• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. desember 2018 í máli nr. S-109/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Daða Snæ Jóhannssyni

(enginn)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra útgefinni 31. október 2018, á hendur Daða Snæ Jóhannssyni, fæddum […], til heimils að […], […], „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 20. ágúst 2018 ekið bifreiðinni […], sviptur ökurétti ævilangt, vestur Norðurlandsveg við Grafarkot í Húnaþingi vestra, með 115 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst. óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

       Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest 11. þessa mánaðar. Málið er því dæmt með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda er þess getið í fyrirkalli sem birt var fyrir ákærða sjálfum 30. nóvember sl. að svo mætti fara með málið.

       Þar sem ákærði hefur ekki látið málið til sín taka verður með vísan til þess sem að framan er rakið að líta svo á að hann viðurkenni háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og telst sekt hans nægilega sönnuð enda er ákæran í samræmi við gögn málsins og brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur árið […] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 23. október 2018, að baki sakarferil sem nær aftur til ársins 2009. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að 4. maí 2013 gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hinn 1. desember 2014 var tvívegis gerð sektargerð við ákærða vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með annarri sektargerðinni samþykkti ákærði að greiða 140.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá 1. desember 2014. Með hinni samþykkti ákærði að greiða 100.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 24 mánuði frá 1. desember 2015. Þann 30. júní 2015 gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra meðal annars fyrir sviptingarakstur þess efnis að hann greiddi 115.000 króna sekt. Með viðurlagaákvörðun 2. júlí 2015 samþykkti ákærði að greiða 100.000 króna sekt fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti en hann var jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár frá 2. júlí 2015. Hinn 7. desember 2016 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti auk þess sem hann var þá sviptur ökurétti ævilangt. Í lok aprílmánaðar 2017 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. Loks var hann 6. mars á þessu ári dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt.

Við ákvörðun refsingar ákærða er miðað við að hann sé nú í sjötta sinn fundinn sekur um að aka óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og í fimmta sinn fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Með hliðsjón af sakarefi málsins og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í samræmi við dómvenju, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangalsi í sex mánuði. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða ítrekuð.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt framlögðu yfirliti nam sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins 141.167 krónum en annar kostnaður féll ekki á málið. Meðal sakarkostnaðar er talin 25.000 króna kostnaður við töku blóðsýnis, kostnaður við leit að kannóbíóða í blóði 47.341 og 22.996 króna kostnaður við etanólákvörðun. Ekkert alkóhól fannst í blóð og þvagsýnum og þá fundust ekki fíkniefni í blóðsýnum og verður ákærða því ekki gert að greiða kostnað við blóðtöku og rannsókn á blóðsýnum. Ber ákærða því að greiða 45.830 krónur í sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Daði Snær Jóhannsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. 

Ákærði greiði 45.830 krónur í sakarkostnað.

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson