• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 15. október 2018 í máli nr. S-377/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Bogdan Cybulski

(Helgi Jóhannesson lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 13. ágúst 2018, á hendur Bogdan Cybulski, kt. 000000-0000, [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa, þann 6. október 2016, slegið B, kt. 000000-0000, hnefahöggi með hægri hendi í andlitið þar sem þeir voru staddir á [...], Reykjanesbæ, með þeim afleiðingum að B hlaut skurð á efri vör utanvert vinstra megin og vinstri framtönn losnaði.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir brotaþoli, B, kt. 000000-0000, bótakröfu á hendur ákærða, samtals að fjárhæð kr. 1.234.066,- ásamt vöxtum af fjárhæð kr. 500.000,- skv. 8. Gr., sbr. 4. Gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. Október 2016 til þess dags er liðinn er mánuður frá því að krafan er kynnt ákærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. IV. Kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. Gr. laganna af fjárhæð 1.234.066 kr., allt til greiðsludags.“

Ákærði kom fyrir dóm og játaði sök samkvæmt ákæru, en krafðist þess að bótakrafa yrði lækkuð. Með játningu sinni, sem fær næga stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa, er ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar en fallast verður að heimfærslu til refsiheimildar í ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Verður horft til þess, játningar ákærða og þess að nær tvö ár voru liðin frá brotinu er ákæra var gefin út. Refsing ákærða ákveðst fangelsi í einn mánuð en jafnframt er ákveðið að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og niður falli hún að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur framið ólögmæta meingerð gegn brotaþola og ber bótaábyrgð á henni. Í bótakröfu kemur meðal annars fram að  gerð sé krafa um 500.000 króna miskabætur, 50.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar og 500.000 krónur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar, auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar. Krafa vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar fær stoð í kostnaðaráætlun sem liggur fyrir í málinu, undirrituð af C tannlækni, dags. 14. júní 2018. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að brotaþoli gangist undir skurðaðgerð þar sem tönn verður fjarlægð. Kostnaðaráætluninni hefur ekki verið hnekkt og verður lögð til grundvallar. Ekki liggja fyrir gögn um kostnað sem brotaþoli hafi lagt út og verður kröfu um greiðslu 50.000 króna vegna útlagðs kostnaðar vísað frá. Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþola 200.000 króna miskabætur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir, en samkvæmt gögnum málsins var bótakrafa kynnt ákærða 2. maí 2018. Ákærða verður gert að greiða brotaþola 150.000 krónur vegna lögmannsþjónustu og hefur þá verið litið til skyldu brotaþola til að greiða virðisaukaskatt af henni. Loks verður ákærða gert að greiða 84.320 króna málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar lögmanns, og 31.430 króna annan sakarkostnað. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun verjanda. Af hálfu ákæruvaldsins fór Súsanna Björg Fróðadóttir með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Bogdan Cybulski, sæti fangelsi í einn mánuð en fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði B 700.000 krónur ásamt vöxtum af 200.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2016 til 2. júní 2018, en með dráttarvöxtum af 700.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði B 150.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði 84.320 króna málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar lögmanns, og 31.430 króna annan sakarkostnað.

 

Þorsteinn Davíðsson