• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. september 2017 í máli nr. S-22/2017: 

        Ákæruvaldið    

       (Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

       gegn

       Birgi Hákoni Guðlaugssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var fyrr í dag, 11. september, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, útgefinni 24. júlí sl., á hendur Birgi Hákoni Guðlaugssyni, kt. 000000-0000, Krummahólum 10, Reykjavík og X fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 7. apríl 2017, í bifreiðinni [...] á Norðurlandsvegi við Sólbakka í Húnaþingi vestra; „I.- II.

III.

            ...... haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 124,02 g af marihúana, 16,25 g af kókaíni og 3,96 g af hassi, en efnin fundust við leit lögreglu í bifreiðinni [...].

   Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001 með síðari breytinum.“

 

Í ákæru, líkt og við meðferð málsins fyrir dómi, er þess krafist að ákærði Birgir Hákon verði dæmdur til refsingar, til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum og 172.000,- kr. í reiðufé sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 5. og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Við þingfestingu málsins, 11. september 2017 var upplýst af hálfu sækjanda að meðákærði X hefði óskað eftir skipun verjanda, sbr. að því leyti áritað fyrirkall. Í ljósi þessa var máli meðákærða X, sbr. ákærukafla I.-II, frestað til 24. október nk., en jafnframt var þáttur hans skilin frá þætti ákærða X, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

A.

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 9. ágúst sl. og var það birt fyrir ákærða Birgi Hákoni, 31. sama mánaðar.  Við þingfestingu málsins sótti ákærði Birgir Hákon ekki þing og boðaði ekki lögmæt forföll. 

Að kröfu fulltrúa ákæruvalds var mál ákærða Birgis Hákonar dómtekið með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88, 2008.  Þar um var m.a. vísað til útivistar og játningar ákærða við rannsókn hjá lögreglu, en jafnframt var til þess vísað að ákæruvaldið miðaði aðeins við að tilgreint magn af marihúana hefði verið ætlað til dreifingar og sölu.  

Að öllu ofangreindu virtu þykir mega jafna framangreindri útivist ákærða Birgis Hákonar við játningar hans með vísan til ofangreindra laga, enda þykja framlögð gögn nægjanleg til sakfellis.  Brot ákærða Birgis Hákonar telst því nægilega sönnuð og rétt heimfært til laga í III. kafla ákæru.

 

B.

Sakarferill ákærða Birgis Hákonar, sem nú er 21 árs, hefur ekki áhrif í máli þessu.

Í máli þessu hefur ákærði Birgir Hákon verið sakfelldur fyrir brot gegn áður tilgreindum ákvæðum ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en um er að ræða m.a. nokkuð magn af sterkum fíkniefnum, en einnig fíkniefnum ætluðum í sölu- og dreifingarskyni.

Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða Birgis Hákonar, en einnig í ljósi ungs aldurs hans og skýlausrar játningar, hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi og 500.000 króna sekt til ríkissjóðs. 

Rétt þykir að fresta fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði skal greiða sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja, en sæti ella 30 daga fangelsi.

Í samræmi við kröfur ákæruvalds eru gerð upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 34688, 34730,34731, 34732, 34733., en einnig172. 000 krónur í reiðufé.

Engan kostnað leiddi af rekstri máls ákærða Birgis Hákonar samkvæmt yfirlýsingu sækjanda fyrir dómi. 

Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi fór með málið af hálfu ákæruvaldsins

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Birgir Hákon Guðlaugsson, sæti 30 daga fangelsi.  Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Birgir Hákon greiði 500.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja, en sæti ella 30 daga fangelsi.

Gerð eru upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 34688, 34730,34731, 34732, 34733., en einnig 172. 000 krónur í reiðufé.

 

                                                         Ólafur Ólafsson