• Lykilorð:
  • Nauðungarsala
  • Res judicata
  • Tómlæti
  • Um réttmæti frestunar á nauð.sölu

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. mars 2018 í máli nr. Z-1/2017:

Lífeyrissjóður bænda

(Anna Svava Þórðardóttir hdl.)

gegn

Guðmundi Jónssyni

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

I

Mál þetta barst dóminum með bréfi sóknaraðila, dagsettu 29. ágúst 2017, sem móttekið var degi síðar. Málið var þingfest 24. október 2017 en tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. janúar sl.

            Sóknaraðili er Lífeyrissjóður bænda, Stórhöfða 23, Reykjavík, en varnaraðili er Guðmundur Jónsson, Óslandi, Sveitarfélagninu Skagafirði.

            Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 17. ágúst 2017 þess efnis að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsölu á fasteigninni Óslandi, Skagafirði, landnúmer 146578, sem er í eigu varnaraðila, verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumann að ákveða hvenær uppboð byrji á eigninni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi varnaraðila.

            Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 17. ágúst 2017 um að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsölu á jörðinni Óslandi, landnúmer 146578, fastanúmer 214-3418, Skagafirði, verði staðfest.

            Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði honum skaðabætur að fjárhæð 2.475.048 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila.

II

Atvik máls

            Í maí 2007 setti varnaraðili bújörð sína Ósland í Skagafirði að veði vegna láns sem bróðir hans, Þórir Níels Jónsson, hafði tekið hjá sóknaraðila. Höfuðstóll lánsins var 3.700.000 krónur og var lánstíminn 40 ár. Tæpum fjórum árum síðar lést Þórir Níels og var bú hans tekið til opinberra skipta í lok október 2011. Nokkrum dögum síðar var gefin út innköllun til kröfuhafa dánarbúsins en sóknaraðili lýsti ekki kröfu sinni í dánarbúið. Sóknaraðili skoraði hins vegar 1. nóvember 2011 á varnaraðila að greiða skuld bróður síns að fullu. Hinn 4. júní 2013 krafðist sóknaraðili þess að hin veðsetta eign yrði seld nauðungarsölu. Sýslumaður stöðvaði uppboðsgerðina 9. september 2013 með þeim rökum að óvissa væri um réttindi sóknaraðila og gildi kröfunnar. Þessi ákvörðun sýslumanns var ekki borin undir héraðsdóm þrátt fyrir yfirlýsingar í þá veru. Um miðjan júní 2014 höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann krafðist þess að felld yrði úr gildi og dæmd óskuldbindandi veðsetning eignarhluta hans í jörðinni Óslandi sem sett var til tryggingar skuld Þóris Níels Jónssonar við sóknaraðila. Þessu máli lauk með dómi uppkveðnum 24. september 2015 en sóknaraðili var sýknaður af kröfum varnaraðila. Hinn 16. febrúar 2016 lauk skiptum á dánarbúi Þóris Níels með úthlutun til erfingja. Snemma árs 2017 fór sóknaraðili þess á leit við sýslumann að uppboðinu sem hann hafði krafist í júní 2013 yrði fram haldið. Af hálfu varnaraðila var því mótmælt og felldi sýslumaður uppboðið niður 13. febrúar 2017.

Hinn 10. maí 2017 barst sýslumanninum á Norðurlandi vestra ný beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu á bújörð varnaraðila. Að undangenginni auglýsingu tók sýslumaður beiðnina fyrir 17. ágúst 2017. Varnaraðili mótmælti beiðninni og í framhaldi af því tók sýslumaður ákvörðun um að stöðva uppboðið með þeim rökum að varnaraðili máls þessa hafi leitt að því rök að óvíst sé hvort sóknaraðili eigi þau réttindi sem hann krefjist nauðungarsölu á en óumdeilt sé að sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu í dánarbú aðalskuldara kröfunnar sem deilt er um og gerði þar af leiðandi ekki tilraun til að innheimta kröfuna af eignum dánarbúsins. Þá deili aðilar einnig um hvort og að hve miklu leyti krafan hefði fengist greidd af eignum búsins hefði henni verið lýst. Vegna þeirrar efnislegu óvissu um réttmæti og fjárhæð kröfunnar taki sýslumaður þá ákvörðun að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsöluna. Þessi ákvörðun sýslumanns er til úrlausnar í máli þessu.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrði til að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsölu á bújörð varnaraðila séu ekki fyrir hendi. Sóknaraðili er ósammála sýslumanni um að efnisleg óvissa sé til staðar um kröfu sóknaraðila.

Sóknaraðili vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2363/2014 en með þeim dómi hafi hann verið sýknaður af öllum kröfum varnaraðila máls þessa varðandi gildi veðsetningar jarðarinnar Óslands. Í niðurstöðu dómsins komi m.a. fram að staða dánarbús aðalskuldara bréfsins hafi verið þannig að sóknaraðili hefði ekki fengið úthlutun úr því búi upp í kröfu sína hefði henni verið lýst í búið. Krafan verði því ekki felld niður eða lækkuð með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.

Sóknaraðili hafnar því að lok skipta á dánarbúi aðalskuldara með úthlutun til erfingja skipti nokkru við úrlausn máls þessa. Byggir sóknaraðili á því að ljóst sé af gögnum málsins, einkum nefndum dómi í máli nr. E-2363/2014 og úthlutunargerð skiptastjóra, að engin verðmæti bættust við dánarbúið frá því að dómurinn gekk og þar til skiptum lauk. Í úthlutunargerð skiptastjóra komi fram að meintur arfur ekkju aðalskuldara bréfsins sé aðallega hross að verðmæti 13.160.000 krónur. Í dóminum sé hins vegar sérstaklega tekið fram að mat á hrossum og tilboð í þau geti ekki skipt máli þar sem sýnt væri að hrossin væru ekki öll í eigu dánarbúsins. Engin gögn liggja fyrir um eignarhald á hrossunum og því óstaðfest að þau hafi í raun verið í eigu dánarbúsins. Þá sé einnig um að ræða ótilgreint innbú og lausafé sem runnið hafi til ekkju aðalskuldara bréfsins en við skipti á dánarbúinu hafi áður komið fram að um einskis nýta eða týnda hluti væri að ræða. Þá hafi dætur aðalskuldara átt að taka arf í formi bótakröfu á hendur fyrri skiptastjóra búsins en ótilgreindar skaðabætur geti ekki orðið grundvöllur að eignaaukningu búsins þannig að hægt sé að sýna fram á að krafa sóknaraðila hefði greiðst að fullu hefði henni verið lýst í búið. Að þessu virtu telur sóknaraðili að vanlýsing kröfunnar í dánarbú aðalskuldara hafi ekki þau áhrif að hún sé niður fallin.

Sóknaraðili byggir sérstaklega á reglunni um bindandi réttaráhrif dóma, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Með dómi þeim sem áður hefur verið vikið að sé búið að dæma um gildi veðsetningarinnar. Dóminum hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og því sé hann endanlegur. Sóknaraðili hafi verið sýknaður af kröfum varnaraðila og því standi veð hans í eign varnaraðila óhaggað og hann geti því krafist fullnustu á skuldbindingu varnaraðila vegna vanskila á bréfinu. Þá bendir sóknaraðili á að grundvöllur nauðungarsölubeiðninnar sé veðskuldabréf og því séu varnir sem varnaraðili geti haft uppi takmarkaðar.

Með vísan til þeirra raka sem sóknaraðili hefur fært fyrir kröfum sínum telur hann að ekki sé efnisleg óvissa um réttmæti og fjárhæð kröfu hans, réttur hans sé skýr og öll skilyrði laga um nauðungarsölu uppfyllt og því beri að fallast á kröfu hans í máli þessu og rétt að leggja fyrir sýslumann að ákveða hvenær uppboð byrji á eign varnaraðila.

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til laga um meðferð einkamála, einkum 116. gr. og XVII. kafla laganna, einnig til XIV. kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Krafa um málskostnað er studd við 129. til 131. gr. laga um meðferð einkamála. Þá vísar sóknaraðili til laga um virðisaukaskatt varðand kröfu sína um að virðisaukaskattur leggist á málskostnað.

 

Að mati varnaraðila eru öll skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 uppfyllt þannig að staðfesta beri ákvörðun sýslumanns um að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsöluna. Sóknaraðili eigi enga kröfu á dánarbú útgefanda skuldabréfsins og þar með ekki á varnaraðila sem veðsala. Þá telur varnaraðili að ákvæði XVII. kafla laga um meðferð einkamála hafi ekki áhrif á varnir um það hvort sóknaraðili eigi kröfur á hendur honum þegar krafa fellur niður fyrir vanlýsingu.

Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur honum sökum vanlýsingar. Aðalskuldari og útgefandi veðskuldabréfsins, sem sóknaraðili byggir kröfur sínar á, hafi látist á árinu 2011. Bú hans hafi verið tekið til opinberra skipta. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni í búið, að því er virðist vísvitandi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. falli krafa gagnvart búinu niður sé henni ekki lýst á innköllunarfresti.

            Varnaraðili vísar til þess að þegar dómur héraðsdóms var upp kveðinn hafi skiptum á dánarbúinu ekki verið lokið og því hafi í raun verið um að ræða sýknu að svo stöddu, þar til sýnt yrði hverjar yrðu lyktir dánarbúsins. Reglu 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála verði að skoða í þessu ljósi en það sé ljóst af forsendum dómsins að miðað er við niðurstöðu dánarbúsins við úrlausn málsins. Dómara málsins hafi verið ljóst að skiptum var ekki lokið á þeim tíma er dómurinn var kveðinn upp. Mat á því hvort krafa sóknaraðila hefði fengist greidd úr dánarbúinu, hefði henni verið lýst, ráðist af endanlegum lyktum dánarbúsins. Nú liggi fyrir fundar- og úthlutunargerð skiptastjóra sem staðfesti að krafa sóknaraðila hefði fengist að fullu greidd úr dánarbúinu ef sóknaraðili hefði lýst henni á sínum tíma. Út úr dánarbúinu hafi verið úthlutað um 13.800.000 krónum til ekkju aðalskuldara en gjaldfelldur höfuðstóll kröfu sóknaraðila nemi um 5.500.000 króna. Af þessari ástæðu einni beri að sýkna varnaraðila.

            Varnaraðili bendir jafnframt á að samkvæmt 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989 megi krefjast aðfarar hjá þeim sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Nær þetta einnig til þeirra sem eiga verðmæti sem standa að veði til tryggingar kröfu samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna ef áskilnaði þess ákvæðis er fullnægt gagnvart aðalskuldara. Varnaraðili telur að þar sem sóknaraðili lýsti ekki kröfu sinni í dánarbúið sé hún niður fallin sökum vanlýsingar bæði gagnvart aðalskuldara og varnaraðila sem veðsala. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til áðurnefndra fundar- og úthlutunargerða sem sýna, líkt og áður er rakið, að úthlutað var úr búinu talsvert hærri fjárhæðum en nam kröfu sóknaraðila.

            Varnaraðili telur að ótækt sé að byggja niðurstöðu máls þessa á dómi þeim sem sóknaraðili vísar til enda hafi lyktir dánarbúsins ráðist eftir að sá dómur gekk. Í máli þessu verði að miða við raunverulega niðurstöðu dánarbúsins en ekki sýknudóm, sem í raun hafi verið sýkna að svo stöddu, um aflýsingu veðsins. Augljóst sé af lestri dómsins að forsendur sýknu voru þær að ekkert myndi fást upp í almennar körfur sem lýst var í dánarbúið. Óumdeilt sé hins vegar að skiptalok voru nauðsynlegur undanfari þess að skorið yrði úr um réttmæti kröfunnar enda ekki að fullu ljóst hvort til úthlutunar kæmi úr búinu fyrr en að skiptum loknum. Við skipti dánarbúsins hafi stærsti kröfuhafinn, Arion banki, fallið frá frekari kröfum á búið sem gjörbreytti stöðu þess. Að mati varnaraðila verður nauðunarsölu á eign hans ekki haldið áfram nema sóknaraðili eigi kröfu á hendur honum. Niðurstaða dánarbúsins ráði þar öllu um það hvort krafa sóknaraðila hefði fengist greidd úr búinu en títtnefndur dómur hafi verið kveðinn upp áður en skiptum lauk.

            Varnaraðili vísar jafnframt til 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn en þar sé mælt fyrir um að vanlýsing kröfu í gjaldþrota- eða dánarbú lántaka leiði til þess að krafa á hendur ábyrgðarmanni lækki sem nemur þeirri fjárhæð sem hefði fengist greidd úr þrota- eða dánarbúi lántaka. Í athugasemdum í frumvarpi við greinina sem síðar varð að lögum um ábyrgðarmenn komi fram að lánveitandi beri einn ábyrgð á því að lýsa kröfu sinni og beri hallann af því geri hann það ekki. Í máli þessu þurfi sóknaraðili því að þola það að krafa hans sé niður fallin í samræmi við 1. mgr. 58. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. og 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn enda hafi úthlutun, umfram kröfu sóknaraðila, átt sér stað úr dánarbúi skuldara.

Varnaraðili gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli sóknaraðila í greinargerð þess efnis að fundar- og úthlutunargerð skiptastjóra séu marklaus skjöl. Þetta séu ærumeiðandi ummæli þar sem látið er í veðri vaka að fjórir lögmenn hafi lokið skiptum á búi á marklausan hátt og því séu aðdróttanir þessar mjög alvarlegar. Þetta sé rangt og framhald nauðungarsölu verði ekki á því byggt að skjöl þessi séu marklaus. Þá telur sóknaraðili að umfjöllun varnaraðila í greinargerð hans varðandi störf skiptastjóra skipti engu við úrlausn máls þessa sem rekið er á grundvelli XIII. kafla laga um nauðungarsölu. Hefði sóknaraðili lýst kröfu sinni í búið hefði hann getað gert athugasemdir við störf skiptastjóra á grundvelli laga um skipti á dánarbúum o.fl. en þar sem hann gerði það ekki verði hann að bera hallann af því.

            Varnaraðili reisir kröfur sínar einnig á því að krafa sóknaraðila sé niður fallin vegna tómlætis. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni í dánarbú aðalskuldara en innköllun í bú hans hafi verið gefin út á árinu 2011. Sóknaraðili hafi hins vegar krafist nauðungarsölu á bújörð varnaraðila í júní 2013. Sú sala hafi verið stöðvuð af sýslumanni í september sama ár. Skiptum lauk síðan á dánarbúi aðalskuldara í febrúar 2016. Í janúar 2017 gerði sóknaraðili kröfu um að nauðungarsölu þeirri sem hann hafði krafist á árinu 2013 yrði fram haldið, þ.e. 41 mánuði eftir að gerðin var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni og tæpu ári eftir að skiptum lauk á dánarbúi aðalskuldara. Sýslumaður hafnaði beiðni sóknaraðila og endursendi beiðnina í febrúar 2017. Þremur mánuðum síðar hafi sóknaraðili aftur farið fram á sölu jarðarinnar. Sýslumaður stöðvaði þá nauðungarsölu 17. ágúst 2017. Af þessu megi ráða að varnaraðili hafi margsinnis frá því á árinu 2011 til 2017 haft ástæðu til að ætla að sóknaraðili hefði látið kröfu sína niður falla eða hygðist hætta innheimtu hennar. Vinnubrögð sóknaraðila og forvera hans við innheimtu kröfunnar verði að teljast óásættanleg og á varnaraðili ekki að þurfa að þola slíka óvissu. Sökum þess tómlætis sem sóknaraðili sýndi við innheimtu kröfunnar sé hún niður fallin.

            Varnaraðili heldur því jafnframt fram að hluti kröfu sóknaraðila sé fyrndur, m.a. vextir eldri en fjögurra ára, og áskilur varnaraðili sér rétt til að hafa uppi mótmæli við fjárhæð kröfunnar teljist hún ekki niður fallin.

            Varnaraðili byggir skaðabótakröfu sína á því að sóknaraðili hafi með óréttmætum hætti, allt frá upphafi skipta á dánarbúinu, haldið uppi innheimtuaðgerðum á hendur honum. Í niðurstöðu héraðsdómsins sem áður er vikið að komi fram að varnaraðili hafi verið krafinn um greiðslu allrar skuldarinnar en síðar hafi honum verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir. Í framhaldi af því segi í dóminum: „Þótt stefndi hafi gengið fram með óréttmætar kröfur í þessu tilviki, leiðir það ekki til þess að veðsetningin verði ógilt.“ Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi átt að bíða með innheimtuaðgerðir á hendur honum þar til skiptum á dánarbúinu lyki. Dómur héraðsdóms staðfesti að sóknaraðili, sem er lífeyrissjóður og eigi því að vita betur, hafi gengið fram með óréttmætar kröfur á hendur varnaraðila. Varnaraðila hafi verið nauðsyn að taka til varna sem hafi leitt til verulegs lögmannskostnaðar fyrir hann og um þennan kostnað krefji hann sóknaraðila.

            Varnaraðili kveðst ekki sjá fram á að fá kostnað vegna varna sinna að fullu bættan nema sóknaraðili verði dæmdur til að bæta honum fjártjónið. Krafan sé reist á almennu sakarreglunni enda hafi sóknaraðili sýnt af sér saknæma háttsemi við innheimtu kröfu sem er niður fallin og þá hafi héraðsdómur staðfest að innheimtuaðgerðir sóknaraðila voru óréttmætar. Tjón varnaraðila megi rekja beint til þess að hann hafi þurft að verjast saknæmri háttsemi sóknaraðila og því sennileg afleiðing háttsemi sóknaraðila. Kröfu sína vegna þessa sundurliðar varnaraðili þannig að hann tiltekur fjárhæðir sem greiddar hafa verið til lögmanna og dregur síðan frá þá fjárhæð sem fékkst greidd vegna gjafsóknar. Samtals nemur krafa hans 2.475.048 krónum.

            Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá vísar hann til meginreglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

            Í máli þessu er til úrlasnar ágreiningur aðila um þá ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra að stöðva nauðungarsölu á jörðinni Óslandi í Skagafirði. Málið er borið undir dóminn með heimild í 52. gr., sbr. XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga um naðungarsölu verða kröfur um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins svo og málskostnað ekki hafðar uppi í málum sem rekin eru eftir XIII. kafla laganna. Frá þessu má þó víkja að nánar greindum skilyrðum uppfylltum ef aðilar eru á það sáttir. Þar sem sóknaraðili hefur ekki samþykkt að skaðabótakrafa varnaraðila komist að í málinu verður að vísa henni frá dómi.

Óumdeilt er að sóknaraðili lýsti ekki kröfu sinni í dánarbú Þóris Níels Jónssonar þegar það var tekið til opinberra skipta á árinu 2011. Þess í stað beindi hann kröfu sinni, strax við upphaf innköllunarfrests, að varnaraðila sem sett hafði bújörð sína að veði fyrir skuld Þóris Níels við sóknaraðila. Á þeim tíma sem varnaraðili setti jörð sína að veði höfðu lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 ekki verið sett. Lögin eru afturvirk með þeim hætti að þau taka til ábyrgða sem veittar voru fyrir gildistöku þeirra en með ákveðnum takmörkunum þó. Í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur fram að ef lánveitandi vanrækir að lýsa kröfu í gjaldþrota- eða dánarbú lántaka lækki krafa á hendur ábyrgðarmanni sem nemur þeirri fjárhæð sem ella hefði fengist greidd úr þrota- eða dánarbúi lántaka. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. gildir gagnvart sóknaraðila og sökum vanlýsingar á kröfu sinni þarf hann að sæta því að hún verði lækkuð eða felld niður eftir því hversu há fjárhæð hefði komið í hans hlut við úthlutun úr dánarbúinu.

Meðal gagna málsins er úthlutunargerð úr dánarbúi Þóris Níels Jónssonar en þar kemur fram að ekkja hans fékk í sinn hlut 13.796.095 krónur og þá fengu dætur Þóris heitins úthlutað til sín skaðabótakröfu sem enn hefur ekki fengist greidd og er fjárhæð hennar, eftir því sem best verður séð, óljós. Augljóst er að sú fjárhæð sem kom í hlut ekkju Þóris er hærri en krafa sóknaraðila á hendur búinu. Sóknaraðili heldur því fram að úthlutunargerðin sé málamyndagerningur sem sé að engu hafandi. Sóknaraðili hefur engin haldbær rök fært fram fyrir því að úthlutunargerðin sé málamyndagerningur en hún er undirrituð af skiptastjóra búsins og eru engin efni til að fallast á sjónarmið sóknaraðila hvað þetta varðar.

Sóknaraðili byggir á því að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september 2015 hafi verið skorið úr um gildi veðsetningar þeirra sem er grundvöllur uppboðsbeiðni hans. Dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að veðsetningin sé gild og hann því bindandi fyrir aðila máls þessa, sbr. ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Málinu hafi ekki verið áfrýjað og því sé dómurinn endanlegur.

Í nefndu dómsmáli gerði varnaraðili þá kröfu að felld yrði úr gildi og dæmd óskuldbindandi veðsetning eignarhluta hans í jörðinni Óslandi til tryggingar skuld dánarbús Þóris Níelsar Jónssonar við sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 15. maí 2007, upphaflega að fjárhæð 3.700.000 krónur. Hvað lækkun á kröfu sóknaraðila vegna vanlýsingar varðar er við það miðað í nefndum dómi að ljóst sé að ekkert hefði fengist greitt upp í kröfu sóknaraðila úr dánarbúinu. Er þar á því byggt að eignarhlutur dánarbúsins í ákveðinni bújörð hafi verið veðsettur að fullu. Þá er því slegið föstu að mat á hrossum og tilboð í þau skipti ekki máli við úrlausn málsins en sýnt sé að metin hafi verið hross sem ekki voru öll í eigu búsins. Þá hafi skiptastjóri lýst því að hann hafi selt eignir búsins og að andvirði þeirra dugi ekki til greiðslu skiptakostnaðar. Í dóminum er síðan við það miðað að krafa sóknaraðila hefði haft stöðu sem almenn krafa við skiptin og ekkert fengist greitt upp í hana. Á þeim tíma sem dómurinn var kveðinn upp var skiptum á dánarbúi Þóris Níels ekki lokið en nú liggur fyrir að þeim lauk með úthlutun eins og áður er vikið að sem að öllu jöfnu hefði þá leitt til þess að krafa sóknaraðila væri niður fallin sökum vanlýsingar.

Kemur þá til skoðunar hvort ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála standi því í vegi að fallist verði á með sýslumanni að krafa sóknaraðila sé svo óviss að rétt sé að stöðva nauðungarsöluna líkt og hann gerði.

Ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála eru skýr en þar segir að krafa sem dæmd hefur verið að efni til verði ekki aftur borin undir sama eða hliðsettan dómstól. Í 1. gr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Varnaraðili reisir kröfur sínar í þessu í öllum aðalatriðum á sömu málsástæðum og hann gerði í áður dæmdu máli sem var á milli sömu aðila. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að veðsetningin væri gild og hafnaði því að krafan væri niður fallin sökum vanlýsingar. Með dóminum var varnaraðili ekki sýknaður að svo stöddu líkt og hann hefur haldið fram hér fyrir dómi og er dómurinn því bindandi fyrir aðila málsins og verður niðurstaða hans ekki endurskoðuð hér. Samkvæmt framanrituðu er krafa sóknaraðila ekki niður fallin sökum vanlýsingar.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafa sóknaraðila sé niður fallin sökum tómlætis. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni ekki í bú Þóris Níels heitins en það var honum ekki skylt en með því tók hann vissa áhættu. Þess í stað krafði hann varnaraðila um greiðslu skuldarinnar og krafðist síðan nauðungarsölu á bújörð hans í júní 2013. Sú nauðungarsala var stöðvuð af sýslumanni í september sama ár. Í byrjun síðasta árs fór sóknaraðili fram á við sýslumann að hann héldi áfram með nauðungarsöluna sem sóknaraðili krafðist 2013. Sýslumaður hafnaði þeirri ósk sóknaraðila og felldi nauðungarsöluna niður 13. febrúar 2017. Hinn 4. maí 2017 fór sóknaraðili aftur fram á nauðungarsölu á bújörð varnaraðila en sú nauðungarsala var stöðvuð 17. ágúst sl. og er ágreiningur um þá stöðvun til úrlausnar hér. Af framanröktu má ráða að langur tími er liðinn frá því að sóknaraðili hóf að innheimta kröfu sína hjá varnaraðila en framhjá því verður ekki horft að hinn 13. júní 2014 höfðaði varnaraðili títtnefnt dómsmál sem svo lauk með dómi 24. september 2015. Eðlilegt er að á þeim tíma hafi nauðungarsölumálið frá 2013 verið í bið. Frá því að dómurinn var upp kveðinn og þar til sóknaraðili hélt áfram með innheimtuaðgerðir sínar liðu um 15 mánuðir. Hefur sóknaraðili því ekki sýnt af sér slíkt tómlæti að efni séu til að ætla að krafa hans á varnaraðila sé niður fallin sökum tómlætis og af þeim sökum rétt að fallast á kröfu hans um staðfestingu á ákvörðun sýslumanns.

Að teknu tilliti til málsatvikra allra þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málarekstri þessum.

Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Anna Svava Þórðardóttir lögmaður en af hálfu varnaraðila Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

 

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Lífeyrissjóðs bænda, þess efnis að ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra 17. ágúst 2017 um að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsölu á eigninni Óslandi, Skagafirði, landnúmer 146578, verði felld úr gildi. Lagt er fyrir sýslumann að ákveða hvenær uppboð byrji á eigninni.

Skaðabótakröfu varnaraðila, Guðmundar Jónssonar, er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson