• Lykilorð:
  • Verksamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 25. júní 2018 í máli nr. E-46/2017:

G.V. Gröfur ehf.

(Stefán Geir Þórisson lögmaður)

gegn

Akureyrarkaupstað

(Árni Pálsson lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað 6. mars 2017 og fyrst dómtekið 16. mars sl. Málið var endurflutt og dómtekið að nýju 29. maí sl. Stefnandi er, G.V. Gröfur ehf., Frostagötu 4a, Akureyri, en stefndi er Akureyrarkaupstaður, Geislagötu 9, Akureyri.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.943.111 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

 

I

            Megininntak ágreinings aðila í máli þessu hverfist um það hvernig reikna skuli út verðbætur á verk sem stefnandi vann fyrir stefnda og þrjá aðra aðila samkvæmt verksamningi á grundvelli útboðs. Verkið bar heitið „Naustahverfi VI – Hagar, gatnagerð og lagnir“. Útboðs og verklýsing er frá maí 2015. Verkkaupar eru, auk stefnda, Norðurorka hf., Míla ehf. og Tengir ehf.

Stefnandi sendi inn tilboð í verkið og var tilboði hans tekið 16. júní 2015  og hófust framkvæmdir þá í kjölfarið en verkinu skyldi lokið 15. júní 2016. Samningsfjárhæð var 316.162.520 krónur með virðisaukaskatti.

Fram kemur í stefnu að verkið hafi falist í því að hafa jarðvegsskipti í götustæði, leggja frárennslislagnir, kaldavatnslagnir, hitaveitulagnir, raflagnir og fjarskiptalagnir í götur og heimtaugar að lóðarmörkum auk þess að ganga frá tengiskápum rafmagns og ljósastaurum ásamt öllum tengingum vegna þess. Verkferlið hafi verið þannig að fyrst hafi verið grafinn út lífrænn jarðvegur ýmist einn metra niður fyrir endanlegt yfirborð götu eða á fastan burðarhæfan jarðveg en þessum jarðvegi hafi síðan að mestu leyti verið ekið burt á losunarstað sem verktaki hafi lagt til og séð um. Síðan hafi verið fyllt undir frárennslislagnir þar sem þess hafi þurft og þær síðan lagðar og sandaðar ásamt tengibrunnum. Þá hafi verið fyllt undir vatnslagnir eða grafið fyrir þeim eftir atvikum og þar lagðar bæði stofnlagnir og heimtaugar, settir upp lokar og gengið frá öllum tengingum. Þær hafi síðan verið sandaðar og gengið frá einangrunarplasti ofan á. Þessu næst hafi verið fyllt að mestu í götu en ekki gangstéttar því þar hafi verið lögð hitaveita, þ.e.a.s. einangruð stálrör sem soðin hafi verið saman á 6 til 12 metra bili ásamt tengistykkjum og síðan gengið frá einangrun samskeyta. Þegar lokið hafi verið við hitaveitu hafi verið lagðar lagnir og ídráttarrör, settir upp tengiskápar og ljósastaurar ásamt öllum tengingum í skápum og staurum sem innifalið hafi verið í tilboðinu. Jafnhliða þessari vinnu hafi verið lagt ídráttarrörakerfi fyrir fjarskiptalagnir með tilheyrandi brunnum og tengingum. Síðan hafi verið gengið frá hitaveitu-, raf- og fjarskiptalögnum með sandi og fyllt í gangstéttar. Að síðustu hafi götur verið heflaðar í rétta hæð sem tekið hafi 4 til 5 daga með einum hefli og vélamanni. Verkið allt hafi staðið yfir í rúmt ár með tveggja vikna hléi um jól. Við verkið hafi að staðaldri unnið 10 til 15 menn, 2 til 6 gröfur, ein jarðýta með hléum og 3 til 12 efnisflutningabílar eftir þörfum.

Stefnandi gaf út 27 reikninga til stefnda  á verktíma samtals að fjárhæð 217.351.594 krónur og er þeim reikningum ekki beint að öðrum verkkaupum samkvæmt útboðslýsingu. Munu þeir reikningar hafa verið greiddir af stefnda.

Útboðslýsing gr. 0.5.6 ber fyrirsögnina: Verðlagsgrundvöllur. Þar segir orðrétt: Í ljósi aðstæðna í samfélaginu þegar útboðsgögn eru gerð mun verkið verðbætast. Greiðslur skulu verðbætast 30% samkvæmt mánaðarlegri launavísitölu og 70% samkvæmt vísitölu Vegagerðarinnar um „rekstur véla án manns“. Verðbætur skulu miðast við gildandi vísitölur um „rekstur véla án manns“ á opnunardegi tilboðs og á útgáfudegi reiknings en mánaðarlega launavísitölu næst liðins mánaðar fyrir opnun tilboðs og útgáfudag reiknings.

Í stefnu er látið að því liggja að stefndi hafi hafnað að greiða verðbætur á verkið á þeim grundvelli að vísitala Vegagerðarinnar  um „rekstur véla án manns“ (hér eftir verður þessi vísitala einfaldlega nefnd „vísitala Vegagerðarinnar“ til styttingar) hafi lækkað á tímabilinu og að sú lækkun hafi vegið upp á móti hækkun launavísitölu. Við aðalmeðferð málsins kom á hinn bóginn fram bæði í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda og einnig í málflutningi lögmanns stefnda að ekki hafi verið gerð krafa um verðbætur í reikningunum. Er því óumdeilt í máli þessu að stefnandi hefur engar verðbætur fengið vegna verksins og ekki gert stefnda reikning vegna þeirra sérstaklega. Á hinn bóginn liggur og fyrir að stefndi hafnar greiðslu þeirrar fjárkröfu sem stefnandi hefur uppi í málinu. Er líða fór á verktímann gerði stefnandi athugsemdir við að miðað yrði við vísitölu Vegagerðarinnar en stefndi féllst ekki á þær athugasemdir. Er bókað um þennan ágreining í verkfundagerðum sem liggja fyrir í málinu.

Fjárkrafa stefnanda í máli þessu felur í sér verðbætur á 30% hluta heildarfjárhæðar útgefinna reikninga til stefnda að teknu tilliti til útgáfudags hvers og eins þeirra í samræmi við launavísitölu eins og hún var á hverjum tíma. Stefndi lýsti því yfir við meðferð málsins að ekki væri tölulegur ágreiningur í málinu. Byggist framangreind fjárkrafa á því að hvað sem líði gildi þess að styðjast við margnefnda vísitölu Vegagerðarinnar þá eigi stefnandi rétt á fullum verðbótum samkvæmt launavísitölu á 30% fjárhæðar reikninga og að sú fjárhæð geti ekki að réttu lækkað þó vísitala Vegagerðarinnar hafi lækkað á tímabilinu.

 

II

Við munnlegan flutning málsins vísaði stefnandi til þess að hann teldi sér heimilt að hafa uppi fjárkröfu á hendur stefnda einum þó aðilar verksamningsins væru fleiri. Kvaðst stefnandi einkum byggja á því að hverjum verkkaupa hafi verið gerðir sérstakir reikningar og í máli þessu sé eingöngu gerð krafa um verðbætur á reikninga sem beint hafi verið að stefnda einum og hann greitt.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á ákvæði 0.5.6 í útboðs- og verklýsingu umrædds verks en í greininni er fjallað um verðlagsgrundvöll og gert ráð fyrir að endurgjald fyrir verkið sé verðbætt. Sé annars vegar gert ráð fyrir að 30% hluti verksins verðbætist miðað við launavísitölu en 70% miðað við vísitölu Vegagerðarinnar. Kveður stefnandi síðarnefndu vístöluna hafa lækkað á verktíma og hafi stefndi af þeim sökum neitað að greiða stefnanda verðbætur á verkið. Hafi stefnandi litið svo á að verðbætur gætu verið neikvæðar og að neikvæðar verðbætur 70% samningsfjárhæðar kæmu til frádráttar jákvæðum verðbótum 30% samningsfjárhæðarinnar. Þannig hafi stefndi talið að mismunurinn sem sé neikvæður komi til frádráttar útgefnum reikningum stefnanda.

Á framangreint geti stefnandi ekki fallist. Verðbótaákvæði verksamningsins hafi verið sett inn til þess eins að vernda verktakann og takmarka áhættu hans af verkinu vegna mögulegra verðlagsbreytinga og þá sérstaklega vegna væntanlegra fyrirséðra hækkana á launakostnaði. Hann telji ljóst að verðbætur verksamningsins geti aðeins verið jákvæðar. Verkkaupi hafi, án þess að til þess hafi verið neinar forsendur, slegið vísitölunum tveimur saman í eina vísitölu og hafi þannig með háttsemi sinni tekið sér fé á ólögmætan hátt. Hann hafi ekki sýnt fram á neitt tap eða tjón vegna vísitölubreytinga og eigi því ekki rétt til þess að hafa af stefnanda verðbætur samkvæmt launavísitölunni.

Stefnandi kveðst halda því fram að verðbætur samkvæmt samningnum geti einungis verið jákvæðar, þannig að margföldunarstuðull hvorrar vísitölu fyrir sig geti aldrei farið undir 1. Þannig beri að reikna í sitt hvoru lagi verðbætur, annars vegar á 30% hluta endurgjalds fyrir verkið og hins vegar 70% endurgjalds þar sem gert sé ráð fyrir því í samningi aðila að þessir tveir hlutar séu verðbættir miðað við tvær ólíkar vísitölur. Ástæður þess sé að verðbótum hvors hluta fyrir sig sé ætlað að tryggja verktaka gegn ólíkum áhættuþáttum. Þannig geti möguleg neikvæð vísitala, sem verðbætur annars hluta samningsins miði við, ekki haft áhrif á verðbætur hins hluta samningsins. Það sé ljóst af gögnum málsins að verðbótaákvæði útboðs- og verklýsingarinnar hafi sérstaklega verið ætlað að tryggja hagsmuni verktaka vegna fyrirséðra launahækkana í landinu.

Ljóst sé að orðalag samningsins taki ekki afdráttarlaust til þess hvort verðbætur geti verið neikvæðar eða ekki. Stefnandi telji það þó leiða af orðinu verðbætur að einungis sé átt við hækkanir á vísitölu. Bætur geti ekki verið neikvæðar. Þá telji stefnandi það í samræmi við venju á sviði verksamninga að samningar séu verðbættir einungis til hækkunar. Það sé t.d. staðlað ákvæði í útboðslýsingum Vegagerðarinnar, eins umsvifamesta verkkaupa landsins, um að verðbætur falli niður verði vísitala lægri en viðmiðunarvísitala. Jafnframt bendi stefnandi á andskýringarreglu samningaréttar í þessu sambandi. Líta verði til þess að verksamningur aðila byggist á útboðs- og verklýsingu sem stefndi hafi samið einhliða. Ákvæði samningsins beri því að túlka stefnda í óhag að því marki sem þau kunni að vera óskýr.

Til vara kveðst stefnandi byggja kröfu sína á meginreglum samningaréttar um rangar forsendur. Telji stefnandi að út af fyrir sig séu fyrir hendi skilyrði fyrir því að ógilda verðbótaákvæðið hvað varði 70% hluta samningsins sem samkvæmt ákvæðinu skuli verðbætast í samræmi við vísitölu Vegargerðarinnar. Vísar stefnandi til sjónarmiða sinna sem hann  hafi kynnt fyrir stefnda og lúti að efasemdum hans um að vísitala Vegagerðarinnar sé réttmætur mælikvarði á umrætt verk. Aðilar hafi augljóslega verið í villu um þýðingu vísitölunnar þegar samningurinn hafi verið gerður. Þá eigi sjónarmið um brostnar forsendur einnig við, því tilgangur ákvæðisins hafi augljóslega verið að vernda verktaka fyrir hækkunum en hafi ekki verið ætlunin að opna á þann möguleika að greiðslur vegna verksamningsins gætu lækkað á samningstímabilinu vegna lækkunar á umsaminni vísitölu.

Með vísan til framangreinds telji stefnandi ljóst að stefnda beri hvað sem öðru líði að greiða stefnanda verðbætur að minnsta kosti vegna 30% hluta samningsins í samræmi við hækkun launavísitölu á samningstímanum. Stefnandi kveður kröfu sína á þessum grundvelli nema samtals stefnufjárhæðinni, 5.943.111 krónum. Sé þar um að ræða verðbótaútreikning af samtals 27 reikningum sem fyrir liggi í málinu. Dráttarvaxta sér krafist frá 15. október 2016 en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá útgáfu síðasta reikningsins.

Framangreind fjárhæð hafi verið fundin með þeim hætti að verðbætur hafi verið reiknaðar ofan á 30% hverrar reikningsupphæðar miðað við launavísitölu Hagstofunnar í útgáfumánuði hvers reiknings. Grunnvísitalan hafi verið 505,7 stig sem sé vísitala maímánaðar 2015.

Stefnandi kveðst vísa til samningalaga nr. 7/1936 og óskráðra meginreglna samningaréttar og verktakaréttar, einkum reglna um rangar og brostnar forsendur og reglna um túlkun samninga. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 33. gr. sömu laga.

 

III

   Stefndi  kveðst í greinargerð sinni benda á að samkvæmt verksamningi séu verkkaupar fleiri en hann og því álitamál hvort ekki hefði verið nauðsynlegt að stefna þeim öllum, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi kveðst ekki gera kröfu um frávísun málsins vegna þessa, enda sé hér um að ræða atriði sem dómara beri að gæta af sjálfsdáðum.

Sýknukröfu kveður stefndi byggða á því að aðilar hafi gert með sér verksamning í júlí 2015, þar sem samið hafi verið um að verð fyrir verkið skyldi taka breytingum samkvæmt vísitölu Vegargerðarinnar að 70 % hluta og launavísitölu að 30% hluta. Stefndi telji að ákvæði samningsins um viðmiðunarvísitölur sé bindandi fyrir aðila málsins. Verkið hafi verið boðið út og við það miðað að greiðslur fyrir það væru háðar framangreindum vísitölum. Þegar verk séu boðin út beri að gæta jafnræðis og því útilokað að breyta þáttum eins og viðmiðunarvísitölum eftir að tilboð hafi verið opnuð. Bjóðendur hafi boðið í verkið samkvæmt útboðsgögnum og hafi væntanlega hagað tilboðum sínum í samræmi við þau. Þetta hljóti stefnandi að hafa gert og því ákaflega langsótt að hann geta átt kröfu til þess að viðmiðunarvísitölum sé breytt, vegna þess eins að vísitala Vegagerðarinnar hafi breyst frá grunnvísitölu til lækkunar á hluta verktímans.

Hluti af samningi aðila sé staðallinn ÍST 30. Samkvæmt honum virðist ekki gert ráð fyrir að aðilar verksamnings geti krafist breytingar á samningsfjárhæð nema verkið breytist frá því sem ráð hafi verið fyrir gert. Þó sé ákvæði í grein 5.1.13 þar sem segi að báðir aðilar geti krafist breytinga ef á samningstímanum séu gerðar breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar sem hafi áhrif á kostnað aðila til hækkunar eða lækkunar, sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegli ekki. Stefndi telji að með vísan til framangreinds þá sé stefnanda ekki unnt að krefjast breytinga á samningsfjárhæðinni á þeim grunni sem hann byggi á.

Óljóst sé hvort stefnandi byggi á því að ólögmætt hafi verið að nota vísitölu Vegagerðarinnar um rekstur véla án manns eða hvort á því sé byggt að hún mæli ekki rétt kostnað við verkið, en það geri byggingavístalan betur að hans mati. Vísitala Vegagerðarinnar hafi verið reiknuð út mánaðarlega af Vegagerðinni. Vegagerðin hafi notað þessa vísitölu í hluta verka sinna. Samtök iðnaðarins hafi gert athugasemdir við að Vegagerðin notaði þessa vísitölu til viðmiðunar í verkum sínum, vegna þess að hún hafi verið sett saman af Vegagerðinni og reiknuð út af henni. Vegagerðin hafi fallist á þessar athugasemdir, en þær eigi augljóslega ekki við um notkun þessarar vísitölu í verksamningi aðila málsins. Stefnandi hafi átt þess kost að kynna sér samsetningu vísitölunnar áður en hann hafi gert tilboð í verkið og taka tillit til vísitölunnar í tilboði sínu. Það ríki samningsfrelsi á þessu sviði þannig að aðilum málsins hafi verið heimilt að semja um hvort og þá hvernig endurgjald fyrir verkið væri vísitölutryggt. Stefnandi hafi fyrst gert athugasemdir við vísitöluákvæði samningsins í janúar 2016, sem einkum hafi verið þær að vísitalan mældi kostnað hans af verkinu ekki rétt að hans mati. Hann hafi talið rétt að miða ætti við byggingarvísitölu í staðinn. Eingin heimild hafi verið til slíkrar breytingar í samningnum. Í 1. og 2. gr. laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingakostnaðar, segi að það beri við útreikning á byggingavísitölu að miða við byggingakostnað húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Það sé ómögulegt að sjá að byggingavísitalan endurspegli betur þann kostnað sem stefnandi hefur haft af verkinu en vísitala Vegagerðarinnar. Það sem skipti máli í þessu sambandi sé að aðilar hafi samið um að nota vísitölu Vegagerðarinnar við uppgjör verksins. Það að þróun vísitölunnar á verktímanum hafi ekki verið sú sem stefnandi virðist hafa reiknað með geti ekki skotið stoðum undir kröfur hans í málinu. Það verði einnig að nefna það að það geti alls ekki hafa farið fram hjá stefnanda að olíuverð hafi farið lækkandi áður en hann hafi boðið í verkið og ekkert útlit fyrir annað en að það héldi áfram að lækka með tilheyrandi áhrifum á vísitöluna.

Stefnandi byggi á því að vegna þess að vísitala Vegagerðarinnar hafi lækkað frá grunnvísitölu verksamningsins á hluta verktímans hafi stefndi neitað að greiða stefnanda verðbætur á verkið. Þessi fullyrðing stefnanda sé röng og megi sá af reikningum sem fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi ekki gert kröfu um að fá greiddar verðbætur á verktímanum.

Stefnandi byggi á því að verðbætur geti ekki verið neikvæðar. Stefndi bendi á að samkvæmt grein 0.5.6 sé gert ráð fyrir að greiðsla fyrir verkið sé vísitölutryggð. Verðtryggingin saman standi af tveimur vísitölum. Eðli málsins samkvæmt verði við útreikning verðbóta að miða við breytingar á báðum vísitölunum. Samtala breytinga á vísitölunum myndi grundvöllinn sem ráði fjárhæð verðbóta á verkið. Þó að það sé ekki algengt hér á landi að vísitölur lækki þá sé það ekki óþekkt. Í þessu tilviki þá hafi vísitala Vegagerðarinnar lækkað á hluta verktímans. Meginástæðan sé væntanlega sú að olíuverð hafi lækkað á verktímanum, sem stefnandi hafi notið góðs af því að kostnaður hans við verkið hafi lækkað.

Á því sé byggt af hálfu stefnanda að verðbótaákvæðið hafi verið sett í útboðsgögnin til þess að vernda verktakann og takmarka áhættu hans af verkinu. Hafi sérstaklega verið litið til þess að fyrir dyrum hafi verið kjarasamningar. Það megi til sanns vegar færa að undantekningin hafi verið gerð í útboðsgögnum með því að tengja greiðslur fyrir við vísitölur vegna þeirrar óvissu sem ríkjandi hafi verið af framangreindum ástæðum. Með undantekningu sé vísað til þess að verksamningar til árs eða skemmri tíma hafi almennt ekki að geyma ákvæði um vísitölutengingu. Þessar aðstæður hafi verið stefnanda kunnar þegar hann hafi boðið í verkið, enda hafi stefnandi starfað á verktakamarkaði í langan tíma. Af hálfu stefnanda sé byggt á því að hann verði fyrir tjóni vegna þess að önnur vísitalan hafi ekki hækkað. Ekki sé unnt að fallast á sjónarmið sem þessi því að lækkun vísitölu hafi að öllu jöfnu í för með sér minni kostnað. Stefnandi bendi á að orðalag ákvæðis 0.5.6 í útboðsgögnum styðji þá málsástæðu hans að verðbætur geti aldrei orðið neikvæðar. Stefndi telji að það sé ekkert í orðalagi ákvæðisins sem styðji þessa málsástæðu stefnanda. Í ákvæðinu segi að greiðslur skuli verðbætast 30% samkvæmt launavísitölu og 70% samkvæmt samkvæmt vísitölu Vegargerðarinnar. Grunnvísitölur komi fram en ekkert segi í ákvæðinu um að miða skuli við grunnvísitölurnar ef lækkun verði á þeim á verktímanum. Ákvæðið í útboðsgögnum segi skýrt að verðbætur skuli miða við tilgreindar vísitölur. Það hefði þurft að taka það sérstaklega fram í samningi aðila ef það hefði átt að víkja frá vísitölutengingu ef vísitölur færu niður fyrir grunnvísitölurnar. Aftur skuli bent á að lækkun vísitölu Vegagerðarinnar sé til komin vegna lækkunar á olíuverði og þar með hafi kostnaður stefnanda við verkið lækkað. Það sé sérstakt að halda því fram að með því að samþykkja ekki kröfur stefnanda um að það beri að að reikna verðbætur þannig að ef önnur viðmiðunarvísitalan sé neikvæð þá hafi það ekki áhrif á heildargreiðslur fyrir verkið. Verðbæturnar séu samsettar úr tveimur vísitölum og því ráðist þær af stöðu beggja vísitalna á uppgjörsdegi.

Stefnandi byggi á þeirri málsástæðu að með því að nota hugtakið verðbætur geti einungis verið átt við hækkanir á vísitölum og þær geti ekki verið neikvæðar. Í grein 0.5.6 í útboðsgögnum segi að greiðslur skuli verðbætast samkvæmt ákveðnum vísitölum frá grunnvísitölum. Af þessu orðalagi verði ályktað að verðbætur ráðist af þróun þessara tveggja vísitalna. Túlkun stefnanda um að orðalagið bendi til þess að verðbætur geti ekki orðið neikvæðar fái ekki stuðning í orðalagi útboðsgagna. Þvert á móti komi skýrt fram að verðbætur miði við ákveðnar vísitölur og þess ekki getið að þær geti ekki verið neikvæðar. Það hafi komið fram að vísitala Vegagerðarinnar hafi lækkað á hluta verktímans. Bent hafi verið á að það stafi líklega af lækkun olíuverðs og ef til vill fleiri þáttum. Lækkunin hafi bein áhrif á kostnað verktaka af verkinu og því telji stefndi eðlilegt að þess gæti í greiðslum fyrir verkið, auk þess sem það sé í samræmi við samninginn sem hafi verið gerður.

Á því sé einnig byggt af hálfu stefnanda að venja sé í verksamningum að verðbætur falli niður verði vísitalan lægri en viðmiðunarvísitalan. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji þessa fullyrðingu. Stefndi mótmæli því að venja þessa efnis hafi skapast í verksamningum. Hann kveðst einnig benda á að ekki sé gert ráð fyrir því í samningum aðila að viðmiðunarvísitölur gildi ef lækkun verði á þeim á verktímanum.

Þá megi velta fyrir sér hvort að það sé sanngjarnt gagnavart stefnanda að reikna verðbætur í samræmi við samning aðila, það er að segja að taka inn í þann reikning ef vísitala fari undir grunnvísitölu. Vísitölur mæli verð á vöru og þjónustu allt eftir eðli þeirra. Að öðru jöfnu þá hafi lækkun á vísitölu það í för með sér að kostnaður hafi lækkað. Stefnandi byggi á því að það sé í sjálfu sér ósanngjarnt að taka tillit til breytinga á vísitölu Vegagerðarinnar á verktímanum vegna þess að hún hafi farið undir viðmiðunarvísitöluna. Þarna horfi stefnandi algerlega framhjá samningnum sem aðilar hafi gert en erfitt sé að svara slíkum fullyrðingum með öðru en að benda á samninginn, auk þess sem áður hafi komið fram um ástæðu lækkunarinnar. Stefnandi byggi á því að það eigi við sanngirnismatið að byggja á andskýringarreglunni í samningaréttinum með vísan til þess að útboðsgögnin hafi verið einhliða samin af stefnda. Í þessu samhengi bendi stefndi á að stefnandi hafi verið á verktakamarkaði í langan tíma. Þó svo að útboðsgögnin hafi verið samin af stefnda eins og venja sé til þá sé ekki tilefni til að beita andskýringarreglu samningaréttarins. Stefnandi hafi þekkt eða átt að þekkja hvaða áhrif vísitöluviðmið í útboðsgögnum hafi getað haft. Jafnræði hafi verið með aðilum þannig að andskýringarreglan eigi alls ekki við þegar samningurinn sé túlkaður. Orðalagið í grein 0.5.6 hafi ekkert tilefni gefið til þess að skapa hjá stefnanda væntingar um að við útreikning verðbóta yrði ekki miðað við vísitölur sem væru lægri en grunnvísitölur.

Varakrafa stefnanda um að ógilt verði vísitöluviðmið við vísitölu Vegagerðarinnar sé byggð á reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Krafan felið það í sér að samningnum verði breytt. Reglum um brostnar verði aðeins beitt til að fella samning úr gildi að fullu eða að hluta. Krafa stefnanda um breytingu á samningnum geti ekki byggst á reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Í stefnu sé því haldið fram að aðilar verksamningsins hafi verið í villu um þýðingu vísitölunnar þegar samningurinn hafi verið gerður. Þetta sé ekki rökstutt frekar, en stefndi fallist ekki á að hann hafi verið í villu um þýðingu vísitöluákvæðisins í verksamningnum. Hann telji einnig að það sé mjög langsótt að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi ekki gert sér grein fyrir hvað fælist í vísitöluákvæði verksamningsins. Auðvelt hafi verið að nálgast upplýsingar um samsetningu vísitölunnar og því stoði ekki fyrir stefnanda að bera fyrir sig að hann hafi ekki gert sér grein fyrir þýðingu vísitölunnar. Minnt sé á að engar athugasemdir hafi komið fram um vísitöluna fyrr en í janúar 2016. Stefnandi hafi þá verið búinn að skila hluta verksins. Í gögnum málsins komi ekkert fram um vegna hvers stefnandi hafi ekki gert athugasemdir fyrr.

 

 

IV

Eins og nánar er lýst hér að framan tók stefndi, ásamt öðrum verkkaupum, tilboði stefnanda í verkið Naustahverfi VI – Hagar – Gatnagerð og lagnir. Er í máli þessu til umfjöllunar fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda vegna verðbóta af þeim þætti verksins sem stefndi greiddi fyrir. Það er mat dómsins að þó að í málinu reyni á ákvæði verksamnings þar sem verkkaupar voru fleiri en stefndi séu ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna ákvæðis 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda í málinu eingöngu til umfjöllunar krafa á hendur stefnda, en ekki á hendur öðrum viðsemjendum stefnanda.

Fjárkrafa stefnanda í máli þessu er 5.943.111 krónur ásamt dráttarvöxtum frá þeim degi er liðinn var mánuður frá útgáfu síðasta reiknings eða 15. október 2016. Krafa þessi er þannig fundin að reiknaðar eru saman fjárhæðir samtals 27 reikninga að heildarfjáræð 217.351.594 krónur sem stefnandi gaf út til stefnda á tímabilinu frá júlí 2015 til ágúst 2016 og stefndi greiddi. Af fjárhæð hvers reiknings um sig tekur stefnandi 30% og verðbætir miðað við hækkun launavísitölu frá upphafstíma verksins og til útgáfudags reikningsins.

Stefndi ber ekki brigður á að stefnufjárhæð sé rétt reiknuð miðað við forsendur stefnanda. Á hinn bóginn telur stefndi að verðbætur á verkið verði ekki byggðar á framangreindri launavísitölu einni heldur þurfi að reikna saman báðar vísitölurnar sem um ræði og þar af leiðandi sé krafa stefnanda ekki í samræmi við verksamning aðila. Stefndi vísar til þess að vísitala Vegagerðarinnar hafi verið neikvæð á hluta verktímans.

Í málatilbúnaði stefnanda virðist gengið út frá því að neikvæð staða vístölu Vegagerðarinnar vegna verksins myndi þurrka út jákvæða stöðu launavísitölunnar vegna þess. Kemur þetta reyndar ekki skýrt fram í málatilbúnaði stefnanda en þess má sjá merki í bréfi lögmanns stefnanda 7. október 2016 þar sem sú fullyrðing kemur m.a. fram að óumdeilt sé með aðilum að verðbætur verksins séu neikvæðar sé stuðst við vísitölu Vegagerðarinnar.

Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að krafa hans um verðbætur samkvæmt launavísitölu ofan á 30% hluta þeirrar greiðslu sem hann hefur móttekið frá stefnda felist í samningi aðila rétt túlkuðum. Lúta röksemdir hans að því að neikvæð staða vísitölu Vegagerðarinnar eigi ekki að hafa áhrif á verðbætur samkvæmt launavísitölu.

Hvorugur aðila hefur séð ástæðu til að leggja fram gögn fyrir dóminn er sýni þróun vísitölu Vegagerðarinnar á verktímanum.

Aðilar byggja báðir á því að orðalag ákvæðis útboðsgagna í ákvæði 0.5.6 styðji málatilbúnað þeirra og sýni jafnframt fram á að röksemdir gagnaðila standist ekki.

Þó ákvæðið hafi verið orðrétt rakið hér fyrr þykir rétt til glöggvunar að rita það hér aftur orðrétt.

„0.5.6 Verðlagsgrundvöllur

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu þegar útboðsgögn eru gerð mun verkið verðbætast. Greiðslur skulu verðbætast 30% samkvæmt mánaðarlegri launavísitölu og 70% samkvæmt vísitölu Vegagerðarinnar um „rekstur véla án manns“. Verðbætur skulu miðast við gildandi vísitölur um „rekstur véla án manns“ á opnunardegi tilboðs og á útgáfudegi reiknings en mánaðarlega launavísitölu næst liðins mánaðar fyrir opnun tilboðs og útgáfudag reiknings.“

Skýra verður efnislegt inntak tilvitnaðs samningsákvæðis í samræmi við almennar túlkunarreglur samningaréttar. Ber þá fyrst að hafa í huga að ákvæðið er samið einhliða af stefnda. Hefur þessi staðreynd áhrif á túlkun ákvæðisins í lögskiptum aðila jafnvel þó stefnandi hafi víðtæka reynslu af verktöku. Er það mat dómsins að fallast beri á það sjónarmið stefnanda að teljist ákvæðið óskýrt verði að túlka það þeim í óhag sem samdi það.

Liggur þá fyrir að meta hvort ákvæðið telst óskýrt að þessu leyti. Fallast verður á með stefnanda að notkun orðsins „verðbætur“ í samningsákvæðinu, en orðið er notað þrisvar, er til þess fallið að styrkja þá hugmynd að um sé að ræða breytingar til hækkunar verði. Hvergi er í ákvæðinu sagt berum orðum að endurgjald geti sætt lækkun, þó vissulega komi fram tímamark grunnvísitölu og tímamark vísitölu þegar reikningur er gefinn út. Á hinn bóginn verður það að teljast alkunn staðreynd að vísitölur hafa ríka tilhneigingu til að hækka á Íslandi en lækka ekki. Þá er í fyrstu orðum ákvæðisins vísað til „ástands í þjóðfélaginu“ sem ástæðu þess að samningurinn skyldi verðbætast. Beindi stefnandi fyrirspurn til stefnda um þýðingu orðalagsins og var svarað á þá leið að ástæðan hafi verið fyrirhugaðir kjarasamningar þannig að legið hafi fyrir að launahækkanir gætu orðið umtalsverðar á verksamningstímanum. Styðja þessar upplýsingar, sem fengu einnig staðfestingu í skýrslum fyrir dómi, að ástæða umrædds verðbótaákvæðis hafi fyrst og fremst verið fyrirsjáanlegar launahækkanir.

Það er mat dómsins að þegar framangreind atriði eru virt saman verði að fallast á með stefnanda að umrætt samningsákvæði sé óskýrt að þessu leyti frá sjónarhóli stefnanda og að hann teljist hafa haft réttmætar væntingar til þess að honum yrðu bættar umræddar launahækkanir með því að 30% endurgjalds hækkaði í samræmi við launavísitölu og hann þurfi af sömu ástæðum ekki að þola að þær verðbætur skerðist vegna lækkunar á vísitölu Vegagerðarinnar.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður krafa stefnanda tekin til greina að fullu. Þá eru ekki efni til annars en að fallast á dráttarvaxtakröfu hans enda er henni ekki efnislega mótmælt í greinargerð stefnda.

Stefnda verður og gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð

Stefndi, Akureyrarkaupstaður, greiði stefnanda, G.V. Gröfum ehf., 5.943.111 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2016 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.210.228 krónur í málskostnað.

 

Halldór Björnsson