• Lykilorð:
  • Rangar sakargiftir
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. mars 2017 í máli nr. S-8/2016:

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Katrínu Gestsdóttur

(Andrés Már Magnússon hdl.)

A

Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 8. mars 2016 á hendur Katrínu Gestsdóttur, fæddri [...], til heimilis að [...], „fyrir eftirtalin umferðar- og hegningarlagabrot:

I.

Fyrir nytjastuld, eignaspjöll, ölvunaraksturakstur, (svo) akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptingarakstur, með því að hafa að morgni mánudagsins 7. júlí 2014 tekið bifreiðina X ófrjálsri hendi þar sem henni var lagt á bifreiðastæði A, Reykjavík, og ekið henni degi síðar, 8. júlí 2014 frá Akureyri áleiðis til Reykjavíkur, undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,9 prómill) og fíkniefna (amfetamínmagn í blóði 60 ng/ml.) svipt ökurétti ævilangt, þar til hún ók bifreiðinni aftan á bifreiðina F skammt vestan við Laugarbakka í Vestur Húnavatnssýslu.

Telst ofangreint varða við 259. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr., sbr. 1. mgr. 45. gr., 1. mgr. 45. gr. b. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Fyrir rangar sakargiftir með því að hafa á vettvangi framangreinds umferðaróhapps villt á sér heimildir með því að framvísa ökuskírteini með nafni G og hafa við skýrslugjöf hjá lögreglu játað að hafa ekið bifreiðinni X í umrætt sinn undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem G og undirritað skjalfestan framburð sinn þess efnis með nafni G.

Telst framangreint varða við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 auk greiðslu til (svo) alls sakarkostnaðar.“

Við upphaf aðalmeðferðar málsins 4. janúar sl. féll sækjandi frá ákæruatriðum er varða nytjastuld og eignaspjöll. Þá leiðrétti sækjandi tilvísun til lagaákvæða í ákærulið I en þar sé brot ákærðu ranglega talið varða við 45. gr. b í umferðarlögum en þá grein sé ekki að finna í umferðarlögum en brot ákærðu varði við 45. gr. a.

Ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst hún þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

B

Atvik máls

Um miðjan dag, þriðjudaginn 8. júlí 2014, barst lögreglunni á Blönduósi tilkynning um umferðaróhapp skammt frá Laugarbakka í Miðfirði en þar höfðu bifreiðarnar X og F lent í árekstri. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumaðurinn I hafi fyrstur komið á vettvang og þar hafi ökumenn bifreiðanna sem í óhappinu lentu gefið sig fram og var ákærða annar ökumannanna. Ákærða hafi framvísað ökuskírteini G. Að gefnu tilefni hafi hann gert ákærðu að láta í té öndunarsýni í þar til gerðan mæli sem hafi sýnt tvö stig. Þá hafi ákærðu verið tilkynnt að hún væri handtekin vegna gruns um ölvun við akstur auk þess sem grunur léki á um að hún væri undir áhrifum fíkniefna. Nefndur lögreglumaður óskaði eftir aðstoð samstarfsmanna sinna sem komu á vettvang og annar þeirra ók vitninu H, sem var með ákærðu í bifreiðinni X í umrætt sinn, í Staðarskála. Síðan var farið með ákærðu á Blönduós þar sem tekin voru blóð- og þvagsýni. Við rannsókn á blóðsýni mældist magn alkóhóls og amfetamíns svo sem í ákæru greinir. Lögreglumaðurinn I ræddi við vitni á vettvangi og ritaði niður aðalatriði framburðar þeirra í skýrslu sína.

Síðar þennan sama dag var tekin skýrsla af ákærðu þar sem tekið er fram að nafn sakbornings sé G. Í þeirri skýrslu gengst ákærða við því að hafa ekið bifreiðinni og lýsir þar neyslu sinni á áfengi og fíkniefnum. Þá er eftir henni haft að hún hafi ekki neytt áfengis eða fíkniefna eftir að akstri lauk. Að lokinni skýrslutöku var ákærða frjáls ferða sinna.

