• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. september 2016 í máli nr. S-22/2016:

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Reyni Erni Lindusyni

 

A

Mál þetta sem dómtekið var 13. þessa mánaðar var höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 4. ágúst sl. á hendur Reyni Erni Lindusyni fæddum 1. janúar 1992 til heimilis að Klapparstíg 18, Reykjavík, „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I.

Með því að hafa um kl. 14:27 mánudaginn 25. júlí 2016, sviptur ökurétti ævilangt, ekið bifreiðinni MY-370 norður eftir Norðurlandsvegi í Hrútafirði á allt að 140 km/klst., en hámarkshraði á þessum vegkafla er 90 km/klst., uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við bæinn Hvalshöfða í Hrútafirði.

Telst framangreint varða við 1. mgr. 48. gr. og 2. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987

II.

Með því að hafa í sama sinn og greinir í ákærulið I., ekið bifreiðinni MY-370 án þess að bifreiðin hafi verið færð til endurskoðunar sem bar að gera í síðasta lagi 31. janúar 2015 og var bifreiðin enn óskoðuð þegar lögregla stöðvaði akstur hennar í ofangreint sinn.

Telst framangreint varða við 13. gr., sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja, með síðari breytingum, sbr. 60. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

B

Ákærði sótti ekki þing og boðaði ekki forföll þegar málið var þingfest 13. þessa mánaðar. Málið er því dæmt með vísan til 1. mgr.161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda er þess getið í fyrirkalli sem birt var fyrir ákærða sjálfum á lögmætan hátt 5. þessa mánaðar að svo mætti fara með málið.

Þar sem ákærði hefur ekki látið málið til sín taka verður með vísan til þess sem að framan er rakið að líta svo á að hann viðurkenni háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og telst sök hans þar með nægilega sönnuð enda er ákæran í samræmi við gögn málsins og brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði, frá því seint á árinu 2010 alls níu sinnum gengist undir ákvörðun viðurlaga og sætt refsingu með dómi. Síðast var hann dæmdur 1. júní sl. til greiðslu sektar fyrir að akstur án gildra ökuréttinda. Þar áður var hann hinn 25. mars á síðasta ári dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sviptur ökurétti og umfram leyfilegan hámarkshraða auk brota gegn vopnalögum. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt. Með þessum dómi var reynslulausn á 183 daga eftirstöðvum refsingar sem honum var veitt 16. febrúar 2013 dæmd upp. Hinn 21. júní 2011var ákærði sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti. Ákærði er því nú í þriðja sinn sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti þannig að ítrekunaráhrifa gætir milli brota hans. Í samræmi við dómvenju er rétt að dæma ákærða til að sæta fangelsi í 30 daga.

Sakarkostnaður hefur ekki fallið á mál þetta.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Reynir Örn Linduson, sæti fangelsi í 30 daga.

 

Halldór Halldórsson