• Lykilorð:
  • Fésekt
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Virðisaukaskattur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 6. desember 2018 í máli nr. S-114/2018:

Ákæruvaldið

(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Sigurði Kristinssyni,

(Hilmar Magnússon lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 6. mars 2018 á hendur Sigurði Kristinssyni, kt. 000000-0000, og X, kt. 000000-0000, báðum til heimils að [...], og Y, kt. 000000-0000, með óþekkt heimilisfang,

„fyrir eftirtalin meiri háttar brot gegn skattalögum, framin í rekstri einkahlutafélagsins SS Verk (síðar Verktak 15 ehf.), kt. 000000-0000, nú gjaldþrota, ákærða Sigurðar sem stjórnarmanns og framkvæmdastjóra félagsins til 30. mars 2016, ákærðu X sem stjórnarmanns og daglegs stjórnanda félagsins frá því tímamarki til 10. ágúst 2016 og ákærða Y sem stjórnarmanns og daglegs stjórnanda félagsins frá 10. ágúst 2016:

I

Á hendur ákærða Sigurði með því að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin nóvember – desember 2014 rekstrarárið 2014 og janúar – febrúar rekstrarárið 2015 þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn um samtals 33.896.462 krónur, á grundvelli samtals fimm tilhæfulausra sölureikninga sem útgefnir voru í nafni einkahlutafélagsins Z, kt. 000000-0000, nú gjaldþrota, og um leið vanframtalið um 28.586.000 krónur virðisaukaskatt SS Verks ehf., sem standa bar skil á í samræmi við fyrirmæli í IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Offramtalinn innskattur sundurliðast svo:

Árið 2014

nóvember – desember                               kr.        19.664.462

Árið 2015

janúar – febrúar                                          kr.        14.232.000

Samtals                                                      kr.       33.896.462

II

A

Á hendur ákærða Sigurði með því að hafa:

1     Ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl, maí – júní, júlí – ágúst og nóvember – desember rekstrarárið 2015 í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 2.711.578 krónur, sem sundurliðast svo:

 

Árið 2015:

mars – apríl                                          kr.           156.566

maí – júní                                             kr.        1.469.219

júlí – ágúst                                           kr.           969.439

nóvember – desember                         kr.           116.354

                   Samtals                                               kr.       2.711.578

 

2     Ekki staðið á lögmæltum tíma skil á skilagrein einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilsins janúar rekstrarárið 2016 og ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna janúar til og með desember rekstrarárið 2015 og janúar og febrúar rekstrarárið 2016, samtals að fjárhæð 15.100.501 króna sem sundurliðast svo:

                   Árið 2015:

                   janúar                                                  kr.          1.436.667

febrúar                                                 kr.          1.555.468

mars                                                     kr.          1.643.790

apríl                                                     kr.          1.425.918

maí                                                       kr.          1.470.138

júní                                                      kr.          1.717.883

júlí                                                       kr.          2.124.321

ágúst                                                    kr.          1.470.662

september                                            kr.             967.774

október                                                            kr.             723.252

nóvember                                             kr.             292.837

desember                                             kr.               63.423

                                                                                           14.892.133

                   Árið 2016:

                   janúar                                                  kr.               81.966

febrúar                                                 kr.             126.402

                                                                                                208.368

                                                       Samtals           kr.       15.100.501

 

B

Á hendur ákærðu X með því að hafa:

1     [...]

2     [...]

 

C

Á hendur ákærða Y með því að hafa:

1     [...]

2     [...]

III

Brot ákærða Sigurðar samkvæmt ákærukafla I telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Brot ákærðu Sigurðar, X og Y samkvæmt ákærukafla II teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir brot samkvæmt töluliðum 1 í ákærukaflanum, og sbr. 2. mgr. 30. gr.  laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir brot samkvæmt töluliðum 2 í ákærukaflanum.“

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði Sigurður að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í 1. og 2. tölulið í ákærukafla II A, en neitaði að öðru leyti sök og krafðist sýknu.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins, 15. nóvember 2018, lýsti ákæruvaldið því yfir að það félli frá sakargiftum í máli þessu á hendur ákærðu X og Y samkvæmt ákæruliðum II B og C, sbr. 2. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008. Tók ákæruvaldið fram að tilefni þessa væru ný gögn sem því hefðu borist skömmu fyrir aðalmeðferð málsins og þegar hefðu verið kynnt dómara og verjendum utan réttar. Af þessum sökum taldi ákæruvaldið óhjákvæmilegt að afturkalla ákæru í málinu á hendur þessum ákærðu svo að rannsaka mætti atvik í málinu nánar, og að því búnu meta hvort höfða bæri nýtt mál um þau sakarefni, sbr. 3. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar.

 Í tilefni af ofanrituðu krafðist skipaður verjandi Y, Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, þóknunar sér til handa úr ríkissjóði. Hið sama gerði skipaður verjandi X, Páll Kristjánsson lögmaður.

Málsatvik

Þar sem sakarefni máls þessa lýtur nú aðeins að meintum brotum ákærða Sigurðar Kristinssonar verða atvik málsins aðeins rakin að því leyti er hann varða, og þá einungis að þeirri háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt I. lið ákærunnar, en eins og fram er komið neitar hann sök samkvæmt þeim ákærulið. Á hinn bóginn hefur hann skýlaust játað sök samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæruliðar II A. Verður því látið nægja að skírskota til ákæru um atvik að baki þeim sakargiftum, sbr. 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra 15. september 2016 tók embættið ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattsskil SS Verks ehf. rekstrarárin 2013 og 2014. Rannsóknin hófst 1. mars 2016. Þegar leið á rannsóknina var ákveðið að afmarka hana við bókhald og virðisaukaskattsskil vegna rekstrartímabilsins 1. nóvember 2014 til 31. desember sama ár. Samkvæmt virðisaukaskattsskilum félagsins á umræddu tímabili var innskattur 30.401.340 krónur, að stærstum hluta til kominn vegna þriggja sölureikninga frá Z ehf., alls að fjárhæð 96.780.000 krónur. Af þeirri fjárhæð var skattskyld velta 77.115.538 krónur og virðisaukaskattur 19.664.462 krónur. Voru sölureikningarnir gjaldfærðir og innskattaðir í bókhaldi SS Verks ehf. Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra var hins vegar sú að sölureikningar þessir væru tilhæfulausir og því ekki innskattsbærir. Samkvæmt því næmi innskattur vegna þessa rekstrartímabils 10.736.878 krónum og oftalinn innskattur því 19.664.462 krónum. 

Áður hafði einnig verið til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra virðisaukaskattsskil SS Verks ehf. rekstartímabilið frá 1. janúar 2015 til 28. febrúar sama ár. Hófst sú rannsókn 1. júlí 2015 og lauk með skýrslu 31. desember sama ár. Á því rekstrartímabili nam innskattur félagsins alls 15.090.985 krónum, að mestu til kominn vegna tveggja sölureikninga frá Z ehf., samtals að fjárhæð 73.532.000 krónur. Af þeirri fjárhæð nam skattskyld velta 59.300.000 krónum og virðisaukaskattur 14.232.000 krónum. Báðir voru reikningarnir gjaldfærðir og innskattaðir í bókhaldi SS Verks ehf. Skattrannsóknarstjóri taldi að þessir reikningar ættu ekki við rök að styðjast og væru því ekki innskattsbærir. Innskattur vegna þessa rekstrartímabils næmi samkvæmt því 958.985 krónum og oftalinn innskattur 14.323.000 krónum.

Skattrannsóknarstjóri sendi bæði þessi mál til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á virðisaukaskatti SS Verks ehf. Í síðara málinu kvað ríkisskattstjóri upp úrskurð 27. september 2016 og var virðisaukaskattur skattaðilans endurákvarðaður vegna tímabilsins janúar og febrúar 2015, auk þess sem lagt var álag á vangreiddan virðisaukaskatt, 452.940 krónur. Úrskurðurinn  var ekki kærður til yfirskattanefndar. Í fyrra málinu, þ.e. vegna rekstrartímabilsins 1. nóvember 2014 til 31. desember 2014, tilkynnti ríkisskattstjóri með bréfi 26. september 2016 að hann hefði ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar þar sem athugun hans hefði leitt í ljós að virðisaukaskattsskil skattaðilans hefðu verið leiðrétt og væru nú í samræmi við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra.