Í ódagsettri upplýsingaskýrslu lögreglunnar á Blönduósi kemur m.a. fram að hinn 21. júlí (væntanlega 2014) hafi Í komið á lögreglustöðina við Vínlandsleið og tilkynnt, fyrir hönd J, nytjastuld á bifreiðinni X. Einnig afhenti hún upptökur úr vefmyndavél sem sýna þegar bifreiðin var tekin. Þá upplýsti hún að ökuskírteini G hafi verið í hanskahólfi bifreiðarinnar og kveikiláslyklar læstir inni í bifreiðinni.

Hinn 6. nóvember 2014 kom G á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og kærði ákærðu fyrir rangar sakargiftir og skjalafals og þá krafðist hún þess að ákærðu yrði refsað fyrir háttsemi sína. Sama dag mætti J á lögreglustöðina við Vínlandsleið og lagði fram kæru vegna nytjastuldar á bifreið sinni X hinn 1. júlí. Krafðist hann þess að sakborningi yrði refsað lögum samkvæmt auk þess sem hann krafðist bóta fyrir þeim skaða sem af háttseminni hlaust.

Í lok febrúar 2015 er tekin lögregluskýrsla af ákærðu. Í þeirri skýrslu er haft eftir ákærðu að hún hafi fengið nefnda bifreið að láni og ekið henni víða. Hún kvaðst hins vegar vilja upplýsa að hún hafi ekki verið undir stýri bifreiðarinnar þegar áreksturinn varð heldur hafi H, sem var með henni í bifreiðinni, ekið í umrætt sinn. Strax og áreksturinn varð hafi H skipað henni að skipta við sig um sæti og það hafi hún gert enda verið hrædd við hann. Lögregluskýrsla var tekin af H hinn 27. mars 2015 og þar neitar hann því að hafa ekið bifreiðinni þegar áreksturinn varð og greinir frá því að ákærða hafi verið ökumaður bifreiðarinnar.

C

Verða nú rakin aðalatriði framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærða greindi frá því að hún gæti í raun ekki lýst því með hvaða hætti áreksturinn varð en hún bar að vitnið H hafi ekið bifreiðinni en þau hafi verið á leið úr K suður til Reykjavíkur. Ákærða bar að þau hafi bæði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og verið það í nokkra daga. Í raun muni hún bara að bílarnir skullu saman og þau hafi þá þegar skipt um sæti. Ástæðu þess kvað hún vera þá að H hafi verið í vinnu og þurft að mæta þar og hún hafi verið próflaus. Ákærða lýsti því að hún hafi einfaldlega farið yfir H og yfir í bílstjórasætið en hann yfir í farþegasætið en þetta hafi tekið örfáar sekúndur. Ákærða sagði að loftpúðar bifreiðarinnar hafi sprungið út við áreksturinn. Aðspurð kvaðst ákærða ekki geta svarað því hvers vegna hún gaf sig fram við lögreglu á vettvangi sem ökumann bifreiðarinnar. Þá sagðist hún ekki geta skýrt það hvers vegna hún sagðist vera G í umrætt sinn en ökuskírteini hennar hafi verið þarna og hún framvísað því. Hún sagðist ekki muna eftir skýrslutöku hjá lögreglunni á Blönduósi og þá sagðist hún ekki muna til þess að hafa neytt áfengis eða fíkniefna eftir að óhappið varð. Ákærða sagðist hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna á þessum tíma og taldi að það hafi sést á henni. Ákærða sagðist fyrst hafa gert sér grein fyrir því að hún hefði sagst vera önnur en hún var viku eftir atvikið en þá hafi hún verið á Vogi og hringt til lögreglunnar til að spyrjast fyrir um dót sem hún átti í bifreiðinni. Þá hafi hún kynnt sig með réttu nafni og verið spurð hvort hún væri ekki G en hún sagt að svo væri ekki. Ákærða kvaðst ekki muna hvort hún undirritaði skýrsluna sem tekin var af henni á Blönduósi eftir óhappið en kannaðist við undirritun sína. Ákærða greindi frá því að miklar breytingar hafi orðið á lífi hennar til hins betra eftir þetta atvik og hún hafi ekki neytt áfengis eða fíkniefna í langan tíma.

Vitnið H kvaðst hafa verið í bíl með ákærðu í umrætt sinn og hann setið í farþegasæti við hlið ákærðu sem ók. Vitnið kvaðst hafa vankast við áreksturinn en öryggispúðar hafi sprungið. Vitnið sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis í þetta sinn og taldi að hann hafi verið töluvert undir áhrifum og sennilega sofandi þegar áreksturinn átti sér stað. Hann kvaðst ekki muna eftir ferðalaginu áður en áreksturinn varð. Vitnið kvaðst muna eftir því að ákærða fór út úr bílnum og ræddi við fólk sem kom á vettvang. Eftir óhappið hafi lögregla ekið honum í Staðarskála en hvort hann ræddi eitthvað við lögreglumanninn á leiðinni mundi hann ekki. Vitnið kvaðst hafa farið með rútu frá Staðarskála á Blönduós þar sem hann ætlaði að hitta ákærðu. Hann hafi því farið á lögreglustöðina á Blönduósi og spurt eftir Katrínu Gestsdóttur sem lögreglan hafi ekki kannast við. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við að ákærða hefði vísað fram ökuskírteini sem hún átti ekki. Það hafi því fyrst verið á Blönduósi sem hann vissi að ákærða hafði gefið upp rangt nafn. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í vinnu á þessum tíma og raunar ekki í mörg ár en hann sé öryrki. Vitnið bar að eftir áreksturinn hafi fólk komið að og séð að þau sátu í bifreiðinni.

Vitnið L kvaðst hafa verið á leið frá Reykjavík til Akureyrar. Rétt við Laugarbakka hafi hann fundið fyrir miklu höggi aftan á bifreið sína sem hann ók á 90 km hraða. Hann hafi ekið stuttan spöl, stansað og farið út úr bíl sínum og þá séð rauðan bíl mikið skemmdan. Fleiri bifreiðar hafi síðan komið að en hann hafi gengið að bílnum og séð að karlmaður sat í farþegasæti en kona verið komin út úr bílnum. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt neitt við karlmanninn og sagðist vitnið eiga erfitt með að meta ástand fólksins en nokkrar mínútur hafi liðið frá árekstrinum þar til hann kom að hinum bílnum. Vitnið minnti að konan hafi sagt að hún hefði ekið bifreiðinni. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort hegðun konunnar á vettvangi hafi verið óeðlileg en hún hafi ekki verið áberandi ölvuð.

Vitnið M var farþegi í bifreið þeirri sem ekið var á í þetta sinn. Hún kvaðst ekki muna vel eftir þessu atviki enda langt um liðið en taldi að konan hafi farið fyrr út út bifreiðinni sem ók á þau en karlmaðurinn síðar. Hún kvaðst ekki geta sagt að hún hafi rætt við þetta fólk og gat ekki borið neitt um ástand þeirra en þó þótti henni karlmaðurinn koma undarlega fyrir.

Vitnið N bar að hann hafi fyrst orðið var við bifreiðina X þegar henni var ekið fram úr bifreið hans á miklum hraða en hann hafi ekki séð ökumanninn. Á þessum tíma hafi verið bifreið fyrir framan bifreið hans sem nefndri bifreið var einnig ekið fram úr. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar óhappið varð en komið að því hálfri mínútu til mínútu eftir að það varð. Fljótlega eftir atvikið hafi fólkið sem var í X farið út úr bílnum og konan farið út bílstjóramegin en á þeim tíma hafi hann sennilega enn verið inni í sinni bifreið sem var stopp aðeins fyrir aftan hina bílana. Vitnið bar að á vettvangi hafi þeir sem þar voru fyrst og fremst verið fegnir því að allir voru ómeiddir. Vitnið sagðist ekki muna eftir því hvort á vettvangi var rætt um það hver var ökumaður X. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við óeðlilegt ástand á fólkinu á slysstað en að hans mati var eðlilegt að menn væru í áfalli eftir svona harðan árekstur.

Vitnið I lögreglumaður sagðist hafa komið á vettvang í umrætt sinn, 10 til 15 mínútum eftir að hann var kallaður út, og þar hafi ökumenn beggja bifreiðanna að fyrra bragði gefið sig fram og ákærða verið annar þeirra en hún hafi á þeim tíma setið undir stýri bifreiðarinnar X. Ákærða hafi þarna framvísað ökuskírteini G og hann ritað niður upplýsingar af því skírteini. Hann hafi spurt ákærðu hver ætti bifreiðina og hún svarað því til að faðir hennar ætti hana. Við skýrslutöku á lögreglustöð síðar um daginn hafi ákærða haldið sig við að hún væri G. Að sögn vitnisins var aldrei vafi í hans huga að ákærða hefði ekið bifreiðinni en á vettvangi hafi vitnið H sagt að ákærða hefði ekið. Ástand H hafi þó verið þannig að ekki var hægt að taka af honum formlega skýrslu en vitnið lýsti því að hann hefði ekki treyst H til að aka bifreið á 50 kílómetra hraða, hvað þá langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Ákærða hafi ekki fyrr en á seinni stigum greint frá því að hún hafi villt á sér heimildir en það hafi fljótlega, eftir að ákærða var farin af lögreglustöðinni, komið í ljós að hún var ekki sú manneskja sem hún sagðist vera. Vitnið sagðist strax á vettvangi ekki hafa verið í vafa um að ákærða væri undir áhrifum áfengis og hann strax séð að hún var ekki í jafnvægi. Þá hafi hann strax grunað að hún væri einnig undir áhrifum fíkniefna. Að sögn vitnisins er það venja hjá lögreglu að taka strax svokallaðar varðstjóraskýrslur  af ökumönnum þótt þeir séu í annarlegu ástandi en það sé þó ekki gert þegar ljóst sé að það hafi enga þýðingu. Við þessa skýrslutöku sé einungis spurt um einfaldar staðreyndir. Á þeim tíma sem hann tók skýrsluna af ákærðu hafi hann metið það svo að hún væri bær til að gefa skýrslu en hún hafi hiklaust svarað öllum spurningum sem til hennar var beint og að hans mati gert sér grein fyrir því hvað fór fram en skýrsla sé ekki tekin af fólki sem ekki er í ástandi til að svara spurningum. Að sögn vitnisins kom það fljótlega, eftir að ákærða hafði verið látin laus, í ljós að hún var ekki sú sem hún sagðist vera en þá hafi lögreglumenn farið að kanna málið betur. Vitnið kvaðst nokkru síðar hafa rætt við ákærðu í síma en í því símtali hafi hann vitað að hann var að tala við ákærðu en ekki G og ákærða ekki haldið því fram að svo væri. Eftir að hafa séð upplýsingaskýrslu um samtalið staðfesti vitnið að ákærða hefði hringt í hann.

Vitnið O lögreglumaður kom á vettvang í umrætt sinn frá Blönduósi ásamt öðrum lögreglumanni. Eftir að á vettvang var komið hafi verið ákveðið að flytja ökumann X á lögreglustöðina á Blönduósi. Hann hafi hins vegar ekið farþeganum, sem honum var ljóst að var í annarlegu ástandi, í Staðarskála. Á leiðinni þagnað hafi þeir spjallað saman og fram komið að hann og ákærða hafi verið á leið til Reykjavíkur og lýsti farþeginn því að hann hafi verið hræddur á leiðinni enda hraði bifreiðarinnar mikill og hann af þeim sökum með hönd á handbremsu bifreiðarinnar til öryggis. Vitnið minnti að farþeginn hafi nefnt G sem ökumann. Daginn eftir hafi sami maður komið á lögreglustöðina á Blönduósi og spurt um veski sitt og einhverja muni sem ekki voru þar. Þá hafi hann sagt: „Ætli Katrín hafi þá ekki bara tekið þetta.“ Vitnið kvaðst þá hafa spurt hvort Katrín hefði ekið bílnum en hann þá svarað því til að hann neitaði að tjá sig og strunsað út en bætt því við að G hefði ekið bifreiðinni. Við skoðun á ökuskírteinaskrá hafi hann gert sér grein fyrir því að konan sem hann sá á vettvangi gat ekki verið G. Í framhaldi af þessu hafi hann skoðað málið betur og sú skoðun leitt til þess að ljóst var að ákærða átti hlut að máli. Að sögn vitnisins var ákærða í annarlegu ástandi á vettvangi en hann kvaðst ekki geta metið það hvort hún var hæf til að gefa skýrslu enda hann ekki í þannig samskiptum við hana.

Vitnin Ó og P lögreglumenn báru báðar að ákærða hefði ekki leiðrétt við þær að hún væri Katrín Gestsdóttir en ekki G.

Vitnið R staðfesti matsgerð þá sem hún gerði og er meðal gagna málsins. Að sögn vitnisins hafði sá tími sem leið frá því að akstri lauk og þar til sýni voru tekin þá afleiðingu að styrkur amfetamíns hafði lækkað að því gefnu að efnisins hefði ekki verið neytt á þeim tíma. Vitnið bar að ekki væri hægt að reikna til baka styrk fíkniefna líkt og hægt er með alkóhól. Að sögn vitnisins má fullyrða að ákærða hafi verið undir meiri áhrifum áfengis og amfetamíns á þeim tíma sem óhappið varð en þegar sýni voru tekin um fjórum klukkustundum síðar. Vitnið sagði það málvenju að segja að fólk væri undir áhrifum áfengis þegar magn alkóhóls í blóði mældist undir 1,2‰, ölvað frá þeirri tölu og upp í 2‰ en frá þeirri tölu talað um talsverða eða mikla ölvun. Hún myndi því segja að ákærða hafi verið ölvuð. Loks bar vitnið að magn amfetamíns í blóði ákærðu hafi ekki verið mikið, innan þeirra marka sem kallað sé lækningalegt bil en amfetamín sé lyf.

D

Niðurstaða

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni X, svipt ökurétti og undir áhrifum áfengis og fíkniefna, auk þess sem hún er ákærð fyrir rangar sakargiftir. Ákærða neitar sök varðandi akstur bifreiðarinnar og telur að hún hafi í tíma leiðrétt við lögreglu þá háttsemi sem henni er gefin að sök í síðari lið ákærunnar og krefst því sýknu.

Samkvæmt vætti lögreglumannsins I greindi ákærða honum frá því að hún hafi ekið bifreiðinni í greint sinn og framvísaði þar ökuskírteini G. Við skýrslutöku um fjórum klukkustundum síðar gekkst hún við því að hafa ekið bifreiðinni og samkvæmt framburði hennar sjálfrar fyrir dóminum undirritaði hún skýrsluna með nafni G. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru gerðar undantekningar frá þeirri meginreglu. Að framan er rakið að vitnið I lýsti því að ákærða hafi að hans mati verið í ástandi til að svara spurningum sem til hennar var beint við skýrslutökuna og það hafi hún gert hiklaust. Framburður ákærðu fyrir dóminum þar sem hún neitar því að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn stangast þannig á við framburð hennar hjá lögreglu. Með hliðsjón af 1. mgr. nefndrar 111. gr. laga um meðferð sakamála verður sakfelling ákærðu ekki reist á því sem skráð var eftir henni í lögregluskýrslu nema önnur atriði styðji þann framburð í verulegum atriðum.

Af framburði vitna fyrir dómi má ráða að ekkert þeirra sá ákærðu aka bifreiðinni í umrætt sinn ef frá er talið vitnið H en framburð hans verður að skoða í því ljósi að hafi ákærða ekki ekið bifreiðinni kemur ekki annað til greina en að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Ákærða lýsti því að það hafi tekið þau skamma stund að skipta um sæti en hún kvað þau hafa gert það vegna þess að vitnið H hafi þurft að mæta til vinnu. Lýsing ákærðu á þessari atburðarás, svo skömmu eftir harðan árekstur þar sem báðir loftpúðar bifreiðarinnar sem hún var í sprungu út, er lítt trúverðug. Hins vegar liggja ekki fyrir óyggjandi gögn um að ákærða hafi í raun ekið bifreiðinni en lýsing vitnisins I á ástandi vitnisins H er ekki studd neinum gögnum. Þá verður að horfa til þess að ákærða var undir áhrifum áfengis og fíkniefna þegar hún, sama dag og áreksturinn varð, játaði fyrir lögreglu að hafa ekið bifreiðinni en hún dró þá játningu sína til baka við skýrslutöku hjá lögreglu hinn 24. febrúar 2015. Að þessu virtu verður ekki talið með vísan til 108. gr. laga nr. 88/2008 að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur á, svo yfir skynsamlegan vafa sé hafið, að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem greinir í fyrri lið ákærunnar.

Að mati dómsins er óumdeilt, m.a. með framburði lögreglumanna og ákærðu sjálfrar, að ákærða framvísaði ökuskírteini G í greint sinn. Með því leitaðist hún við að koma sök á saklausa manneskju. Símtal ákærðu við lögreglu nokkrum dögum síðar þar sem hún kynnti sig með eigin nafni leysir hana ekki undan refsiábyrgð á háttsemi sinni. Þá skiptir heldur ekki máli þótt háttsemi ákærðu hafi ekki leitt til þess að G sætti rannsókn vegna þessa en það var ekki ákærðu að þakka að slík rannsókn hófst ekki. Brot ákærðu var fullframið þegar hún framvísaði röngum skilríkjum og undirritaði skýrslu hjá lögreglu með nafni G.

Ákærða er 43 ára gömul og á að baki nokkurn sakaferil. Henni var gert að greiða sekt í lok árs 2003 fyrir ölvun við akstur jafnfram því sem hún var svipt ökurétti í eitt ár.  Á árabilinu 2006 til 2009 hefur ákærða ítrekað verið sakfelld fyrir ölvunarakstur, en auk þess í fimm skipti gengist undir viðurlög og hlotið dóma fyrir að aka ökutækjum svipt ökuréttindum. Var ákærða þannig með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 21. maí 2008 dæmd í þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að aka ökutæki svipt ökurétti. Hinn 17. febrúar 2009 var ákærða dæmd við sama dómstól í átta mánaða fangelsi fyrir þjófnað, gripdeild og nytjastuld, en einnig vegna fíkniefnaaksturs og fyrir að aka ökutæki svipt ökurétti.  Með þessum dómi var ævilöng ökuréttarsvipting ákærðu jafnframt áréttuð. Síðast, hinn 4. september 2013, var ákærða dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að aka svipt ökurétti. Ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir brot gegn 148. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn nefndri 148. gr. skal hafa hliðsjón af því hversu þung hegning er lögð við broti því, sem sagt er eða gefið er til kynna að viðkomandi hafi drýgt. Að þessu virtu ásamt sakaferli ákærðu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Dráttur hefur orðið á meðferð máls þessa hjá lögreglu en brotið var framið 8. júlí 2014 en ákæra ekki gefin út fyrr en 8. mars 2016. Dráttur á málinu fyrir dómi skýrist af því að ákærða lagði fram kæru hinn 5. maí 2016 á hendur G og J fyrir rangar sakargiftir og var málinu frestað um stund meðan beðið var eftir niðurstöðu í því máli. Þá krafðist ákærða frávísunar á málinu og var það flutt um það ágreiningsefni og gekk úrskurður í því 6. júlí 2016. Að teknu tilliti til sakaferils ákærðu eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hennar þrátt fyrir þann drátt sem orðið hefur á málinu.

Að teknu tilliti til þess að ákærða hefur verið sýknuð að hluta og þess að ákæruvaldið hefur fallið frá hluta ákæruatriða þykir rétt að hún greiði þriðjung málsvarnarlauna verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, en þau þykja hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá skal hún og greiða þriðjung af 115.585 króna ferðakostnaði lögmannsins. Annar sakarkostnaður samkvæmt yfirliti sækjanda féll til vegna háttsemi sem ákærða hefur verið sýknuð af og greiðist hann því úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 148. gr. laga nr. 88/2008.

 

Dómsorð:

Ákærða, Katrín Gestsdóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærða greiði þriðjung 871.500 króna málsvarnarlauna verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, svo og þriðjung 115.585 króna ferðakostnaðar lögmannsins. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson