• Lykilorð:
  • Landamerki
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R:

Héraðsdóms Norðurlands vestra miðvikudaginn 8. febrúar 2017 í máli

nr. E-47/2015:

 

                                                                            Birgir Freyr Þorleifsson og

                                                                            Júlía Linda Sverrisdóttir

                                                                            (Ólafur Björnsson hrl.)

                                                                            gegn

                                                                            Páli Ragnarssyni

                                                                            Sverri Páli Erlendssyni

                                                                            Eddu Erlendsdóttur

                                                                            (Guðjón Ármannsson hrl.)

                                                                            Hofstorfunni slf. og

                                                                            (Jón Eðvald Malmquist hdl.)

                                                                            Svandísi Jónasínu Þóroddsdóttur

                                                                            (enginn)

 

Mál þetta var höfðað 8. desember 2015 og dómtekið 14. desember 2016.

Stefnendur eru Birgir Freyr Þorleifsson og Júlía Linda Sverrisdóttir, Vogum á  Höfðaströnd í Skagafirði.

Stefndu eru Páll Ragnarsson, Birkihlíð 35, Sauðárkróki, Sverrir Páll Erlendsson, Ásvegi 29, Akureyri, Edda Erlendsdóttir, Hraunhólum 21, Garðabæ, Hofstorfan slf., Hofi á Höfðaströnd, fyrirsvarsmaður Lilja Sigurlína Pálmadóttir, Miðstræti 7, Reykjavík og Svandís Jónasína Þóroddsdóttir, Sunnuhvoli, Hofsósi.

Dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðanna Voga/Þönglaskála, gagnvart spildu úr Hofi, (lnr. 214232) annarsvegar, og landi Hofs hinsvegar, séu eftir gamla sýsluveginum, sem lá nánast á sama stað og núverandi þjóðvegur liggur. Nánar tiltekið er þess krafist að merki jarðanna á hinu umþrætta svæði séu úr eftirtöldum punktum, sem munu vera hnitsettir  eftir ISN93 staðsetningarsniði í WGS84 hnattstöðuviðmiði:

 

 

E-hnit (austur)

N-hnit (norður)

Örnefni

481477

602942

NA hornp. Voga á sýsluvegi

481446

602819

Sýsluvegur

481472

602732

Sýsluvegur

481526

602512

Sýsluvegur

481654

602352

Sýsluvegur

481818

602102

Sýsluvegur

481873

601990

Sýsluvegur

481891

601887

Hornp. Voga SA á sýsluvegi

 

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, annarra en Svandísar Jónasínu, ,,in solidum“.

Stefndu Páll, Sverrir Páll, Edda og Hofstorfan slf. krefjast sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.

Stefnda Svandís Jónasína heldur ekki uppi vörnum og gerir engar kröfur af sinni hálfu.

Hinn 17. maí 2016 úrskurðaði dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra sig vanhæfan til að fara með málið. Dómstólaráð fól undirrituðum dómara meðferð þess 27. sama mánaðar. Gögn málsins bárust 15. júní.

Gengið var á vettvang 18. október.

I

Stefnendur eiga Voga og ¾ hluta úr Þönglaskála á Höfðaströnd. Stefndu Páll, Sverrir Páll og Edda eiga spildu úr landi Hofs á Höfðaströnd og stefnda Hofstorfan slf. er eigandi Hofs. Stefnda Svandís Jónasína á óskipt hlunnindi í landi Þönglaskála/Voga og ¼ úr Þönglaskála.

Samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þönglaskála frá 10. júní 1889 voru merki jarðarinnar að norðanverðu milli Þönglaskála og Bæjar úr miðju Æðarskeri beina stefnu í stóra þúfu upp á flóanum, þaðan upp í Tíðalág. Segir síðan að þá taki við Hofsland. Liggi merkin suður með Hofsskógi að vestan, til þess neðan við Engilbrektshóla, að þau beygist beint í vestur og ofan í Margróf og til sjávar norðan við Snekkunaust.

Fyrir liggja lýsingar úr skjalasafni Örnefnastofnunar á Hofi, skráðar af Margeiri Jónssyni, eftir munnlegri frásögn Halldórs Jónssonar á Hofi og handriti Árna Jóhannssonar á Hrauni (1936), og Þönglaskála, skráðar af Jóhanni Ólafssyni 1971 eftir Sigmundi Baldvinssyni frá Þönglabakka, f. 1899. Í örnefnalýsingu Hofs er að finna lýsingu á merkjum í þá veru að Þönglaskálaland sé næst norðan við Hofsland. Merkin liggi yfir svonefndan Þönglaskálaflóa og um þau, ofan við flóann, sé Tíðalág. Hér um bil í norður frá Hofstúni séu Langhólar um merkin, séu það melhólar. Í lýsingu Þönglaskála er merkjum svo lýst að landamerki að norðan séu úr svokölluðu Æðarskeri, skammt frá landi, til austurs í svokallaða Tíðalág, sem sé grasgróið drag ofan við Þönglaskálaflóa og þaðan í hlaðna vörðu í svokölluðum skógarjaðri. Þaðan til suðurs í aðra vörðu í skógarjaðri, þaðan svo sjónhending í vestur og í svokallaða Gróf og í sjó fram.

Jón Jónsson eigandi Hofs á Höfðaströnd seldi Páli Erlendssyni bónda á Þrastastöðum spildu úr Hofslandi 18. júní 1922. Spilduna afmarkaði hann að vestan af ,,sýsluveginum.“ Þessi spilda er nú í eigu stefndu Páls, Sverris Páls og Eddu.

Þann 26. júní 1927 seldi sami Jón Jónsson Jóhanni Eiríkssyni eignarjörð sína Þönglaskála. Segir í kaupsamningi að landamerki jarðarinnar skuli ákveðin þannig að hvað austurmerkin varði ráði ,,sýsluvegurinn á Hofsskógi“.

Þann 7. ágúst 1959 gerðu Jón Þorgrímsson og Þorleifur Jónsson landamerkjabréf vegna skipta á Þönglaskála. Lýstu þeir merkjum þannig að austan, að þau réðust af merkjunum milli Hofs og Þönglaskála, þ.e. Siglufjarðarvegi. Lýsti nýbýlanefnd merkjum með sama hætti í landamerkjabréfi sem hún gaf út vegna landskiptanna 18. júní 1962.

Með bréfi 23. nóvember 1962 heimilaði menntamálaráðherra Þorleifi Jónssyni að taka upp nafnið Vogar á nýbýli í landi Þönglaskála.

Ágreiningur í þessu máli snýst um vesturmörk spildunnar og Hofs við Þönglaskála og Voga. Telja stefnendur að sýsluvegur sá er Jón Jónsson vísaði til hafi verið vegur sem enn sést glöggt móta fyrir og lá rétt hjá þar sem nú er þjóðvegurinn á þeim kafla sem hér skiptir máli. Stefndu Páll, Sverrir Páll og Edda telja að sýsluvegurinn hafi verið nokkru vestar, í vesturjaðri Hofsskógs. Benda þau á ógreinilegar götur þar. Stefnda Hofstorfan slf. er sammála stefnendum um legu sýsluvegarins, en telur að miða eigi við eldri merki samkvæmt landamerkjalýsingum.

II

Stefnendur kveðast byggja á þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna Voga/Þönglaskála, einkum merkjalýsingu í kaupsamningnum frá 1927 og í afsali fyrir spildu úr landi Hofs árið 1922. Er byggt á því að þáverandi sýsluvegur hafi legið á nokkurn veginn sama stað og núverandi þjóðvegur.

Þá kveðast stefnendur vísa til merkjalýsinga í landskiptagerningum, kaupsamningum og afsölum og veðbandslausnum, varðandi þær eignir sem hér sé deilt um merki á milli. Einnig sé vísað til örnefnaskráa, eldri heimilda um merki og korta af svæðinu, m.a. svonefnds herforingjaráðskorts frá 1920 og uppdráttar af merkjum Voga frá 2015.

Stefnendur vísa til landamerkjabréfsins fyrir Voga frá 7. ágúst 1959, þar sem segir að Siglufjarðarvegur ráði merkjum. Engin gögn styðji það að sýsluvegurinn hafi verið mun vestar. Þegar Jón Jónsson hafi afsalað spildunni hafi hann kveðið á um að sýsluvegurinn réði vesturmerkjum hennar. Geti stefndu eigendur spildunnar ekki átt meiri rétt en Jón hafi afsalað. Þegar Jón hafi selt Þönglaskála hafi hann ákveðið að láta merkin ráðast af sýsluveginum. Þetta hafi honum verið heimilt, hvernig sem merkjum hafi áður verið háttað, þar sem hann hafi átt báðar jarðirnar, Þönglaskála og Hof. Hafi landamerkin verið óbreytt síðan og unnið sér hefð fyrir löngu.

Þá byggja stefnendur á því að eldri heimildir um merki á þrætusvæðinu fari ekki í bága við þinglýst merki.

Stefnendur kveðast vísa til laga um landamerki nr. 5/1882 og 41/1919, með síðari breytingum og meginreglna íslensks réttar um að halda beri gerða samninga. Þá vísa þau til þinglýsingarlaga nr. 39/1978, 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um friðhelgi eignarréttar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er vísað til laga nr. 46/1905 um hefð.

III

Stefnda Hofstorfan slf. er sammála stefnendum um það hvar sýsluvegurinn hafi legið þegar spildunni úr Hofi og Þönglaskála var afsalað. Sýknukröfu sína byggir stefnda á því að ekki sé rétt að miða merkin við sýsluveginn. Eigi stefnendur aðeins land austur að Hofsskógi, en síðan taki land stefndu við. Vísar stefnda um þetta til landamerkjabréfsins fyrir Þönglaskála frá 1889. Þá vísar stefnda til afsals fyrir Hofi frá árinu 1982, þar sem kemur fram að landamerki jarðarinnar séu eins og verið hafi samkvæmt landamerkjabréfi frá 1662, sem hafi verið þinglesið 19. maí 1882. Þá komi skýrt fram þegar Jón Jónsson seldi Þönglabakka að hann hafi selt þá jörð, en ekki hluta af Hofi. Landamerkjabréf sem hafi verið gerð þegar stofnað var til nýbýlisins Voga hafi ekki verið samþykkt af eigendum Hofs og séu ekki bindandi fyrir stefndu. Stefnda kveðst hafa verið í góðri trú um að landamerkin væru rétt, enda séu þau þannig ákveðin í landamerkjabók Skagafjarðar og séu í landamerkjagrunni Fasteigna­mats ríkisins. Þá sé byggt á því að eigendur Þönglaskála/Voga hafi aldrei gert athugasemdir við að miðað væri við þau merki, enda hafi þeir aldrei nýtt þennan hluta landsins, eða talið sig eiga hann.

Stefnda kveðst vísa til meginreglna eignarréttar og meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði. Þá sé vísað til landamerkjalaga nr. 41/1919 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefndu Páll, Sverrir Páll og Edda byggja á því að sýsluvegurinn hafi legið við Þönglaskálaflóa vestan við Kötluhóla. Mótmæla þau því að sannað sé að hann hafi legið þar sem stefnendur byggja á, en af því beri stefnendur sönnunarbyrði.

Stefndu segja að heimildir um vegalagningu í Skagafirði bendi til þess að upp úr 1923 hafi vegamál verið í mikilli deiglu á svæðinu. Á árunum 1925-1929 hafi verið fullgerður 3,1 km kafli af Hofsósvegi. Árið 1930 hafi vegarkaflinn frá Hofsósi til Hjaltadalsárbrúar verið tekinn í tölu þjóðvega. Það hafi síðan ekki verið fyrr en árið 1934 sem vegurinn frá Hofsósi til Siglufjarðar hafi verið orðinn þjóðvegur. Kveðast stefndu mótmæla því harðlega að svokallað herforingjaráðskort sanni með nokkrum hætti staðsetningu sýsluvegarins árið 1922.

Stefndu kveða ummerki vegar vestan við Kötluhóla við Þönglaskálaflóa ennþá sjást í landslaginu. Það bendi til að hann hafi verið fjölfarinn og mikið notaður þegar hann hafi verið í notkun á fyrri hluta síðustu aldar. Árið 2007 hafi Hjalti Þórðarson landfræðingur að meginstefnu til getað staðsett hann með því að skoða aðstæður í landslaginu. Þá hafi hann sést vel við vettvangsgöngu með sýslumanni árið 2012. Þórhallur heitinn Þorvaldsson á Þrastastöðum hafi borið um það fyrir dómi að vegurinn hafi verið þarna og einnig sé að finna yfirlýsingu Sveins Einarssonar í sömu veru.

Þá segja stefndu að landamerki samkvæmt dómkröfu stefnenda standist ekki ef borin séu saman merki annarra jarða neðan Siglufjarðarvegar. Liggi merki þeirra vestar en vegurinn. Beri að hafa slíka samræmisskýringu til hliðsjónar.

Tilvísun til merkjalýsingar Siglufjarðarvegar megi fyrst finna í svonefndu landamerkjabréfi frá 1959 vegna Þönglaskála. Bréfið sé einhliða og ekki samþykkt af eigendum nærliggjandi jarða. Geti stefnendur ekki byggt rétt á því þótt það hafi verið samþykkt af nýbýlanefnd Skagafjarðarsýslu.

Þá kveðast stefndu hafna því að stefnendur hafi áunnið sér þau merki sem byggt sé á með hefð. Séu skilyrði hefðar ekki uppfyllt. Þau hafi aldrei nýtt svæðið með nokkrum hætti og ekki girt á meintum merkjum. Þá kveðast stefndu ekki hafa sýnt af sér tómlæti, enda leiði tómlæti ekki til þess að eignarréttur verði talinn hafa fallið niður.

Stefndu vísa til meginreglna réttarfars, eignaréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá kveðast þau byggja á ákvæðum landamerkjalaga nr. 41/1991, ákvæðum girðingarlaga og ákvæðum laga nr. 46/1905 um hefð.

V

Stefnandinn Birgir og stefndi Páll gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi. Þá gaf Sveinn Einarsson skýrslu vitnis.

Samkvæmt lögum nr. 25/1887 voru vegir á Íslandi aðalpóstvegir, sýsluvegir, fjallvegir og hreppavegir. Voru sýsluvegir þeir vegir sem lágu sýslna á milli og um hverja sýslu þar sem mest var þjóðbraut, svo sem vegir í kaupstaði og almenn fiskiver. Þeir voru undir umsjón sýslunefnda og yfirumsjón amtsráðs og kostaðir af ,,sýslufjelögunum“. Samkvæmt 10. gr. laganna átti hvert hreppsfélag að greiða ½ dagsverk fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum, frá 20-60 ára, í hverri stöðu sem væri. Skyldu hreppstjórar á ári hverju fyrir lok marsmánaðar senda sýslumanni skrá yfir þá. Skyldi sýslumaður ákveða tillag hvers hrepps eftir skránni. Skyldi gjaldið tekið af sveitarsjóðnum og greitt sýslumanni á manntalsþingum. Samkvæmt 12. gr. skyldu sýsluvegir vera að minnsta kosti 5 álna breiðir, en að öðru leyti skyldi fara um viðhald og gjörð á þeim eftir sömu reglum og um aðalpóstvegi.

Samkvæmt þessu höfðu lög gilt um sýsluvegi, gerð þeirra og fjármögnun þeirra í 30 ár þegar Jón Jónsson á Hofi seldi Þönglaskála og kvað á um að ,,sýslu­vegurinn á Hofsskógi“ réði merkjum. Átta árum fyrr ráðstafaði hann spildunni sem nú er í eigu stefndu Páls, Sverris Páls og Eddu og kvað þá á um að ,,sýsluvegurinn“ af­mark­aði hana að vestan.

Þorvaldur heitinn Þórhallsson á Þrastastöðum bar fyrir dómi 5. mars 2009, spurður um legu sýsluvegarins árið 1922, að þetta hefði náttúrulega verið reiðvegur, engir bílar hefðu verið komnir. Sér hefði verið sagt að vegurinn hefði legið fyrir neðan Kötluhóla, alveg niður undir Þönglaskálaflóa.

Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing Sveins Einarssonar, sonarsonar Jóhanns Eiríkssonar sem keypti Þönglaskála af Jóni Jónssyni. Segir hann að hann hafi sem drengur og unglingur gengið með Einari föður sínum um land Þönglaskála og Voga og hafi faðir hans bent á vegslóða, ,,gamla sýsluveginn“ sem hann hafi sagt vera gömlu póstleiðina til Siglufjarðar og væri landamerki Þönglaskála og Voga að austan. Eftir að Jóhann Friðgeirsson hafi keypt Hof hafi hann beðið Einar að ganga með sér á efri merki Þönglaskála og Voga. Hafi Sveinn slegist í förina. Hafi þeir gengið þessar gömlu götur, neðst í Hofsskógi, rétt ofar Þönglaskálaflóa. Hafi Einar sagt þær vera austurmerki lands Þönglaskála og Voga og faðir sinn hefði aldrei eignast land ofan þessa slóða.

Í málinu er einnig að finna minnispunkta Hjalta Þórðarsonar landfræðings vegna afmörkunar spildunnar úr Hofslandi. Segir hann þar að lega sýsluvegarins sé ekki alveg ljós. Komi til greina tveir staðir, austari slóðin, sem hafi legið nálægt núverandi Siglufjarðarvegi, austan hans á kafla og vestan hans norður við Urriðalæk. Hefur Hjalti eftir Axel Þorsteinssyni fyrrverandi bónda á Litlubrekku og Jakobi Einarssyni fyrrverandi kennara á Hofsósi að þeir telji þessa slóð vera hinn gamla sýsluveg og muni ekki eftir öðrum vegi þarna. Þorvaldur Þórhallsson telji hann hafa verið vestast í skóginum. Samkvæmt athugun á svæðinu megi telja víst að einhverjar götur liggi vestast í skóginum rétt austan Þönglaskálaflóa. Sú slóð sé ógreinileg á köflum og varla samhangandi alla leið. Einnig sé erfitt að greina hvar vað hafi verið á Urriðalæk. Verði því ekki fullyrt að fjölfarin leið hafi verið þarna.

Samkvæmt þessu eru heimildir um legu sýsluvegarins misvísandi. Vettvangs­ganga leiddi ekki annað í ljós en að fallast megi á lýsingu Hjalta Þórðarsonar á þeim tveimur slóðum sem koma til greina. Var dómara útilokað að greina merki um einhvers konar vegagerð af mannavöldum á vestari slóðinni.

Þótt stefndu Páll, Sverrir Páll og Edda hafi mótmælt sönnunargildi herforingja­ráðskortsins sem var gefið út 1923 og sýnir veg þar sem stefnendur draga kröfulínu sína, hafa þau ekki hnekkt þeim sterku líkum sem dregnar verða af kortinu í þá veru að vegur hafi verið þarna þegar mælt var fyrir kortinu þremur árum fyrr. Verður sönnunargildi kortsins talið mikið. Af því leiðir að sá sýsluvegur á Hofsskógi, sem Jón Jónsson ákvað að réði merkjum var á þeim tíma þar sem nú sést greinilega gamall vegur. Verður á það fallist með stefnendum og stefndu Hofstorfunni slf. að þar hafi verið sýsluvegur sem hreppsfélög kostuðu, Jón gat um og stefnendur draga kröfulínu sína eftir.

Fallist verður á það með stefnendum að Jóni hafi verið heimilt, samhliða því sem hann seldi Þönglaskála, að breyta merkjum jarðarinnar gagnvart Hofi, þar sem hann átti þær báðar. Má gera því skóna að Jón hafi talið hentugast að vegurinn réði merkjum. Verða síðari eigendur Hofs að teljast bundnir af þessari ráðstöfun Jóns, þrátt fyrir að landamerkjaskrám væri ekki breytt til samræmis. Verður því ekki fallist á kröfu Hofstorfunnar slf. um sýknu.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnenda teknar til greina.

Eftir þeim úrslitum verða stefndu dæmd til að greiða þeim málskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

DÓMSORÐ:

Viðurkennt er að rétt landamerki milli jarðanna Voga/Þönglaskála, gagnvart spildu úr Hofi, (lnr. 214232) annarsvegar, og landi Hofs hinsvegar, séu eftir ,,gamla sýsluveginum“, nánar tiltekið úr eftirtöldum hnitpunktum:

E-hnit (austur)

N-hnit (norður)

Örnefni

481477

602942

NA hornp. Voga á sýsluvegi

481446

602819

Sýsluvegur

481472

602732

Sýsluvegur

481526

602512

Sýsluvegur

481654

602352

Sýsluvegur

481818

602102

Sýsluvegur

481873

601990

Sýsluvegur

481891

601887

Hornp. Voga SA á sýsluvegi

 

Stefndu Páll Ragnarsson, Sverrir Páll Erlendsson og Edda Erlendsdóttir greiði óskipt stefnendum, Birgi Frey Þorleifssyni og Júlíu Lindu Sverrisdóttur, í sameiningu 750.000 krónur í málskostnað.

Stefnda Hofstorfan slf. greiði stefnendum í sameiningu 750.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Erlingur Sigtryggsson