• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skjalafals
  • Útivist

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 29. janúar 2019 í máli nr. S-543/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Preng Prendi

 

Mál þetta, sem dómtekið var fyrr í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum útgefinni 29. október 2018 dag á hendur ákærða, Peng Prendi, fæddum […], albönskum ríkisborgara;

fyrir skjalafals, með því að hafa, sunnudaginn 7. október 2018, framvísað við lögreglu, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni ítölsku kennivottorði nr. […] á nafni  […], fd. […]á  Ítalíu, með gildistíma frá 26. júlí 2017 til 17. maí 2028, sem reyndist vera grunnfalsað, er ákærði kom í vegabréfaskoðun vegna flugs til WW-644 til London, Englandi.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Fyrirkall í málinu var fyrst gefið út 21. nóvember 2018 en birting þess tókst ekki. Fyrirkall var gefið út að nýju 12. desember 2018 og var það birt í Lögbirtingablaði 21. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins fyrr í dag sótti ákærði ekki þing og boðaði ekki forföll og var málið þá dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Forsendur og  niðurstaða:

Með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar og önnur skilyrði ákvæðisins eru einnig uppfyllt í málinu. Brot ákærða telst því sannað og varðar það við tilgreint lagaákvæði í ákæru.

Sakavottorð ákærða, sem er albanskur ríkisborgari, liggur ekki frammi í málinu. Engra gagna nýtur um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Verður við ákvörðun refsingar tekið mið af þeirri staðreynd. Svo sem málið liggur fyrir þykja ekki vera efni til þess að víkja frá fastmótaðri dómvenju í málum sem þessu. Refsing ákærða þykir samkvæmt því réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Eingöngu er um að ræða þóknun tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, er hæfilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Peng Prendi, fæddur  […], sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði þóknun tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Halldóru Aðalsteindóttur lögmanns, 73.780 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson