• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 24. ágúst 2016 í máli nr. S-7/2016:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Pavels Sadenko

(Einar Sigurjónsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var 26. apríl sl. og dómtekið 6. ágúst sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 8. mars 2016 á hendur Pavels Sadenko, fæddum 18. febrúar 1981, til heimilis að Digranesvegi 8, Kópavogi, ,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, frá því um hádegi mánudaginn 9. nóvember 2015, ekið bifreiðinni YZ-135 eftir þjóðvegi 1 frá Reykjavík norður á Blönduós, undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 0,54‰), undir áhrifum fíkniefna (Metamfetamæin (sic) í blóði 245 ng/ml og Tetrahýdrólkannabínól 4,1 ng/ml) og sviptur ökuréttindum ævilangt, uns lögreglan stöðvaði akstur hans við bensínstöð N1 á Blönduósi.

Telst framangreint varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, allt sbr. 100. gr. sömu lags (sic).

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 auk greiðslu alls sakarkostnaðar.”

II

Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest 26. apríl sl. Var málinu þá frestað ótiltekið. Hinn 6. ágúst sl. var ákærði færður í dóminn af lögreglu en hann var handtekinn um kl. 04:00 nóttina áður vegna rannsóknar annars máls. Fyrir þinghaldið hafði dómari málsins símleiðis samband við skipaðan verjanda ákærða, Einar Sigurjónsson hdl. sem þá var í sumarleyfi. Verjandinn hafði síðan aftur sambandi við dómara málsins og greindi frá því að  hann hefði rætt við ákærða í síma og niðurstaða samtals þeirra hafi verið sú að óþarft væri fyrir verjandann að sækja þing.

Ákærði játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og telst sekt hans nægilega sönnuð en brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Farið var með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Ákærði er fæddur í febrúar 1982. Samkvæmt framlögðu sakavottorði á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2001, en af því sem þar greinir hafa eftir­greind brot áhrif við ákvörðun refsingar hans í máli þessu. Ákærði samþykkti greiðslu sektar og tímabundna sviptingu ökuréttar með sátt hjá lögreglustjóra 14. október 2008 fyrir nokkur brot gegn ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, þar með talið fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Með sátt hjá lögreglustjóra 13. ágúst 2009 samþykkti hann að greiðslu sektar og tímabundna sviptingu ökuréttar vegna ölvunaraksturs. Með tveimur lögreglustjórasáttum 20. nóvember 2009 og 19. ágúst 2010 gekkst hann undir greiðslur sekta fyrir að aka sviptur ökurétti, í síðara skiptið einnig fyrir önnur umferðarlagabrot. Með dómi 15. maí 2012 var ákærði svo dæmdur í nítíu daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ýmis umferðarlagabrot, þar á meðal fyrir að aka sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Hann með dómi 9. október 2013 dæmdur í 90 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir að aka án öryggisbeltis, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Með dómi hinn 25. júní 2015 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti. Hinn 16. janúar á þessu ári var hann sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti og fyrir önnur smærri umferðarlagabrot. Dómur þessi var hegningarauki við síðastgreinda dóminn og var hann dæmdur í 45 daga fangelsi. Loks var ákærði hinn 12. apríl á þessu ári dæmdur í fimm mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir vörslu fíkniefna, fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti.

Að framangreindum sakaferli ákærða má sjá að hann hefur fjórum sinnum áður verið sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti. Þá hefur hann að auki í þrígang verið sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti en eitt þessara skipta var hegningarauki við eldra brot og í tvígang fyrir að aka undir áhrifum áfengis.  Að sakarferli ákærða virtum, sbr. 5. töluliður 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og með hliðsjón af 77. gr. sömu laga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þá er áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

 

 

Með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi málsins 177.010 krónum. Ákærði naut aðstoðar verjanda meðan málið var til meðferðar fyrir dómi og ber honum að greiða þóknun verjanda síns, Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Málið sótti Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Pavels Sadenko, sæti fangelsi í átta mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði 264.160 krónur í sakarkostnað þar með talin 87.150 króna þóknun verjanda síns, Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns.

 

 

                                                                             Halldór Halldórsson.