• Lykilorð:
  • Galli
  • Lausafjárkaup
  • Skoðunarskylda
  • Tómlæti
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. júní 2017 í máli nr. E-55/2016:

Jötunn vélar ehf.

(Anna Svava Þórðardóttir hdl.)

gegn

Jóni B. Bjarnasyni

(Stefán Þórarinn Ólafsson hrl.)

I

Mál þetta var höfðað 31. október 2016 og tekið til dóms 4. maí sl.

Stefnandi er Jötunn vélar ehf. Austurvegi 69, Selfossi.

Stefndi er Jón B. Bjarnason Ási, Blönduósi.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.987.909 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 31. ágúst 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Atvik máls

Vorið 2012 keypti stefndi nýja dráttarvél af gerðinni Massey Ferguson af stefnanda og greiddi hann hluta kaupverðsins með notaðri dráttarvél af gerðinni New Holland sem í viðskiptunum var metin á 4.800.000 krónur. Eigendaskipti að báðum dráttarvélunum voru skráð 22. maí 2012 en afhending þeirra fór fram einhverjum dögum fyrr með þeim hætti að starfsmaður stefnanda flutti nýju dráttarvélina til stefnda og tók á sama tíma eldri vélina og flutti hana vestur á firði þangað sem hún hafði verið seld. Að sögn stefnanda heyrði starfsmaður hans, Þórarinn Sigvaldason sölufulltrúi, strax við afhendingu að ekki var allt með felldu varðandi mótor dráttarvélarinnar sem gefið hafi frá sér óeðlilegt hljóð. Að sögn stefnanda bar stefndi því við að þar væri um að ræða smávægileg vandamál varðandi stillingu vélarinnar. Þegar dráttarvélin var komin til hins nýja eigenda hennar hlutaðist stefnandi til um að fagmaður, sem áður starfaði hjá umboðsaðila þessarar tegundar dráttarvéla, skoðaði vélina en hann mun fyrst hafa skoðað dráttarvélina 1. júlí 2012. Við þá skoðun hafi komið í ljós að mótor vélarinnar var stórskemmdur og ljóst að ráðast þyrfti í kostnaðarsamar viðgerðir á vélinni, m.a. skipta um vélarblokk og stimpilstöng og stefnda hafi verið gerð grein fyrir þessu. Nokkru síðar hafi starfsmaður stefnanda farið með kostnaðaryfirlit til stefnda vegna viðgerðar á vélinni og þá hafi sú skýring komið fram hjá stefnda að vélin hefði tekið inn á sig vatn sem hafi stórskaðað mótorinn en stefndi hafi ekki upplýst stefnanda um þetta fyrir kaupin. Stefndi mótmælir þessari lýsingu stefnanda og kveður vélina hafa verið í lagi við afhendingu. Þá mótmælir stefndi því að við hann hafi verið haft samband vegna ástands dráttarvélarinnar en hann hafi ekki heyrt af því að vélin væri ekki í lagi fyrr er í september 2012 ár er honum bárust reikningar fyrir viðgerð á vélinni.

Við skýrslutökur fyrir dóminum skýrðust málavextir nokkuð frá því sem fram kemur í stefnu og greinargerð. Þannig upplýstist að dráttarvélin sem stefndi afhenti stefnanda lenti í vatnstjóni á árinu 2008. Í framhaldi af því var hún send til viðgerðar á verkstæði á Blönduósi. Fyrirsvarsmaður verkstæðisins bar að gert hafi verið við vélina og hún í lagi þegar hún fór þaðan en samkvæmt framlögðum reikningum vegna viðgerðarinnar fór hún fram undir lok árs 2008. Stefndi notaði að eigin sögn vélina eftir þessa viðgerð allt þar til hann afhenti stefnanda hana en þá voru liðin nærri þrjú og hálft ár frá því viðgerð lauk. Einnig kom þar fram að viðgerð á vélinni tók nokkuð langan tíma en henni lauk ekki fyrr en 6. ágúst 2012.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu stefnanda er á því byggt að krafa hans sé skaðabótakrafa vegna tjóns sem hann varð fyrir. Hún samanstandi af vinnu við viðgerð á dráttarvélinni að fjárhæð 858.815 krónur og efniskostnaði að fjárhæð 1.129.712 krónur sem samanlagt nemi stefnufjárhæð. Byggir stefnandi á því að hann hafi orðið að ráðast í þessa viðgerð til þess að koma vélinni í það ástand sem hún átti að vera í við kaupin.

Stefnandi byggir á því að stefndi sé skaðabótaskyldur fyrir þessari fjárhæð vegna galla sem var á dráttarvélinni sem hann greiddi hluta kaupverðs nýju vélarinnar með. Eldri dráttarvélin hafi orðið fyrir vatnstjóni áður en kaupin áttu sér stað en stefndi hafi ekki upplýst stefnanda um það tjón. Stefndi hafi leynt þessu afdrifaríka tjóni sem vélin varð fyrir og hann hafi, við afhendingu, tjáð stefnanda að um smávægilegt stillingarvandamál væri að ræða á mótor vélarinnar væri að ræða.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfunni sé beint að röngum aðila þar sem hann hafi ekki verið eigandi þess tækis sem stefnandi segist hafa gert við á þeim tíma sem viðgerðin á að hafa átt sér stað. Hér sé því til staðar aðildarskortur sem samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leiði til sýknu.

Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að hann hafi ekki óskað eftir þessari viðgerð og hann hafi ekki vitað neitt af þessu máli fyrr en í september 2012. Jafnframt byggir hann á því að honum hafi ekki verið gert viðvart um galla á dráttarvél þeirri sem hann greiddi hluta kaupverðsins með. Í þessu sambandi vísar stefndi til ákvæða 31. og 32. gr. og 35. og 36. gr. laga nr. 50/2000. Í stefnu sem birt var 31. október 2016 vísi stefnandi í fyrsta sinn til þess að véli hafi verið gölluð en þá hafi verið liðin meira en fjögur á frá því stefnandi veitti söluhlut viðtöku og því geti hann ekki nú borið gallann fyrir sig sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000.

Stefndi kveðst hafa mótmælt kröfu stefnanda og óskað eftir skýringu á henni en það hafi ekki borið árangur. Hann hafi ekki með nokkrum hætti verið upplýstur um það hvað gerðist eða hvenær og tjón stefnan sé alfarið ósannað og einnig hvað kann að hafa orsakað það. Vísar stefndi til þess að matsgerð liggi ekki fyrir til sönnunar á hugsanlegu tjóni stefnanda, orsökum þess og afleiðingum. Dráttarvélin sem hann lét af hendi hafi verið í fullkomnu lagið þegar stefnandi tók við henni í maí 2012. Telur stefndi einsýnt að stefnandi hafi yfirfarið vélina áður en hann afhenti hana nýjum eiganda. Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfuréttar og á lögum nr. 50/2000 svo og á meginreglum samninga- og kauparéttar.

IV

Niðurstaða

Stefnandi krefst í máli þessu skaðabóta úr hendi stefnda vegna galla sem hann kveður hafa verið á dráttarvél sem hann tók við sem hluta af kaupverði nýrrar dráttarvélar. Kröfunni er því réttilega beint að stefnda og verður hann ekki sýknaður vegna aðildarskorts.

Að mati dómsins liggur fyrir að stefnanda, sem hefur það m.a. að atvinnu að selja dráttarvélar, mátti þegar við afhendingu dráttarvélarinnar vera ljóst að hún kynni að vera haldin galla. Engu að síður var vélin án nánari skoðunar þegar í stað flutt vestur á firði til nýs eiganda. Eftir afhendingu vélarinnar þar liðu nokkrar vikur þar til skoðun á henni fór fram sem þá þegar leiddi í ljós að mótor vélarinnar var mikið bilaður. Ekki eru efni til að efast um að vélin hafi, þegar stefndi afhenti hana, verið haldin þeim galla sem síðar kom í ljós. Þá eru ekki efni til að ætla að stefndi hafi vísvitandi leynt gallanum en hann hafði notað vélina í nokkur ár eftir að hún lenti í vatnstjóni og látið gera við hana á viðurkenndu verkstæði. Er því ekki hægt að fullyrða að það tjón hafi valdið þeirri bilun sem var á mótor dráttarvélarinnar.

Af hálfu stefnda er m.a. á því byggt að honum hafi ekki verið tilkynnt eða gert viðvart um galla á dráttarvélinni sem hann afhenti stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 glatar kaupandi rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var, í hverju gallinn er fólginn. Stefndi bar fyrir dóminum að hann hafi fyrst um haustið 2012 heyrt af því að dráttarvélin hafi verið biluð en þá hafi vitnið Þórarinn Sigvaldason komið heim til hans með reikninga fyrir viðgerð á vélinni. Vitnið Þórarinn kvaðst hins vegar allnokkru fyrr hafa símleiðis tilkynnt stefnda um bilunina án þess þó að geta sagt til um nákvæmlega hvenær það var gert. Stefnandi sendi stefnda ekki tilkynningu af þessu tilefni og ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi tilkynnt stefnda um gallann fyrr en fram kom í framburði stefnda en slík sönnun hefur ekki tekist, en framburður vitnisins Þórarins verður ekki einn og sér lagður til grundvallar hvað þetta varðar. Vitnið Ingvar Guðmundsson sem annaðist viðgerð dráttarvélarinnar eftir að hún var komin í eigu nýs eiganda bar fyrir dóminum að hann hafi að beiðni vitnisins Þórarins fyrst skoðað vélina 1. júlí 2012. Verður ekki annað ráðið af framburði hans að honum hafi þá þegar orðið ljóst að bilun í vélinni var mikil.

Þegar á þessum tímapunkti var full ástæða fyrir stefnanda að tilkynna stefnda með sannanlegum hætti um bilunina. Það gerði hann ekki heldur greip til þess ráðs að láta sjálfur strax, án aðkomu eða vitneskju stefnda, gera við vélina en eftir þetta átti stefndi ekki lengur kost á því að bæta sjálfur úr gallanum svo sem honum er heimilt sbr. 36. gr. nefndra laga nr. 50/2000. Með því að tilkynna stefnda ekki án ástæðulauss dráttar um gallann en þess í stað annast sjálfur viðgerð hennar hefur stefnandi fyrirgert rétti sínum til bóta úr hendi stefnda og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti Anna Svava Þórðardóttir héraðsdómslögmaður mál þetta en af hálfu stefnda Stefán Ólafsson hæstaréttarlögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.

 

 

Dómsorð

Stefndi, Jón B. Bjarnason, er sýkn af kröfum stefnanda, Jötunn véla ehf.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað

 

 

                                                     Halldór Halldórsson