• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 8. febrúar 2018 í máli nr. S-393/2017:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Arnari Gunnarssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar sl., höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 30. október 2017 á hendur ákærða, Arnari Gunnarssyni, kt. [...], [...], [...];

„ [---]

fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa mánudaginn 23. febrúar 2015, haft í vörslum sínum 3,62 g af kannabisefnum sem geymd voru í skál á ofni í forstofu og 38 stk. kannabisplöntur sem voru í tveimur tjöldum í svefnherbergi og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, í iðnaðarbili að Njarðvíkurbraut 47 Reykjanesbæ.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 4., sbr. 4.gr. a, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

Endanlegar dómkröfur ákæruvalds í málinu eru þær að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krefst ákæruvaldið þess jafnframt að gerðar verði upptækar framangreindar 38 kannabisplöntur og 3,62 grömm af kannabisefnum samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Ákæruvaldið krefst einnig upptöku á straumbreyti, rakatæki, rakamæli, tveimur loftsíum, lampa, tveimur viftum, barka og tveimur gróðurtjöldum með vísan til 7. mgr. 5. gr. sömu laga.

Upphaflega voru ákærða, auk fíkniefnalagabrotsins, einnig gefin að sök í málinu brot gegn umferðarlögum dagana 28. febrúar og 4. ágúst 2015. Með framhaldsákæru útgefinni 10. janúar 2018 féll ákæruvaldið frá þeim sakargiftum. Í framhaldsákærunni voru einnig gerðar leiðréttingar á misritunum í upptökukröfu í ákæru.

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 15. desember 2017 og löglega birt ákærða 4. janúar sl. Við þingfestingu málsins 11. þess mánaðar sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Niðurstaða:

Með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar og önnur skilyrði ákvæðisins eru einnig uppfyllt í málinu. Brot ákærða telst því sannað og varðar það við tilgreind laga- og reglugerðaákvæði í ákæru.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing.

Refsing ákærða þykir að broti hans virtu réttilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerðar upptækar 38 kannabisplöntur, 3,62 grömm af kannabisefnum og allir þeir munir sem vísað er til í ákæru og lögregla haldlagði við húsleit 23. febrúar 2015.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þann sakarkostnað sem tilgreindur er á framlögðu sakarkostnaðar­yfirliti lögreglustjóra, dagsettu 10. apríl 2015, samtals 216.071 króna.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Arnar Gunnarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti upptöku á 38 kannabisplöntum, 3,62 grömmum af kannabisefnum straumbreyti, rakatæki, rakamæli, tveimur loftsíum, lampa, tveimur viftum, barka og tveimur gróðurtjöldum.

Ákærði greiði 216.071 krónu í sakarkostnað.

 

Kristinn Halldórsson