• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Rán
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 6. febrúar 2018 í máli

nr. S-120/2018:

 

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Marvin Haukdal Einarssyni og

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Ara Rúnarssyni

(Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

(Stefán Ólafsson lögmaður, réttargæsla fyrir brotaþola)

 

Mál þetta, sem var tekið til dóms 14. desember sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 9. ágúst 2018, á hendur Marvin Haukdal Einarssyni, […] og Ara Rúnarssyni, […],

 

„fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot framin að kvöldi mánudagsins 9. október 2017 á Akureyri:

1.      Á hendur ákærðu báðum fyrir rán og að auki á hendur ákærða Ara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í félagi, á bifreiðastæði bak við Nætursöluna við Strandgötu, veist að A með ofbeldi og hótunum um ofbeldi gagnvart honum og öðrum nákomnum honum, en ákærði Marvin veitti A olnbogaskot vinstra megin í andlitið og ákærði Ari sló A með flösku í höfuðið, kýldi hann ítrekað í andlit og höfuð og sparkaði tvívegis í fótleggi hans, og meðal annars hótuðu ákærðu að drepa A og grafa í holu úti í sveit og ákærði Ari hótaði að búta niður kærustu hans, skera hann á háls og stinga hníf upp í heila hans, og tóku ákærðu af honum úlpu, síma og 4000 kr. í reiðufé. Af þessu öllu hlaut A rúmlega 1 sm skurð í hársverði, mar vinstra megin á utanverðum hálsi, mar utanvert á vinstri kjálka og hrufl vinstra megin við neðri vör.

 

2.      Á hendur ákærða Ara, fyrir gripdeild, með því að hafa að […] tekið vegabréf í eigu B og C og haft á brott með sér.

Telst brot ákærðu samkvæmt ákærulið 1 varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot ákærða Ara að auki við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Brot ákærða Ara samkvæmt ákærulið 2 telst varða við 245. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærðu verði dæmdir, in solidum, til að greiða honum 600.000 krónur í miskabætur, „auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. október 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga frá 9. nóvember 2017 til greiðsludags“. Þá er gerð krafa um þóknun til handa skipuðum réttargæslumanni brotaþola.

 

Kröfur ákærðu beggja eru samhljóða, þ.e. að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins en til vara að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði. Þess er krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af bótakröfu. Til þrautavara er þess krafist að bótakrafa verði lækkuð. Þá krefjast báðir hæfilegra málsvarnarlauna til handa verjendum að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

 

I

Upp úr klukkan átta að kvöldi 9. október 2017 barst lögreglu tilkynning um slagsmál á bak við Nætursöluna við Strandgötu. Þar var enginn er lögregla kom á staðinn en lögregla litaðist um og veitti fljótlega athygli þremur mönnum ganga norður Ráðhústorg fyrir framan Kaffi Amor. Þau þekktu ákærðu báða og vakti athygli að brotaþoli var á stuttermabol þrátt fyrir að kalt væri. Lögregla hitti þá vestan við Strandgötu 3 og gaf sig á tal við þá. Það blæddi úr höfði brotaþola, sem var einnig blóðugur á höndum og virtist hræddur. Ákærðu voru æstir og í annarlegu ástandi. Eftir stutt samtal við þá alla voru ákærðu handteknir og brotaþoli fluttur á slysadeild.

 

II

Ákærði Marvin kvaðst hafa fengið símtal frá meðákærða Ara sem hafi beðið hann að hitta sig á DJ Grill. Þeir hafi hist við Nætursöluna og brotaþoli hafi einnig verið þar. Þeir hafi farið á bak við Nætursöluna og meðákærði og brotaþoli rifist eitthvað þar en hann sjálfur ekki verið inni í þeim málum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa hótað brotaþola og ekki hafa heyrt meðákærða gera það. Ákærða hafi sýnst brotaþoli ætla að veitast að meðákærða og ætlað að skýla sér fyrir að lenda inni í því, og við það rekið olnbogann í brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða slá brotaþola með flöskunni en hafa heyrt brothljóðið. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð nein önnur högg eða spörk. Hann hafi ekki tekið neina muni af brotaþola en meðákærði hafi rétt honum þúsundkall. Meðákærði hafi verið með peninga sem hann átti og hann hafi talið þetta vera hluti þeirra fjármuna. Aðspurður kvaðst ákærði muna eftir að brotaþoli hafi farið úr úlpunni og rétt honum hana en kannaðist ekki við að brotaþoli hafi farið úr skóm. Hann kvað þá hafa gengið að 66°Norður og aftur að Ráðhústorgi en ákærði hafi bara verið á leið heim til sín. Aðspurður um áverka á brotaþola kvaðst ákærði ekki vita hvernig brotaþoli fékk áverka en ef eitthvað hafi verið honum að kenna hafi það verið óvart. Ákærða var sýnt myndband úr öryggismyndavél á bak við Nætursöluna þar sem hann þekkir sjálfan sig, meðákærða og brotaþola, en breytti engu í framburði sínum.

