• Lykilorð:
  • Endurgreiðslukrafa
  • Leigusamningur
  • Trygging
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 6. desember 2018 í máli nr. E-629/2018:

John Quayson Quayson

Josue Martin Moncada Ruiz

(María Klara Jónsdóttir hdl.)

gegn

Reyni Daða Hallgrímssyni

(Elva Ósk Wiium hdl.)

 

Mál þetta var þingfest 27. júní sl. og dómtekið 29. nóvember sl. Stefnendur eru John Quayson Quayson, kt. 000000-0000, og Josue Martin Moncada Ruiz, kt. 000000-0000, sem hvorugir hafa lögheimili á Íslandi. Stefndi er Reynir Daði Hallgrímsson, kt. 000000-0000, Glitvöllum 34, 221 Hafnarfirði.

Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda John Quayson Quayson, kt. 000000-0000, 310.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2017 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun þann 22. nóvember 2017 að fjárhæð 70.000 krónur sem dragast skuli frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda Jouse Martin Moncada Ruiz, kt. 000000-0000, 150.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2017 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun þann 22. nóvember 2017 að fjárhæð 70.000 krónur sem dragast skuli frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnenda en til vara að fjárkrafa stefnenda verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar.

 

Málavextir.

Þann 1. nóvember 2017 gerðu stefndi og Linda Chinyese Anizoba með sér skriflegan leigusamning þar sem Linda tók á leigu 86 fermetra fjögurra herbergja íbúð að Glitvangi 34 í Hafnarfirði. Samkvæmt stefnda er um einbýlishús að ræða en stefndi hefur útbúið aðra íbúð í húsinu sem hann leigir út. Var leigugjaldið fyrir hvern mánuð 220.000 krónur sem skyldi greiða fyrirfram 1. hvers mánaðar inn á bankareikning 537-26-9446. Var umsamin trygging fyrir vanskilum og skemmdum ákveðin 440.000 krónur. Í leigusamningnum kemur fram að leigjanda sé óheimilt að framselja leigurétt sinn. Samkvæmt stefnda kvaðst Linda ekki hafa íslenska kennitölu og gæti því ekki lagt húsaleiguna inn á reikning stefnda í eigin nafni og samkvæmt stefnda hafi vinnuveitandi hennar staðfest í áheyrn stefnda að ef leigugreiðslur skiluðu sér ekki myndi vinnuveitandi hennar ábyrgjast greiðslur. Undir leigusamninginn ritaði leigutaki og Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, eiginkona stefnda, sem umboðsmaður hans.

            Stefnendur og stefndi, ásamt vitnum, eru ekki sammála um málsatvik og framvindu málsins.

            Þann 4. nóvember 2017 var lögregla kölluð til vegna líkamsárásar að Glitavöllum 34 í Hafnarfirði og voru stefnendur, Linda, túlkur og Rúmeni að nafni Nicu handtekin og færð í gæsluvarðhald.

            Í kjölfarið var stefnendum ekki hleypt inn í íbúðina aftur. Samdi Linda við stefnda um að leigja íbúðina áfram sem og stefndi samþykkti.

            Í gögnum málsins liggur fyrir bankakvittun dagsett 1. nóvember 2017 þar sem stefnandi John Quayson Quayson lagði 460.000 krónur inn á bankareikning stefnda. Engin skýring er sögð á greiðslunni. Þann sama dag tók stefnandi John út í peningum 310.000 krónur og stefnandi Josue 150.000 krónur. Þá liggur fyrir bankakvittun dagsett 22. nóvember 2017 þar sem 140.000 krónur eru greiddar inn á reikning Íslensku lögfræðistofunnar og gefin skýringin Linda Chinyere. Að auki er bankakvittun dagsett 1. desember 2017 að fjárhæð 440.000 krónur,  greiddar inn á reikning stefnda og er greiðandi North Is ehf. Að auki eru tvær bankakvittanir í framhaldi að fjárhæð 220.000 krónur, greiddar af North Is ehf. inn á bankareikning stefnda og ein bankakvittun dagsett 2. mars 2018 þar sem greiðandi er Innocent Uch Nwadike og viðtakandi stefndi.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja á því að komist hafi á bindandi leigusamningur á milli stefnenda og stefnda og gildi  húsaleigulög nr. 36/1994 um réttarsamband aðila. Byggja stefnendur á því að skilyrði bindandi samninga séu ekki skriflegir samningar, munnlegir samningar séu jafngildir að lögum. Þótt ekki hafi verið gengið frá skriflegum leigusamningi milli aðila, þá hafi stefndi boðið fram húsnæði til leigu og stefnendur reitt fram leigugreiðslu auk tryggingar og því beri að líta á sem svo að samningur hafi stofnast milli aðila. Þar að auki kveði 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 á um að ef vanrækt sé að gera skriflegan leigusamning þá teljist aðilar hafa gert með sér ótímabundinn leigusamning og öll ákvæði laganna gildi um réttarsamband þeirra.

Stefnendur byggja á því að stefndi hafi komið fram sem leigusali og beri ábyrgð á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem greidd hafi verið vegna leigunnar. Stefndi sé eigandi eignarinnar sem stefnendur leigðu og hafi leigugreiðslan og tryggingarféð verið lagt inn á reikning stefnda að hans kröfu. Enginn skriflegur samningur liggi fyrir og einu sýnilegu sönnunargögnin um leiguna sé greiðslukvittun um millifærslu inn á bankareikning stefnda. Stefndi sé af þeim sökum sá sem hafi komið fram gagnvart stefnendum vegna leigunnar og beri með réttu ábyrgð á kröfu þeirra.

Stefnendur byggja á því að þeir hafi átt tilkall til hins leigða húsnæðis þar sem þeir hafi greitt leigu fyrirfram líkt og ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 kveði á um. Slík ályktun sé í samræmi við meginreglur kröfuréttar um efndir in natura og meginreglur samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Háttsemi stefnda beri með sér að hann hafi rift samningnum og meginreglur kröfuréttar um réttaráhrif riftunar kveði á um að þær greiðslur sem þegar hafi farið fram skuli þá ganga til baka.

Stefnendur byggi á því að ekki hafi verið gætt að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 við útburð og riftun leigusamnings. Lögin kveði með ítarlegum hætti á um réttarsamband leigusala og leigjenda, þ. á m. hvernig standa skuli að uppsögn og riftun leigusamninga. Stefnendur hafi verið bornir út án undanfarandi tilkynningar og meinaður aðgangur að hinu leigða húsnæði en þessi framkvæmd sé í hróplegu ósamræmi við ákvæði laganna. Þar sem stefnendur höfðu greitt fyrir leiguafnot sem þeir gátu ekki nýtt sér vegna atvika sem rakin verða að öllu leyti til stefnda ber þeim síðarnefnda að endurgreiða fjárhæðina að fullu.

Stefnendur byggja einnig á því að stefnda sé óheimilt að halda eftir því tryggingarfé sem þeir hafi lagt fram. Stefnendur hafi ekkert aðhafst í húsnæðinu sem hafi verið til þess fallið að valda tjóni á eigninni og eigi því rétt á endurgreiðslu á allri fjárhæðinni. Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skuli leigusali svo fljótt sem auðið er, og ekki síðar en innan fjögurra vikna, tilkynna leigjanda ef hann hyggst gera kröfu í tryggingarféð, sbr. einnig 64. gr. laganna. Slík tilkynning hafi aldrei borist og áttu stefnendur ekki kost á því að andmæla mögulegum staðhæfingum stefnda um að þeir hafi valdið tjóni á húsnæðinu.

Einnig byggja stefnendur á almennum reglum skaðabótaréttar um sönnun tjóns og 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þar sem segir að ekki megi rast﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽a nr. 36/1994 þar sem segir að ekki megi rdið tj til baka. ram og þar með fyrir getur aukið lefni hennar er sambærilegáðstafa né taka af tryggingarfé án samþykkis leigjanda nema endanleg niðurstaða liggi fyrir um bótaskyldu leigjanda.

Stefnendur vísa til meginreglna leiguréttar og ákvæða húsaleigulaga nr. 36/1994, einkum II. kafla, VII. kafla og XII. kafla. Einnig er vísað til meginreglna kröfuréttar um efndir og réttaráhrif riftunar en þær reglur fá m.a. lagastoð í ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sem og í reglum um brostnar forsendur sem m.a. fá stoð í lögum nr. 7/1936. Þá vísa stefnendur til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns tjónþola.

Krafa stefnenda um dráttarvexti er reist á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um samlagsaðild stefnenda í máli þessu vísast til 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um varnarþing er vísað til 32. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndi krefst aðallega þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega að mati dómsins. Þá krefst stefndi þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað in solidum að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, þar sem tekið er tillit til virðisaukaskatts.

            Stefndi segir að við gerð leigusamningsins við Lindu hafi orðið að samkomulagi að hún greiddi stefnda 460.000 krónur sem væri húsaleiga, 220.000 krónur, fyrir nóvembermánuð og 240.000 krónur sem hluti af 440.000 króna tryggingu. Til viðbótar myndi Linda greiða Nicu, fyrrverandi leigjanda, sem Linda þekkti, 200.000 krónur sem stefnda hafi borið að endurgreiða honum. Með því hefði Linda fullnægt leigusamningum með því að greiða 440.000 krónur í tryggingu. Hafi þetta verið gert til hagsbóta fyrir alla aðila. Stefndi hafi verið upplýstur um að leigan kæmi ekki af reikningi í nafni Lindu heldur frá vinnuveitanda leigjanda eða öðrum tengdum aðila. Því hafi það ekki vakið upp neinar grunsemdir hjá stefnda að leigan/tryggingin væri millifærð af reikningi annars aðila en Lindu, þ.e. af reikningi stefnanda Johns og hafi hann verið í góðri trú um að greiðslan tilheyrði Lindu. 

Það var samkomulag milli stefnda og leigjandans Fanariu Nicu Eugen, kt. 000000-0000, að ljúka tímabundnum leigusamningi, sem var dagsettur 20. maí 2017, þann 1. nóvember 2017 en sá samningur hafi átt að gilda til 30. apríl 2018. 

Leigjandinn, Linda, hafi flutt inn 1. nóvember 2017 og átti fyrrverandi leigjandi, Fanariu Nicu, eftir að sækja hluta af sínu dóti. Þann 4. nóvember 2017 hafi Linda hringt í konu stefnda hágrátandi af hræðslu og sagst vera lokuð inni í herbergi þar sem hnífabardagi væri inni í íbúðinni. Voru allir viðstaddir í íbúðinni handteknir af lögreglu.

Stefnda hafi verið mjög brugðið þegar í ljós kom í samræðum við lögregluna að leigjandinn Linda hefði framleigt stefnendum, þeim John og Jouse, herbergi án leyfis stefnda og í bága við 2. mgr. 11. gr. leigusamningsins. Miklar skemmdir hafi orðið á íbúðinni við átökin og hafi orðið samkomulag milli stefnda og Lindu um að tryggingarféð yrði notað til þess að bæta skemmdirnar. Einnig var henni gert að leggja aftur inn tryggingu og var það gert.

Sú greiðsla kom frá North Is ehf. Þá hafi Linda endurgreitt stefnendum 140.000 krónur sem hafi átt að vera þeirra hlutdeild í mánaðarleigunni. 

Stefndi mótmælir þeim málsástæðum stefnenda sem röngum og ósönnuðum að hann hafi boðið stefnendum til leigu hluta af húsnæði sínu að Glitvöllum 34, Hafnarfirði. Að hann hafi gert að kröfu að stefnendur legðu inn 460.000 krónur vegna tryggingar og í fyrirfram greidda húsaleigu. Að til staðar hafi verið samningur um leigu á húsnæði hans. Að réttarsamband hafi stofnast milli stefnenda og hans. Að hann hafi komið fram sem leigusali gagnvart stefnendum og beri ábyrgð á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem greidd var af stefnendum. Að stefnendur hafi átt tilkall til hins leigða húsnæðis. Að stefndi hafi rift meintum samningi við stefnendur, enda enginn samningur og ekkert réttarsamband til staðar. Að stefndi hafi ekki gætt að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 við útburð og riftun, enda enginn leigusamningur til staðar og því gildi ekki lögin. Að stefnda sé óheimilt að halda eftir því tryggingarfé sem stefnendur lögðu fram. Að stefnendur hafi ekkert aðhafst í húsnæðinu sem var til þess fallið að valda tjóni á eigninni og lögregluskýrsla sanni að húsaleigulög nr. 36/1991 og almennar reglur skaðabótaréttar eigi ekki við í máli þessu.

Einnig mótmælir stefndi öllu því sem kemur fram í stefnu og sem fer í gegn málavöxtum og málatilbúnaði stefnda.

Stefndi byggir á því að stefnendur byggi málatilbúnað sinn alfarið á röngum og ósönnuðum fullyrðingum og sé bagalegt fyrir stefnda að þurfa að taka til varnar í slíku máli. Stefndi byggir á því að stefnendur eigi enga lögvarða hagsmuni á hendur stefnda og beri því að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Það er ekkert réttarsamband milli stefnenda og stefnda. Stefndi hafði aldrei heyrt um stefnendur eða þekkt til þeirra fyrr en eftir árásina þann 4. nóvember 2017. Réttarsambandið er milli Lindu Chinyere Anizola og stefnda. Samkvæmt leigusamningi sé bannað að framselja leigurétt eða framleigja hið leigða án samþykkis leigusala, sbr. 2. mgr. 11. gr. leigusamningsins og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 36/1994. Það að leigjandinn Linda hafi framleigt stefnendum herbergi í hinu leigða leiði ekki til þess að réttarsamband myndist milli stefnenda og stefnda. Hafi það verið gert í leyfisleysi og án vitneskju stefnda og hafi hann verið í góðri trú.

Stefnendur geti ekki byggt rétt sinn á ólöglegu athæfi, þ.e. ólöglegri framleigu, og ef þeir telji sig eiga endurgreiðslukröfu þá sé henni ekki beint að réttum aðila. Stefnendum hafi ekki tekist að sanna að réttarsamband hafi myndast milli þeirra og stefnda. Stefndi hafi enga vitneskju haft um stefnendur fyrr en eftir atburðinn þann 4. nóvember 2017. Það sama gildi að ekki hafi þeim tekist að sanna að þeir eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda.

Með vísan til framangreinds eigi stefnendur því ekki lögvarða hagsmuni á hendur stefnda og beri að sýkna hann. Ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefnda þá beri að lækka verulega kröfur stefnenda á hendur stefnda á grundvelli sömu málsástæðna.

Það sé skýrt í 29. og 30. gr. laga nr. 36/1994 að leigjandi skuli í hvívetna fara með leiguhúsnæðið á þann hátt sem samræmist góðum venjum um meðferð húsnæðis og er skylt að ganga vel og snyrtilega um hið leigða húsnæði. Það sama gildir um aðila á ábyrgð leigjandans.

Unnar hafi verið miklar skemmdir á hinu leigða þann 4. nóvember 2017 og hafi leigjandinn Linda samþykkt að tryggingarfénu yrði ráðstafað til þess að bæta skemmdirnar, sbr. 10. gr. leigusamningsins. Tryggingin hafi m.a. verið sett vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi beri ábyrgð á. Leigjandinn Linda hafi viðurkennt þessa ábyrgð og sé tilbúin að staðfesta það fyrir dómi. Tryggingunni hafi þannig verið ráðstafað skv. ákvæðum húsaleigulaga vegna skemmda sem stefnendur sannarlega unnu á hinu leigða.  

Jafnframt samþykkti Linda að greiða á ný tryggingu til stefnda. Þá hafi Linda endurgreitt stefnendum sinn hluta í leigunni, 140.000 krónur,  og voru stefnendur upplýstir um að þeir fengju ekki sinn hluta af tryggingunni endurgreiddan.

Stefnendur byggi á því að húsaleigulög nr. 36/1994 eigi við þar sem samningur hafi stofnast á milli stefnenda og stefnda á grundvelli laganna. Ekki sé byggt á öðrum grunni. Eins og að framan greini þá sé ljóst að ekkert réttarsamband hafi stofnast og enginn samningur sé til staðar og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Húsaleigulögin taki því ekki til þessarar kröfu stefnenda á hendur stefnda.

Stefndi gerir kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda in solidum og sé krafan reist á 129. gr., 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Mál þetta sé höfðað að þarflausu og án nokkurs tilefnis. Einnig byggja stefnendur alfarið málið á grundvelli staðhæfinga sem séu rangar og haldlausar. Stefnda sé gert að taka til varnar með tilheyrandi kostnaði sem sé langt umfram dómkröfur stefnenda. 

 

Stefndi gerir jafnframt kröfu um að stefnendur setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Í stefnu komi fram að stefnendur eigi hvorugir lögheimili á Íslandi án þess að lögheimilið sé tilgreint frekar. Það sé alveg óljóst hvort þeir eigi lögheimili innan Evrópska efnahagssvæðisins eða hvort þeir séu færir um greiðslu málskostnaðar. Stefndi hafi sjálfur mætt við þingfestingu málsins og hafi ekki notið aðstoðar lögmanns og komi krafa þessi fram við fyrsta hentugleika, í greinargerð þessari.

Stefndi byggir kröfur sínar á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, þá sérstaklega 16. gr. laganna, húsaleigulögum nr. 36/1994, þá sérstaklega 29. gr., 30. gr., 39. gr. og 44. gr. laganna og meginreglum samningaréttar. Varðandi málskostnaðinn vísast til 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Skýrslur fyrir dómi.

Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi John Quayson Quayson, stefndi, vitnið Linda Chinyere sem gaf símaskýrslu og vitnið Sigrún Lilja Guðjónsdóttir. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þörf þykir við úrlausn málsins. Stefnandi Josue Martin Moncada Ruiz gaf ekki skýrslu fyrir dóminum þrátt fyrir að hafa setið í dómsal við aðalmeðferð málsins.

Forsendur og niðurstaða.

Framburður stefnanda Johns er í algjörri andstöðu við framburð annarra fyrir dómi í máli þessu. Kveðst hann hafa gert munnlegan leigusamning við stefnda og eiginkonu stefnda um leigu á herbergi og hafi eiginkona stefnda gefið honum upp reikningsnúmer sem honum bæri að leggja tryggingu og leigugreiðslur inn á. Það hafi hann gert þann 1. nóvember 2017 með því að greiða 460.000 krónur inn á bankareikning stefnda. Kallaði stefnandi eiginkonu stefnda Evu í framburði sínum fyrir dóminum. Við það nafn kannaðist stefndi ekki né vitnið Sigrún Lilja.

            Eins og ráða má af gögnum málsins var gerður leigusamningur við vitnið Lindu Chinyere þann 1. nóvember 2017. Kvað vitnið Sigrún stefnanda John hafa verið með Lindu þegar skrifað var undir leigusamninginn á skrifstofu vinnuveitanda Lindu. Hafi hún kynnt hann sem vin sinn. Enginn leigusamningur hafi verið gerður við stefnendur né hafi verið rætt um það að John væri einnig leigjandi.

            Stefndi hafnaði því algjörlega fyrir dóminum að hafa samþykkt að Linda framleigði stefnendum íbúðina eða hluta af henni. Undir það tók vitnið Sigrún Lilja. Þá kvaðst vitnið Linda ekki hafa fengið samþykki stefnda til að leigja stefnendum né upplýst stefnda um að hún hefði það í hyggju.

            Vitnið Linda kvaðst hafa kynnst stefnendum í gegnum Nicu sem hafi verið fyrri leigjandi íbúðarinnar en stefnendur hafi verið þar þegar vitnið kom í íbúðina. Kvaðst vitnið hafa leyft stefnendum að vera áfram í íbúðinni. Kvaðst vitnið hafa talið að stefndi og Sigrún hafi vitað um veru stefnenda þegar það undirritaði leigusamninginn 1. nóvember. Vitnið hafi hins vegar ekki rætt það við stefnda. Kvaðst vitnið hafa afhent stefnendum peninga og þeir hafi síðan greitt féð inn á bankareikning stefnda. Vitnið kvaðst hafa sagt stefnda, við gerð leigusamningsins, að greiðslan kæmi ekki af hennar bankareikningi þar sem það hefði ekki íslenska kennitölu. Kvað vitnið Nicu hafa komið í íbúðina 4. nóvember 2017 til að sækja rest af eigum sínum. Skyndilega hafi stefnendur og Nicu rifist á spænsku og í framhaldi hafi orðið mikil slagsmál sem hafi endað með því að maður sem einnig hafi verið þar hafi verið stunginn með hníf. Vitnið hafi því forðað sér inn í herbergi og hringt í vitnið Sigrúnu. Lögreglan hafi síðan komið og handtekið alla sem voru í íbúðinni. Kvaðst vitnið aðspurt hafa verið eigandi að öllu leirtaui og innanstokksmunum sem hafi skemmst en leigusali verið eigandi að fasteigninni. Vitnið kvað stefnda hafa hennar samþykki fyrir því að tryggingarféð færi í viðgerðir vegna skemmdanna. Vitnið kvaðst sjálft hafa gefið John upp bankaupplýsingar um reikning til að leggja húsaleiguna inn á. Vitnið kvaðst ekki hafa gert sérstakan leigusamning við stefnendur.

            Stefndi kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um veru stefnenda í íbúðinni þann 4. nóvember 2017 þegar slagsmálin urðu og þá frá lögreglunni.

            Stefnendur halda því fram að komist hafi á skuldbindandi munnlegur leigusamningur á milli þeirra og stefnda. Gegn neitun stefnda bera stefnendur sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu.  Eins og lýst er að framan, neitar stefndi að hafa haft vitneskju um að Linda hafi framleigt herbergi í íbúðinni. Staðfesti Linda fyrir dóminum að hún hafi ekki upplýst stefnda um það. Þá er ósannað að stefndi hafi vitað um að stefnendur hafi talið sig vera leigjendur en þeir voru kunningjar Nicu og ílengdust síðan í íbúðinni eftir að Linda gerði leigusamninginn 1. nóvember 2017. Óljóst er hversu lengi þeir hafi verið í íbúðinni á vegum Nicu en þeir voru einungis fjóra daga þar á vegum vitnisins Lindu.

Framburður Lindu fyrir dómi er trúverðugur og kemur heim og saman við framburð stefnda og vitnisins Sigrúnar auk þess sem engin gögn málsins bera það með sér að þeir hafi verið leigjendur í skilningi húsaleigulaga nr. 36/1994.

            Linda kvaðst hafa útskýrt fyrir stefnda, þegar hún gerði leigusamninginn, að greiðslur myndu ekki berast í hennar nafni. Skýringar stefnda eru trúverðugar þegar hann kvaðst hafa talið greiðsluna 1. nóvember hafa stafað frá Lindu en hún hafi upplýst hann um að greiðsla myndi berast frá öðrum en henni.

            Af öllu því sem rakið hefur verið telur dómurinn að stefnendur hafi gert samkomulag við vitnið Lindu um veru þeirra í íbúðinni en ekki stefnda. Styður frásögn Lindu það. Þá kvaðst Linda hafa afhent stefnanda John peninga til að leggja inn á reikning stefnda. Ekkert er fram komið í málinu um að stefndi hafi haft vitneskju um það fyrirkomulag eða það samkomulag sem stefnendur og Linda höfðu gert á milli sín um leigugreiðslur og tryggingu til stefnda. Þá hefur skýring stefnda á fjárhæðinni, 460.000 krónum, eins og rakið er að framan, ekki verið hrakin. Að auki er ekkert vitað að hvaða leyti stefnandi Jouse tengist stefnda, hvort hann var við samningagerðina, hvaða fé hann tók við af Lindu og hvað hann lagði til sjálfur við fyrstu greiðsluna nema það sem fram kemur í stefnu og úttektarnótu frá banka. Stefnandi Jouse sat í dómsal við aðalmeðferð málsins án þess að kynna sig fyrir lögmanni sínum eða öðrum en stefnandi John kvað hann vera vin sinn. Stefnandi Jouse gaf því ekki skýrslu fyrir dóminum sem hefði mátt upplýsa málið betur.

            Af öllu framangreindu virtu telur dómurinn að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að leigusamningur hafi stofnast á milli þeirra og stefnda. Verður stefndi því sýknaður á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

            Að þessum málalokum virtum verður stefnendum, með vísan til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, gert að greiða stefnda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ.

Stefndi, Reynir Daði Hallgrímsson, er sýkn í máli þessu.

            Stefnendur, John Quayson Quayson og Jouse Martin Moncada Ruiz, greiði stefnda in solidum 800.000 krónur í málskostnað.

 

                                    Ástríður Grímsdóttir