• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 1. febrúar 2018 í máli

nr. S-3/2018:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

X

 

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi 2. janúar 2018, með ákæru á hendur X.

„fyrir eftirtalin brot:

 

I.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa, fimmtudaginn 12. október 2017, ráðist að bróður sínum [A], á heimili hans að ..., og reynt að fella [A] í gólfið, og síðan reynt að slá hann og sparka í hann í átökum þeirra á milli og því næst bitið hann í hægri framhandlegg, áður en [A] náði að yfirbuga hann, með þeim afleiðingum að [A] hlaut roðaflekk, um 4-5 cm í þvermál á hægri framhandlegg, annan minni áverka ofar á sama framhandlegg og roða ofarlega framan á hægri sköflung.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Fyrir barnaverndarlagabrot, með því að hafa, með þeirri háttsemi sem lýst er í ákærulið I, beitt barnið [A], líkamlegum ógnunum, og sýnt honum yfirgang og ruddalegt athæfi.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2008, með síðari breytingum.

 

III.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varða brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 2.000 krónum, auk réttargæsluþóknunar lögmanns á rannsóknarstigi, sem ákveðst eins og greinir í dómsorði, virðisaukaskattur meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga  með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði 86.320 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæsluþóknun Ásgeirs Arnar Blöndals lögmanns, 84.320 krónur.