• Lykilorð:
  • Aðilaskipti
  • Aðild
  • Skuldskeyting
  • Tómlæti
  • Veðskuldabréf
  • Önnur mál

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. maí 2018 í máli nr. E-43/2017:

Landsbankinn hf.

(Stefán Þórarinn Ólafsson lögmaður)

gegn

Valdarási ehf.

(Ingi Tryggvason lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. mars sl., var höfðað 24. október 2017 en þann dag sótti stefndi þing án þess að stefna hafi formlega verið birt honum.

Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefndi er Valdarás ehf., Valdarási syðri, Húnaþingi vestra.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 61.403.947 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 155.373 krónum frá 1. nóvember 2013 til 15. nóvember 2013, af 373.233 krónum frá þeim degi til 15. desember 2013, af 591.262 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2014, af 809.461 krónu frá þeim degi til 15. febrúar 2014, af 1.027.152 krónum frá þeim degi til 15. mars 2014, af 1.246.372 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2014, af 1.466.611 krónum frá þeim degi til 15. maí 2014, af 1.689.058 krónum frá þeim degi til 15. júní 2014, af 1.913.822 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2014, af 2.140.744 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2014, af 2.369.645 krónum frá þeim degi til 15. september 2014, af 2.599.735 krónum frá þeim degi til 15. október 2014, af 2.832.615 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2014, af 3.068.852 krónum frá þeim degi til 6. desember 2014, af 39.918.359 krónum frá þeim degi til 15. desember 2015, af 40.054.497 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2016, af 40.191.728 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2016, af 40.330.054 krónum frá þeim degi til 15. mars 2016, af 40.468.833 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2016, af 40.612.443 krónum frá þeim degi til 15. maí 2016, af 40.757.602 krónum frá þeim degi til 15. júní 2016, af 40.903.488 krónum frá þeim degi til 18. júní 2016 og af 61.403.947 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði 1. veðréttur hans í fasteigninni Ytri-Valdarási, Húnaþingi vestra, landnúmer 144638, samkvæmt veðskuldabréfi að fjárhæð 15.000.000 króna, útgefnu 30. nóvember 2006, með þinglýsingarnúmerinu 420-A-990/2006, og 2. veðréttur í sömu eign samkvæmt veðskuldabréfi að fjárhæð 25.000.000 króna, útgefnu 30. nóvember 2006, með þinglýsingarnúmerinu 420-A-991/2006.

Stefnandi krefst jafnframt viðurkenningar á 2. veðrétti í fasteigninni Syðri-Valdarási, Húnaþingi vestra, landnúmer 144639, samkvæmt veðskuldabréfi að fjárhæð 15.000.000 króna, útgefnu 30. nóvember 2006, með þinglýsingarnúmerinu 420-A-990/2006, og 3. veðréttur í sömu eign samkvæmt veðskuldabréfi að fjárhæð 25.000.000 króna, útgefnu 30. nóvember 2006, með þinglýsingarnúmerinu 420-A-991/2006.

Þá krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til þess að krefjast nauðungarsölu á fasteignunum Ytri-Valdarási, landnúmer 144638, og Syðri-Valdarási, landnúmer 144639, samkvæmt áðurnefndum veðskuldabréfum ásamt vöxtum og kostnaði.

Til vara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til að gera fjárnám í tryggingarrétti samkvæmt skuldabréfi sem nú hvíli á 1. veðrétti á fasteigninni Ytri-Valdarási, Húnaþingi vestra, landnúmer 144638, samkvæmt áður tilgreindu veðskuldabréfi að fjárhæð 15.000.000 króna og samkvæmt áðurnefndu veðskuldabréfi að fjárhæð 25.000.000 króna sem hvílir á 2. veðrétti fasteignarinnar og í fasteigninni Syðri-Valdarási, landnúmer 144639, samkvæmt sömu veðskuldabréfum sem hvíla á 2. og 3. veðrétti eignarinnar.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að hann verði sýknaður af öðrum kröfum stefnanda.

Verði fallist á fjárkröfu stefnanda að einhverju leyti krefst stefndi þess að varakröfu stefnanda um að viðurkenndur verði réttur hans til að gera fjárnám í fasteignunum Ytri- og Syðri-Valdarási verði vísað frá dómi.

