• Lykilorð:
  • Hraðakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Reynslulausn

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. desember 2018 í máli nr. S-13/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Kaj Anton Arnarssyni Larsen

(Björgvin Jónsson lögmaður)

 

I

Mál þetta sem dómtekið var 13. nóvember sl. var höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 9. mars 2018 á hendur Kaj Anton Arnarsson Larsen, fæddum […], til heimilis að […], […] „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, síðdegis þriðjudaginn 6. mars 2018 ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti ævilangt og með 108 km hraða á klukkustund um Norðurlandsveg við Skeljungshöfða í Blönduhlíð í Akrahreppi, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 2. mgr. 37. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

II

Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest 9. október sl. en Björgvin Jónsson lögmaður hafði samband við dóminn og boðaði forföll og óskaði eftir fresti til að fara yfir gögn málsins með ákærða og upplýsti að ákærði óskaði eftir að hann yrði skipaður verjandi hans. Dómari varð við ósk ákærða og skipaði Björgin Jónsson lögmann verjanda ákærða og frestaði málinu til 13. nóvember sl. Málið var tekið fyrir þann dag og sótti skipaður verjandi þing og lagði fram vottað umboð frá ákærða en í því kemur m.a. fram að ákærði gengst við háttsemi þeirri sem honum er í ákæru gefin að sök.

Í fyrirkalli var svo mælt fyrir að yrði útivist af hálfu ákærða mætti hann búast við að litið yrði svo á að hann viðurkenndi þá háttsemi sem honum er gefin að sök og að dómur yrði lagður á málið í samræmi við gögn málsins. Var málið því, með vísan til 164. gr. laga um meðferð sakamála, tekið til dóms í þinghaldinu 13. nóvember sl. en áður tjáðu sækjandi og verjandi sig um ákvörðun viðurlaga.

Þar sem ákærði sótti ekki þing og með vísan til yfirlýsingar hans í framlögðu umboði þykir fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða en brot hans er réttilega fært til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði að baki nokkurn sakarferil. Í september 2009 var ákvörðun refsingar hans frestað skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn valdstjórninni og nytjastuld. Á árinu 2010 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, eignaspjöll, þjófnað, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur án gildra ökuréttinda en refsingin bundin skilorði í tvö ár. Um mitt ár 2011 var honum gerður hegningarauki við nefndan dóm og þá sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Skilorðsdómurinn var dæmdur upp og hann dæmdur í sjö mánaða fangslei en refsingin bundin skilorði. Hinn 28. febrúar 2012 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 226., 252. og 248. gr. almennra hegningarlaga og fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir að aka, sviptur ökurétti, undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Undir lok sama árs var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás þjófnað og fleiri brot gegn almennum hegningarlögum en dómur þessi var hegningarauka við síðastnefnda dóminn. Í október 2013 var ákærða gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði fyrir ölvunarakstur, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti auk brots gegn 148. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt var hann sviptur ökurétti ævilangt. Í september 2015 gekkst ákærði undir virðurlagaákvörðun fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni auk brots gegn tollalögum. Loks var hann 10. júní 2016 dæmdur í Jæren tingsrett í Noregi í tveggja ára og tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 282. gr. þarlendra hegningarlaga. Hinn 23. mars 2017 veitti Fangelsismálastofnun ríkisins honum til tveggja ára reynslulausn á 260 daga eftirstöðvum refsingarinnar.

Ákærði er nú sakfelldur fyrir að aka í fjórða sinn sviptur ökurétti en þar af var eitt brotið hegningarauki og er hann því nú sakfelldur í fjórða sinn þannig að ítrekunaráhrifa gæti á milli brotanna. Í samræmi við dómvenju er refsing fyrir slíkt brot 30 daga fangelsi. Með háttsemi sinni rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum var veitt til tveggja ára frá 23. mars 2017. Ekki eru efni til annars en að taka reynslulausn ákærða upp og ákveða refsingu með hliðsjón af hinni óloknu refsivist samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, með sama hætti og um væri að ræða rof á skilorðsdómi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin níu mánaða fangelsi.

Sakarkostnaður féll ekki til við rannsókn máls þessa en ákærði hefur notið aðstoðar verjanda og ber að dæma ákærða til að greiða þóknun Björgvins Jónssonar lögmanns sem þykir að teknu tilliti til tímaskýrslu lögmannsins hæfilega ákveðin 316.200 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Jafnfram ber ákærða að greiða 63.800 króna ferðakostnað verjanda síns.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Kaj Anton Arnarsson Larsen, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði greiði 316.200 króna þóknun verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns svo og 63.800 króna ferðakostnað verjandans.

 

                                                    

                                                     Halldór Halldórsson