• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot

 

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 4. nóvember 2016 í máli nr. S-15/2016:

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Þórarinn Ólafsson hrl.)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. október sl., var höfðað 30. maí 2016 með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vesta á hendur X, [...], „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 14. október 2015, ekið vörubifreiðinni NP-486 eftir Norðurlandsvegi á móts við bæinn Uppsali í Skagafirði, með lifandi sauðfé á palli bifreiðarinnar án þess að bifreiðin væri búinn (sic) safnþró eða safngeymi fyrir úrgang svo að hland úr sauðfénu lak niður á götuna.

Telst framangreint varða við 5. málsl. 2. gr. reglugerðar um hleðslu, frágang og merkingu farms nr. 971/2008, sbr. 3. mgr. 73. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans verði greiddur úr ríkissjóði.

Undir rekstri málsins leiðrétti sækjandi ásláttarvillu varðandi númer nefndrar reglugerðar en hún er númer 671/2008 en ekki númer 971/2008 eins og greinir í ákæru.

II

Hinn 14. október 2015, um klukkan 12:44, stöðvuðu eftirlitsmenn Samgöngustofu þeir A og B bifreiðina NP-486 við bæinn Uppsali í Akrahreppi, Skagafirði. Ákærði var ökumaður bifreiðarinnar og á þessum tíma var hann að flytja sauðfé til slátrunar á Sauðárkróki. Í skýrslu eftirlitsmannanna kemur fram að úrgangur hafi lekið úr flutningskassa bifreiðarinnar en safntankur hafi ekki verið til staðar. Töldu þeir að með þessu hafi ákærði brotið gegn 5. mgr. 2. gr. reglugerðar en í skýrslunni er hvorki vísað til heitis né númers reglugerðarinnar. Þá segir í skýrslunni að ökumaður hafi ekki viljað tjá sig um málið. Skýrslunni fylgir ein ljósmynd af afturhluta bifreiðarinnar og á hana merkt hvar úrgangur (hland) hafi lekið á götuna.

Með bréfi dagsettu 2. desember 2015 sendir Samgöngustofa lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra kæru á hendur ákærða vegna brots á reglugerð nr. 671/2008. Af gögnum málsins má ráða að í framhaldinu hafi ákærða var gefinn kostur á að ljúka málinu með sektargerð en ekki verður séð að hann hafi sinnt því sektarboði sem síðan er ítrekað án viðbragða frá ákærða.

III

Við aðalmeðferð málsins bar ákærði að hann hafi verið að flytja Sauðfé frá Öxarfirði til slátrunar á Sauðárkóki og féð hafi búið að vera á bílnum í u.þ.b. fjórar klukkustundir þegar hann var stöðvaður. Hann greindi frá því að mikið hafi rignt þennan morgun þegar hann lagði af stað frá Öxarfirði og ekki stytt upp fyrr en á Öxnadalsheiði og hann því ekki ekið lengi í þurru veðri þegar hann var stöðvaður. Ákærði lýsti því að við fjárflutninga með bifreið þeirri sem hann ók í umrætt sinn sé féð á tveimur hæðum í þar til gerðum flutningskassa. Kassinn sé boltaður við pall vörubifreiðarinnar og kíttað með fram. Undir hvorri hæð kassans sé 12 til 15 cm bil sem líkja megi við flór eða þró sem safni hlandi og saur en þar fyrir ofan séu lektur úr timbri sem féð liggur á. Frá hólfinu á efri hæð flutningskassans sé slanga sem hland og saur fer um niður í hólfið fyrir neðan neðri hæðina. Þá bar ákærði að þegar fé hafi verið losað af bílnum séu hólfin hreinsuð á viðurkenndum stað með því að spúlað sé með vatni og sápu. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við neinn leka úr flutningskassa bifreiðarinnar.

Umferðareftirlitsmennirnir A og B gáfu báðir skýrslu fyrir dóminum. Framburður þeirra var í öllum aðalatriðum á sama veg. Fram kom hjá þeim að þeir hafi séð að það lak úr afturenda bifreiðarinnar en þeir hafi ekki tekið nein sýni og ekki kannað með öðrum hætti hvað það var sem lak af bifreiðinni. Þá skoðuðu þeir ekki hvort safnþró var undir gólfunum í flutningskassanum í líkingu við það sem ákærði lýsti fyrir dóminum. Raunar kom fram hjá þeim báðum að þeir hafi ekki skoðað bifreiðina eða útbúnað hennar á nokkurn hátt. Þá sögðust þeir ekki vita til þess að neinir staðlar séu til um það hvernig safnþrær eða safngeymar sem í nefndri reglugerð er mælt fyrir um að eigi að vera til staðar skuli úr garði gerðir.

IV

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ekið tilgreindri bifreið með lifandi sauðfé á palli bifreiðarinnar án þess að bifreiðin væri búin safnþró eða safngeymi fyrir úrgang þannig að hland úr sauðfénu lak niður á götuna. Er háttsemi ákærða talin brot á  ákvæðum 5. mgr. 2. gr. reglugerðar um hleðslu, frágang og merkingu farms nr. 671/2008, sbr. 3. mgr. 73. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga. Ákvæði nefndrar 5. mgr. 2. gr. hljóðar svo; „Þegar lekið getur úr farmi, skal vera safnþró eða safngeymir í farmrýminu fyrir lekann.“ Ákærði lýsti því fyrir dóminum á greinargóðan hátt hvernig safnþró er undir gólfinu á báðum hæðum í kassanum á palli bifreiðarinnar. Þá lýsti hann því hvernig kassinn var festur við pall vörubifreiðarinnar. Umferðareftirlitsmennirnir sem stöðvuðu för ákærða í umrætt sinn og gerðu skýrslu vegna málsins báru báðir fyrir dóminum að þeir hefðu ekki skoðað búnað bifreiðarinnar heldur hafi þeir séð að þar vantaði kassa og að lekið hefði úr bifreiðinni og virtust þeir hafa gengið út frá því að þar væri um hland úr sauðfénu að ræða. Að teknu tilliti til lýsingar ákærða á búnaði bifreiðarinnar og þess að ekkert hefur komið fram í málinu sem er til þess fallið að hnekkja þeim framburði ákærða telst ósannað að bifreiðin hafi ekki verið búin safnþró eða safngeymi eins og krafa er gerð um í títtnefndri 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 671/2008 en að mati dómsins uppfyllir búnaður sá sem ákærði lýsti að væri til staðar í bifreiðinni ákvæði reglugerðarinnar enda getur slíkur búnaður vart kallast annað en safnþró. Í málinu er ákærða ekki gefið að sök að búnaðurinn hafi verið ófullnægjandi og kemur því ekki til álita að sakfella hann fyrir slíka háttsemi auk þess sem það telst ósannað hvað það var sem lak af bifreiðinni í umrætt sinn. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Með vísan til niðurstöðu málsins skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði. Annar sakarkostnaður en málsvarnarlaun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns féll ekki á mál þetta. Málsvarnarlaunin að meðtöldum virðisaukaskatti þykja hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Málsvarnarlaun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns 279.000 krónur greiðast úr ríkissjóði.

 

                                                            Halldór Halldórsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Héraðsdómi Norðurlands vestra