 

Ákærði Ari kvaðst hafa farið að […] að hitta brotaþola. Þeir hafi ætlað upp í Lundahverfi að hitta sameiginlegan kunningja vegna sveppa. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvort fleiri en brotaþoli hafi verið í […], kannski einhver vinkona brotaþola. Ákærði kvaðst hafa tekið vegabréf C, sem hann þekki vel, til að skila því. Vegabréfið hafi legið á borði þar. Hann hafi óvart gripið vegabréf B með. Þeir hafi farið saman á DJ Grill og ákærði fengið sér að borða. Hann hafi hringt í meðákærða sem hafi komið og hitt þá, og þeir þrír rölt eitthvert saman. Stuttu eftir það, þegar þeir hafi gengið í átt að Borgarbíói, hafi lögreglan stöðvað þá. Nánar aðspurður kvað ákærði þá fyrst hafa gengið að Nætursölunni en þar hafi ekkert markvert gerst. Hann kvað geta verið að þeir hafi farið á bak við húsið og spjallað við brotaþola. Þeir hafi rætt um það hvernig þeir ættu að komast upp í Lundahverfi en ekki rifist. Hann kvað ákæruna algert rugl. Hann hafi ekki hótað brotaþola, ekki barið hann eða sparkað í hann og ekki lamið flösku í höfuð hans. Hann kvaðst ekki muna hvort brotaþoli hafi farið úr úlpu eða skóm. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir að peningar hafi farið á milli þeirra. Varðandi peninga í vasa hans við handtökuna kvað hann það hafa verið hans peninga. Varðandi vörslur hans á síma B kvaðst ákærði hafa fengið að taka hann með til að ná í félaga sinn sem hann vissi að mundi ekki svara honum vegna lítilsháttar ósættis þeirra í milli. Aðspurður um áverka á brotaþola kvaðst ákærði ekki hafa neinar skýringar á þeim, hann hafi ekki tekið neinum áverkum á honum í […] og ekki heldur síðar. Ákærða var sýnt myndband úr myndavél úr öryggismyndavél á bak við Nætursöluna. Aðspurður um hvort hann þekkti sjálfan sig, meðákærða og brotaþola á myndbandinu sagðist hann ekki viss, hann sæi þetta ekki vel. Hann kvaðst ekki vilja breyta neinu í framburði sínum eftir að hafa horft á myndbandið.

Brotaþoli kvað ákærða Ara hafa komið að […] þar sem hann hafi dvalið til skamms tíma. Hann hafi legið í fráhvörfum og verið búinn að ákveða að hætta fíkniefnaneyslu. Ákærði hafi verið æstur og ásakað hann um þjófnað. Hann hafi farið um allt í leit að dópi og haft uppi stöðugar hótanir. Þar hafi hann tekið vegabréf fyrrverandi konu brotaþola úr tösku hennar. Hann hafi einnig tekið síma hennar en þó látið brotaþola geyma hann í fyrstu. Brotaþoli hafi farið með ákærða en ætlun ákærða hafi verið að nota brotaþola til að komast inn til félaga þeirra til að ræna hann. Þeir hafi stoppað á DJ Grill og ákærði fengið sér að borða en þeir svo farið í Nætursöluna til að hitta ákærða Marvin. Við hliðina á Nætursöluna hafi ákærðu bæði kýlt hann og slegið. Þeir hafi svo farið á bak við Nætursöluna og þar hafi ákærðu „snappað“. Þeir hafi talað um hvað þeir ætluðu að gera við hann svo sem að nota hann í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann, búta niður og fleygja honum út í skurð, drepa dóttur hans með því að henda Molotovkokteil inn um herbergisglugga hennar, og drepa fyrrverandi konu hans sem þeir hafi sagst vita hvar byggi. Það hafi verið ákærði Marvin sem hótaði að drepa hann, en annars hafi þetta komið frá ákærðu báðum sem hafi hlegið að þessu. Ákærði Marvin hafi skyndilega skotið olnboga sínum í vinstra gagnauga hans og ákærði Ari í beinu framhaldi lamið hann með flösku í höfuðið. Ákærðu hafi mikið sparkað í fætur hans til að ná honum niður sem þeim hafi þó ekki tekist. Þeir hafi rifið hann úr úlpu og skóm, tekið af honum síma og veski og ætlað með hann í hraðbanka til að taka út pening. Þeir hafi tekið 4.500 krónur úr veski hans. Hann hafi gengið með þeim á sokkunum, blóðugur og niðurlægður. Þeir hafi viljað fara með hann í Íslandsbanka en hann fengið þá til að koma að Arion banka. Lögregla hafi þá komið og stöðvað þetta.

Brotaþoli bar að sér hafi liðið mjög illa eftir þetta og þurft á kvíðalyfjum og sálfræðiaðstoð að halda. Hann hafi tekið hótanir þeirra mjög alvarlega og forðist Akureyri af  hræðslu við þá. Brotaþoli kvaðst stundum fá höfuðverki sem hann tengi árásinni.

Vitnið B kvaðst hafa verið í […] ásamt brotaþola. Ákærði Ari hafi komið en hún reynt að koma í veg fyrir að hann kæmist inn, enda hafi hann hótað þeim áður, m.a. með hnífi. Hann hafi þó komist inn, gramsað þar í öllum skúffum, skápum og töskum og m.a. tekið síma hennar og vegabréf. Ákærði hafi tekið brotaþola með sér út. Hún kvaðst hafa verið hrædd við ákærða.

Vitnið D læknir staðfesti læknisvottorð sitt um áverka á brotaþola og aðspurður sagði hann áverkana geta samræmst lýsingu ákærða á atvikum.

Vitnið C kvaðst aðspurður ekki hafa beðið ákærða Ara að geyma vegabréf hans eða færa sér það.

Vitnið E lögreglumaður kvað lögreglu hafa farið í miðbæinn vegna tilkynningar um slagsmál. Hann og félagi hans hafi séð ákærðu og brotaþola við Kaffi Amor á leið í norðurátt og það vakið athygli að brotaþoli væri á stuttermabol þó kalt væri úti. Þegar þeir hafi hitt þá litlu norðar hafi brotaþoli verið að fara í úlpuna. Brotaþoli hafi augljóslega verið mjög hræddur en ákærðu hafi verið æstir. Brotaþoli hafi ítrekað litið á hendur sér, sem hafi skolfið, og kvaðst vitnið hafa orðið þess áskynja að hann vildi tala við lögreglumennina en þorði það ekki að ákærðu viðstöddum. Hann hafi því tekið brotaþola afsíðis til að ræða við hann í einrúmi og hann þá staðfest að ákærðu hafi veitt honum þá áverka sem á honum voru. Í framhaldinu hafi verið unnið út frá því.

Vitnið F lögreglumaður kvaðst aðspurður hafa þekkt ákærðu báða. Þegar þeir hafi séð þá við Kaffi Amor á leið að Sjóvá hafi brotaþoli verið á stuttermabol. Þegar þeir hafi rætt við þá hafi strax mátt finna að brotaþoli var mjög hræddur. Ákærði Ari hafi verið mjög æstur og ákærði Marvin einnig fyrst, en hann hafi þó róast.

Vitnið G lögreglumaður kvaðst hafa farið á staðinn í bíl með H lögreglumanni. Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærðu báða en ekki brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa virst hræddur við ákærðu og hún því spurt hann hvort ákærðu hafi veitt honum áverkana og hann jánkað því. Hún og E hafi farið með brotaþola á sjúkrahúsið.