Loks krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

 

II

Atvik máls

Í grunninn snýst mál þetta um tvö veðskuldabréf sem bæði voru gefin út 30. nóvember 2006. Annað bréfið er að fjárhæð 15.000.000 króna, útgefið af Axel Rúnari Guðmundssyni. Skuld þessa átti að endurgreiða á 30 árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. febrúar 2007. Í veðskuldabréfinu er kveðið á um vexti, vísitölubindingu o.fl. Veðskuldabréfið er nú tryggt með 1. veðrétti í jörðinni Ytri-Valdarási og 2. veðrétti í jörðinni Syðri-Valdarási. Á verðskuldabréfinu eru undirritanir Axels Rúnars sem útgefanda, Guðmundar Axelssonar sem veðsala, Huldu Ragnarsdóttur, maka veðsala, og Bogeyjar Ernu Benediktsdóttur, maka útgefanda. Veðskuldabréf þetta hefur verið í vanskilum frá 15. desember 2015 og var það gjaldfellt 18. júní 2016. Hitt veðskuldabréfið er að fjárhæð 25.000.000 króna en samkvæmt efni þess er skuldari að því Guðmundur Axelsson og það undirritað af Huldu Ragnarsdóttur, maka skuldara. Bréf þetta var til 30 ára með 360 gjalddögum en fyrsti gjalddagi var 15. febrúar 2007. Þá er í því mælt fyrir um vexti, vísitölubindingu o.fl. Bréfið er nú tryggt með 2. veðrétti í jörðinni Ytri-Valdarási og 3. veðrétti í jörðinni Syðri-Valdarási. Vanskil hafa verið á greiðslu afborgana frá 6. nóvember 2013 og það var gjaldfellt 6. desember 2014.

Upphaflegur kröfuhafi að bréfunum var Sparisjóður Húnaþings og Stranda en stefnandi hefur nú tekið við réttindum og skyldum sparisjóðsins í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2011 um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Með þessari ákvörðun tók NBI hf., nú stefnandi, við réttindum og skyldum SpKef sparisjóðs en Sparisjóður Húnaþings og Stranda hafði áður sameinast öðrum sparisjóðum undir nafni SpKef sparisjóðs.

Hjónin Guðmundur Axelsson og Hulda Ragnarsdóttir, foreldrar Axels Rúnars, stunduðu um áratugaskeið búskap á jörðinni Syðra-Valdarási en Helgi Guðmundsson, bróðir Guðmundar, og eiginkona hans bjuggu að Ytra-Valdarási. Helgi lést 1989 og nokkru síðar keypti Axel Rúnar jörðina en hann hafði á þeim tíma tekið við sauðfjárbúskap foreldra sinna og árin þar á eftir tók hann einnig við mjólkurframleiðslu þeirra. Jörðin Ytri-Valdarás, sem þá var eign Axels Rúnars, var seld nauðungarsölu að því að talið er á árinu 2003. Um mitt ár 2005 var Axel Rúnar úrskurðaður gjaldþrota og hefur hann að sögn stefnda verið í greiðsluerfiðleikum síðan en áður hafði hann misst bújörð sína á nauðungarsölu líkt og áður er getið.

Í lok aprílmánaðar 2007 er einkahlutafélagið Valdarás ehf. stofnað. Stofnskrá er undirrituð af Guðmundi Axelssyni og stofnfundargerð af honum auk eiginkonu hans og Bogeyju Ernu. Tilkynning um stofnun félagsins er móttekin af ríkisskattstjóra 8. júní 2007. Samkvæmt þeirri tilkynningu er Hulda Ragnarsdóttir formaður stjórnar og Bogey Erna í varastjórn en Guðmundur Axelsson eigandi alls hlutafjár. Guðmundur ritaði einnig stofnefnahagsreikning félagsins og þar eru skuldir samkvæmt áðurnefndum veðskuldabréfum taldar til skulda félagsins. Í ársreikningi Valdaráss ehf. fyrir árið 2007 eru skuldir þessar tilgreindar og svo hefur verið síðan. Hinn 17. mars 2008 er skjal móttekið til þinglýsingar þar sem jarðirnar Ytri- og Syðri-Valdarás ásamt Valdarásseli eru færðar á nýjan eiganda, Valdarás ehf.

Guðmundur Axelsson lést um mitt ár 2010 og sat eftirlifandi eiginkona hans í óskiptu búi þar til hún lést í lok árs 2012. Búið var tekið til einkaskipta og lauk skiptum þess 31. október 2013. Axel Rúnar var eini erfinginn og tók hann við eignum og skuldum búsins.

Stefnandi krafðist nauðungarsölu á jörðunum Syðri- og Ytri-Valdarási vegna vanskila á veðskuldabréfinu að höfuðstólsfjárhæð 25.000.000 króna. Af hálfu stefnda var uppboðinu mótmælt á þeim grundvelli að Axel Rúnar hefði falsað undirskriftir föður síns á skuldabréfið. Sýslumaður ákvað að nauðungaruppboðinu skyldi fram haldið en þeirri ákvörðun var skotið til dómsins. Fyrir dóminum voru rekin tvö ágreiningsmál, eitt fyrir hvora fasteign, og lauk þeim með úrskurðum dómsins 6. júlí 2016 þar sem ákvörðun sýslumanns var felld úr gildi. Niðurstaðan var reist á því að það teldist nægjanlega sannað að undirskrift Guðmundar Axelssonar væri fölsuð. Þessir úrskurðir voru ekki kærðir til Hæstaréttar.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnandi byggir á því að það sé ósannað að undirritun Guðmundar Axelssonar á veðskuldabréfin sem mál þetta snýst um sé fölsuð. Þá hafi Guðmundur með ýmsum hætti eftir útgáfu bréfanna viðurkennt gildi þeirra. Hann hafi stofnað einkahlutafélagið Valdarás ehf. 2007 og ritað undir stofnskrá og stofnfundargerð en tilgangur félagsins hafi verið landbúnaður ásamt því að eiga og reka jarðir. Í stofnefnahagsreikningi, sem Guðmundur ritaði undir, sé gerð grein fyrir skuldum við Sparisjóð Húnaþings og Stranda sem síðan eru færðar í ársreikning Valdaráss ehf. fyrir árið 2007. Guðmundur hafi þó verið eigandi títtnefndra jarða til 17. mars 2008 en þá undirritar hann yfirlýsingu þar sem jarðirnar ásamt Valdarásseli eru færðar yfir til stefnda. Við þinglýsingu þessarar yfirlýsingar hafi þinglýsingarstjóri gert athugasemd við að skuldirnar væru ekki sérstaklega tilgreindar í yfirlýsingunni. Áhvílandi veðskuldir hafi verið tilgreindar í athugasemd þinglýsingarstjóra og skjalinu þinglýst þannig. Guðmundur hafi verið eigandi alls hlutafjár í stefnda samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009. Í næsta ársreikningi sé Bogey Erna Benediksdóttir orðin eigandi alls hlutafár í félaginu. Telur stefnandi að í samningi um sölu hlutafjárins hafi verið tekið tillit til eigna og skulda stefnda og núverandi eigandi stefnda þannig viðurkennt skuld félagsins við stefnanda samkvæmt nefndum veðskuldabréfum. Stefnandi vísar í þessu sambandi einnig til þess að yfirfærsla einkarekstrar í einkahlutafélag þurfi að uppfylla ströng skilyrði, m.a. að í tilkynningu til hlutafélagaskrár skuli fylgja efnahagsreikningur einstaklingsrekstrarins sem jafnframt skuli vera stofnefnahagsreikningur einkahlutafélagsins. Stefndi hafi þannig yfirtekið skuldir samkvæmt skuldabréfunum og honum beri að standa skil á þeim gagnvart stefnanda. Skuldanna sé getið í öllum ársreikningum stefnda frá árinu 2007 og því ljóst að stefndi hafi alla tíð litið á þær sem hluta af sínum skuldum þrátt fyrir að formleg skuldskeyting hafi ekki farið fram.

Stefnandi heldur því fram að þó svo talið verði sannað að Axel Rúnar hafi falsað nafnritun föður síns á skuldabréfin og hugsanlega önnur skjöl málsins liggi engu að síður fyrir að Bogey Erna, sambýliskona Axels Rúnars, eigi allt hlutafé í stefnda. Þau hafi því staðið að baki yfirfærslu á jörðunum frá Guðmundi heitnum til stefnda. Axel Rúnar og Bogey Erna, og þar með stefndi, hafi þannig viðurkennt gildi veðskuldabréfanna og skuld samkvæmt þeim. Forsvarsmenn stefnda hafi gert slíkt hið sama með því að tilgreina skuldirnar í ársreikningum stefnda og þá hafi þeir fyrir hönd stefnda reynt að semja um skuldirnar við stefnanda. Í þessu sambandi bendir stefndi á að Bogey Erna hafi frá miðju ári 2010 verið formaður stjórnar og sambýlismaður hennar, Axel Rúnar, verið varamaður í stjórn frá sama tíma. Þá hafi stefnda verið sendur fjöldi greiðsluseðla, greiðsluáskorana og tilkynninga um skuldina en hann engar athugasemdir gert af því tilefni fyrr en skömmu fyrir lokasölu eignanna á nauðungaruppboði. Byggir stefnandi á því að þetta leiði til þess að stefndi hafi í raun tekist á sjálfstæða ábyrgð um greiðslu skuldanna samkvæmt veðskuldabréfunum og því skipti ekki máli þótt Axel Rúnar hafi falsað undirskrift föður síns á bréfin. Þá verði ekki framhjá því horft að Guðmundur heitinn hafi sjálfur samþykkt bréfin eftir á með undirritun sinni á þau skjöl sem tengdust yfirfærslu eigna og skulda hans til stefnda. Þannig hafi Guðmundur staðfest skuldina samkvæmt veðskuldabréfunum og viðurkennt sem sína eigin og þar með veðsetningu jarðanna til tryggingar skuldunum.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að Axel Rúnar sé skuldari samkvæmt veðskuldabréfinu sem er að fjárhæð 15.000.000 króna en Guðmundur heitinn að hinu bréfinu, bæði séu bréfin tryggð með veði í jörðum stefnda. Í skuldabréfunum sé mælt svo fyrir að þegar þau eru gjaldfallin sé heimilt að selja veðin nauðungarsölu án dóms, sáttar eða fjárnáms skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þrátt fyrir þessa heimild telur stefnandi nauðsynlegt að fá dóm fyrir kröfu sinni í þá veru að viðurkenndur verði réttur hans til að krefjast nauðungarsölu á jörðunum sem þar eru settar að veði enda hafi komið fram staðhæfing Axels Rúnars þess efnis að hann hafi falsað undirritun föður síns á veðskuldabréfin. Ítrekað hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá Axel Rúnari og því vandséð hvernig stefnandi geti fengið fullnustu kröfu sinnar með öðrum hætti en þeim að fá dóm á hendur veðsala, en að honum fengnum sé unnt að ganga að veðunum. Guðmundur heitinn hafi með athöfnum sínum eftir útgáfu skuldabréfanna samþykkt og staðfest veðsetningu jarðanna samkvæmt veðskuldabréfunum og vísar stefnandi í þessu sambandi til yfirfærslu skuldanna til stefnda einu og hálfu ári eftir hina meintu fölsun. Guðmundi hafi á þessum tíma verið ljóst að undirskrift hans á bréfin var fölsuð og hafi hann því með athöfnum sínum staðfest lögmæti skuldabréfanna og gildi þeirra gagnvart stefnanda.

Stefnandi bendir á að stefndi hafi tekið skuldirnar upp í stofnefnahagsreikning sinn og getið þeirra í ársreikningum sínum, greitt af þeim og samið um þær við stefnanda. Þannig hafi stefndi alla tíð litið á skuldirnar sem sínar þrátt fyrir að formleg skuldskeyting hafi ekki átt sér stað. Í 56. gr. laga um tekjuskatt eru ákvæði um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag og fyrir slíkri yfirfærslu séu ströng skilyrði, m.a. þau að tilgreina þarf nákvæmlega eignir og skuldir rekstrarins. Stefndi geti ekki orðið fyrir tjóni eða verið grandlaus um nokkuð er varðar umþrætt skuldabréf. Guðmundur heitinn hafi stofnað hið stefnda félag og lagt því til eignir og skuldir. Þrátt fyrir að fölsun sé almennt sterk mótbára er lýtur að stofnun krafna samkvæmt viðskiptabréfi þá eigi það ekki við í máli þessu þar sem Guðmundur heitinn hafi stofnað stefnda eftir hina meintu fölsun.

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar, m.a. um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og fullnustu á veðrétti kröfueiganda. Þá vísar hann til 56. gr. laga um tekjuskatt varðandi heimild einstaklings í atvinnurekstri til að flytja eignir sínar og skuldir í einkahlutafélag. Nýr skuldari verði til, sem í þessu tilfelli sé stefndi, og hann verði a.m.k. meðskuldari fjárskuldbindinga félagsins gagnvart stefnanda. Varakrafa stefnanda er m.a. reist á 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989 þar sem krafa samkvæmt 7. og 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna nái einnig til þeirra sem eiga verðmæti sem standa að veði til tryggingar kröfu. Viðurkenningarkröfur stefnanda eru reistar á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en stefnandi hafi augljósa hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda sinna og réttarsambands við stefnda. Þá vísar stefnandi einnig til laga um samningsveð nr. 75/1997, einkum 3. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 9. gr. og 15.-20. gr. laganna. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er reist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Stefndi reisir kröfur sínar á því að hann sé ekki réttur aðili að málinu og því beri að sýkna hann sökum aðildarskorts. Byggir stefndi á því að hann hafi aldrei viðurkennt gagnvart stefnanda að hann sé skuldari samkvæmt hinum umdeildu skuldabréfum. Stefnandi hafi aldrei gert reka að því gagnvart stefnda né öðrum að hafa skuldaraskipti á bréfunum og skuldskeyting því ekki farið fram reglum samkvæmt. Því sé Axel Rúnar Guðmundsson skuldari annars bréfsins en dánarbú Guðmundar Axelssonar skuldari samkvæmt hinu bréfinu en í raun sé það Axel Rúnar þar sem hann hafi verið einkaerfingi foreldra sinna. Stefnandi hafi ekkert gert til að hafa skuldaraskipti þrátt fyrir að Guðmundur hafi látist á árinu 2010 og eiginkona hans, sem sat í óskiptu búi, hafi látist 2012.

Stefnandi byggir á því að fram hafi komið að nafnritanir Guðmundar Axelssonar sem skuldara og veðsala á veðskuldabréfin séu falsaðar. Fyrir liggi yfirlýsing Axels Rúnars í þá veru að hann hafi falsað undirritanir föður síns á bréfin. Fölsunin leiði til þess að veðskuldabréfin séu ógild sem viðskiptabréf og því geti stefnandi ekki neytt þeirra úrræða sem þau annars mundu heimila honum. Það sé almenn regla að á fölsuðum skjölum verði ekki byggður réttur í lögskiptum aðila. Það hafi verið í verkahring forvera stefnanda að sjá til þess að vottar væru að undirritun Guðmundar, m.a. til að koma í veg fyrir að undirritanir hans væru falsaðar. Þeir sem árita bréfin sem vottar hafi ekki verið viðstaddir undirritun Guðmundar heitins enda hafi hann ekki ritað undir bréfin. Hallann af þessu verði stefnandi að bera enda hafi það staðið forvera hans næst að sjá til þess að veðskuldabréfin væru gild viðskiptabréf. Það hafi verið vítavert gáleysi af forvera stefnanda, sem lánaði verulegar fjárhæðir, að tryggja ekki að nafnritanir á veðskuldabréfin væru í lagi og ganga úr skugga um að þeir, sem sagðir eru hafa undirritað þau, hafi í raun gert það í votta viðurvist. Þar sem veðskuldabréfin séu ekki í lagi hvað þetta varðar geti stefnandi ekki byggt rétt sinn á þeim og þessi fölsun leiði til sýknu.

Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti. Samkvæmt kröfugerð stefnanda krefjist hann dráttarvaxta allt frá 1. nóvember 2013 og því hafi bréfin a.m.k. verið í vanskilum frá þeim tíma. Þá segi í stefnu að bréfið sem Guðmundur Axelsson er sagður skuldari að hafi verið í vanskilum frá því í júlí 2013. Beiðni um nauðungarsölu á hinum veðsettu eignum hafi ekki verið send sýslumanni fyrr en 27. maí 2015 og þá á grundvelli veðskuldabréfsins sem Guðmundur er skuldari að. Framganga nauðungarsölunnar hafi verið stöðvuð með úrskurði héraðsdóms 6. júlí 2016. Vanskil á hinu bréfinu eru frá því í desember 2015 en innheimtuaðgerðir hvað það bréf varðar hafi í raun ekki hafist fyrr en með stefnu máls þessa. Frá því að nauðungarsölurnar voru stöðvaðar í júlí 2016 hafi stefnandi ekkert aðhafst fyrr en stefna var gefin út skömmu fyrir þingfestingu málsins. Þá hafi verið liðin nærri tvö ár frá því að veðskuldabréf Axels Rúnars fór í vanskil. Stefnandi hafi því sýnt af sér mikið tómlæti við að halda fram rétti sínum samkvæmt hinum umdeildu skuldabréfum. Stefndi hafi í raun haldið, þegar líða tók á árið 2017, að stefnandi hefði fallið frá því að halda því fram að veðskuldabréfin væru gild viðskiptabréf. Tómlæti stefnanda leiði til þess að hann geti ekki nú haldið fram meintum rétti sínum. Stefnandi haldi því fram að honum hafi verið kunnugt allt frá árinu 2007 að stefndi væri í raun skuldari samkvæmt bréfunum en ekki Guðmundur Axelsson og Axel Rúnar. Þrátt fyrir það hefur stefnandi aldrei gert reka að því að koma skuldunum í sínum bókum yfir á stefnda. Tómlæti stefnanda hvað þetta varðar sé því verulegt.

Stefndi reisir kröfur sínar einnig á því að stefnandi hafi ekki metið greiðslugetu Axels Rúnars. Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga hafi verið gert 1. nóvember 2011 en aðilar að því séu m.a. Samtök banka og verðbréfafyritækja. Í 3. gr. samkomulagsins komi fram að meta skuli greiðslugetu greiðanda þegar skuldaábyrgð eða veð er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu nema ábyrgðamaður óski sérstaklega eftir því, skriflega, að svo verði ekki gert. Gera verði ráð fyrir að forveri stefnanda hafi gengið út frá því að Guðmundur Axelsson hafi ritað undir veðskuldabréfið að fjárhæð 15.000.000 króna sem veðsali og þar með heimilað veðsetningu á tveimur fasteignum til tryggingar á skuld Axels Rúnars. Forvera stefnanda hafi borið að gera greiðslumat á skuldaranum og kynna niðurstöðu þess fyrir Guðmundi sem veðsala. Hefði slíkt greiðslumat verið gert og kynnt Guðmundi hefði komið í ljós að það var aldrei ætlun Guðmundar að veðsetja fasteignir sínar fyrir skuldum Axels Rúnars. Þá megi ganga út frá því miðað við fjárhagslega sögu Axels Rúnars að greiðslumat hefði leitt í ljós að hann var ekki borgunarmaður fyrir 15.000.000 króna skuld. Af þessum sökum hefði aldrei orðið af lánveitingunni til Axels Rúnars ef eðlilega hefði verið staðið að undirbúningi hennar.

Stefndi bendir á að þar sem stefnandi hafi valið þann kost að blanda saman meintum skuldum samkvæmt tveimur veðskuldabréfum í eina dómkröfu byggða á báðum bréfunum verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda, a.m.k. að svo stöddu þar sem annnað bréfanna er óskuldbindandi, m.a. vegna þess að mat var ekki gert á greiðslugetu skuldarans.

Stefndi heldur því einnig fram að það sé ósanngjarnt og óheiðarlegt af stefnanda að bera skuldabréfin fyrir sig. Fyrir liggi að nafnritanir Guðmundar Axelssonar sem skuldara og veðsala á umdeildum skuldabréfum séu falsaðar. Þá liggi jafnframt fyrir að hafi forveri stefnanda og upphaflegur lánveitandi litið svo á að Guðmundur hafi heimilað veðsetningu fasteigna sinna fyrir skuld Axels Rúnars bar honum skylda til að meta greiðslugetu Axels Rúnars en það hafi hann ekki gert. Umrætt veðskuldabréf sé því ekki gilt viðskiptabréf og úrskurður héraðsdóms liggi fyrir um að þau séu ekki gild uppboðsheimild. Það sé ósanngjarnt og ekki í samræmi við góða viðskiptavenju að byggja rétt á fölsuðum viðskiptabréfum en um þau gildi í sumum tilfellum reglur um réttarfarshagræði. Óeðlilegt sé að opinber lánastofnun beri fyrir sig fölsuð skjöl en til slíkrar stofnunar verði að gera kröfu um að lán séu veitt á grundvelli fullkominna skjala og að undurbúningur lánveitingar sé með eðlilegum hætti og í samræmi við gildandi lög og reglur. Lánastofnun þar sem starfsemin snýst aðallega um að veita einstaklingum og fyrirtækjum lán verði að vanda sig við lánveitingar og undirbúning þeirra. Misfarist eitthvað í þeim efnum verði lánastofnunin að bera hallann af því.

Í þessu sambandi bendir stefndi á að veðskuldabréfin voru gefin út á árinu 2006 en þá var Guðmundur Axelsson 86 ára gamall vistmaður á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga en þar hafi hann haft fasta búsetu frá 2005. Heilsufar hans á þessum tíma var ekki gott og enn ríkari ástæða en ella fyrir lánveitandann að gæta sérstaklega að sér og gera Guðmundi sérstaklega grein fyrir því hvað fælist í undirritun hans á umrædd veðskuldabréf, hefði hann á annað borð undirritað þau, og gæta réttar hans að öðru leyti. Stefndi fær ekki séð hvernig forvera stefnanda gat komið til hugar að lána 86 ára gömlum manni 25.000.000 króna til 30 ára en ætla verði að lánastofnun geri ráð fyrir að lántaki endurgreiði það lán sem hann tekur en augljóst sé að Guðmundur var ekki líklegur til þess. Þá sé og ljóst að Guðmundur gat ekki greitt af láninu með tekjum sínum en hann var á þessum tíma vistmaður á dvalarheimili og væntanlega með tekjur í samræmi við það, varla aðrar en vasapeninga frá íslenska ríkinu líkt og aðrir einstaklingar í hans stöðu. Því verði að spyrja hver hafi átt að greiða af láninu en það verði ekki ráðið af gögnum málsins. Það geti ekki verið sanngjarnt að bera fyrir sig löggerninga sem þessa þar sem það er algerlega óljóst hvaða forsendur voru að baki lánveitingarinnar til Guðmundar.

Samkvæmt yfirliti stefnanda voru hin umdeildu veðskuldabréf gefin út í því skyni að greiða upp skuldir Axels Rúnars, þar á meðal víxil að fjárhæð tæplega 29.000.000 króna. Stefndi heldur því fram að það sé óeðlilegt af lánastofnun að veita öldruðum manni lán að fjárhæð 25.000.000 króna til 30 ára til að greiða upp skuldir þriðja manns. Það blasi við að lánveiting þessi var mjög óeðlileg í alla staði og ósanngjarnt af stefnanda að bera skuldabréfið, sem á að hafa verið gefið út af Guðmundi, fyrir sig. Stefndi telur óheiðarlegt af stefnanda að bera fyrir sig fölsuð veðskuldbréf og horfa verði til aldurs Guðmundar, endurgreiðslutíma skuldabréfsins, sem hann var talinn skuldari á, og þess að aldraður maður hafi verið að setja eignir sínar að veði fyrir 40.000.000 króna skuld þriðja aðila og skipti þá engu að þar hafi sonur hans átt hlut að máli.

Varakröfu sína um lækkun fjárkröfunnar styður stefnandi með þeim rökum að veðskuldabréfið að fjárhæð 15.000.000 króna sé ógilt, m.a. af þeirri ástæðu að greiðslugeta Axels Rúnars var ekki metin áður en lánið var veitt. Hvernig sem málið fari að öðru leyti sé annað útilokað en að þetta veðskuldabréf verði talið óskuldbindandi. Það leiði til þess að lækka verði fjárkröfu stefnanda sem nemi eftirstöðvum þessa bréfs. Stefnandi hafi hins vegar ákveðið að höfða eitt mál vegna beggja bréfanna og það leiði til þess að sýkna verði hann að svo stöddu af öllum fjárkröfum stefnanda. Takist stefnanda, undir rekstri málsins, að bæta úr þeim ágalla sem í því felst að hafa bæði bréfin undir í þessu máli beri að lækka stefnukröfuna líkt og áður er getið.

Verði fallist á fjárkröfu stefnanda að einhverju leyti heldur stefndi því fram að rétt sé að vísa varakröfu stefnanda frá dómi. Í dómkröfunni sé ekki tiltekið fyrir hvaða fjárkröfu stefnandi geri kröfu um að honum verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétti sína samkvæmt veðskuldabréfunum. Tiltaka verði nákvæmlega fjárkröfuna sem fjárnáms er krafist fyrir ella sé ekki unnt að taka hana upp í dómsorð. Þessi óskýrleiki í kröfugerðinni veldur því að vísa beri varakröfunni frá dómi. Í þessu sambandi vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 774/2016.

Varðandi lagarök vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem fram komi hvaða afleiðingar aðildarskortur hefur. Þá vísar hann til meginreglna um þýðingu þess að viðskiptabréf reynast fölsuð. Einnig til almennra reglna um þýðingu tómlætis kröfuhafa við að halda kröfu sinni fram. Auk þessa vísar hann til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa um frávísun varakröfu er studd við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi vísar og til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn í aðalatriðum á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að ósannað sé að veðskuldabréfin séu fölsuð og því eigi hann þau réttindi sem bréfin mæla fyrir um. Í öðru lagi, teljist sannað að bréfin séu fölsuð, að stefndi hafi í raun samþykkt efni þeirra og þannig gengist við þeim skuldbindingum sem í bréfunum felast. Af hálfu stefnda er byggt á aðildarskorti, að bréfin séu fölsuð, tómlæti stefnanda við að halda kröfum sínum á lofti, að ekki hafi farið fram mat á greiðslugetu Axels Rúnars og það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að bera bréfin fyrir sig.

Með úrskurði dómsins uppkveðnum 6. júlí 2016, sem stefnandi undi, var komist að þeirri niðurstöðu að nafnritun Guðmundar Axelssonar væri fölsuð á veðskuldabréfið sem er að fjárhæð 25.000.000 króna. Engin ástæða er til annars en að álykta sem svo að hið sama eigi við um undirritun Guðmundar, sem veðsala, á hitt bréfið. Ber stefnandi því sönnunarbyrði fyrir því að bréfin séu ófölsuð. Að gengnum nefndum úrskurði var full ástæða fyrir stefnanda til að leitast við að sanna að bréfin væru ófölsuð hygðist hann byggja á því í dómsmáli síðar, t.d. með því að láta dómkveðja matsmann til að meta undirritanir á frumritum bréfanna. Þetta gerði hann ekki og verður því að leggja til grundvallar við úrlausn máls þessa að undirritun Guðmundar á bréfin séu falsaðar.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi með athöfnum sínum eftir að lánin voru veitt í raun tekið þau yfir og samþykkt þau sem skuldir sínar og þannig gagnvart stefnanda tekist á hendur sjálfstæða ábyrgðaryfirlýsingu um greiðslu lánanna og viðurkennt að þau væru tryggð með veði í fasteignum stefnda. Þetta hafi stefndi m.a. gert með því að geta skuldanna í ársreikningum sínum, með því að greiða af lánunum og með því að reyna að ná samkomulagi við stefnanda vegna skuldanna.

