• Lykilorð:
  • Miskabætur
  • Nauðgun
  • Sönnunarmat

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 4. nóvember 2016 í máli nr. S-20/2016:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. október sl., var höfðað 13. júní sl. með ákæru héraðssaksóknara á hendur X, fæddum [...],[...] ríkisborgara, með aðsetur að A, B, „fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt [...] 2016, að E á B haft samræði við Y gegn hennar vilja þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar, en ákærði var gestkomandi á heimili Y.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Y, kt. xxxx-xxxx, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni 1.700.000 kr. í skaða- og miskabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá [...] 2016 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu, en dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila og að í því tilfelli verði einkaréttarkrafa lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg þóknun verjanda að viðbættum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

II

Atvik máls

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sem F rannsóknar-lögreglumaður ritar, barst hinn [...] 2016 kl. 22:00 tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra til lögreglunnar á B þess efnis að G hefði hringt frá E þar í bæ vegna gruns um að brotaþoli, stjúpdóttir hennar, hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi þá um nóttina. Tveir lögreglumenn frá B fóru og ræddu við tilkynnanda á heimili brotaþola. Í skýrslunni segir að fram hafi komið hjá brotaþola að hún hafi haldið upp á afmæli sitt kvöldið áður á heimili sínu og þangað hafi komið nokkrir vinir hennar. Síðar þetta sama kvöld hafi hún og gestirnir farið á dansleik. Að dansleiknum loknum hafi tveir piltar sem verið höfðu í afmælinu fengið að gista á heimili hennar. Hún þekkti annan piltanna en ekki kunningja hans, ákærða í máli þessu. Eftir að hún var farin að sofa hafi hún vaknað við að ákærði var að hafa kynmök við hana. Hún hafi hent honum af sér og reynt að vekja hinn piltinn en án árangurs. Í framhaldi af þessu hafi hún svo rekið ákærða á dyr en vegna ölvunar hafi hún ekki almennilega áttað sig á því sem gerst hafði og því farið að sofa aftur.

Í framhaldi af þessu hafi verið ákveðið að brotaþoli færi til skoðunar á neyðarmóttöku sjúkrahússins á Akureyri en þangað hafi hún farið í fylgd föður síns og stjúpu. Lögregla haldlagði rúmföt og nærföt brotaþola sem hún hafði verið í þá um nóttina. Klukkan 13:00 hinn [...] sl. fékk skýrsluritari málið til rannsóknar og hafði hann samband við brotaþola og gerði ráðstafanir vegna skýrslutöku af henni. Íbúð brotaþola var skoðuð og ljósmynduð [...] en ekkert sérstakt kom fram við þá skoðun. Nefndur rannsóknarlögreglumaður aflaði jafnframt afrits af samskiptum brotaþola við vitnið H sem fram fóru á samskiptamiðlinum Facebook sem liggja frammi í málinu. Samkvæmt tímasetningum á samskiptunum hófust þau klukkan 21:02 að kvöldi [...]. Þar kemur m.a. fram að brotaþoli segir við vitnið H að hann hefði átt að taka ákærða með sér um nóttina og þá spyr vitnið H hvort ákærði hafi gert eitthvað og brotaþoli svarar því til að hún hafi vaknað og þá hafi hann verið inni í henni. Þá liggja frammi í málinu ljósmyndir sem teknar voru á heimili brotaþola og þar má m.a. sjá að í stofunni hjá henni eru tveir sófar sem ákærði og vitnið I máttu með leyfi brotaþola sofa í eftir dansleikinn eins og nánar verður vikið að síðar. Lögregla aflaði síðan persónuupplýsinga um ákærða og tók  skýrslur af vitnum en brotaþoli gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu [...] sl. en ákærði [...]sl. Ákærði var síðan úrskurðaður í farbann 20. júní sl. sem síðar var framlengt í tvígang og rennur það út að gengnum dómi í máli þessu.

III

Framburður vitna fyrir dóminum

Við skýrslutökur af vitnum fyrir dóminum báru þau vitni sem voru í samkvæminu, sem brotaþoli hélt í tilefni af afmæli sínu, á sama veg varðandi það sem fram fór í samkvæminu og hvert þau héldu að því loku. Brotaþoli og vitnin J, H og I lýstu því að þau hefðu verið á heimili brotaþola þá um kvöldið. Þar hefðu þau spjallað saman, hlustað á tónlist og neytt áfengis og í raun hafi ekkert sérstakt komið upp í samkvæminu. Um eða eftir miðnætti hefðu þau farið á skemmtistaðinn K sem staðsettur er [...] heimili brotaþola við E á B. Þar hefðu þau verið allt þar til dansleiknum lauk en að honum loknum hafi þau öll farið aftur heim til brotaþola. Vitnin H og J hefðu hins vegar stoppað stutt á heimili brotaþola eftir dansleikinn og farið til síns heima en vitnið I og ákærði hafi fengið leyfi brotaþola til að gista í stofunni hjá brotaþola.

Ákærði kvaðst hafa komið til B um miðnætti umræddan dag. Hann hafi farið í samkvæmi hjá brotaþola og þaðan á dansleik og að honum loknum aftur heim til brotaþola. Aðrir en hann og einn maður til, sem hann ekki þekkti, hafi verið farnir úr samkvæminu en þeir tveir hafi ætlað að gista í stofunni. Hann hafi ætlað að fara að sofa en þurft að fara á salernið áður og því gengið þangað og þá séð að dyrnar að herbergi brotaþola voru aðeins opnar. Eftir að hann hafði farið á salernið hafi hann spurt brotaþola, sem þá var sofandi í rúmi sínu í myrkvuðu herberginu, hvort hann mætti koma inn til hennar og hún hafi játað því. Ákærði kvaðst hafa vakið brotaþola með því að kalla nafn hennar í þrígang. Með spurningu sinni hafi hann átt við hvort hann mætti sofa hjá brotaþola. Í framhaldi af þessu hafi hann farið inn til hennar, lokað dyrunum og læst. Að sögn ákærða var brotaþoli með sæng yfir sér og í nærbuxum, sem hún fór sjálf úr, en hvort hún var í einhverju öðru mundi hann ekki. Inni í herberginu hafi hann klætt sig úr fötunum að brotaþola aðsjáandi og lagst við hlið hennar. Þegar hann lagðist í rúmið hafi brotaþoli snúið í hann bakinu en hún hafi svo snúið sér við, farið ofan á hann og byrjað að hafa við hann samfarir. Að sögn ákærða skiptust þau á einhverjum orðum áður en þau hófu samfarirnar en hvað þeim fór í milli mundi hann ekki. Hann kvað brotaþola hafa verið vakandi á þessum tímapunkti. Samfarirnar hafi staðið í nokkurn tíma en á einhverjum tímapunkti hafi brotaþoli sagt við hann að hún væri þreytt og þá hafi þau skipt um stellingu og hann eftir það verið ofan á henni. Síðan hafi hún, án nokkurra skýringa, beðið hann um að fara frá sér og notað olnbogana til að komast frá honum. Í framhaldi af því hafi brotaþoli farið fram. Hann hafi beðið inni í herberginu en síðan farið fram á eftir henni og þá hafi brotaþoli verið að tala við vitnið I sem þá hafi verið vakandi. Ákærði kvaðst hafa heyrt brotaþola tala við vitnið I eftir að hún fór út úr herbergi sínu en hann hafi þá enn verið þar inni. Hann kvað þau hafa talað saman á íslensku og því ekki skilið hvað þeim fór á milli en að hans mati talaði brotaþoli „svolítið harkalega“. Að sögn ákærða vísaði brotaþoli honum ekki á dyr en hún hafi farið aftur inn í herbergið sitt án þess að segja nokkuð við hann en hann hafi þá farið út að reykja. Ákærði bar að liðið hefðu fimm til tíu mínútur frá því að brotaþoli fór út úr herbergi sínu þar til að hann sjálfur fór út úr íbúðinni. Þegar út var komið hafi hann uppgötvað að hann var tóbakslaus og ákveðið að hringja á leigubíl sem hafi ekið honum til hans heima.

Aðspurður um áfengisneyslu þetta kvöld svaraði ákærði því til að þegar hann kom í samkvæmið hafi þeir sem þar voru verið að drekka áfengi og hann hafi drukkið þar tvö til þrjú glös. Hann hafi einnig neytt áfengis á dansleiknum og þá hafi hann gefið brotaþola eitt skot og einnig boðið henni bjór sem hún hafi ekki þegið. Að sögn ákærða voru allir sem í samkvæminu voru undir áhrifum áfengis en hversu mikið gat hann ekki sagt til um. Þá kvað hann þau sem fóru í samkvæmið eftir dansleikinn hafa neitt þar áfengis.

Ákærði kvað samskipti sín við brotaþola þetta kvöld hafa verið með þeim hætti að hann hafi talað við hana í eldhúsinu í íbúð hennar áður en haldið var á dansleikinn og einnig á dansleiknum er hann bauð henni drykk. Hann sagði að þau hefðu ekki daðrað heima hjá henni fyrir dansleikinn en eitthvert daður af hans hálfu hafi verið á dansleiknum. Hann kvaðst ekki vita hvort daðrið var gagnkvæmt. Ekkert daður hafi átt sér stað eftir að komið var heim til brotaþola að dansleiknum loknum. Ákærði bar að hann hafi ekki viljað fara heim með vitninu H sökum þess að hann hafi skemmt sér vel í samkvæminu en H hafi staðið til boða að gista heima hjá brotaþola.

Ákærði greindi frá því að hann hafi ekki orðið var við að brotaþoli kastaði upp á heimili sínu eftir að þangað var komið að dansleiknum loknum og þá sagðist hann ekki hafa orðið var við að um það hafi verið rætt. Að mati ákærða var brotaþoli undir áhrifum áfengis en þó ekki svo miklum að hún hafi slagað til við gang. Hann sjálfur hafi verið undir áhrifum áfengis en hann kvaðst engu að síður muna eftir atvikum þessa nótt. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa vitað fyrr en síðar að brotaþoli væri samkynhneigð.

Brotaþoli lýsti því að hún hafi verið að halda upp á afmæli sitt og af því tilefni boðið til sín sínum nánustu vinum. Æskuvinur hennar, vitnið H, hafi tekið ákærða með sér og spurt hvort það væri ekki í lagi að hann kæmi í samkvæmið og hún hafi samþykkt það. Vitnið lýsti því sem gerðist í samkvæminu, á dansleiknum og eftir að komið var aftur heim til hennar í aðalatriðum á sama veg og áður er rakið. Að sögn brotaþola talaði hún við ákærða á ensku í u.þ.b. tíu mínútur heima hjá henni áður en þau fóru á dansleikinn en það hafi verið laust eftir miðnætti. Hún mundi ekki eftir að hafa talað við ákærða á dansleiknum en hún hafi þakkað honum fyrir drykk sem hann færði henni. Brotaþoli kvaðst ekki hafa skynjað daður af hálfu ákærða í sinn garð. Hún kvað vitnin H, I og J hafa komið heim til sín að dansleiknum loknum og ákærði hafi fylgt H. H hafi stoppað stutt en áður en hann fór hafi hann spurt hvort ákærði mætti gista og hún hafi samþykkt það. Vitnið I hafi líka fengið leyfi til að gista.

Brotaþoli sagðist hafa farið að sofa um hálfri klukkustund eftir að hún kom heim til sín aftur. Hún kvaðst hafa verið orðin það drukkin að hún gat ekki vakað lengur og því boðið góða nótt, farið inn í herbergið sitt og lokað dyrunum en ekki læst. Brotaþoli sagðist vera viss um að hún lokaði dyrunum og þá kvað hún myrkur hafa verið í herberginu þó svo að einhver skíma kunni að hafa verið þar inni frá götuljósum. Hún kvaðst ekki hafa verið drukknari en svo að hún vissi vel hvað hún var að gera. Hún kvaðst venjulega sofa í nærbuxum eingöngu með sæng yfir sér og svo hafi verið í þetta sinn. Á þeim tíma hafi I, J og ákærði verið í stofunni og hún hafi heyrt þau spjalla saman en hún hafi sofnað fljótlega, kannski fimm mínútum síðar. Hún kvaðst hafa vaknað um tveimur klukkustundum síðar við það að „það var maður inni í mér.“ Og með því átti hún við að limur mannsins hafi verið inni í leggöngum hennar. Vitnið þekkti manninn sem ákærða og hann hafi verið ofan á henni en hún kvaðst ekki vita hvort hann var í fötum en sjálf hafi hún verið nakin og því búið að færa hana úr nærbuxunum en hún kvaðst ekki hafa orðið vör við það enda hafi hún verið nokkuð drukkin og sofið fast. Hún mundi ekki hvort hún sagði eitthvað þegar hún vaknaði en hún hafi með einhverjum hætti náð að sparka eða ýta ákærða af sér með því að setja fætur sína í bringu ákærða og þannig ýtt honum af sér. Þetta hafi hún gert um leið og hún vaknaði og þá hafi hún örugglega enn verið undir áhrifum áfengis. Hún mundi ekki til þess að ákærði hafi sagt eitthvað en taldi að hún hafi sagt honum að fara út. Hún hafi ætlað að opna dyrnar en þá hafi hún tekið eftir því að herbergisdyrnar voru læstar. Á þessum tíma hafi hún verið búin að finna nærbuxur sínar og bol sem hún hafi farið í. Hún hafi síðan farið fram og reynt að vekja I með því að hrista hann en það hafi ekki gengið og því hafi hún hellt yfir hann glasi af vökva sem hún taldi vera vatn. Þegar I vaknaði hafi hún sagt við hann: „Haltu þessum [...] frá mér,“ eða eitthvað í þeim dúr. Hún hafi svo farið aftur inn í herbergið sitt, læst dyrunum og farið að sofa en þá hafi ákærði verið á ganginum í íbúðinni en hún hafi ekki orðið vör við að þeir tveir hafi átt einhver samskipti eftir atvikið. Brotaþoli kvaðst hafa litið á klukkuna áður en hún fór að sofa aftur og þá hafi hún sýnt fimm eitthvað. Að sögn brotaþola mundi hún ekki til þess að ákærði hafi sagt nokkuð við hana áður en hann kom inn í herbergið til hennar og taldi hún víst að hún myndi muna eftir því ef hann hefði vakið hana. Aðspurð hvort hún myndi eftir þeim atburðum sem ákæran tekur til sagðist brotaþoli ekki muna þá vel enda hafi hún reynt að gleyma þeim.

Brotaþoli neitaði því að hún hafi haft einhvern áhuga á ákærða enda sé hún samkynhneigð og hafi ekki áhuga á karlmönnum. Brotaþoli kvaðst hafa gengið út frá því að ákærði vissi að hún væri samkynhneigð vegna þess að hann vinnur hjá nágranna H og þá hafi það líka verið nokkuð augljóst, t.d. væru regnbogafánar í íbúð hennar og þá viti allir vinir hennar og fjölskylda af kynhneigð hennar.

Brotaþoli kvaðst hafa byrjað að neyta áfengis milli klukkan 21:00 og 21:30 þetta kvöld og drukkið „bollu“ og tekíla í svo miklu magni að hún hafi kastaði upp u.þ.b. 10 mínútum eftir að hún kom aftur heim til sín eftir dansleikinn. Brotaþoli taldi að einhver gestanna hafi séð hana kasta upp en taldi víst að það hafi heyrst mjög vel. Hún hafi ekki fengið neina aðstoð vegna þessa og kannaðist ekki við að J hafi fært henni vatn. Að sögn brotaþola mundi hún ekki vel eftir ástandi þeirra sem voru í samkvæminu en taldi víst að þeir hafi verið vel undir áhrifum áfengis. Hún hafi ekki tekið sérstaklega eftir ákærða, hann hafi bara „verið þarna“. Í samkvæminu eftir dansleikinn hafi þau neytt áfengis og spjallað og hlustað á tónlist. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún hafa séð ákærða reykja og þá mundi hún eftir að hafa boðið honum sígarettu, sem hann þáði, áður en þau fóru á dansleikinn.

Brotaþoli kvaðst hafa vaknað morguninn eftir við það að H bankaði á herbergisdyrnar hjá henni og spurði um ákærða. Hún kvaðst halda að hún hafi svarað því til að henni væri nokkuð sama um það hvar hann væri. Hún hafi þá verið of þunn og reið til að nenna að standa á fætur. Eftir að hún var vöknuð, um klukkan 17:00, hafi hún farið á netspjall hjá Rauða krossinum til að leita sér upplýsinga um það hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hafi síðan sent móður sinni smáskilaboð og sagt henni frá þessu. Móðir hennar hafi ætlað að koma til hennar en ekki komist vegna veðurs. Móðir hennar hafi þá beðið stjúpu hennar að fara til hennar og það hafi hún gert. Eftir að stjúpa hennar var komin hafi þær hringt á lögreglu sem komið hafi á staðinn. Þá kvaðst hún hafa átt samskipti við H á samskiptamiðlinum Facebook og staðfesti vitnið að samskiptin hafi verið með þeim hætti sem fram kemur í útprentun þeirra sem liggur frammi í málinu.

Brotaþoli kvaðst ekki hafa mætt til vinnu í þrjár vikur eftir þetta atvik og hún geti enn í dag ekki náð augnsambandi við karlmenn og þá fái hún martraðir. Hún kvaðst vegna þessa máls hafa átt viðtöl við L félagsráðgjafa sem hafi hjálpað henni aðeins. Síðan eigi hún góða fjölskyldu og aðstandendur sem hafi hjálpað henni að fara í gegnum þetta.

Vitnið I kvaðst vera vinur brotaþola en hann hafi kynnst henni í gegnum vin sinn H. Ákærða þekki hann hins vegar ekki. Vitnið lýsti atburðum umrætt kvöld og nótt með svipuðum hætti og að framan er getið. Að sögn vitnisins spurði H vinahópinn hvort hann mætti taka ákærða með sér. Hann hafi ásamt fleirum endað heima hjá brotaþola þar sem þau hafi spjallað og hlustað á tónlist. Hann og ákærði hafi fengið leyfi brotaþola til að sofa á sófum í stofunni. Hann hafi að endingu lagt sig til svefns í sófanum og viti í raun ekki hvað gerðist fyrr en hann fékk vatnsgusu í andlitið en þá hafi brotaþoli verið að vekja hann. Hún hafi sagt honum að passa upp á að ákærði kæmi ekki aftur inn í íbúðina. Hvað hún sagði nákvæmlega sagðist hann ekki muna en það hafi verið þó nokkuð en hann hafi þá verið nývaknaður og örugglega eitthvað ölvaður. Vitnið sagðist ekki muna hvort hann svaraði brotaþola einhverju en hann mundi eftir því að honum varð verulega brugðið og undrandi. Ástand brotaþola hafi á þessum tíma ekki verið gott en hún virtist ráðvillt og engan veginn í jafnvægi. Vitnið minnti að hún hafi verið grátandi þegar hún vakti hann og það hafi verið sýnilegur munur á ástandi hennar frá því að hún fór að sofa og þar til hún vakti hann. Brotaþoli, sem þá var í bol og í einhverju að neðan, hafi eftir þetta farið inn í herbergi og hann heyrt að hún læsti dyrunum. Hann hafi setið einhverja stund í sófanum og velt fyrir sér hvað gerst hefði en hann hafi ekki farið til að athuga með brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða inni í íbúðinni eftir að brotaþoli vakti hann.

Vitnið bar að hann hafi verið „þokkalega vel ölvaður sjálfur“ þetta kvöld en hann hafi haft vit á að hætta drykkju áður en hann fór yfir mörkin. Kvaðst hann telja að svo hafi verið með flesta sem þarna voru. Hann kvaðst vita að brotaþoli hafi verið „þokkalega ölvuð“ en hún hafi farið inn að leggja sig þar sem hún væri orðin þreytt en þau hin mættu vera áfram í stofunni. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að brotaþoli hafi verið eitthvað veik vegna áfengisneyslu. Vitnið sagðist ekki hafa komið oft til brotaþola og ekki vita í hvaða herbergi hún svaf og því gæti hann ekki svarað því hvort hún lokaði dyrunum þegar hún fór að sofa. Vitnið taldi að hann, ákærði og J hafi spjallað í einhvern tíma eftir að brotaþoli fór að sofa en hversu lengi sagðist hann ekki geta sagt til um. Þegar hann fór að sofa hafi J verið farin eða við það að fara en ákærði hafi setið í hinum sófanum. Vitnið bar að hann hafi sofnað mjög fljótlega en gat ekki svarað því hvað klukkan var þá. Vitnið sagðist ekki hafa orðið vart við einhvern samdrátt eða daður á milli ákærða og brotaþola þetta kvöld en þau hafi spjallað saman inni í eldhúsi í íbúð brotaþola. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða reykja þetta kvöld en sagðist ekki vita hvort hann reykti að staðaldri. Sérstaklega aðspurður um það hversu vel hann myndi eftir þessu kvöldi svaraði vitnið því til að hann myndi vel brot og brot en annað verr. Vitnið bar að brotaþoli hafi síðar einu sinni sagt honum að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti.

Vitnið J, vinkona brotaþola, lýsti atburðum kvöldsins og næturinnar með svipuðum hætti og að framan er getið. Vitnið lýsti því að þegar þau höfðu verið einhverja stund heima hjá brotaþola eftir dansleikinn hafi brotaþoli verið orðin nokkuð drukkin og farið á salernið en hún sjálf hafi sótt vatnsglas fyrir brotaþola og fylgt henni í rúmið, lokað herbergisdyrunum og farið aftur fram í stofu. Vitnið kvaðst hafa lokað dyrunum alveg til þess að kettir sem þar voru kæmust ekki út. Áður hafi brotaþoli sagt við þá sem í íbúðinni voru að hún væri að fara að sofa. Vitnið bar að brotaþoli hafi sýnilega verið undir verulegum áhrifum áfengis þegar hún fór að sofa og taldi að hún hafi fljótlega dáið áfengisdauða. Að sögn vitnisins greindi brotaþoli henni frá því, eftir að hún kom af salerninu, að hún hafi kastað upp.

Vitnið bar að hún hafi, eftir að brotaþoli fór að sofa, setið í stofunni ásamt vitninu I en ákærði þá verið inni í eldhúsi. Hún hafi spurt ákærða hvort hann vildi ekki koma inn í stofu til þeirra og það hafi hann gert og þau þrjú spjallað aðeins. Að sögn vitnisins töluðu þau við ákærða á ensku en hún sagðist telja að hann skilji ekki íslensku. Síðar um nóttina hafi hún látið vitnið I og ákærða hafa sængur og kodda sem brotaþoli hafi sagt henni hvar væri að finna og í framhaldi af því hafi hún farið heim en þá hafi I verið að koma sér fyrir í öðrum sófanum en ákærði setið í hinum. Taldi vitnið að þau þrjú hafi verið í stofunni í um eina til eina og hálfa klukkustund. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að ákærði og brotaþoli spjölluðu aðeins saman þetta kvöld en öðru hafi hún ekki tekið eftir í samskiptum þeirra. Vitnið staðfesti það sem fram kom hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu að henni hafi þótt skrítið að ákærði fór ekki heim með H. Þá kvaðst hún nú ekki muna eftir því að hafa farið með fötu inn í herbergi brotaþola líkt og hún bar hjá lögreglu en taldi að það gæti vel verið að hún hafi gert það. Vitnið greindi frá því að brotaþoli segðist vera samkynhneigð og kvaðst hún verða hissa ef henni yrði sagt að brotaþoli væri í sambandi við karlmann. Vitnið bar að í vikunni eftir hafi brotaþoli komið til hennar og þá greint henni frá því að hún hefði orðið fyrir nauðgun en þær hafi ekki rætt það neitt nánar. Brotaþoli hafi sagt henni hver átti í hlut en ekki lýst atvikinu nánar. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í miklu sambandi við brotaþola eftir þetta atvik en brotaþoli hafi ekki verið eins mikið úti eftir þetta.

Vitnið H bar að hann væri vinur brotaþola en ákærða þekki hann í gegnum móðurbróður sinn en ákærði sé starfsmaður hans. Að sögn vitnisins hafi hann ákveðið að bjóða ákærða með sér á dansleik á B. Þá lýsti vitnið atvikum með svipuðum hætti og önnur vitni. Vitnið greindi frá því að hann hafi ákveðið að fara heim fljótlega eftir dansleikinn en ákærði hafi viljað verða eftir en brotaþoli hafi sagt að ákærði mætti gista í sófa á heimili hennar. Daginn eftir hafi hann farið heim til brotaþola í þeim tilgangi að sækja veski sitt og ákærða. Hann hafi bankað á herbergisdyrnar hjá brotaþola, sem þá voru lokaðar, sem var óvenjulegt, en hún hafi ekki viljað tala við hann og sagt að hún væri veik. Hann hafi þá tekið veskið sitt og farið út en hann hafi ekki spurt um ákærða. Brotaþoli hafi síðar sent honum skilaboð á Facebook þar sem hún greindi honum frá því sem gerst hafði og þessi samskipti þeirra á samskiptamiðlinum hafi verið það eina sem hann hafi vitað um málið á þeim tíma. Hann hafi þá farið yfir í næsta hús til M [...]í þeim tilgangi að ræða við ákærða. M [...] hafi þá ekki verið heima við og hann hafi beðið eftir því að hann kæmi heim. Eftir að M var kominn hafi þeir rætt við ákærða. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann hafi gert vinkonu sinni eitthvað og reynt að tala við ákærða um atvikið. Ákærði hafi hins vegar engu svarað en virkað hræddur, niðurlægður og litið undan. Hann hafi sagt ákærða að brotaþoli væri að velta fyrir sér að kæra atvikið. Vitnið kvaðst eiga erfitt með að muna nákvæmlega eftir samtalinu við ákærða. Hann hafi spurt ákærða hvort hann hefði gert eitthvað rangt við brotaþola, hvort hann hafi farið inn í herbergi til hennar, skriðið upp í rúm til hennar en ekki fengið almennileg svör við spurningum sínum. Ákærði hafi þó játað því að hafa bankað á herbergisdyrnar og farið inn til brotaþola og upp í rúm til hennar en vitnið kvaðst ekki hafa spurt nánar um atvikin enda ekki viljað blanda sér um of í málið. Vitnið sagðist ekki hafa verið reiður þegar hann ræddi við ákærða og hann hafi ekki hækkað róminn.

Vitnið kvaðst hafa drukkið mikið þetta kvöld og ekki tekið eftir drykkju annarra þetta kvöld og þá kvaðst hann ekki hafa tekið eftir því hvort dyrnar að herbergi brotaþola voru opnar eða lokaðar þá um kvöldið. Hann bar að brotaþoli hafi verið þreytuleg þegar þau komu aftur heim til hennar og þá hafi ákærði verið undir áhrifum. Vitnið kvaðst muna eftir því að brotaþoli og ákærði ræddu saman um kvöldið en hann kvaðst ekki hafa tekið eftir neinum samdrætti milli þeirra. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt honum að þau hefðu talað saman á ensku en hann kvaðst ekki vita til þess að ákærði tali íslensku. Vitnið bar að brotaþoli væri samkynhneigð og hún hafi átt þrjár kærustur sem hann viti um en hann viti ekki til þess að hún hafi verið í sambandi við karlmann eða haft áhuga fyrir karlmönnum. Að sögn vitnisins mundi hann ekki hvort hann sagði ákærða að brotaþoli væri samkynhneigð. Vitnið kvaðst vita til þess að ákærði reyki bæði sígarettur og pípu en mundi ekki hvort ákærði reykti þetta kvöld. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við brotaþola eftir þetta atvik en ekki rætt það við hana. Fyrstu vikurnar eftir atvikið hafi brotaþoli mest haldið sig innandyra og flutt til föður síns.

Vitnið M, vinnuveitandi ákærða, kvaðst hafa frétt af þessu máli þegar H [...] kom og greindi frá því að vinkona hans væri ósátt og hafði H það eftir brotaþola að ákærði hefði farið inn til hennar þá um nóttina. Í framhaldi af því hafi H rætt við ákærða að honum viðstöddum. Vitnið sagðist ekki muna eftir samtalinu í smáatriðum en bar að H hafi spurt ákærða hvort eitthvað hafi gerst. H hafi spurt ákærða hvort hann hafi farið inn til brotaþola og minnti vitnið að ákærði hefði játað því. Vitni kvaðst muna vel eftir viðbrögðum ákærða en það hafi verið ljóst að þetta umræðuefni kom honum á óvart en fram hafi komið hjá H að brotaþoli væri að íhuga að kæra ákærða fyrir nauðgun. Þeir hafi ekki gengið á ákærða með að lýsa atvikum næturinnar nánar. Vitnið kvaðst hafa merkt þær breytingar á ákærða eftir að mál þetta kom upp að hann væri nú þyngri og sinnulausari en áður. Þá hafi farbannið haft áhrif á hann þannig að hann hefur ekki getað farið og heimsótt son sinn í N.

Vitnið O, móðir brotaþola, bar að brotaþoli hafi sent henni smáskilaboð, eftir kvöldmat á sunnudeginum eftir að atvikið átti sér stað þar sem hún hefði beðið hana um að koma með sér á sjúkrahús og í kjölfarið hafi komið önnur skilaboð þar sem fram hefði komið að henni hafi verið nauðgað. Vitnið kvaðst þá hafa hringt í brotaþola og spurt hvar þetta hefði gerst og brotaþoli svarað því til að atvikið hafi átt sér stað á heimili hennar en vitnið hefði ekki spurt út í atvikið sjálft. Hún hafi lagt af stað til brotaþola en ekki komist vegna veðurs og látið brotaþola vita af því. Hún hafi þá hringt í stjúpmóður brotaþola sem hafi farið til hennar. Daginn eftir hafi hún farið til brotaþola og þá hafi brotaþoli sagt henni að ákærði hafi ítrekað boðið henni í glas á dansleiknum og það hafi brotaþola þótt einkennilegt því að hann hafi ekki boðið öðrum. Eftir dansleikinn hafi verið samkvæmi hjá henni en hún farið að sofa áður en samkvæminu lauk. Síðan hafi brotaþoli sagt að hún hafi vaknað með ákærða „inni í sér“. Hún hafi náð að sparka honum af sér og hlaupið fram í stofu og vakið þar vin sinn og beðið hann um að sjá til þess að ákærði færi út en brotaþoli hafi farið aftur inn í sitt herbergi. Að sögn vitnisins hefur hún merkt breytingu á brotaþola eftir atvikið og hún sé að sumu leyti fjarlægari og hún þurfi að hafa meira frumkvæði að samskiptum þeirra en áður. Vitnið kvað brotaþola vera samkynhneigða.

Vitnið G, stjúpmóðir brotaþola, kvaðst fyrst hafa frétt af málinu þegar móðir brotaþola hringdi í hana og bað hana um að fara til brotaþola. Í því símtali hafi móðir brotaþola greint henni aðeins frá atvikinu þannig að hún hafi fengið skilaboð frá brotaþola um að hún hefði orðið fyrir nauðgun. Hún hafi í framhaldinu farið til brotaþola sem hafi á þeim tíma verið róleg en ekki „alveg hún sjálf“. Vitnið kvaðst raunar hafa farið til brotaþola fyrr um daginn og þá hafi brotaþoli verið „eitthvað voða skrítin“ en á þeim tíma hafi hún ekki vitað af atvikinu. Brotaþoli hafi greint frá því að hún hafi vaknað við að ákærði var ofan á henni og kominn inn í hana en hún hafi sparkað honum af sér og sagt honum að hypja sig en hann réði því hvort hann færi fram að sofa eða hypjaði sig út. Þá hafi brotaþoli sagt að hún hafi farið fram og talað við strákinn sem þar svaf og beðið hann um að koma ákærða út. Eftir það hafi brotaþoli farið aftur inn í herbergið sitt og læst að sér. Í framhaldi af þessu hafi þær velt fyrir sér hvað best væri að gera og þær hafi hringt í Neyðarlínuna sem hafi gefið þeim samband við lögregluna á B sem hefði fljótlega komið á staðinn. Síðan hafi hún ásamt föður brotaþola farið með hana á neyðarmóttöku á Akureyri. Vitnið kvað brotaþola vera samkynhneigða.

P kvaðst að morgni sunnudagsins [...]  hafa tekið ungan mann upp í leigubifreið sína við R á B og ekið honum í A en hann hafi ekki veitt honum neina sérstaka athygli. Hann hafi þó séð að pilturinn var ölvaður og hann hafi sofnað fljótlega eftir að hann settist upp í bílinn.

Vitnið L félagsráðgjafi bar að hún hafi hitt brotaþola einhverjum dögum eftir atvikið. Að sögn vitnisins kom brotaþoli frekar „tætt í fyrsta viðtal“ og þurft leiðbeiningar um það hvernig hún gæti tekist á við tilfinningar sínar. Brotaþoli hafi verið hrædd og óttaslegin og ekki getað verið heima hjá sér um tíma og þá hafi hún verið óvinnufær. Brotaþoli hafi sýnt einkenni um að hafa orðið fyrir röskun á sínu tilfinningalífi. Að mati vitnisins hefur líðan brotaþola skánað frá því sem fyrst var. Vitnið kvaðst hafa lagt próf fyrir brotaþola í júní sl. og þá hafi hún ekki sýnt sterk merki um þunglyndi eða kvíða. Hún hafi þó merkt í september að brotaþoli hafi tekið nokkur skref aftur á bak þegar hreyfing var komin á málið. Að mati vitnisins tengist líðan brotaþola þessu máli en hún gat þess jafnframt að brotþoli eigi áfallasögu sem hún dragi með sér inn í þetta mál. Vitnið kvaðst telja brotaþola þurfa frekari meðferð en slíkt yrði að meta þegar frá líður.

IV

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök að hafa aðfaranótt [...] 2016 haft samræði við brotaþola, Y, gegn hennar vilja þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Brot ákærða er talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði viðurkennir að hafa haft samræði við brotaþola í umrætt sinn en heldur því fram að hún hafi verið vakandi og samfarirnar farið fram með fullu samþykki hennar.

Ákæruvaldið reisir kröfu sína um sakfellingu á framburði brotaþola sem að mati ákæruvaldsins hefur í gegnum meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi verið staðfastur og trúverðugur, auk þess sem hann fái stoði í framburði annarra vitna og rannsóknargögnum málsins. Ákærði reisir sýknukröfu sína á því að leggja verði framburð hans til grundvallar við úrlausn málsins. Að mati ákærða hefur ákæruvaldinu ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir sekt hans.

Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað sök og haldið því fram að samfarir hans og brotaþola hafi átt sér stað með vitund og vilja þeirra beggja. Hann bar í öllum aðalatriðum á sama veg hjá lögreglu og hér fyrir dómi þannig að ekki er teljandi ósamræmi í framburði hans.

Brotaþoli hefur líkt og ákærði verið staðföst í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi og er óverulegt ósamræmi í framburði hennar og er það mat dómsins að framburður brotaþola sé trúverðugur.

Fyrir liggur að ákærði og brotaþoli þekktust ekki og hittust í fyrsta sinn á heimili brotaþola umrætt kvöld og þá verður ekki annað ráðið en að þau hafi átt takmörkuð samskipti um kvöldið en þó eitthvað spjallað saman, aðallega þó áður en haldið var á dansleikinn. Af framburði ákærða og vitna má ráða að ákærði, brotaþoli og vitnin I, J og H fóru heim til brotaþola að loknum dansleik. Vitnið H yfirgaf samkvæmið fljótlega en hin vitnin voru áfram í íbúð brotaþola. Þá má af framburði ráða að brotaþoli hafi ekki svo löngu síðar gengið til náða. Ákærði og vitnið I höfðu fengið leyfi brotaþola til að gista í stofunni en vitnið J yfirgaf samkvæmið nokkru eftir að brotaþoli fór að sofa og samkvæmt framburði hennar var vitnið I að leggjast til svefns í sófa í stofunni en ákærði sat þá í hinum sófanum. Eftir þetta fer ákærði inn í herbergi brotaþola þar sem atvik það sem mál þetta snýst um á sér stað. Leggja má til grundvallar að brotaþoli hafi farið fram og vakið vitnið I með því að hella yfir hann vatnsglasi en ákærði hafi mjög fljótlega farið út úr íbúðinni og í framhaldi af því hafi hann hringt á leigubíl en þá var klukkan 05:37 samkvæmt framburði leigubílstjórans, en hann miðaði þá tímasetningu við klukkuna í síma sínum. Gera verður ráð fyrir að áðurnefndum dansleik hafi lokið klukkan 03:00 og má því ætla að ákærði hafi ekki verið lengur í íbúð brotaþola þá um nóttina en tvær og hálfa klukkustund.

Að kvöldi þessa sama dags, kl. 22:00, er lögreglu gert viðvart og í framhaldi af því fer brotaþoli í fylgd föður síns og stjúpu til Akureyrar þar sem hún gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun.

Líkt og áður greinir er ákærða gefið að sök að hafa nýtt sér að brotaþoli gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Engin gögn eru í málinu sem geta gefið vísbendingu um það hversu mikið alkóhólmagn var í blóði brotaþola á þeim tíma sem ætlað brot átti sér stað. Af framburði vitna má ráða að brotaþoli var undir áhrifum áfengis umrætt kvöld. Vitnið J kvaðst hafa fylgt brotaþola inn í herbergi hennar og þá hafi brotaþoli sagt henni að hún hefði kastað upp. Vitnið taldi að brotaþoli hefði sofnað áfengissvefni um leið og hún lagðist í rúm sitt. Þá bar vitnið fyrir lögreglu að hún hafi sett fötu við rúm brotaþola og staðfesti hún þann framburð fyrir dóminum. Bendir þessi framburður vitnisins J til þess að brotaþoli hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum þegar hún lagðist til hvílu umrædda nótt.

Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist þeirra á milli eftir að vitnið J var farin úr íbúðinni og vitnið I sofnaður. Samkvæmt framburði ákærða bankaði hann á dyrnar á svefnherbergi brotaþola og spurði hana hvort hann mætti koma inn og brotaþoli hafi jánkað því. Þá bar ákærði að í framhaldi af þessu hafi hann sest á rúm brotaþola og þau að frumkvæði brotaþola haft samfarir. Brotaþoli bar hins vegar á þann veg að hún hafi vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Áður er fram komið að framburður beggja hefur frá upphafi verið staðfastur og án teljandi ósamræmis. Framburður brotaþola fær stoð í framburði vitnisins I sem greindi frá því að hún hafi vakið hann með því að hella yfir hann vatni og hún hafi þá verið ráðvillt og ekki í jafnvægi og þá minnti hann að hún hafi verið grátandi. Einnig fær framburður hennar stoð í greinagóðum framburði vitnisins J varðandi ölvunarástand brotaþola en vitnið J hafði síðust samskipti við brotaþola um nóttina. Þá er frásögn brotaþola af atburðunum í samskiptum hennar við vitnið H á samskiptamiðlinum Facebook í samræmi við framburð hennar fyrir dóminum og sama má segja um það hvernig brotaþoli lýsti atvikinu fyrir móður sinni. Framburður vitna bendir eindregið til þess að brotaþoli hafi verið allnokkuð drukkin þegar hún fór að sofa en hún gerði þó ráðstafanir til þess að ákærði gæti sofið í stofunni hjá henni. Fyrir liggur að brotaþoli er samkynhneigð og það vegur þungt í mati á framburði hennar og ákærða en að teknu tilliti til kynhneigðar brotaþola eru litlar líkur á því að hún hafi átt frumkvæði að því að hún og ákærði hefðu samfarir. Þegar atvik málsins eru skoðuð skiptir ekki máli þótt brotaþoli hafi ekki verið með sýnilega áverka eftir atvikið. Að mati dómsins dregur það úr trúverðugleika framburðar ákærða að hann lýsir í raun engu öðru en því að hann hafi knúið dyra hjá brotaþola og þau í beinu framhaldi af því, að frumkvæði brotaþola, byrjað að hafa samfarir með þeim hætti að brotaþoli fór ofan á ákærða en þau síðan skipt um stellingu og ákærði farið ofan á brotaþola.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat dómsins að við úrlausn máls þessa sé rétt að leggja trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar við úrlausn máls þessa en viðbrögð og ástand brotaþola styðja framburð hennar. Ber því gegn staðfastri neitun ákærða að sakfella hann fyrir háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Ákærði er 21 árs gamall og hefur ekki svo vitað sé áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar hans verður tekið tillit til þessa svo og þess að brot hans er alvarlegt og þess hverju brot hans beindist að, sbr. 1. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

Ákærði hefur með háttsemi sinni valdið brotaþola miska og er honum gert að greiða henni miskabætur sem að teknu tilliti til framburðar hennar fyrir dómi og að nokkru með vísan til framburðar vitnisins L félagsráðgjafa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna sem beri vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður við rannsókn málsins 32.000 krónum. Auk þessa ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Ásgeirs Arnar Jóhannessonar héraðsdómslögmanns, 1.023.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Júlíar Óskar Antonsdóttur héraðsdómslögmanns, 572.880  krónur. Þá ber að dæma ákærða til að greiða 24.149 króna ferðarkostnað verjanda hans. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir héraðssaksóknari.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Halldór Halldórsson, sem dómsformaður, og Ólafur Ólafsson og Þorsteinn Davíðsson.

 

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði Y 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá [...] 2016 til 18. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Jóhannessonar héraðsdómslögmanns, 1.023.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Júlíar Óskar Antonsdóttur héraðsdómslögmanns, 572.880 krónur, og 56.149 krónur í annan sakarkostnað.

 

 

                                                            Halldór Halldórsson

 

 

                                                            Ólafur Ólafsson

 

 

                                                            Þorsteinn Davíðsson