Vitni H lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang með G. Þær hafi séð ákærðu við Ráðhústorg, þær hafi ekið hring og komið aftur að þeim vestan við pósthúsið. Hún kvaðst hafa þekkt ákærðu. Hún kvaðst strax hafa tekið eftir að brotaþoli væri hræddur en ákærðu hafi verið æstir. Hún hafi aðallega snúið sér að Ara sem hafi verið mjög æstur, og farið með hann á lögreglustöð.

 

III

Ákærða Ara og brotaþola ber saman um að ákærði hafi komið á dvalarstað brotaþola, tekið þar tvö vegabréf og þeir farið saman í miðbæinn. Ákærðu báðum og brotaþola ber einnig saman um að þeir þrír hafi svo hist við Nætursöluna, átt þar einhver orðaskipti, gengið gegnum portið að 66°Norður og svo norður Skipagötu að pósthúsinu þar sem lögregla hafði afskipti af þeim.

Fyrir liggur upptaka úr öryggismyndavél sem myndar svæðið á bak við Nætursöluna. Myndin er hljóðlaus en sjá má að ákærðu beina þar orðum sínum til brotaþola og greinilega ekki í neinni vinsemd, þeir eru sjáanlega æstir og ógnandi í tilburðum. Án nokkurs fyrirvara skýtur ákærði Marvin svo olnboga sínum í andlit brotaþola og í beinu framhaldi af því slær ákærði Ari brotaþola með flösku í höfuðið. Brotaþoli sýndi engar ógnandi eða skyndilegar hreyfingar áður, eins og ákærði Marvin hefur haldið fram. Í framhaldinu tala ákærðu áfram við brotaþola, ógnandi í háttalagi, draga hann um svæðið og ákærði Ari kýlir brotaþola meðal annars ítrekað í andlit. Sjá má að þeir láta brotaþola fara úr úlpu og skóm, ganga með hann á brott og hverfa úr mynd litlu síðar. Allan tímann sem þeir eru í mynd má sjá að ákærðu stjórna ferðinni og eru ógnandi í tilburðum við brotaþola sem hefur sig lítt í frammi.

Ákærðu hafa alfarið neitað sök samkvæmt ákærulið 1 og segjast hvorki hafa hótað brotaþola, veist að honum með ofbeldi né haft af honum úlpu, síma eða fjármuni. Á framangreindri myndbandsupptöku má þó sjá, svo ekki verður um villst, að þeir veittust líkamlega að brotaþola eins og lýst er í ákærulið 1, þar á meðal að ákærði Ari sló brotaþola með flösku í höfuðið. Framburður ákærðu er því augljóslega ósannur hvað þetta varðar.

Ákærði Marvin bar að ákærði Ari og brotaþoli hafi eitthvað rifist en ákærði Ari neitaði að svo hefði verið. Á upptökunni má þó sjá að ákærðu tala mikið og reiðilega til brotaþola með ógnandi tilburðum og ofbeldi. Á upptökunni má að auki sjá að ákærðu láta brotaþola fara úr úlpunni og kvað brotaþoli þá hafa tekið peninga sem hann hafði, líklega 4.500 krónur, og fundið greiðslukort sem hann hafði á sér. Þegar lögregla kom á staðinn hafi ákærðu verið á leið með hann í hraðbanka til að taka út peninga. Brotaþoli fékk úlpu sína aftur þegar lögregla nálgaðist þá en á ákærðu fundust alls 4.000 krónur, auk þess sem sími í eigu kærustu brotaþola fannst á ákærða Ara. Í ljósi þess að framburður ákærðu er að engu hafandi, og þess að framburður brotaþola hefur verið trúverðugur og stöðugur og fær stoð í gögnum málsins, verður lagt til grundvallar að ákærðu hafi hótað brotaþola og gengið í skrokk á honum í þeim tilgangi að hafa af honum verðmæti, og að þeir hafi haft af honum það lítilræði sem hann hafði á sér. Þeir verða því sakfelldir fyrir rán í sameiningu og varðar það við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að auki varðar sú háttsemi ákærða Ara, að slá brotaþola með flösku í höfuðið, við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Í 2. lið ákærunnar er ákærða Ara gefin að sök gripdeild með því að hafa tekið vegabréf B og C. Samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga eru þau brot sem talin eru í XXVI. kafla laganna aðeins refsiverð hafi þau verið framin í auðgunarskyni. Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. laga um vegabréf nr. 136/1998 telst vegabréf eign íslenska ríkisins. Vegabréf hafa ekki fjárgildi. Verður því ekki fallist á að taka ákærða Ara á þeim sé auðgunarbrot. Því verður ákærði Ari sýknaður af sakargiftum í 2. lið ákærunnar.

 

IV

Ákærði Ari Rúnarsson á nokkurn sakaferil. Hann var fyrst dæmdur til fangelsisvistar 11. júlí 2016 fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna sviptur ökurétti. Fangelsi var dæmt til 30 daga, skilorðsbundið í 2 ár. Þann 22. desember 2016 var hann dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir hótanir og brot gegn vopnalögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Skilorðsdómurinn frá 11. júlí 2016 var tekinn upp og dæmdur með. Þann 7. september 2017 var ákærði dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar og sviptur ökurétti fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Skilorðsdómurinn frá 7. september 2017 var þá tekinn upp og dæmdur með. Hinn 31. október 2017 var ákærði dæmdur á ný fyrir brot gegn fíkniefna­lög­gjöfinni en ekki gerð sérstök refsing þar sem um hegningarauka var að ræða. Loks var ákærði dæmdur í fangelsi í einn mánuð þann 21. ágúst 2018, fyrir fíkniefnalagabrot. Þar var einnig um hegningarauka að ræða.

Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann 9. október 2017. Er því um að ræða hegningarauka við tvo síðastnefnda dóma. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að um samverknað var að ræða, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að ákærði gerðist einnig sekur um stórfellda líkamsárás. Þá verður litið til þess að ákærðu létu ekki sjálfir af háttseminni heldur vegna þess að lögregla kom á staðinn. Með vísan til framangreinds skal ákærði sæta fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði Marvin Haukdal Einarsson á einnig nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2003. Honum var síðast gerð fangelsisrefsing í mars 2017, en hafði þá ekki verið dæmdur til fangelsisrefsingar í um sjö ár. Í dóminum frá 10. mars 2017 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi sem var bundið skilorði til þriggja ára, fyrir líkamsárás og vopnalagabrot. Sá dómur hefur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú, sbr. 1. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð síðastnefnds dóms. Ber því að taka þann dóm upp og ákveða honum refsingu í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að um samverknað var að ræða og þess að ákærðu létu ekki sjálfir af háttseminni heldur vegna þess að lögregla kom á staðinn. Ákærði skal sæta fangelsi í 12 mánuði.

Í málinu krefst brotaþoli þess að ákærðu verði dæmdir í sameiningu til að greiða sér 600.000 krónur í miskabætur, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. október 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga frá 9. nóvember 2017 til greiðsludags. Fjárhæð bótakröfu þykir ekki úr hófi fram og er tekin til greina. Hún beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2017 til 4. október 2018, en þá var mánuður liðinn frá því að báðum ákærðu hafði verið birt bótakrafan. Frá þeim degi beri hún dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Að kröfu ákæruvalds og samkvæmt niðurstöðu málsins verða ákærðu dæmdir til greiðslu sakarkostnaðar. Þeir greiði í sameiningu þóknun og ferðakostnað skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar lögmanns, eins og greinir í dómsorði. Auk þess greiði ákærði Ari málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, eins og greinir í dómsorði, og ákærði Marvin greiði málsvarnarlaun og ferðarkostnað skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, eins og greinir í dómsorði. Málsvarnarlaun verjenda og þóknun réttargæslumanns eru í dómsorði tilgreind með virðisaukaskatti.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Ari Rúnarsson sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði Marvin Haukdal Einarsson sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærðu greiði í sameiningu A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2017 til 4. október 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu greiði sameiginlega 401.900 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs réttargæslumanns, Stefáns Ólafssonar lögmanns, 368.900 krónur og ferða­kostnaður hans, 33.000 krónur.

Ákærði Ari greiði auk þess 1.004.585 krónur í sakarkostnað, sem eru máls­varnarlaun skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 865.545 krónur, og 139.040 í ferðakostnað hans.

Ákærði Marvin greiði auk þess 766.090 krónur í sakarkostnað, sem eru máls­varnar­laun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 737.800 krónur, og 28.290 krónur í ferðakostnað.