 2015 var ákærði dæmdur í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða sekt til ríkissjóðs vegna fíkniefnaaksturs og fyrir að aka ökutæki sviptur ökurétti, en einnig fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni.   Ákærði var þá einnig sviptur ökurétti ævilangt.  Loks var ákærði þann 7. apríl sl. dæmdur í sextíu daga fangelsi vegna fíkniefnaaksturs, fyrir að aka ökutæki sviptur ökuréttindum og fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en jafnframt var hann þá sviptur ökurétti ævilangt.

Í máli þessu hefur ákærði enn verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, þ.e. fíkniefnaakstur og fyrir að aka ökutæki sviptur ökurétti.  Ber að ákvarða refsingu ákærða m.a. með hliðsjón af lýstum sakaferli, en einnig með hliðsjón af því að ákærði hefur að undanförnu leitað sér aðstoðar vegna fíkniefnavanda, en hann dvelur nú á áfangaheimili.  Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi, en ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga ber að svipta ákærða ökurétti.   Hann hefur ítrekað gerst sekur um fíkniefnaakstur og verður því ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð og þá frá birtingu dóms þessa að telja.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, en samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur kostnaður hans samtals 176.216 krónum.  Að auki skal ákærði greiða málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 122.760 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig útlagðan ferðakostnað verjandans að fjárhæð 30.935 krónur.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Benedikt Snær Kristinsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði  329.911 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 122.760 krónur og ferðakostnað verjandans að fjárhæð 30.935 krónur.