Fyrir liggur að við stofnun stefnda var skulda samkvæmt títtnefndum skuldabréfum getið í stofnefnahagsreikningi og síðar í ársreikningum stefnda. Má því ætla að stefndi hafi litið á skuldirnar sem sínar og honum bæri því að greiða þær. Þetta verður þó að skoða með tilliti til þess að lánin voru veitt tveimur aðilum og þá verður að horfa til þeirra aðstæðna sem uppi voru líkt og síðar verður vikið að.

Á veðskuldabréfum þeim sem mál þetta snýst um er sá meginmunur, fyrir utan fjárhæð höfuðstóls, að Axel Rúnar Guðmundsson er skuldari á öðru þeirra en faðir hans, Guðmundur Axelsson, á hinu en bæði eru þau tryggð með veði í fasteignum sem á þeim tíma voru eign Guðmundar en eru nú í eigu stefnda.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi nokkru sinni leitað eftir því við stefnanda að hann kæmi í stað þeirra feðga sem skuldari lánanna. Að sama skapi verður ekki séð að stefnandi hafi aðhafst nokkuð til að hafa skuldaraskipti að lánunum en það er meginregla í íslenskum rétti að skuldaraskipti geta almennt ekki orðið að kröfu án samþykkis kröfuhafa. Formleg skuldskeyting hefur því ekki átt sér stað en stefnandi hefur ekki andmælt þeirri fullyrðingu stefnda að lánin séu enn í bókum stefnanda á nöfnum upphaflegra skuldara þeirra. Lánið sem Axel Rúnar er skuldari að var tekið upp sem skuld við stefnanda í stofnefnahagsreikningi og ársreikningum stefnda en stefndi var þess ekki bær að ákveða upp á sitt eindæmi að hann yrði án formlegs samþykkis stefnanda skuldari í stað Axels Rúnars. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda hvað þetta veðskuldabréf varðar sökum aðildarskorts.

Hvað hitt veðskuldabréfið varðar horfir málið öðruvísi við þar sem það lán var á nafni Guðmundar Axelssonar en hann færði allar eigur sínar og skuldir í einkahlutafélagið Valdarás. Við þá tilfærslu hefði stefndi, ef ekkert annað kæmi til, orðið skuldbundinn til greiðslu skuldarinnar, sbr. 20. gr. laga nr. 75/1997.

Við úrlausn máls þessa ber að horfa til þess að kröfur stefnanda eru reistar á fölsuðum veðskuldabréfum og fyrir dóminum kom fram í máli fyrirsvarsmanns stefnda að stefndi hafi talið bæði bréfin ófölsuð allt þar til yfirlýsing Axels Rúnars um að hann hefði falsað undirritun föður síns kom fram á árinu 2016. Þá verður einnig og ekki síður að horfa til þeirrar stöðu sem uppi var þegar bæði lánin voru veitt. Samkæmt yfirliti sem stafar frá stefnanda skuldaði Axel Rúnar stefnanda rúmlega 40.000.000 króna í lok árs 2006 en fyrir þeim skuldum hafði stefnandi engar tryggingar. Bú Axels Rúnars var tekið til gjaldþrotaskipta um mitt ár 2005 og því litlar sem engar líkur á að hann gæti greitt þessar skuldir. Ekki verður annað ráðið en að fé það sem greitt var samkvæmt skuldabréfunum hafi allt runnið beint til greiðslu á skuldum Axels Rúnars við stefnanda. Með þessum hætti fékk stefnandi að fullu greiddar eldri skuldir Axels Rúnars við bankann og fékk fyrir þeim lánum, sem komu í þeirra stað, tryggingu í eignum þriðja manns fyrir skuldum sem áður voru ótryggðar. Stefnandi veitti samkvæmt þessu 86 ára gömlum vistmanni á dvalarheimili, sem augljóslega var hættur búrekstri, lán að fjárhæð 25.000.000 króna til 30 ára í þeim eina tilgangi að greiða skuldir sonar hans. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi leitast við að ganga úr skugga um að vilji Guðmundar stæði til þess að taka í þessum tilgangi lán hjá stefnanda og að auki setja bújarðir sínar til tryggingar láni Axels Rúnars. Stefnandi kaus að boða ekki bankastjórann, sem veitti lánið, til að gefa skýrslu fyrir dóminum en vænta má að skýrslugjöf hans hefði getað varpað ljósi á hver var raunveruleg ástæða fyrir lánveitingum þessum og ekki síður hvort og þá með hvaða hætti stefnandi kannaði vilja Guðmundar heitins hvað þetta varðar. Verður stefnandi að bera hallann af þessu.

Að öllu þessu virtu er fallist á þá málsástæðu stefnda að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda, sem er fjármálastofnun, að bera fyrir sig hið umdeilda veðskuldabréf, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt framanrituðu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.

Stefán Ólafsson lögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda en af hálfu stefnda Ingi Tryggvason lögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Valdarás ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.

Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson