• Lykilorð:
  • Aðild
  • Skuldamál
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 24. ágúst 2016 í máli nr. E-31/2015:

Stálsmiðjan Útrás ehf.

(Jónína Guðmundsdóttir hdl.)

gegn

Íslensku Eldsneyti ehf.

(Einar Sigurjónsson hdl.)

 

I

Mál þetta var höfðað 9. september 2015 og tekið til dóms 30. júní sl.

Stefnandi er Stálsmiðjan Útrás ehf., Fjölnisgötu 3b, Akureyri.

Stefndi er Íslenskt Eldsneyti ehf., Borgarmýri 1, Sauðárkróki.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.465.867 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 17. mars 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað og við ákvörðun hans verði tekið tillit til innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Atvik máls

Í september 2014 seldi eistneska félagið Algaenge OU breska félaginu A&D Sales Limited gamla varaaflstöð sem staðsett var á Rangárvöllum á Akureyri. Samkvæmt samningi átti breska félagið að taka aflstöðina niður og hreinsa vinnusvæðið og húsnæðið sem stöðin var í að verkinu loknu. Stefnandi tók að sér að fjarlægja vélar og tæki úr byggingunni á Rangárvöllum fyrir hið breska félag. Þetta verk var unnið fyrir milligöngu félagsins JT consulting sem sá um greiðslu fyrir verkið fyrir breska félagið en verkinu lauk í nóvember 2014. Einhver verk munu þó hafa verið eftir og þegar stefnandi var að yfirgefa vinnusvæðið óskaði Sigurðar Eiríkssonar sem m.a. er fyrirsvarsmaður stefnda eftir að stefnandi gerði áætlun um kostnað við það verk sem enn var óunnið. Stefnandi gerði slíka áætlun og í framhaldi af því vann hann verkið en ágreiningur máls þessa snýst um það hvort stefnda beri að greiða fyrir verkið.

III

Málsástæður

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi óskað eftir því að stefnandi ynni fyrir hann tiltekið verk. Aðilar hafi síðan gert með sér munnlegt samkomulag um að stefnandi ynni verkið og það hafi hann gert. Að verkinu loknu hafi hann gert stefnanda reikning sem stefndi hafi ekki fengist til að greiða en stefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir við reikninginn. Stefnandi heldur því fram að Sigurður Eiríksson hafi, í samskiptum þeirra, alltaf komið fram sem fyrirsvarsmaður stefnda og því sé kröfunni réttilega beint að stefnda en ekki að öðrum aðilum enda ekkert samningssamband við aðra aðila en stefnda. Byggir stefnandi kröfur sínar á meginreglum um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Stefndi hafi óskað eftir því að stefnandi ynni fyrir hann ákveðið verk og fyrir það beri honum að greiða.

Stefndi reisir kröfur sínar á því að hann sé ekki aðili að máli þessu. Byggir stefndi á því að það hafi verið hlutverk seljanda vélanna, Algaenge OU, að hafa milligöngu um að koma sambandi á milli A&D Sales og hugsanlegra verktaka og opinberra aðila. Stefnandi hafi engan hlut átt að máli þessu og tengist viðskiptunum sem um er deilt í máli þessu ekki á nokkurn hátt og hann hafi engin tengsl við stefnanda. Stefndi heldur því fram að hann hafi aldrei óskað eftir viðskiptum, þjónustu eða vinnu stefnanda og hann hafi ekki á nokkurn hátt ábyrgst efndir vegna vinnu stefnanda fyrir A&D Sales en það félag hafi horfið á braut án þess að gera upp sín mál hérlendis og skuldi enn seljanda vélanna fjármuni. Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji kröfur stefnanda á hendur honum. Af þessum sökum krefjist hann sýknu af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts og vísar hann í þeim efnum til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um greiðslu á reikningi sem stefnandi gerði stefnda vegna vinnu í húsnæði á Rangárvöllum á Akureyri.  Meðal gagna málsins er samningur milli tveggja erlendra félaga, Alvaenge OU og A&D Sales limited, um kaup og sölu á vélum og tækjum sem staðsettar voru í húsnæði að Rangárvöllum á Akureyri. Stefnandi tók tæki þessi niður að mestum hluta. Í nefndum samningi er mælt fyrir um að kaupandi vélana skuli þrífa vinnusvæðið eftir að vélar og tæki hafa verið fjarlægð. Ekki verður annað ráðið en að ágreiningur aðila snúist um vinnu stefnanda eftir að tækin höfðu verið fjarlægð.

Þess er áður getið að ekki var gerður skriflegur samningur um vinnu stefnanda vegna þeirra verka sem hann vann eftir að vélar og tæki höfðu verið fjarlægð úr húsnæðinu en stefndi heldur því fram að verkið hafi ekki verið unnið að hans ósk og því beri að sýkna hann.

Að mati dómsins er tenging stefnda við mál þetta heldur óljós en engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem tengja stefnda við vélarnar sem fjarlægðar voru úr húsnæðinu og þá eru engin sýnileg gögn sem tengja stefnda við húsnæðið sem verkið var unnið í. Verður ekki annað ráðið en stefnandi hafi talið sig vera vinna fyrir stefnda sökum þess að Sigurður Eiríksson hafi kynnt sig sem fyrirsvarsmann stefnanda.

Af tölvupóstum sem fram voru lagðir undir rekstri má ráða að stefnandi sendi þá ýmist á netfang stefnanda eða netfangið atlantic@simnet.is sem er félag í eigu Sigurðar Eiríkssonar. Sigurður Eiríksson notar hins vegar að því að séð verður einungis einu sinni netfang stefnda í samskiptum sínum við stefnanda og aðra er að málinu koma. Þá má ráða af tölvupóstunum að Sigurður Eiríksson telur kaupendur vélanna eiga að greiða fyrir verkið líkt og hann bar fyrir dóminum. Í framburði Sigurðar Eiríkssonar kom einnig fram að stefndi hafi aldrei átt húsnæðið sem vélarnar voru í og stefndi tengdist þessu máli alls ekki á nokkurn hátt.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu er það mat dómsins að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að stefndi sé aðili málsins. Gegn andmælum stefnda sem fá stoð í framburði Sigurðar Eiríkssonar fyrir dóminum og tölvupóstsamskipum hans við stefnanda og kaupendur vélanna telst ósannað að stefndi hafi óskað eftir því við stefnanda að hann ynni verk það sem reikningur hans er byggður á. Er þá einkum horft til þess að engin gögn benda til þess að stefnandi hafi átt vélarnar sem fjarlægðar voru úr húsnæðinu eða húsnæðið sjálft. Þá verður ekki framhjá því horft að í nefndum tölvupóstsamskiptum kemur nafn stefnanda ekki fyrir sem skuldara og þá virðist sem Sigurður Eiríksson ábyrgist sjálfur greiðslu ákveðinnar fjárhæðar en það gerir hann ekki í nafni stefnda.

Að öllu þessu virtu er ósannað að stefndi sé aðili að máli þessu og ber því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála að sýkna hann af kröfum stefnanda.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónína Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Einar Sigurjónsson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Íslenskt eldsneyti ehf. er sýkn af kröfum stefnanda, Stálsmiðjunnar útrás ehf.

Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson