• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Opinber skipti
  • Ógilding samnings
  • Skiptasamningur
  • Riftun og skuldamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. október 2017 í máli nr. E-7/2017:

M

(Andrés Már Magnússon hdl.)

gegn

K

(Hjördís Edda Harðardóttir hrl.)

 

 

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. september sl. um frávísunarkröfu stefndu, er höfðað af M, [...], á hendur K, [...].

 

Stefnandi krefst þess í stefnu:

„Að samningur um skilnaðarkjör vegna skilnaðar málsaðila dags. 28.12.2015 og staðfestur af skiptastjóra með skiptagerð dags. 4.1.2016 verði vikið til hliðar að öllu leiti. Til vara að hann verði felldur úr gildi og til þrautavara að hann verði ógiltur með dómi.“ Samhliða framangreindum kröfum krefst stefnandi þess að stefnda greiði sér 11.328.812 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2017 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

 

Stefnda krefst þess að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og að henni verði gert að greiða honum málskostnað vegna þessa þáttar málsins.

 

II.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð á tímabilinu 1989 til 2014. Við lok sambúðar kom upp ágreiningur milli þeirra um skiptingu eigna og var bú þeirra tekið til opinberra skipta 25. febrúar 2015. Hinn 29. október sama ár náðu aðilar samkomulagi um skiptingu eigna og skulda. Samkvæmt því skyldi stefnandi taka yfir 50% eignarhlut stefndu í jörðinni A í B ásamt öllu því sem henni fylgdi. Jafnframt skyldi hann taka að sér greiðslu skulda við Arion banka með veði í framangreindri jörð og yfirdráttarskuld að fjárhæð 24,6 milljónir króna. Samhliða skyldi stefnda leyst undan ábyrgð á sameiginlegum skuldbindingum þeirra og fá greiðslu frá stefnanda að fjárhæð 11,5 milljónir króna. Samkomulag þetta var undirritað með fyrirvara um fjármögnun og þar sem stefnanda tókst ekki að afla hennar innan tveggja mánaða féll samkomulagið niður.

 

Aðilar náðu á ný samkomulagi um skiptingu eigna og skulda hinn 28. desember 2015. Í því fólst að stefnda skyldi taka yfir 50% eignarhlut stefnanda í A, ásamt áhvílandi veðlánum, auk þess sem samið var um skiptingu lausafjár og skulda. Þá skyldi stefnda greiða stefnanda 11 milljónir króna í peningum á nánar tilgreindan hátt. Var það samkomulag lagt til grundvallar skiptagerð skiptastjóra, dags. 4. janúar 2016, sem lauk þar með skiptum í búinu.

 

III.

Stefnandi byggir stefnukröfur sínar á því að fjárskiptasamningur aðila sé bersýnilega ósanngjarn og beri því að víkja honum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Skiptastjóri hafi frá upphafi hafnað þeim skilningi stefnanda að við fjárskiptin væri rétt og skylt að skipta þannig að hvor aðili um sig tæki þær eignir sem honum tilheyrðu, enda gildi reglur um hjúskapareignir ekki um sambúðarfólk. Skipastjóri hafi hins vegar frá byrjun hafnað þessum skilningi og lagt upp með að skipta eignum til helminga, líkt og um hjúskap væri að ræða.

 

Sé á því byggt að sá samningur sem um ræði sé í grunninn ósanngjarn og endurspegli á engan hátt eignamyndun hvors aðila um sig eða skipan fjármála aðila og skiptingu þeirra í milli á sambúðartímanum, enda hafi hvorugur aðilinn litið svo á að hann ætti nokkurt tilkall til eigna hins á meðan á sambúðinni stóð. Þá liggi fyrir að sú aðstoð sem stefnandi hafi notið frá þáverandi lögmanni sínum við skiptameðferðina hafi í raun fremur valdið honum skaða en að stefnandi hafi hagnast á henni. Sé ósanngjarnt að aðrar forsendur gildi um aðskilnað fjárhags aðila við fjárskipti en gilt hafi á sambúðartímanum. Þótt fyrir liggi að hjúskaparlög nr. 31/1993 eigi ekki við um óvígða sambúð aðila megi að einhverju leyti líta til 2. mgr. 95. gr. þeirra við mat á því hvort samningur aðila sé sanngjarn, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Af dómaframkvæmd verði ráðið að við beitingu 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaganna sé nóg að aðili, sem freisti þess að hnekkja fjárskiptasamningi, sýni fram á að með réttu hefði átt að skipta með öðru móti en gert hefði verið til að samningur teldist ósanngjarn.

 

Varðandi upphæð fjárkröfu sinnar tekur stefnandi fram að hún byggist á fyrirliggjandi verðmati eigna aðila. Um sé að ræða eftirfarandi „eignir sem voru eign stefnanda, greiddar af honum og skráðar af honum

50% A landnr. [...] (að frádr.skuldum)

- (Heildarverðmæti) 49.500.000,-

- (Heildarskuldir) 22.211.801,- (dskj. 24-27)

- 50% eignarhlutur að frádregnum skuldum               13.644.100,-

Coleman fnr. [...]

- (Verðmat 800.000,-) (50% eignarhluti)                    400.000,-

Volkswagen [...]                                                                      1.700.000,-

Haugsuga                                                                                1.990.000,-

Schimtda hestakerra [...]                                                         800.000,-

Zetor traktor [...]                                                                     1.200.000,-

Kymco fjórhjól [...]                                                                 850.000,-

Massey Ferguson [...]                                                              200.000,-

Kostnaður vegna resktur fasteigna (50%)                               900.000,-        

Vangreitt meðlag                                                                    644.712,-

Samtals                                                                                    22.328.812,-

Áður greitt                                                                              -11.000.000,-

Samtals krafa stefnanda                                                          11.328.812,-“

 

Að auki og til vara kveðst stefnandi byggja á því að við skiptin hafi ekki allar eignir búsins skilað sér. Stefnda hafi um árabil rekið [...] og hafi þá keypt ýmsan varning, s.s. vinnubekk og fleira, sem stefnandi telji að sé að virði a.m.k. 2.500.000 krónur. Fallist dómari á að fjárhagsleg samstaða hafi myndast með aðilum, og að eðlilegt sé að skipta eignum í samræmi við það, eigi allar eignir búsins að koma til helmingaskipta, en ekki aðeins eignir stefnanda. Jafnframt sé við þær aðstæður eðlilegt að stefnda greiði sinn hluta af rekstrarkostnaði fasteigna og bifreiða, sbr. framangreint. Að auki sé rétt og sanngjarnt „að helmingur af yfirdráttarskuld stefnanda, sem verið hafi með veði í fasteign aðila, sé greiddur að helmingi“ af stefndu. Loks sé rétt og sanngjarnt að lán sem stefnandi hafi tekið til að kaupa Schimtda-hestakerru [...], sem hafi verið að eftirstöðvum 760.000 krónur hinn 1. janúar 2016, sé greitt, hið minnsta að helmingi, af stefndu.

 

IV.

Stefnda styður frávísunarkröfu sína við það að fjárskiptum milli aðila hafi verið lokið af skiptastjóra á grundvelli samkomulags aðila, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í samkomulagi þeirra komi fram að hvorugt þeirra eigi kröfu á hendur hinu.

 

Öllum ágreiningi milli aðila hafi borið að vísa til héraðsdóms á meðan á skiptum stóð, sbr. 112. gr. framangreindra laga, og eigi stefnandi því ekki nú þess kost að hafa í máli þessu uppi kröfur af skiptaréttarlegum toga, sem honum hafi borið að hafa uppi meðan á skiptum á búi aðila stóð. Eigi þessar kröfur því ekki undir dómstóla, sbr. lokamálslið 112. gr., heldur hafi stefnanda borið að leita til skiptastjóra og fara fram á endurupptöku skiptanna. Samkvæmt 4. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 séu skilyrði þess að endurupptaka opinber skipti þau að í ljós hafi komið eign sem hefði átt að koma til skipta. Um slíkt sé ekki að ræða hér þar sem allar eignir hafi verið uppi á borðinu við skiptin og aðilarnir verið sammála um skiptingu þeirra.

 

Stefnda bendir og á að kröfur stefnanda séu ósamrýmanlegar. Annars vegar geri hann kröfu um að umræddum samningi verði vikið til hliðar, hann felldur úr gildi eða hann ógiltur með dómi. Hins vegar geri hann samhliða fjárkröfu, til viðbótar þeim samningi sem hann krefjist að vikið verði til hliðar. Uppfylli kröfugerð þessi ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Stefnda vísar og til þess að fjárkrafa stefnanda sé óskýr og engin gögn séu lögð fram henni til stuðnings. Þannig sé meðlagskröfu blandað saman við fjárkröfur, en slík krafa eigi ekki heima við fjárskipti, enda tilheyri meðlag barni, sbr. 2. mgr. 63. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar fyrir utan sé meðlagskrafa stefnanda út í hött. Þá hafi stefnandi uppi endurgjaldskröfur vegna reksturs bújarðarinnar á skiptatíma, en stefnanda hafi borið að hafa slíkar kröfur uppi við upphaf opinberra skipta, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 20/1991. Séu kröfur þessar svo órökstuddar og ósamrýmanlegar öðrum fjárkröfum að þær uppfylli ekki skilyrði d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og vöntun á framlagningu gagna brjóti gegn g-lið sömu málsgreinar. Hljóti þetta að  leiða til frávísunar málsins frá dómi.

 

V.

Niðurstaða

Í máli þessu lúta dómkröfur stefnanda að því annars vegar að vikið verði til hliðar eignaskiptasamningi málsaðila við skiptalok í búi þeirra, eða hann felldur úr gildi, þar sem hann sé bersýnilega ósanngjarn, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og hins vegar að stefndu verði gert að greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð sem stefnandi telur að honum hafi borið að fá til viðbótar í sinn hlut við skipti á búi aðilanna. Var framangreindur samningur aðilanna lagður til grundvallar sem skiptagerð skiptastjóra við lok opinberra skipta í búi þeirra hinn 4. janúar 2016 á grundvelli heimildar í 2. mgr. 113. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.

 

Í 4. mgr. tilvitnaðrar 113. gr. kemur fram að þegar skiptum hefur verið lokið skv. 2. eða 3. mgr. verði þau ekki tekin upp á ný nema fram komi eign sem hefði átt að koma til skipta og annar eða báðir aðilar krefjist þess. Að því virtu, og þar sem ljóst má vera að verði fallist á framangreindar dómkröfur stefnanda gæti slík niðurstaða aldrei leitt til þess að skilyrðum tilvitnaðrar 4. mgr. 113. gr. til endurupptöku skipta yrði fullnægt, verður ekki talið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfur sínar. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá dómi.

 

Stefnandi greiði 600.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

 

Stefnandi greiði 600.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

                                                                                         Ásgeir Magnússon