• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. september 2017 í máli nr. S-21/2017: 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Katrínu Gestsdóttur

(Andrés Már Magnússon hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. þessa mánaðar, er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, útgefinni 24. júlí sl., á hendur Katrínu Gestsdóttur, kt. 000000-0000, Engimýri, Hörgársveit;

„fyrir umferðarlagabrot:

Með því að hafa, árdegis þriðjudaginn 28. mars 2017, ekið bifreiðinni YP-433, frá Blönduóskirkju við Hólabraut á Blönduósi, um Norðurlandsveg að þjónustustöð N1 við Norðurlandsveg á Blönduósi, svipt ökurétti ævilangt og óhæf til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, metamfetamíns og tetrahýdrókannabínóls.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 100. gr. nefndra laga.

 

Skipaður verjandi, Andrés Már Magnússon hdl., krefst fyrir hönd ákærðu vægustu refsingar sem lög leyfa, en jafnframt krefst hann hæfilegrar málflutningsþóknunar og ferðakostnaðar.

 

I.

Fyrir dómi hefur ákærða skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og háttsemi hennar er lýst í ákæru.  Með játningu ákærðu, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, sem og gögnum málsins, er nægjanlega sannað að hún hefur gerst sek um greinda háttsemi, en hún er réttilega heimfærð til laga í ákæru.  Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.  Að þessu virtu er ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru.

II.

Ákærða hefur samkvæmt sakavottorði margoft áður sætt refsingum. Ákærða sætti þannig þann 27. september 2006 sektarrefsingu og sviptingu ökuréttar í tvö ár fyrir ölvunarakstur. Þann 30. ágúst 2007 var hún dæmd í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot. Þann 19. desember sama ár var hún dæmd í 60 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot. Þann 21. maí 2008 var hún dæmd í þriggja mánaða fangelsi fyrir að aka svipt ökurétti. Þann 17. febrúar 2008 var hún dæmd í 8 mánaða fangelsi og svipt ökurétti ævilangt fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld og akstur svipt ökurétti undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þann 4. ágúst 2009 fékk hún reynslulausn í tvö ár á 210 daga eftirstöðvum refsingar. Hún hélt skilorð reynslulausnarinnar. Þann 4. september 2013 var hún dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að aka svipt ökurétti. Þá var hún hún dæmd í tveggja mánaða fangelsi 10. mars sl. fyrir rangar sakargiftir, en þeim dómi hefur verið áfrýjað.  Loks var ákærða dæmd í átta mánaða fangelsi þann 9. júní sl. fyrir  hylmingarbrot hinn 29. júlí 2016, fyrir að hafa ekið ökutæki svipt ökurétti hinn 29. júlí 2016, fyrir ölvunar- og sviptingarakstur hinn 20 mars 2017 og  fyrir ölvunar- og sviptingarakstur hinn 5. apríl 2017.  Jafnframt var með þessum síðast dómi áréttuð hin ævilanga ökuréttarsvipting ákærðu. 

Refsingu ákærðu ber að ákveða sem hegningarauka við hinn síðast greinda dóm frá 9. júní sl. samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga.  Þykir hegningarauki ákærðu eftir atvikum hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. 

Jafnframt ber í samræmi við kröfur ákæruvalds að árétta hina ævilöngu ökuréttarsviptingu ákærðu.

Þá verður ákærða dæmd til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 42.882 krónum og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns sem ákveðst eins og greinir í dómsorði, og er þar virðisaukaskattur meðtalinn, en einnig beri ákærðu að greiða ferðakostnað hans.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Katrín Gestsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Áréttað er að ákærða er svipt ökurétti ævilangt.

Ákærða greiði 148.882 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, 105.400 krónur.  Einnig ber henni að greiða 26.400 krónur vegna ferðakostnaðar verjandans.                                               

 

                                                         Ólafur Ólafsson