• Lykilorð:
  • Fjárdráttur
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Skaðabætur
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 12. febrúar 2019 í máli nr. S-604/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Veigari Þór Hönnusyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. desember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 29. október 2018 á hendur ákærða, Veigari Þór Hönnusyni, kt. […], […], […]:

I

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 3. janúar 2016, stolið úr Hagkaup Smáralind, hlýrabol og sanita klossum. Tjón af háttsemi ákærða er 12.328,-.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Fyrir fjárdrátt, með því að hafa, þann 30. mars 2016, millifært af reikningi A, kt. […], í Íslandsbanka 190.000,- kr. yfir á sinn eigin bankareikning, sem hann síðan tók út af sama dag. Tjón af háttsemi ákærða er kr. 190.000,-.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 10. ágúst 2016, ekið bifreiðinni […], Suðurgötu skammt frá Túngötu í Sandgerði, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól mældist í blóði 35 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Vegna ákæruliðar I krefst B, f.h. Haga hf., kt. […], að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 12.328,- auk vaxta frá tjónsdegi samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að ákærði játaði sakargiftir skýlaust við þingfestingu málsins og eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Við þingfestingu máls þessa játaði ákærði brot sín án undandráttar. Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 2008. Það sem einkum skiptir máli hér er að 17. janúar 2014 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur þriðja sinni sviptur ökurétti. Þá var hann 8. september sama ár dæmdur í fimm mánaða fangelsi, meðal annars fyrir fjórðu ítrekun gegn ákvæði 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og akstur sviptur ökurétti, þriðju ítrekun. Með vísan til sakaferils ákærða og að brotum hans virtum þykir refsing hans réttilega ákveðin sex mánaða fangelsi.

Fyrir liggur að meðferð máls þessa dróst mjög. Málið er lítið að umfangi og samkvæmt framlögðum gögnum lauk rannsókn þess á árinu 2016. Ákæra málsins var hins vegar ekki gefin út fyrr en 29. október 2018. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á þessum mikla drætti sem varð á málsmeðferðinni. Er hann sérlega bagalegur í ljósi þess að eftir að ákærði framdi brot sín hefur hann tekið sig á. Hann fór í meðferð til þess að vinna bug á fíkn sinni og er nú í fastri vinnu. Það yrði því verulega íþyngjandi fyrir ákærða að fá nú, löngu eftir að hann framdi brot sín, óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Að þessu gættu þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt framansögðu var ákærði sviptur ökurétti ævilangt með dómi 8. september 2014 vegna brots gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Brot ákærða gegn ákvæðinu er nú ítrekað fimmta sinni. Að því athuguðu, sbr. einnig 101. og 102. gr. umferðarlaga, og í samræmi við kröfugerð ákæruvalds verður ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Við þingfestingu málsins samþykkti ákærði skaðabótakröfu Haga hf. Á grundvelli þess samþykkis verður ákærði dæmdur til greiðslu kröfunnar með vöxtum og dráttarvöxtum með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað. Ákærði dæmist því til að greiða sakarkostnað samkvæmt framlögðum yfirlitum, samtals 153.111 krónu. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, sem eftir umfangi málsins og að því gættu að lögmaðurinn hefur þegar fengið greidda þóknun vegna skýrslutöku á rannsóknarstigi þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Veigar Þór Hönnuson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 300.671 krónu í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 147.560 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði greiði Högum hf. 12.328 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. janúar 2016 til 3. janúar 2019 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson