• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 28. nóvember 2018 í máli

nr. S-104/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

(Réttargæslumaður brotaþola: Stefán Ólafsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 3. október sl., var höfðað með ákæru héraðs­saksóknara, dagsettri 5. júlí 2018, á hendur X, […],

 

„fyrir nauðgun, með því að hafa á ótilgreindum tíma helgina 22.-24. janúar 2010, á heimili sínu að […], haft samræði við A án hennar samþykkis, með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar og ekki hætt er A vaknaði heldur haldið höndum hennar fyrir ofan höfuð, lagt hendi sína yfir munninn á henni og hvíslað að henni „uss, ekki segja mömmu þinni frá þessu“.

 

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007 og 1. gr. laga nr. 16/2018.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. […] er gerð sú krafa að ákærði X verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjár­hæð kr. 1.750.000, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2010 en með dráttar­­vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga frá 1. febrúar 2010 til greiðslu­dags, og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eftir mati dómara eða síðar framlögðum reikningi að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.“

 

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði. Hann krefst frávísun bótakröfu, til vara að hann verði sýknaður af kröfu um bætur en þrautavara að fjárhæð bótakröfu verði lækkuð verulega. Þá er krafist málsvarnarlauna til handa verjanda auk annars kostnaðar af málsvörn ákærða, og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

 

I

Málavextir eru þeir að brotaþoli var nemi á 1. ári í […] 2009-2010. Eitt sinn er hún kom til […] til helgardvalar hjá móður reyndist móðir hennar vera á […] og vera undir áhrifum áfengis og því ekki geta keyrt til […]. Varð úr að haft var samband við ákærða, sem var vinur kærasta móðurinnar, og hann spurður hvort brota­þoli gæti gist þar þessa nótt. Móðir brotaþola myndi svo koma […] daginn eftir.

Brotaþoli kom síðdegis á heimili ákærða. Liggur fyrir að ákærði bauð stúlkunni áfengi, sem hún þáði. Einnig liggur fyrir að hann hafði við hana kynmök í rúmi sínu en ákærði kveður það hafa verið með samþykki hennar. Brotaþoli kveðst hins vegar hafa verið orðin nokkuð ölvuð og viljað fara að sofa. Ákærði hafi þá boðið henni að sofa í sínu rúmi. Hún hafi þegið það, háttað og sofnað, en svo vaknað við það að hann var ofan á henni að hafa við hana kynmök.

Móðir brotaþola og sambýlismaður hennar komu næsta dag að heimili ákærða. Brotaþoli sagði henni að hún ætlaði strax aftur á […] en fór til […]. Um viku síðar var hringt úr skóla brotaþola í móður til að kanna hvort brotaþoli væri lasin og áttaði móðir sig þá á að brotaþoli hefði ekki farið að […]. Hún og sambýlismaður hennar sóttu brotaþola í kjölfarið til […].

 

II

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins en við aðal­meðferð málsins nýtti hann rétt sinn, samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008, til að tjá sig ekki um sakar­efnið. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þykir þó rétt að rekja að helstu atriði úr framburði hans hjá lögreglu við rannsókn málsins.

Við yfirheyrslur lögreglu kvað ákærði brotaþola hafa komið til sín og spurt hvort hún mætti gista hjá honum. Hann hafi svo tilkynnt móður hennar sama dag eða þann næsta hvar brotaþoli væri stödd. Hann kvaðst hafa gefið brotaþola að borða, leyft henni að baðast og fara í tölvuna, bara eins og hún væri heima hjá sér. Hann kveðst hafa drukkið áfengi og um ellefu eða hálftólf hafi hann spurt hvort þau ættu að fara að sofa. Hún hafi játað því og farið nánast nakin upp í rúm. Hann viti ekki hvers vegna hún hafi gert það en svo hafi eitt leitt af öðru. Hann hafi ekki þvingað hana til kynmaka, þetta hafi bara æxlast svona eins og þau væru kærustupar. Næsti dagur hafi liðið ósköp eðlilega, hann hafi sótt kvöldmat handa brotaþola og boðið henni að vera í tölvunni. Þann dag hafi hann tilkynnt móður brotaþola að brotaþoli væri hjá honum. Þegar hann hafi farið að sofa hafi hann spurt brotaþola hvort hún ætlaði ekki bara að sofa í stofunni eða sagt henni að vera bara inni í stofu. Móðir brotaþola hafi svo komið á heimili hans daginn eftir. Hún hafi þakkað ákærða fyrir og spurt brotaþola hvort hún ætlaði ekki að þakka fyrir sig. Brotaþoli hafi þá tekið utan um hann. Ákærði kveður þetta mál enn hafa verið til umræðu einhverjum vikum eða mánuðum síðar og hann minni að hann, móðir brota­þola og brotaþoli hafi rætt þetta stuttlega. Þá hafi honum skilist að ekkert yrði gert í málinu og engin kæra lögð fram.

Aðspurður hvort brotaþoli hafi drukkið áfengi kvað hann það vel geta verið. Hann hafi verið að drekka. Aðspurður hvort hann væri viss um að brotaþoli hefði gist hjá honum tvær nætur kvaðst hann vera það en mundi ekki hvort hann hefði hringt í móður brotaþola, hvort brotaþoli hefði gert það eða hvort móðir brotaþola eða sambýlis­maður hennar hefðu hringt í hann.

Aðspurður sérstaklega um hvort kynmökin hafi verið með vilja brotaþola svaraði ákærði: „Já, ég þvingaði hana aldrei til neins“ og „Já… ja hennar vilja, það náttúru­lega… ég meina hún gat alveg sagt nei“. Ákærði kannaðist við að hafa sagt brotaþola að segja ekki mömmu sinni frá þessu. Aðspurður um framburð brotaþola, þess efnis að hann hafi boðið henni að sofa í rúminu, en hann myndi vera frammi í stofu, kvaðst hann ekki muna það. Hann kvað það hins vegar lygi hjá brotaþola að hún hafi verið sofnuð ein inni í rúmi en vaknað þegar hann hafi verið byrjaður að hafa við hana kynmök um leggöng.

 

Brotaþoli lýsti atvikum svo að hún hafi verið á fyrsta ári í […] og verið með heimþrá. Hún hafi því viljað fara heim til móður um helgar. Umrædda helgi hafi hún fengið far til […] á laugardegi og hringt í móður sína á leiðinni. Hún hafi talið við að móðir hennar ætti von á henni um helgar en í þetta sinn hafi móðir hennar verið á […] og fengið B kærasta sinn til að útvega brota­þola gistingu hjá ákærða. B og ákærði hafi verið bestu vinir, hún hafi því oft hitt hann áður og ekki þótt óþægilegt að eiga að gista hjá honum. Brotaþoli kvaðst telja að hún hafi komið heim til ákærða um klukkan fjögur þennan laugardag. Hún hafi hringt bjöllunni og ákærði boðið henni inn. Hún hafi sest í sófa og hann í stól og þau hafi talað saman og horft á sjónvarp. Ákærði hafi verið búinn að setja sæng og kodda við sófann, þar sem henni var ætlað að sofa. Ákærði hafi boðið brotaþola áfengi og hún þegið það því hún hafi ekki viljað vera dónaleg. Hún kvaðst hafa drukkið tvo bjóra og svo eitthvað sterkt áfengi, líklega vodka. Hún hafi svo fundið til áfengisáhrifa og þá viljað fara að sofa og ákærði þá boðið henni herbergi sitt. Hún hafi þakkað honum það, háttað sig í stuttbuxur og bol og lagst upp í rúm. Hún hafi ekki læst herbergis­hurðinni enda einskis ills vænst. Brotaþoli kvaðst hafa sofnað en svo vaknað við það að ákærði var að hafa við hana kynmök. Hann hafi legið ofan á henni og haldið höndum hennar krosslögðum ofan við höfuð hennar. Hún hafi þá verið orðin ber að neðan en verið í bolnum. Ákærði hafi sagt: „sss… ekki segja mömmu þinni frá“. Brotaþoli kvað ákærða hafa haft sáðlát inn í hana og hún þá farið í sturtu og þrifið sig alla. Þegar hún hafi komið út af baðherberginu hafi ákærði verið vakandi inni í eldhúsi og ekkert talað við hana.

Brotaþoli bar að henni hafi liðið mjög illa, verið sjokkeruð og hrædd og velt fyrir sér eftir á hvort þetta hefði verið henni að kenna. Hún hafi margoft farið yfir það í huganum hvort hún kynni að hafa gefið ákærða einhver merki um að þetta væri það sem hún vildi, en ekkert fundið. Aðspurð kvað brotaþoli kynmökin ekki hafa átt sér neinn aðdraganda. Það hafi enginn samdráttur verið þeirra á milli eða kynferðisleg spenna, hvorki þennan dag né við fyrri kynni þeirra. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekkert hafa sagt á meðan kynmökunum stóð og svaraði því varðandi hald ákærða á höndum hennar að þetta hafi ekki verið tök eins og hann væri að halda henni fastri. Aðspurð um hvort hún hafi tekið á móti kossum frá honum kvaðst brotaþola kannski hafa gert það, hún hafi ekki vitað hvað hún átti að gera í þessum aðstæðum.

Aðspurð um framburð ákærða kvað brotaþoli það ekki rétt að hún hafi beðið um gistinguna. Hún hafi hringt í móður sína sem hafi ráðgast við kærasta sinn því þau hafi verið búin að drekka. Móðir hennar hafi svo hringt og sagt henni að hún gæti gist hjá ákærða. Aðspurð kvað brotaþoli líka alveg útilokað að hún hafi verið tvær nætur hjá ákærða, þetta hafi aðeins verið ein nótt frá laugardegi. Þá væri það alls ekki rétt að eitt hafi leitt af öðru.

Brotaþoli kvað móður sína og kærasta hennar hafa komið um hádegi næsta dag. Hún hafi tekið skyndiákvörðun um að komast sem lengst í burtu. Hún hafi skrökvað að móður sinni að hún ætlaði að hitta vinkonu, tekið tösku sína úr bifreið móður sinnar og labbað á […]. Þar hafi hún beðið þar til hún fékk far til […]. Þaðan hafi hún tekið flug til […] og farið til kærasta síns á […]. Brotaþoli kvaðst ekki hafa látið neinn vita af ferðum sínum en viku síðar hafi móðir hennar fengið símtal frá skólanum. Móðir hennar hafi þá haft samband við lögreglu og komist að því að hún væri […]. Hún og kærasti hennar hafi þá sótt brotaþola.

Brotaþoli kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu fljótlega eftir að þær komu frá […] og hún hafi í fyrstu ekki viljað trúa þessu. Síðan hafi hún grátið og faðmað brotaþola og sagt að hún skyldi kæra þetta. Brotaþoli kveðst hafa hringt í lögreglu og spurt hvað maður þyrfti að vera gamall til að leggja fram kæru og fengið þau svör að maður þyrfti að vera orðinn 18 ára en annars fá forráðamann til þess. Hún hafi þakkað fyrir og skellt á, skýrt móður sinni frá þessu sem hafi svo ekkert gert í málinu.

Brotaþoli kvað þetta atvik hafa legið þungt á sér og með tímanum sagt fleirum frá þessu, fyrst systrum sínum og síðar núverandi eiginmanni sínum. Árið 2013 hafi hún sagt mágkonu sinni frá þessu. Þær hafi verið á nágrenni […] og farið og talað við lögreglumann þar. Í október 2014 hafi hún svo verið orðin mjög þunglynd og skýrt tengdamóður sinni frá þessu atviki. Tengdamóðir hennar hafi átt frumkvæði að því að koma henni í samband við C, ráðgjafa hjá […] og í viðtöl til D, sálfræðings á […]. Hún kvað þá meðferð hafa skilað góðum árangri, líðan hafi batnað mikið og hún væri laus við skömmina sem hún hefði burðast með. Aðspurð um af hverju hún hafi svo ákveðið að leggja fram kæru eftir þessi ár bar brotaþoli að þau hjónin hafi ákveðið að flytja til […] og þá hafi hún afráðið að klára þetta mál, skilja það eftir á Íslandi og lifa sínu lífi þar.

 

Vitnin E, móðir brotaþola, og B, kærasti hennar, báru einnig að brotaþoli hafi hringt á laugardegi og ætlað að koma til þeirra. Þau hafi þá verið á […] og ekki getað keyrt […] og því hlutast til um að hún fengi gistingu hjá ákærða. Daginn eftir hafi þau farið að heimili ákærða til að sækja brotaþola. Hún hafi ætlað að fara út og hitta vinkonu, en hafi síðar hringt og sagst vera á leið til […]. Á föstudegi viku síðar hafi þau komist að því að hún væri á […] og hefði ekkert mætt í skólann þá viku. Þau hafi ekið vestur að sækja hana. Þau báru bæði að síðar hafi X sagt að brotaþoli hafi verið tvær nætur hjá honum en það hafi ekki verið nefnt á þessum tíma.

Vitnið B kvað ákærða hafa sagt að kynmökin hefðu „nú svona eiginlega verið með hennar samþykki“. „Hún hefði ekkert alla vega…, ekki sagt nei eða neitt slíkt sko.“ Vitnið kveðst hafa skilið ákærða svo að þau hafi bæði farið inn í rúm og „hún sagði ekkert nei eða neitt svoleiðis“. Aðspurt hvort vitnið hefði skilið ákærða svo að þetta hafi verið með samþykki brotaþola svara vitnið: „Ja, alla vega hún hafi ekki mótmælt“.

 

III

Ákærði nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki um atvik máls fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunar­gögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Sönnunargildi lögreglu­skýrslna af honum er því takmarkað en fyrr liggur að hann neitaði sök fyrir dómi.

 

Með vísan til framburðar brotaþola sem fær stoð í framburði vitnanna E og B, með hliðsjón af framburði ákærða hjá lögreglu, þykir mega slá því föstu að brotaþoli gisti í eitt skipti að heimili ákærða og að hann hafði þá við hana kynmök.

Fyrir liggur dagbókarfærsla lögreglunnar á […] frá föstudeginum 29. janúar 2010, þess efnis að vitnið B hafi hringt og tilkynnt um 16 ára stúlku sem væri staðsett á […] í leyfisleysi. Stúlkan heiti A og hafi strokið eða farið í leyfisleysi frá […] til nefnds pilts á […]. Vitnin E og B staðfestu að brotaþoli hafi aðeins einu sinni stungið af […]. Það hafi verið í kjölfar þess að hún gisti hjá ákærða. Þykir því mega leggja til grundvallar tímasetningu atvika í ákæru.

 

Ákærða er í ákæru gefið að sök að hafa notfært sér svefndrunga og ölvun brotaþola til að hafa við hana samræði, og hafa ekki hætt þegar hún vaknaði. Til að sakfella megi ákærða þarf því að vera sannað að honum hafi verið ljóst að brotaþoli væri svo ölvuð og/eða sofandi að hún gæti ekki spornað við verknaðinum, og einnig að hann hafi haft ásetning til að nýta sér það ástand hennar til að ná fram kyn­mökum. Þó að telja verði ámælisvert að maður á fimmtugs­aldri hafi haft kynmök við 16 ára stúlku sem honum hefur verið falið að skjóta skjólshúsi yfir og virst, miðað við framburð hans hjá lögreglu og framburð vitnisins B um samtal hans við ákærða, hafa látið sér afstöðu hennar til kynmakanna í léttu rúmi liggja, tekur ákæran ekki til þeirrar háttsemi og verður hann því ekki sakfelldur fyrir það.    

 

Þrátt fyrir að sönnunargildi lögregluskýrslu af ákærða sé takmarkað þykir mega líta til þess að framburður hans hjá lögreglu og framburður brotaþola fara í langflestu saman um atburði umrædds kvölds. Í raun ber þar aðeins á milli um atvik rétt áður en ákærði hafði samræði við brotaþola. Brotaþoli kvað ákærða hafa boðið henni að sofa í rúmi hans, en hann skyldi sjálfur sofa á sófa í stofunni. Hann hafi ekki verið inni í herberginu þegar hún háttaði heldur hafi hún vaknað við að hann var að hafa við hana samræði. Ákærði lýsti því hins vegar að hún hafi lagst léttklædd upp í rúm og svo hafi eitt leitt af öðru og hann haft við hana samræði.

Engum gögnum er til að dreifa um ölvunarástand brotaþola þetta kvöld og sjálf hefur hún ekki lýst því að hún hafi verið svo ölvuð að hún hafi af þeim sökum ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér. Um það að brotaþoli hafi verið sofnuð og ákærða verið það ljóst þegar hann hóf við hana samræði, er engu öðru til að dreifa en framburði brotaþola en ákærði hefur eindregið neitað sök. Gegn þeirri eindregnu neitun verður ekki talin komin fram í málinu lögfull sönnun þess að ákærði hafi brotið gegn brotaþola, með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af kröfum ákæruvalds, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008.

 

Með vísan til úrslita málsins og 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er bótakröfu brotaþola vísað frá dómi.

Samkvæmt úrslitum málsins skal sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði. Þar eru meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, Ómars R. Valdimars­sonar lögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 1.264.800 krónur og útlagður kostnaður hans, 86.890 krónur, þóknun tilnefnds verjanda hans á rannsóknarstigi, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 69.719 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar lögmanns 316.200 krónur, og ferða­kostnaður hans 33.000 krónur. Málsvarnarlaun og þóknun eru tilgreind að virðisaukaskatti með­töldum.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Bótakröfu, A, er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 1.264.800 krónur, útlagður kostnaður hans, 86.890 krónur, þóknun tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 69.719 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar lögmanns, 316.200 krónur og ferðakostnaður hans, 33.000 krónur.

 

                                                                           Halldór Björnsson