Með bréfi 13. desember 2016 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins héraðssaksóknara ofangreind mál til rannsóknar. Í bréfinu kemur fram að skattaðili sé Verktak ­- 15 ehf. (áður SS Verk ehf.), en fyrirsvarsmaður þess sé ákærði Sigurður Kristinsson og kunni háttsemi hans að varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald, með áorðnum breytingum, sbr. og 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Rannsókn héraðssaksóknara hófst 27. mars 2017 og var ákærði yfirheyrður sem sakborningur 18. maí sama ár. Kvaðst hann hafa verið stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi SS Verks ehf. frá 4. apríl 2012 til 29. mars 2016 og hafi því borið ábyrgð á virðisaukaskattsskilum félagsins vegna þeirra rekstrartímabila sem hér um ræðir. Sagðist hann ekki rengja þær niðurstöður lögreglu að oftalinn innskattur vegna tímabilanna nóvember - desember 2014 og janúar - febrúar 2015 næmi alls 33.896.462 krónum og að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga á sama tíma hafi alls numið 28.586.000 krónum. Hins vegar mótmælti hann því að áðurnefndir fimm sölureikningar væru tilhæfulausir og fullyrti þvert á móti að sú vinna hefði verið unnin sem þeir hljóðuðu um. Kvaðst hann hafa samið við A um þá vinnu og hefði orðið að samkomulagi þeirra í milli að A fengi greitt þegar SS Verk ehf. fengi greitt. A hafi verið með gröfu og vörubíl, en einnig smiði sem hafi hjálpað til við smíðar á verkum SS Verks ehf. Kvaðst ákærði hafa ætlað að gera upp við A með því að láta hann fá vélar og annað í eigu félagsins.

Ákærði sagði að eftir að rannsókn hófst hjá skattrannsóknarstjóra hefði honum orðið ljóst að eitthvað væri gruggugt við þá reikninga sem A framvísaði, og sérstaklega það félag sem gaf þá út, þ.e. Z ehf. Því hefði hann haft samband við A og sagt honum að hann myndi taka reikningana úr bókhaldi SS Verks ehf. og yrði A að koma með félag sem hann gæti treyst og væri í lagi. Ella fengi hann ekki greitt. A hafi hins vegar forðast hann eftir þetta. Ekki kvaðst ákærði kunna á því skýringu hvers vegna A hafi gefið út sölureikninga í nafni Z ehf. þegar forsvarsmaður og eigandi félagsins, B, kannaðist ekkert við reikningana né þau verk sem þar var verið að rukka fyrir.

Við rannsókn héraðssaksóknara kom fram að umræddir reikningar voru ekki greiddir af SS Verki ehf. Hins vegar voru reikningarnir nýttir til innsköttunar í rekstri félagsins.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Verktaks – 15 ehf. (áður SS Verks ehf.) tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2017, en bú Z ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. febrúar 2016.  

Framburður fyrir dómi

Ákærði Sigurður Kristinsson kvaðst ekki gera athugasemdir við tölulegar niðurstöður í ákærukafla I. Hann sagði að SS Verk ehf. hefði á þessum tíma verið með mörg stór verk í gangi og velta fyrirtækisins mikil. Hafi hann einn verið eigandi fyrirtækisins, prókúruhafi og daglegur stjórnandi. Bókhaldi hafi verið þannig háttað að gjaldkeri hafi bókað allar færslur og raðað gögnum í möppur, sem síðan hafi verið afhentar bókara félagsins, C. Á grundvelli þeirra gagna hefði bókarinn samið virðisaukaskattsskýrslur félagsins.

Ákærði kvaðst hafa þekkt A frá fyrri tíð, en hann væri gröfumaður. Hefði hann samið við A um að hann ynni fyrir fyrirtækið í vinnuskiptum, en A hefði jafnframt haft ýmsa góða iðnaðarmenn á sínum snærum.

Ákærði sagðist vel muna eftir þeim fimm sölureikningum sem liggja fyrir í málinu og taldir eru tilhæfulausir. Sagði hann að A hefði skrifað fyrstu þrjá þeirra á kaffistofu félagsins í samráði við sig og afhent sér þá að því loknu. Síðar hefði A sjálfur komið með hina tvo. Hann mótmælti því að reikningarnir væru tilhæfulausir og fullyrti að þau verk hefðu verið unnin sem þeir vitna um og verið var að rukka fyrir. Tók hann fram að þótt fjárhæðir þeirra væru háar væru þær það ekki í ljósi heildarveltu fyrirtækisins á þessum tíma. Ákærði sagðist aðeins hafa átt samskipti við A, enda hafi hann verið að vinna fyrir SS Verk ehf. Þá sagðist hann ekki hafa gert neina sjálfstæða athugun á félaginu Z ehf. þótt A hafi gefið reikningana út í nafni þess félags. Kvaðst hann ekkert þekkja til B. Þá kvaðst hann ekki vita hver hafi kvittað á reikningana sem greidda.

Ákærði tók fram að eftir að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á bókhaldi og skattskilum SS Verks ehf. hefði hann sent A tölvupóst og sagt honum að ekki væri hægt að greiða reikningana og yrði hann að leggja fram reikninga frá félagi sem hann hefði yfir að ráða. A hefði þó í engu sinnt því. Þá sagði ákærði að það hefði komið sér mjög á óvart að A hefði ekki viljað kannast við þrjá fyrstu reikningana þegar hann var um þá spurður í yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara. Fram kom og í máli ákærða að hann hefði ekki greitt reikningana frá A, en þó hefðu þeir verið innskattaðir í bókhaldi SS Verks ehf.

Ákærði tók loks fram að hann hefði gert leiðréttingarskýrslu á virðisaukaskatti eftir að hann var upplýstur um það af skattrannsóknarstjóra að A hefði ekki haft heimild til að gefa út sölureikninga í nafni Z ehf. Í gögnum málsins er að finna leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið nóvember – desember 2014, dagsetta 3. ágúst 2016. Er hún undirrituð með ólæsilegu nafni og kvaðst ákærði ekki vita hver hafi gert hana og undirritað. Leiðréttingarskýrsla vegna síðara tímabilsins, janúar – febrúar 2015, var hins vegar gerð af skattrannsóknarstjóra í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra 27. september 2016.

Vitnið B gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Hann sagðist hafa fengið félagið Z ehf. frá A, en eignast það alfarið í október 2014. Eftir það hafi A engin tengsl haft við félagið og ekkert unnið á þess vegum. Kvaðst vitnið ekki hafa gefið út einn einasta reikning af þeim fimm sem bornir voru undir hann og mál þetta varðar. Ekki hafi hann heldur unnið að þeim verkum sem þar er verið að rukka fyrir. Hafi hann fyrst fengið vitneskju um reikningana í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra. Sérstaklega aðspurður taldi hann víst að A hefði gefið reikningana út. Þá hafnaði vitnið því alfarið að hafa ritað upphafsstafi sína á reikningana, sem greidda.

Vitnið A gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst mest starfa við jarðvinnu, sem gröfumaður. Hann sagðist hafa átt félagið Þ ehf. til loka október 2014, en þá hafi B keypt það félag og tekið við stjórn þess. Eftir það kvaðst vitnið ekki hafa haft nein tengsl við félagið. Vitnið neitaði að tjá sig um þá reikninga sem lagðir hafa verið fram í máli þessu, gefnir út af Z ehf. til SS Verks ehf., og gaf þá skýringu að hann hefði  nýlega verið upplýstur um að hann væri grunaður um skjalafals vegna útgáfu þeirra. Hins vegar sagðist vitnið aðspurt hafa unnið að einhverjum verkefnum fyrir SS Verk ehf., án þess að muna hvenær. Hann kvaðst þó muna eftir því að hafa unnið fyrir fyrirtækið við Vesturbæjarlaug, en tók fram að það hafi aðeins falist í því að jafna fláa undir gras og væri sá reikningur ekki á meðal þeirra sem um væri deilt í máli þessu. Vitnið kannaðist við að rætt hefði verið um skiptivinnu milli hans og ákærða, en ekki kvaðst vitnið muna eftir því að SS Verk ehf. hefði neitt unnið fyrir hann. Vitnið var loks spurt um tölvupóst frá ákærða til Þ ehf., dagsettan 25. mars 2016, þar sem ákærði benti vitninu á að hann hefði verið upplýstur um það af skattyfirvöldum að vitnið hefði ekki haft heimild til að gefa út reikninga í nafni Z ehf., og kvaðst vitnið ekki kannast við þann tölvupóst.

Niðurstaða

Eins og áður greinir hefur ákærði skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. og 2. tölulið ákæruliðar II A og er ekki ástæða til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm. Er því sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar greinir og er rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Á hinn bóginn neitar hann sakargiftum samkvæmt I. ákærulið og krefst þess aðallega að þeim verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim. Verði hann hins vegar sakfelldur krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfa og að refsingin verði bundin skilorði. Verði fésekt dæmd krefst hann þess að sektin verði ekki ákvörðuð hærri en tvöföld skattfjárhæð. Loks krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Frávísunarkrafa ákærða byggist á því að rannsókn málsins sé verulega ábótavant. Ákærði hafi við rannsókn málsins lagt fram gögn og bent á ýmsa aðila sem gátu vitnað um að þau verk hafi verið unnin sem framlagðir reikningar tilgreina. Engu að síður hafi lögreglan ekki hirt um að kalla þá aðila til yfirheyrslu í því skyni að sannreyna frásögn hans, og þá um leið frásögn A um að hann eða starfsmenn á hans vegum hafi unnið að þeim verkum sem reikningarnir hljóða um. Í þessu ljósi telur ákærði að rannsókn málsins sé ekki lokið og því hafi ekki verið tímabært að gefa út ákæru vegna þeirra sakargifta er greinir í I. lið ákærunnar. Um leið mótmælir ákærði því að allir reikningar sem um er deilt í málinu séu tilhæfulausir og því ekki innskattsbærir, enda hafi við rannsókn málsins ekki verið gætt að því að upplýsa jöfnum höndum um þau atriði sem horfðu til sýknu og sektar, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Þvert á móti hafi rannsóknin öll verið því marki brennd að ákærði hafi frá upphafi verið talinn sekur. Samkvæmt þessu byggir ákærði frávísunarkröfu sína á því að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði um sekt hans að þessu leyti.

Sýknukrafa ákærða byggist að mestu leyti á sömu sjónarmiðum og frávísunarkrafa hans.

Samkvæmt I. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum SS Verks ehf. uppgjörstímabilin nóvember – desember 2014 og janúar – febrúar 2015, þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn um samtals 33.896.462 krónur á grundvelli fimm tilhæfulausra reikninga sem gefnir voru út í nafni Z ehf. Fjárhæð umræddra reikninga nemur alls 170.312.000 krónum og sundurliðast þeir þannig:

12/11 2014 Vesturbæjarlaug, smíði á heitum potti                                        kr.   37.450.000

22/11 2014  Skarfabakki vinna skv. tilboðsskrá                                   kr.   42.860.000    

14/12 2014  Hyrnan Borgarnesi, gluggaskipti                                      kr.   16.470.000

17/2   2015  Flugstjórnarmiðstöð. Vinna við uppsteypu                       kr.   39.010.400

20/2   2015  Álfhólsvegur. Vinna við álklæðningu og gips                  kr.   34.521.000

Reikningar þessir eru allir handskrifaðir á óformleg reikningseyðublöð og stílaðir á SS Verk ehf., [...], 113 Reykjavík. Á reikningana er skráð heimilisfang, kennitala og virðisaukaskattsnúmer útgefandans, en engar upplýsingar eru um reikningsnúmer útgefanda. Þá fylgdu þeim ekki nein fylgiskjöl eða sundurliðanir um efni eða vinnu, tímaskráningar eða einstaka verkliði. Allir eru þeir hins vegar áritaðir um greiðslu með upphafsstöfum sem einna helst líkist „[...]“.

Fram er komið að vitnið A neitaði fyrir dómi að tjá sig um áðurnefnda reikninga og bar því við að hann hefði  nýlega verið upplýstur um að hann væri grunaður um skjalafals vegna þeirra. Hins vegar sagðist hann muna eftir því að hafa unnið að einhverjum verkefnum fyrir SS Verk ehf., en mundi þó ekki hvenær. Þó kvaðst hann minnast þess að hafa unnið við Vesturbæjarlaug fyrir fyrirtækið, en tók fram að það hefði aðeins falist í því að jafna fláa undir gras og væri reikningur vegna þess ekki meðal þeirra sem um væri deilt í málinu. Við sama tækifæri kvaðst A kannast við að hann og ákærði hefðu rætt um skiptivinnu þeirra í milli. Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra og síðar hjá héraðssaksóknara var haft eftir A að hann myndi ekki eftir fyrstu þremur reikningunum hér að framan, en tók þó síðar fram að hann hefði ekki unnið öll þessi verkefni. Hjá skattrannsóknarstjóra sagði hann jafnframt að hann hefði ekkert unnið fyrir SS Verk ehf. á árinu 2014. Hins vegar kannaðist hann við síðustu tvo reikningana, þ.e. vegna Flugstjórnarmiðstöðvar og Álfhólsvegar, og sagðist sjálfur hafa skrifað þá. Hafi hann sjálfur unnið að þeim verkum, ásamt fimm Pólverjum sem hann hafi haft í vinnu. Engin gögn liggja fyrir um þá starfsmenn og kvaðst A hafa greitt þeim laun með peningum sem hann átti sjálfur, 200 – 300 þúsund krónur á mánuði. Við sama tækifæri játaði A að hafa gefið út reikningana í nafni Z ehf., án heimildar og vitneskju eiganda þess fyrirtækis og forstöðumanns, B.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Fyrirtækjaskrá var félagið Þ ehf. stofnað 13. febrúar 2014 og var D skráður stofnandi þess, stjórnarformaður og prókúruhafi. A var skráður skoðunarmaður félagsins frá stofnun til 10. júní 2014. Með tilkynningu 25. október 2014 var nafni þess félags breytt í Z ehf., en þá hafði B keypt allt hlutafé Þ ehf. Var B frá þeim tíma skráður stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins, en A var skráður skoðunarmaður félagsins.

Ekki er um það deilt að ákærði var eini eigandi og daglegur stjórnandi SS Verks ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Óumdeilt er einnig að B gaf ekki út áðurnefnda reikninga í nafni Z ehf. og kom ekkert að þeim verkum sem þar eru tilgreind. Hefur A reyndar viðurkennt að hafa gefið út tvo síðastgreindu reikningana í nafni þess félags, án vitundar og heimildar B. Hins vegar kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa gefið út þrjá fyrsttöldu reikningana. Ákærði bar hins vegar fyrir dómi að hann myndi vel eftir þessum reikningum og hefði A afhent honum þá. Sagði hann að fyrstu þrjá reikningana hefði A skrifað í samráði við hann á kaffistofu SS Verks ehf., en tvo síðustu hefði A komið með. Mótmælti ákærði því að reikningarnir væru tilhæfulausir, en fullyrti þvert á móti að A hefði unnið þau verk sem þar væru tilgreind. Kvaðst hann hafa samið við A um að hann ynni fyrir SS Verk ehf. í vinnuskiptum. A væri gröfumaður, en einnig hefði hann haft ýmsa góða iðnaðarmenn á sínum snærum. Sagðist ákærði ekki hafa gert neina sjálfstæða athugun á félaginu Z ehf. þótt A hefði gefið reikningana út í nafni þess félags. Þó hefði hann athugað hvort virðisaukaskattsnúmerið væri opið og hefði svo verið. Þá sagðist hann ekki vita hver hefði kvittað á reikningana sem greidda, en allir væru þeir ógreiddir. Hins vegar hefðu þeir verið gjaldfærðir og innskattaðir í bókhaldi SS Verks ehf. Fram kom og í máli ákærða að hann þekkti ekkert til B og hefði hann aldrei hitt hann.

Eins og áður greinir krefst ákærði þess að sakargiftum á hendur honum samkvæmt I. lið ákærunnar verði vísað frá dómi. Byggist krafan á því að rannsókn málsins sé ábótavant, og í raun ólokið, þar sem hvorki skattyfirvöld né lögreglan hafi yfirheyrt þá einstaklinga sem ákærði og/eða A bentu á í því skyni að sannreyna staðhæfingar ákærða um að þau verk hefðu verið unnin sem reikningarnir hljóða um. Þá hafi sömu aðilar að engu haft þau gögn sem ákærði lagði fram máli sínu til stuðnings.

Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði var ítrekað hvattur til þess að leggja fram gögn til stuðnings títtnefndum reikningum eða að benda á aðila sem gætu stutt fullyrðingar hans um að A, eða menn á hans vegum, hefðu unnið þau verk sem reikningarnir tilgreina. Í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra 8. júlí 2015 tilgreindi ákærði nokkra einstaklinga, þáverandi starfsmenn SS Verks ehf., sem hann taldi að gætu vitnað um verkefni A við vinnu á Álfhólsvegi samkvæmt reikningi 20. febrúar 2015. Þeir einstaklingar voru þó ekki yfirheyrðir og telur dómurinn það engu breyta um sakarefni málsins, enda var framburður ákærða um það verk einkar ótrúverðugur og sumpart fjarstæðukenndur, auk þess sem ætla má að annar aðili hafi greitt A fyrir þau verk sem hann kvaðst hafa unnið þar. Þá verður með engu móti séð að þau takmörkuðu gögn sem ákærði lagði síðar fram styðji þá reikninga sem um er deilt í málinu, en hafa ber í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum. Til þess hafði ákærði alla möguleika allt frá upphafi rannsóknar, og verður ekki á það fallist að rannsóknaraðilum hafi verið skylt að aðhafast frekar en gert var. Eru því engir annmarkar á rannsókn málsins sem valdið geta frávísun þessa ákæruliðar frá héraðsdómi. Verður frávísunarkröfu ákærða því hafnað.

Að öllu framansögðu virtu þykja skýringar ákærða og vitnisins A á þeim reikningum sem hér eru til umfjöllunar haldlitlar, mótsagnakenndar og ótrúverðugar. Þykir dóminum þvert á móti fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. lið ákærunnar. Í ljósi atvika og verknaðaraðferðar verður háttsemi hans virt honum til ásetnings. Eru brotin réttilega heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Á hinn bóginn er ástæðulaust að draga í efa að ákærði hafi ekki vitað að A hefði ekki umboð til að gefa út títtnefnda reikninga í nafni Z ehf.

Ákærði er fæddur í [...] og hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði ekki áður sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða samkvæmt I. lið ákæru voru stórfelld og unnin af ásetningi. Brot ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæruliðar II A teljast einnig stórfelld, en verða í þeim tilvikum virt honum til stórkostlegs hirðuleysis. Taka verður hins vegar tillit til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingum, auk þess sem hann játaði skýlaust brot sín samkvæmt ákærulið II A. Samkvæmt því þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði, en eftir atvikum verður sú refsing skilorðsbundin eins og nánar greinir í dómsorði.

Samhliða skilorðsbundinni refsivist verður ákærði í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda einnig dæmdur til greiðslu fésektar. Vegna brota samkvæmt I. ákærulið verður sú sekt ákveðin þreföld offramtalin skattfjárhæð, en tvöföld skattfjárhæð samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæruliðar II A, eða samtals 137.000.000 króna. Ekki eru skilyrði til þess að takmarka sektarfjárhæð samkvæmt fyrri ákæruliðnum við lágmark viðeigandi lagaákvæðis. Verður ákærða gert að greiða fésekt þessa innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæta ella fangelsi í 360 daga.

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar lögmanns, 2.360.000 krónur. Ekki er hins vegar efni til að ákvarða lögmanninum þóknun vegna aksturs innan höfuðborgarsvæðisins.  

Eins og áður segir ákvað ákæruvaldið við upphafi aðalmeðferðar málsins að falla frá sakargiftum á hendur X og Y samkvæmt ákæruliðum II B og C. Af því tilefni kröfðust skipaðir verjendur þeirra beggja, Páll Kristjánsson lögmaður, verjandi X, og Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, verjandi Y, þess að þóknun yrði greidd þeim úr ríkissjóði. Með hliðsjón af gögnum málsins, umfangi þess og ætluðu vinnuframlagi verjendanna, svo og með vísan til leiðbeinandi reglna dómstólasýslunnar nr. 11/2018, ákveðst þóknun til Páls Kristjánssonar lögmanns 527.000 krónur, en þóknun til Sveins Andra Sveinssonar lögmanns 737.800 krónur. Greiðist þóknun þeirra úr ríkissjóði.

Tilnefndur verjandi X á rannsóknarstigi málsins, Björn Ólafur Hallgrímsson lögmaður, hefur krafist þess að dómurinn taki til endurskoðunar ákvörðun skattrannsóknarstjóra um þóknun vegna starfa hans við rannsókn málsins hjá skattyfirvöldum, og ákvarði honum frekari þóknun vegna þeirra starfa. Með vísan til 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 er þeirri ósk hafnað.

Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar verjenda hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.   

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Kröfu ákærða, Sigurðar Kristinssonar, um frávísun sakargifta samkvæmt I. lið ákæru í máli þessu er hafnað.

Ákærði sæti fangelsi í 20 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá greiði ákærði 137.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar lögmanns, 2.360.000 krónur.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda X, Páls Kristjánssonar lögmanns, 527.000 krónur, svo og þóknun skipaðs verjanda Y, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 737.800 krónur.

 

Ingimundur Einarsson