• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Hraðakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. maí 2016 í máli nr. S-1/2016:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Sigurgeiri Snævari Árnasyni

(sjálfur)

 

A

Mál þetta, sem þingfest var 22. mars og dómtekið 27. apríl sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 28. janúar 2016 með ákæru á hendur Sigurgeiri Snævari Árnasyni, fæddum 6. mars 1988, til heimilis að Ásgarði, Skagaströnd,  ,,fyrir eftirtalin umferðarlagarbrot:

I.

Með því að hafa um kl. 03:10 aðfaranótt þriðjudagsins 3. nóvember 2015, sviptur ökurétti ævilangt, ekið bifreiðinni JF-710 frá hafnarsvæðinu á Skagaströnd, austur eftir Oddagötu uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Lund.  

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Með því að hafa kl. 14:20, sviptur ökurétti ævilangt, ekið bifreiðinni JF-710 norður eftir Hvalfjarðargöngum á allt að 81 km/klst. en hámarkshraði á þessum vegkafla er 70 km/klst.

Telst þetta varða við 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

B

Upphaflega átti að þingfesta mál þetta 23. febrúar sl. en birting fyrirkalls tókst ekki. Nýtt fyrirkall var gefið út og málið í framhaldi þingfest 22. mars sl. Við birtingu fyrirkallsins óskaði ákærði eftir því að Erlendur Þór Gunnarsson hrl. yrði skipaður verjandi sinn í málinu og varð dómari við þeirri ósk. Þar sem ekki vannst tími til að senda verjanda gögn málsins fyrir þingfestingu þess var málinu frestað. Ákærði sótti þing þegar málið var tekið fyrir 27. apríl sl.  og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og þar er réttilega færð til refsiákvæða. Að framkominni játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins telst sekt ákærða nægilega sönnuð og var farið með málið eftir ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt sakavottorði á ákærði að baki nokkurn sakarferil.  Á árunum 2006 og 2007 voru honum í þrígang gert að greiða sekt fyrir brot gegn umferðarlögum og fyrir nytjastuld. Í lok árs 2007 var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi, þar af voru fjórir mánuðir bundnir skilorði, fyrir minniháttar líkamsárás, brot gegn lögum um ávana og fíkniefni, umferðarlögum og vopnalögum. Rúmum tveimur árum síðar var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi þar af voru fjórir mánuðir bundnir skilorði fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Í nóvember 2010 var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Árið 2012 var hann dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. Hinn 10. september 2014 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi en refsingin bundin skilorði í þrjú ár fyrir margvísleg brot gegn umferðarlögum og fyrir brot gegn 168. og 220. gr. almennra hegningarlaga. Auk þessa gekkst hann í þrígang á árunum 2010 til 2014 undir greiðslu sektar fyrir smærri brot. Ákærði hefur lokið afplánun óskilorðsbundinna dóma sem að framan er getið.

Með broti því sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð dómsins frá 10. september 2014 og ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að taka bæði málin til meðferðar og dæma þau í einu lagi og tiltaka refsingu eftir reglum 77. gr. nefndra laga. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að aka í tvígang sviptur ökurétti en hann hefur fjórum sinnum áður verið sakfelldur fyrir slíkt þannig að ítrekunaráhrifa gætir samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Með hliðsjón af sakarferli ákærða og dómvenju varðandi viðurlög fyrir að aka sviptur ökurétti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin níu mánaða fangelsi en rétt þykir að binda sex mánuði refsingarinnar skilorði og skal sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði naut aðstoðar verjanda áður en málið var tekið fyrir í dóminum og ber að dæma ákærða til að greiða verjanda sínum þóknun sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Annar sakarkostnaður hefur ekki fallið á mál þetta.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Sigurgeir Snævar Árnason, sæti fangelsi í níu mánuði en sex mánuðir refsingarinnar eru bundnir skilorði og skal sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningalaga.

Ákærði greiði 100.000 króna þóknun verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns.

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson