• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Svipting ökuréttar
  • Reynslulausn

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 5. mars 2018 í máli nr. S-54/2017:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Sigurður Ingi Jónassyni

(Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra útgefinni 18. desember 2017, á hendur Sigurði Inga Jónassyni, fæddum 11. október 1985, til heimils að Bankastræti 8, Skagaströnd, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, síðdeigs (sic) þriðjudaginn 14. nóvember 2017, ekið bifreiðinni VK-102, undir áhrifum tetrahýdrókannabínólsýru og sviptur ökurétti ævilangt, um bílaplan við verslunina Kjörbúðin á Skagaströnd.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. umferðarlaga nr. 50,1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

Þing var ekki sótt af ákærða þegar málið var þingfest 23. janúar sl. en skipaður verjandi hafði samband við dóminn, boðaði forföll og óskaði eftir fresti til að fara yfir málið með ákærða. Málinu var því frestað og tekið fyrir aftur 12. þessa mánaðar. Ákærði sótti þing og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og þar er réttilega færð til refsiákvæða. Að framkominni játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins telst sekt ákærða nægilega sönnuð og var farið með málið eftir ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði langan sakarferil að baki en vottorðið ber með sér að hann hafi 15 sinnum frá árinu 2002 hlotið refsidóma og einu sinni gengist undir sátt fyrir margs konar brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum og vopnalögum. Síðast var hann dæmdur 23. mars 2015 í átta mánaða fangelsi fyrir þjófnað, brot gegn valdstjórninni, líkamsárás og brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Þessi dómur var hegningarauki við dóm sem hann hlaut 24. júní 2014. Ákærði hefur frá því að hann varð fullra 18 ára fjórum sinnum verið dæmur fyrir akstur sviptur ökurétti, sbr.1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og þá hefur hann sex sinnum verið sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna, sbr. 45. gr. og 45. gr. a sömu laga. Brot þessi hafa ítrekunaráhrif. Ákærði fékk hinn 28. desember 2015 reynslulausn í tvö ár á 280 dögum af eftirstöðvum refsingar sem honum var gerð með dómum 3. október 2013, 24. júní 2014 og 23. mars 2015. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og verða eftirstöðvarnar teknar upp og dæmdar með þessu máli, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing tiltekin eftir reglum 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru ber að ítreka ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt framlögðu yfirliti nam sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins 37.858 krónum en annar kostnaður féll ekki á málið.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Ingi Jónsson sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ítrekuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði 37.858 krónur í sakarkostnað

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson