• Lykilorð:
  • Bifreiðir
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 25. janúar 2018 í máli

nr. S-41/2017:

 

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

Gunnlaugi Sigvaldasyni

(Berglind Jónasardóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 22. janúar, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 27. janúar 2017 með ákæru á hendur Gunnlaugi Sigvaldasyni, kt. ..., Krossi 1, Þingeyjarsveit;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 27. október 2016, ekið bifreiðinni NO-198 sem dró festivagninn UM-G17, með 4.300 kg (573%) yfir leyfilegri heildarþyngd óhemlaðs eftirvagns, en við skoðun reyndust engir hemlar vera á eftirvagninum, en til vara með 1.850 kg (57%) yfir leyfilegri heildarþyngd þess sem ökutækið mátti draga skv. skráningu, og með ásþunga á drifási bifreiðarinnar undir lögbundnu lágmarki (19%), með 1.869 kg (58%) yfir leyfilegri heildarþyngd skv. skráningu eftirvagnsins, án undirakstursvarnar og án þess að viðvörunarmerkingar væru á farminum sem stóð meira en 50 cm (2,5 m) aftur fyrir vagnlestina, þar sem hann ók í suðurátt eftir Vesturlandsvegi, á móts við Laxfoss í Borgarbyggð.

 

Teljast brot þessi varða við 3. mgr. 59. gr.,1. mgr. 60. gr., 1. mgr., sbr. 5. mgr. 62. gr., 3., sbr. 4. mgr. 73. gr., og 1. mgr. 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, sbr. liði 06.50(1), 06.53(2) og 23.53 reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja, 2. mgr. og 6. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja, 7. gr. reglna um tengingu og drátt ökutækja nr. 394/1992 og 9. gr. reglugerðar nr. 671/2008 um hleðslu, frágang og merkingu á farmi, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Undir rekstri málsins féll sækjandi tvívegis frá atriðum í ákæru, þannig að nú hljóðar hún um

,,umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 27. október 2016, ekið bifreiðinni NO-198 sem dró festivagninn UM-G17, með 1.869 kg (58%) yfir leyfilegri heildarþyngd skv. skráningu eftirvagnsins og án þess að viðvörunarmerkingar væru á farminum sem stóð meira en 50 cm (2,5 m) aftur fyrir vagnlestina, þar sem hann ók í suðurátt eftir Vesturlandsvegi, á móts við Laxfoss í Borgarbyggð.

Teljast brot þessi varða við 3., sbr. 4. mgr. 73. gr., og 1. mgr. 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, 6. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja og 9. gr. reglugerðar nr. 671/2008 um hleðslu, frágang og merkingu á farmi, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að verða dæmd vægasta refsing sem lög leyfi.

A lögregluþjónn gaf skýrslu vitnis við aðalmeðferð málsins.

Ákærði rengir ekki að hafa lestað eftirvagninn umfram leyfilega heildarþyngd samkvæmt skráningarskírteini eins og lýst er í ákæru. Sýknukrafa hans er byggð á því að skráning leyfilegrar heildarþyngdar hafi verið röng. Fyrir liggur að eftir það tilvik sem ákæra greinir fékk ákærði leyfilega heildarþyngd aukna úr 3.181 kg í 6.364 kg. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að samkvæmt 6. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 155/2007, sem sett er m.a. með heimild í 1. mgr. 76. gr. umferðarlaga má ekki hlaða ökutæki þannig að þannig að heildarþyngd þess eða ásþungi verði meiri en heimilað er í skráningarskírteini þess. Gerðist ákærði brotlegur við þetta ákvæði og varðar það honum refsingu samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. 17. gr. reglugerðar­innar.

Ákærði hafði lengt festivagninn og stóð pallbifreið sem hann flutti á honum 50 cm aftur af vagninum. Farmurinn var ekki merktur að öðru leyti en því að ákærði setti rautt ljós aftan á pallbifreiðina. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 671/2008, sem sett er með heimild í 73. gr. umferðarlaga, skal, nái farmur meira en 50 sm aftur fyrir ökutæki, setja a.m.k eitt merki til viðvörunar aftast á ystu brún farmsins. Skal það vera að lágmarki 50 sm á hæð og 25 sm á breidd með um það bil 5 sm breiðum gulum og rauðum röndum með endurskini. Vanrækti ákærði þetta og varðar það honum refsingu samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. 13. gr. reglugerðarinnar. Hefur hann engin gild rök fært fram fyrir sýknukröfu sinni í þessum þætti málsins.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsingu hans fyrir framangreint brot. Ákveðst hún 410.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en ákærði sæta fangelsi í 24 daga ella.

Ekki er um annan sakarkostnað að tefla en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðast eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum.  Vegna þess að ákæruvaldið hefur fallið frá hluta sakargifta eins og áður greinir verður ákærði aðeins dæmdur til að greiða helming þeirra, en að öðru leyti falla þau á ríkissjóð.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Gunnlaugur Sigvaldason, greiði 410.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 24 daga.

Ákærði greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Berglindar Jón­asardóttur lögmanns, sem ákveðast í heild 421.600 krónur.